21.10.09

Nágrannar
Nágrannar eru áhugaverðir. Misáhugaverðir að sjálfsögðu. Það er náttúrulega áhugavert að vera ekki áhugaverður, en sumir eru hálf-áhugaverðir. Aðrir afar áhugaverðir.
Ég hef lítið á móti því að kynnast fólki. Og þar sem að nágrannar manns eru oft í nágrenninu, þá kynnist ég þeim oft.
Allsstaðar þar sem ég hef búið hef ég átt góða nágranna. Líka slæma. En það hafa alltaf verið góðir nágrannar inn á milli.
T.d. voru Halla og Erla afar góðir grannar. Þær pössuðu okkur systkinin ef þess þurfti, og svo fékk maður stundum djúsíspinna hjá þeim, á meðan mamma og Halla reyktu. Mamma reykti Kent og Halla reykti einhverjar brúnar sígarettur.
Dóra og Guðgeir voru líka góðir grannar. Dóra átti alltaf eitthvað góðgæti.
Berta og Guðmundur lánuðu mér ryksuguna sína þegar ég átti að ryksuga stigapallinn.
Granninn í Skødstrup var vinalegur og bauð okkur í partý.
Grannarnir í Vilh. Bergsøesvej höfðu aldrei hátt. Þau stunduðu ekki einu sinni kynlíf, þó svo að þau væru par.
Birgit er besti nágranni í heimi. Hún gaf okkur ilvolgan hummus. Frábær hummus.
Granninn á Hamletsgötunni lánaði okkur íbúðina sína yfir jól. Það gerði granninn á Lombardigade 19 líka.
Grannarnir hérna í stigaganinum á Lombardigade 24 eru ekkert sérstakir.
En aftur á móti er vinur minn sem býr á jarðhæðinni beint á móti algjörlega einstakur. Hann er svo einstakur og það þyrfti helst að gera mynd um hann. Allaveganna leikrit. Ef ekki bara óperu!
Hann er ofvirkur. Hann er einhverfur. Hann á sennilega erfitt með að dansa við Bakkus. Hann heitir Henning.
Ég kynntist honum kvöld eitt í sumar. Ég og Lars vinur minn vorum úti í garði að grilla. Þetta átti að vera ekta strákagrill. Það voru bjórar og buff á borðinu, og engar kærustur.
Henning var einnig í garðinum. Hann var búinn að grilla, og sat og drakk bjór. Seinna meir fengum við að vita að bjórinn var án áfengis. Léttöl. Áfengið virkaði ekki svo saman við geðlyfin hans.
Þegar við erum byrjaðir að borða þá kemur Henning yfir að okkar borði og spyr hvort lyktin sé að angra okkur. Ég segi að svo sé ekki, en aftur á móti hafi ég velt því fyrir hvaðan lyktin kæmi. Hann sagðist hafa hent kardimommum frá árinu 1984 á grillið. Þetta fannst mér nægilega áhugavert til að bjóða manninum sæti og spjalla aðeins við hann. Við hlustuðum á hann restina af kvöldinu. Henning er áhugaverðasti nágranni ég hef haft hingað til.

3 ummæli:

Daníel Arason sagði...

Halla reykti More sígarettur. Og Berta og Guðmundur ryksuguðu stigapallinn fyrir mig, hehe

Daníel Arason sagði...

oj, il-volgur hummus er hann þá með táfýlu?

Stefán Arason sagði...

Já, mig minnti að það hefði verið More, en fann ekki neinar brúnar More rettur á netinu svo ég fylltist efa. Berta og Gummi héldu sennilega bara að þú kynnir ekki að ryksuga.
Ilvolgur hummus er með táfýlu og fótsveppum.