21.1.09

Happy Ending Harmleikur
Sumarið 2008 var að mörgu leiti afar fínt, fyrir utan eitt atvik. Hjólinu mínu, af gerðinni Batavus Ascot, var stolið frá mér.

Þegar ég kynntist Stínu, vorum við bæði nemar í konservatoríinu í Árósum. Stína hjólaði um á gömlu Batavus kvenmannsreiðhjóli, ryðguðu og að niðurlotum komið. Þegar hún svo loksins nennti ekki lengur að puðast upp brekkurnar í dönsku ölpunum, sem Árósar eru, á þessu gamla hjóli, þá fékk hún sér nýtt. Ég sá mér leik á borði og lappaði upp á gömlu Batavus kjellinguna, og úr varð hinn mesti gæðagripur. Hún var lipur og ljót, hraðmikil snót, sem bar mig um lífsins vegaleysur.
Eftir að við fluttum til Kaupmannahafnar naut ég þess að hjóla um borgina, á gömlu Batavus minni, og virða fyrir mér þessa fallegu borg. Maður sat nefnilega uppréttur og beinn á þessari elsku.

Þegar ég fékk vinnu í Bellahøj, þá var hún mér ansi góð, snemma á þriðjudagsmorgnum, þegar ég átti að mæta snemma í vinnuna, og ég druslaðist náttúrulega aldrei nægilega snemma af stað.
En ég gerði líka margt fyrir þessa elsku. Ég lét bæta slöngurnar ef úr þeim lak, ég smurði hana, klæddi hana nýjum hnakki og lét fjarlægja lélega pedala og setti nýja í. Allt þetta gerði ég með góðri þjónustu frá nærliggjandi hjólviðgerðarmanni.

En svo hefst harmleikurinn.

Einn góðan, en dálítið kaldan veðurdag (þetta er tilvitnun í Róbert Bangsa plötuna), sumarið 2008, þá vakna ég upp við þá tilfinningu að eitthvað er að. Þegar ég kem út á gangstéttina fyrir framan íbúðina sem ég bý í, hérna á Amager, þá sé ég að frú Batavus mín er ekki lengur þar sem ég stillti henni upp síðast. Hún var heldur ekki sjáanleg í götunni. Mér var gráti næst. Ég tók mig þó saman í andlitinu og hljóp um hverfið, til að kanna hvort einhver ópprúttinn náungi hefði bara flutt hana örlítið úr stað. Svo reyndist ekki. Ég fór framhjá öllum börum í nágrenninu, til að athuga hvort einhver fyllibyttan hefði tekið hana fögru mína til að stytta sér sporin á barinn, en hvergi fann ég hjólfákinn minn góða. Nærliggjandi metróstoppistöðvar voru einnig kannaðar. Almenningsgarðar. Hjólageymslur. Hjólabúðir. Venjulegar búðir. Bakgarðar og skúmaskot. Hvergi fann ég frú Batavus.
Næstu daga syrgði ég. Þó var ég ekki búinn að gefa upp alla von, því ég hafði alltaf augun hjá mér þegar ég gekk framhjá hjólastæðum, sama hvar í bænum ég var. Það má segja að ég hafi orðið svolítið upptekinn af þessari leit.
Dagar og vikur liðu, urðu svo að mánuðum, og ég fékk mér nýtt hjól. Ágætis sænskan gæðagrip að nafni Pilen. Blár og þungur fákur. Karlmannsreiðhjól. Allt gott og blessað með hann, en þó þótti mér betra að hafa frú Batavus undir mér.

Mánuðir líða, og ég fer að missa vonina um að rekast á kjellu og smátt og smátt hætti ég að horfa yfir hópinn af hjólum þegar ég fer framhjá stæðunum.

Í desember 2008 fæ ég svo vinnu í Ballerup (Þjóhnappaþorpi). Það þýðir að ég get ekki hjólað í vinnuna með góðu móti, svo ég tek lest og metro. Upp kemur sá vandi að ég þarf að hafa hjól inni í borginni og svo annað hjól í Ballerup, því ég þarf að komast á milli kirknanna í bænum með hröðu móti. Nú hefði aldeilis verið gott að hafa frú Batavus sem aukahjól!

Í fyrradag fæ ég svo lánað hjól hjá einum samstarfsmanninum, sem er kona, og ég fæ lappað upp á þetta aukahjól hennar, pumpa í dekkin og fæ sett nýtt stýri á gripinn. Úr verður alveg nýtilegt hjól fyrir Ballerup city.

Í gær spila ég svo á barnakórsæfingu í Helligkorskirkjunni á Nørrebro. Eftir æfingu, labba ég mér í átt að Blågårdsgade, og ætla að stefna út á Nørrebrogade. Hætti þó við, eftir að ég hef gengið smá á Blågårdsgade, og sný við. Ég fékk þá hugdettu að labba niður að Søerne. Á meðan ég labba tala ég við Lars vin minn í símann. Skyndilega snarstansa ég og rek upp stór augu, og ég hrópa inn í símann að ég hafi fundið hjólið mitt! Ég bið Lars vel að lifa, og upphefjast miklir fagnaðar fundir, því engin önnur en frú Batvus stendur þarna ein og yfirgefin, og harðlæst, upp við vegg. Hún er loftlaus að aftan, og framgjörðin er orðin laus í legunni. Ég teymi að sjálfsögðu þessa elsku inn í nærliggjandi hjólabúð, panta aðhlynningu handa frúnni, og fæ þau skilaboð að ég geti sótt hana næsta dag.

Í dag hjólaði ég svo stolltur um Kaupmannahafnarborg á gömlu frú Batavus, og vorum við bæði afar sæl og ánægð.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ah, hvað það er gott að lesa svona góða sögu. Ég er enn að kíkja eftir hjólinu sem var stolið af mér í París... 1998. Án gríns, ég held enn að ég gæti fundið það (hana?).
Systir mín á hins vegar brilljant sögu frá Bröndby. Hún sá hjólið sitt tveimur dögum eftir stuld. Á því sat og hjólaði einhver svaðalegur gaur. Hún stoppaði hann með því að ganga í veg fyrir hann, greip um stýrið með báðum höndum og tilkynnti honum hátt og snjallt að þetta væri hennar hjól. Í staðinn fyrir að stinga hana með hnífi eins og við fjölskyldan bentum henni á að hefði getað gerst, hoppaði hann af hjólinu og hljóp í burtu. Hún hjólaði stolt á hjólinu í þau ár sem hún bjó áfram í Danaveldi.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með að hafa fundið hjólið þitt aftur :)

Nafnlaus sagði...

Þetta er yndisleg saga! Ein uppáhaldssetningin mín er, "Það má segja að ég hafi orðið svolítið uptekinn af þessari leit. Ég er viss um að frú Batavus er jafn glöð og þú.