26.1.09

Tónelskan
Stundum verð ég afar hugfanginn af suhttp://www.blogger.com/img/blank.gifmum lögum, eða lagstúfum. Vonandi kannist þið sjálf við þetta. Ég líki þessu við þráhyggju, lagið er eitthvað sem límist á þig, og þú getur ekki annað en raulað lagið, og þótt það gott. Það veitir þér ákveðna fróun (gaman að nota þetta orð, fróun).
Þegar ég var lítill þá leið mér svona þegar ég heyrði titilstefið úr Dallas. Þegar ég varð eldri þá var það titilstefið úr Derrick, þeas. þegar það gekk yfir í 3/4 kaflann. Og svo náttúrulega Vals nr.1 (Hildur, dönskukennslan á laugardögum) eftir Magnús Eiríksson. Merkilegt nokk eru þetta allt saman lög úr sjónvarpinu. Enn eitt dæmið er lagið "Oh, what a beutiful morning" úr Oklahoma.
Það er eflaust hægt að finna einhverja tónfræðilega skýringu á þessu, en ég hef hana ekki á reiðum höndum, þrátt fyrir að hafa lokið 4. ári í tónfræði frá Det Jyske Musikkonservatorium.
En hvað um það. Lagið sem ég get ekki hætt að raula, og er orðin fíkill á, er hér hlekkjað fyrir neðan. Það er eitthvað við þetta tungumál, norskuna, og garðálfa og mjaltakonur, sem gerir það að verkum að ég er aljgörlega "húkt".
Njótið!
E-Ora

21.1.09

Happy Ending Harmleikur
Sumarið 2008 var að mörgu leiti afar fínt, fyrir utan eitt atvik. Hjólinu mínu, af gerðinni Batavus Ascot, var stolið frá mér.

Þegar ég kynntist Stínu, vorum við bæði nemar í konservatoríinu í Árósum. Stína hjólaði um á gömlu Batavus kvenmannsreiðhjóli, ryðguðu og að niðurlotum komið. Þegar hún svo loksins nennti ekki lengur að puðast upp brekkurnar í dönsku ölpunum, sem Árósar eru, á þessu gamla hjóli, þá fékk hún sér nýtt. Ég sá mér leik á borði og lappaði upp á gömlu Batavus kjellinguna, og úr varð hinn mesti gæðagripur. Hún var lipur og ljót, hraðmikil snót, sem bar mig um lífsins vegaleysur.
Eftir að við fluttum til Kaupmannahafnar naut ég þess að hjóla um borgina, á gömlu Batavus minni, og virða fyrir mér þessa fallegu borg. Maður sat nefnilega uppréttur og beinn á þessari elsku.

Þegar ég fékk vinnu í Bellahøj, þá var hún mér ansi góð, snemma á þriðjudagsmorgnum, þegar ég átti að mæta snemma í vinnuna, og ég druslaðist náttúrulega aldrei nægilega snemma af stað.
En ég gerði líka margt fyrir þessa elsku. Ég lét bæta slöngurnar ef úr þeim lak, ég smurði hana, klæddi hana nýjum hnakki og lét fjarlægja lélega pedala og setti nýja í. Allt þetta gerði ég með góðri þjónustu frá nærliggjandi hjólviðgerðarmanni.

En svo hefst harmleikurinn.

Einn góðan, en dálítið kaldan veðurdag (þetta er tilvitnun í Róbert Bangsa plötuna), sumarið 2008, þá vakna ég upp við þá tilfinningu að eitthvað er að. Þegar ég kem út á gangstéttina fyrir framan íbúðina sem ég bý í, hérna á Amager, þá sé ég að frú Batavus mín er ekki lengur þar sem ég stillti henni upp síðast. Hún var heldur ekki sjáanleg í götunni. Mér var gráti næst. Ég tók mig þó saman í andlitinu og hljóp um hverfið, til að kanna hvort einhver ópprúttinn náungi hefði bara flutt hana örlítið úr stað. Svo reyndist ekki. Ég fór framhjá öllum börum í nágrenninu, til að athuga hvort einhver fyllibyttan hefði tekið hana fögru mína til að stytta sér sporin á barinn, en hvergi fann ég hjólfákinn minn góða. Nærliggjandi metróstoppistöðvar voru einnig kannaðar. Almenningsgarðar. Hjólageymslur. Hjólabúðir. Venjulegar búðir. Bakgarðar og skúmaskot. Hvergi fann ég frú Batavus.
Næstu daga syrgði ég. Þó var ég ekki búinn að gefa upp alla von, því ég hafði alltaf augun hjá mér þegar ég gekk framhjá hjólastæðum, sama hvar í bænum ég var. Það má segja að ég hafi orðið svolítið upptekinn af þessari leit.
Dagar og vikur liðu, urðu svo að mánuðum, og ég fékk mér nýtt hjól. Ágætis sænskan gæðagrip að nafni Pilen. Blár og þungur fákur. Karlmannsreiðhjól. Allt gott og blessað með hann, en þó þótti mér betra að hafa frú Batavus undir mér.

Mánuðir líða, og ég fer að missa vonina um að rekast á kjellu og smátt og smátt hætti ég að horfa yfir hópinn af hjólum þegar ég fer framhjá stæðunum.

Í desember 2008 fæ ég svo vinnu í Ballerup (Þjóhnappaþorpi). Það þýðir að ég get ekki hjólað í vinnuna með góðu móti, svo ég tek lest og metro. Upp kemur sá vandi að ég þarf að hafa hjól inni í borginni og svo annað hjól í Ballerup, því ég þarf að komast á milli kirknanna í bænum með hröðu móti. Nú hefði aldeilis verið gott að hafa frú Batavus sem aukahjól!

Í fyrradag fæ ég svo lánað hjól hjá einum samstarfsmanninum, sem er kona, og ég fæ lappað upp á þetta aukahjól hennar, pumpa í dekkin og fæ sett nýtt stýri á gripinn. Úr verður alveg nýtilegt hjól fyrir Ballerup city.

Í gær spila ég svo á barnakórsæfingu í Helligkorskirkjunni á Nørrebro. Eftir æfingu, labba ég mér í átt að Blågårdsgade, og ætla að stefna út á Nørrebrogade. Hætti þó við, eftir að ég hef gengið smá á Blågårdsgade, og sný við. Ég fékk þá hugdettu að labba niður að Søerne. Á meðan ég labba tala ég við Lars vin minn í símann. Skyndilega snarstansa ég og rek upp stór augu, og ég hrópa inn í símann að ég hafi fundið hjólið mitt! Ég bið Lars vel að lifa, og upphefjast miklir fagnaðar fundir, því engin önnur en frú Batvus stendur þarna ein og yfirgefin, og harðlæst, upp við vegg. Hún er loftlaus að aftan, og framgjörðin er orðin laus í legunni. Ég teymi að sjálfsögðu þessa elsku inn í nærliggjandi hjólabúð, panta aðhlynningu handa frúnni, og fæ þau skilaboð að ég geti sótt hana næsta dag.

Í dag hjólaði ég svo stolltur um Kaupmannahafnarborg á gömlu frú Batavus, og vorum við bæði afar sæl og ánægð.

9.1.09


Brauðstrit
Þann 1. desember byrjaði ég í nýrri vinnu. Nú er ég organisti í Skógvegskirkjunni (Skovvejskirken) í Ballerup (Rasskinnaþorp eða Ballarbú). Kirkjan mín er ein af tvemur í Ballerupsókn. Hin er að sjálfsögðu Ballerupkirke, sem er eldgömul kirkja, með kalkmálverkum eins og þessar gömlu kirkjur hafa. Kirkjan "mín" er ný af nálinni, og líður mér bara ágætlega þar. Svo hef ég skrifstofu í Prestbýlinu, sem liggur við hliðina á Ballerupkirkju.
Það tekur mig c.a. 40 mín að komast í vinnuna, sem er sami tími og það tók mig að komast í gömlu vinnuna mína í Bellahøj (Fagrahæð), svo ég er bara vel sáttur við allt og alla. Hérna í Ballerup er meira að segja rólegheit og fuglasöngur.

Ertu með sveppi í tánöglum?

8.1.09

Gleðilegt nýtt ár!
...og ég óska ykkur alls góðs á komandi ári.

Í gær fór ég að sjá og heyra óperusýninguna Wozzeck. Tónskáldið Alban Berg, bróðir Antons, samdi óperuna (tónlist og líbrettó) á fyrri hluta síðustu aldar, og má segja að manninum tókst einstaklega vel til. Að mínu mati er þetta afar vel "tæmuð" ópera, þar sem hlutirnir fá þann tíma sem þeir þurfa, og ekki sekúndu meira. Og einnig finnst mér framvindan í tónlistinni ótrúlega vel tímasett. Þegar maður heldur að nú sé tónskáldið búið að kynna það sem koma skal, þá heldur tónlistin áfram að endurnýja sig.
Uppsettningin var einnig afar góð í alla staði. Leikur, búningar, sviðsmynd, allt! var eins og ópera á að vera.
Merkilegt að koma út eftir svona hörmulega sögu sem Wozzeck er, með bros allan hringinn. Þessar 329 kr sem ég borgaði fyrir miðann var vel eytt.

Framundan á þessu ári er bara músík og músík. Þann 1. feb spila ég tvær Kyndelmisse guðsþjónustur, sem er svona tónlistarmessa með upplestri úr biblíunni. Í lok febrúar fer svo Staka, kórinn sem ég stjórna (www.staka.dk), í tónleikaferð til Íslands. Og í marz förum við svo til Stokkhólms á kóramót.
Páskarnir verða örugglega hlaðnir kirkjuvinnu. Í vor höldum við í Stöku vortónleika, eins og passar svo vel á vorin, og í sumar ætlar gamli kórinn minn frá Árósun, Århus Universitetskor, að fara í tónleikaferð til Íslands, og syngja tónlist eftir mig. Sennilega fer ég með. Ég held meira að segja að þau séu að vinna að geislaplötu sem einvörðungu mun innihalda tónlist eftir mig.
Annað á þessu ári er alls ekki planað, svo ég hlakka til að sjá hvað þetta herrans ár 2009 mun bera sér í skauti.