17.6.08

Sautjándi Júní, 2. bloggfærslu
Í umtöluðum kór, Vox Absona, eru nokkrir meðlimir sem eiga börn. Einn sópraninn á son, sem hefur haft mikið dálæti á mér. Við höfum hist nokkrum sinnum og leikum við yfirleitt fallega saman. T.d. hef ég kennt honum sleifa-borð-fótbolta. Drengur þessi er ansi skondinn og kemur með margar skemmtilegar hugmyndir.
Dag einn var hann á labbi með mömmu sinni, og hún þurfti eitthvað að tala við mig í síma. Strákurinn hlustar á, og síðan þegar samtalinu líkur þá segir hann "já en mamma, þú talar dönsku við Stefán, en hann talar bara íslensku!". Mamma hans skilur ekkert hvað drengurinn er að fara og spyr hann hvort hann sjálfur hafi ekki talað dönsku við mig. Hann neitar því, og segist alveg skilja og tala íslensku. Hann segir að við höfum oft talað saman á íslensku. Rennur þá upp fyrir mömmunni að strákurinn heldur að ég tali íslensku útaf íslenska hreimnum á dönskunni minni.

Hann sagði einnig við mömmu sína að við tveir höfum verið uppi á Íslandi og séð ísbirni saman. Mamman segir að það séu aungvir ísbirnir á Íslandi. Þeir séu bara á Grænlandi. Nokkrum dögum eftir þetta samtal, hitti ég svo stráksa og mömmuna á stjórnarfundi hjá kórnum. Mamman segir mér frá þessari sögu stráksa. Ég neyðist náttúrulega til að leiðrétta þennan misskilning að segja að það geti alveg verið ísbirnir á Íslandi, en það gerist óskaplega sjaldan. Kannski 1 björn á 30 ára fresti, og þá komi hann með hafís frá Grænlandi.
Daginn eftir les ég í fréttunum að hafi fundist ísbjörn á Íslandi, og var búið að skjóta hann.
Í dag les ég að enn einn ísbjörninn sé á vappi uppi á Fróni.
Ætli stráksi sé skyggn?

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

...og hann elskulegi bróðir minn varð 30 ára þann 27. júní !
Hjartans karlinn minn til lukku og mundu aldur er afstæður...
Svana pana sem er bara 21s