17.6.08

Sautjándi Júní, 2. bloggfærslu
Í umtöluðum kór, Vox Absona, eru nokkrir meðlimir sem eiga börn. Einn sópraninn á son, sem hefur haft mikið dálæti á mér. Við höfum hist nokkrum sinnum og leikum við yfirleitt fallega saman. T.d. hef ég kennt honum sleifa-borð-fótbolta. Drengur þessi er ansi skondinn og kemur með margar skemmtilegar hugmyndir.
Dag einn var hann á labbi með mömmu sinni, og hún þurfti eitthvað að tala við mig í síma. Strákurinn hlustar á, og síðan þegar samtalinu líkur þá segir hann "já en mamma, þú talar dönsku við Stefán, en hann talar bara íslensku!". Mamma hans skilur ekkert hvað drengurinn er að fara og spyr hann hvort hann sjálfur hafi ekki talað dönsku við mig. Hann neitar því, og segist alveg skilja og tala íslensku. Hann segir að við höfum oft talað saman á íslensku. Rennur þá upp fyrir mömmunni að strákurinn heldur að ég tali íslensku útaf íslenska hreimnum á dönskunni minni.

Hann sagði einnig við mömmu sína að við tveir höfum verið uppi á Íslandi og séð ísbirni saman. Mamman segir að það séu aungvir ísbirnir á Íslandi. Þeir séu bara á Grænlandi. Nokkrum dögum eftir þetta samtal, hitti ég svo stráksa og mömmuna á stjórnarfundi hjá kórnum. Mamman segir mér frá þessari sögu stráksa. Ég neyðist náttúrulega til að leiðrétta þennan misskilning að segja að það geti alveg verið ísbirnir á Íslandi, en það gerist óskaplega sjaldan. Kannski 1 björn á 30 ára fresti, og þá komi hann með hafís frá Grænlandi.
Daginn eftir les ég í fréttunum að hafi fundist ísbjörn á Íslandi, og var búið að skjóta hann.
Í dag les ég að enn einn ísbjörninn sé á vappi uppi á Fróni.
Ætli stráksi sé skyggn?

Hæ hó jibbí jeij!
Með munninn fullan af dönsku rúgbrauði, með kæfu og spægipylsu, vil ég óska ykkur, landsmenn góðir, gleðilegrar þjóðhátíðar.
Á eftir ætla ég upp í Jónshús og syngja og spila með góðu fólki þar, og fagna deginum. Að sjálfsögðu er bara þjóðleg músík á dagskránni.

Síðan ég skrifaði síðast hefur margt á daga mína drifið. Efni í heilmikið blogg, svo ég kasta mér bara út í strauminn og sjáum til hvar við endum.
Fyrir einni og hálfri viku tók ég lokapróf frá Kirkjutónlistarskóla Sjálands. Ég spilaði "Fantasíu í G dúr" eftir meistara J.S. Bach. Einnig spilaði ég 2 sálma, og tvö minni verk sem hægt er að nota í guðsþjónustunni ("Meditation" e. Erik Norby og "O Welt ich muss dich lassen" e. J. Brahms). Gekk barasta vel að mínu mati, og sem kom fram seinna sama dag, þótti prófdómurum einnig þetta hafa gengið ágætlega. Ég fékk næsthæstu einkun fyrir sálmaspil og "kúnstspil".
Í dag barst mér svo einkunar og prófburðarskjalið. Ég er þar með orðinn PO-organisti. PO= Præliminær organisti= organisti með undirbúningspróf fyrir inntökupróf í konservatoríið. Þetta bætir ekki laun mín í því starfi sem ég hef núna, því ég móttek nú þegar PO laun.
Loksins hef ég pappír upp á eitthvað starf! Að hafa pappír upp á að hafa tekið tónsmíðamenntun veitir ekki starf. Föst innkoma er gott mál, sérstaklega þegar um er að ræða eins "næs" starf og að vera organisti í kirkjunni sem ég er í. Því miður rennur starfssamningurinn út í febrúar.

Síðan síðast hafa báðir kórarnir mínir lokið sínu starfi á þessari önn.
Staka hélt sína síðustu tónleika 1. júní. Við sungum stökur, að sjálfsögðu, og aðra músík skrifuð við stutt ljóð. Við sungum prógrammið einu sinni í Frihavnskirken og svo í Kettinge á Lolland Falster. Skemmtilegt prógram, að mér finnst, og við sungum það bara nokkuð ágætlega.
Vox Absona hélt sína vortónleika þann 14. júní, síðastliðinn laugardag, og voru þetta einnig 10 ára afmælistónleikar kórsins. Við sungum þjóðlög frá öllum norðurlöndunum (Ísland, Færeyjar, Svíþjóð, Noregur, Finnland og Danmörk) á öllum tungumálunum. Velheppnað prógram í léttari kantinum. Ég reyndi eins og ég gat að brjóta upp tónleikaprógrammið, þar sem þau hafa alltaf haft frekar stífa framkomu. Standa alltaf eins, konur fyrir framan, menn fyrir aftan, og stjórnandinn hefur svo blaðrað. Eftir að ég tók við þeim þá neitaði ég að taka þátt í þessari vitleysu, og lét þau standa í einni röð, blandað, og kórmeðlimir kynntu sjálfir lögin. Svo lét ég þau og tónleikagesti syngja norskan keðjusöng, og allir voða glaðir. Kórinn stóð sig bara vel, og eftir tónleikana, sem voru í Frihavnskirke, var heilmikil veizla, með mat, drykk, skemmtiatriðum og dansi. Ágætis 10 ára afmæli.
Í tilefni þess þá sagði ég upp.
Eiginlega þá sagði ég upp vegna þess að ég hafði enga löngun í að hafa 2 kóra áfram. Það hefur verið anski mikið að gera í vetur, og ég missti alla löngun í að hafa svo mikið kórstarf. Það er nefnilega meira en að mæta á æfingar þegar maður er kórstjóri. Allskyns fundarhöld og læti sem maður þarf að taka þátt í. Ég fann líka að danskur áhugamannakór, sem er ekki betri en þau eru, á ALLS EKKI við mig. Kórinn mætir illa, mikill tími fer í allskyns kjaftagang og planleggingar, og stundum var eins og fólk hafði meiri áhuga á hver kæmi næst með köku í pásuna, frekar en hvort þau kunnu nóturnar sínar. Gott að finna að maður er ennþá íslendingur.
Svo ég sagði upp hjá Vox Absona, þó svo ég hafi bara verið fastur stjórnandi þeirra í hálfan vetur. Ég fann nýjan kandidat í starfið og þau réðu hann.
Á barnum, eftir kóræfinguna sem ég sagði þeim að ég myndi ekki halda áfram með þau, var ég rekinn. Að sjálfsögðu.

Jæja, bezt að fara út og kaupa sér ís í tilefni dagsins. Hafið þið ekki fengið ykkur ís í dag, systkini góð?