11.5.08

Próf
Á föstudaginn fór ég í kórstjórnarpróf. Ég fékk hæstu einkun. Slíka einkun hef ég aldrei áður fengið í heiðarlegu fagi, bara í fögum sem gáfu einkun eftir mætingarskyldu oþh. Tja...kannski fékk ég eina "tíu" í mínum einasta eðlisfræði áfanga.
En allaveganna.
Að fá hæstu einkun í þessu fagi, í þessum skóla (Kirkjutónlistarskóli Sjálands), er eins og að fá bara ágætis einkun í venjulegum skóla, því flestir sem þreyttu þetta próf höfðu aldrei sungið í kór, né horft á kóræfingu. Ég hef nánast ekki gert annað undanfarin 2 árin en að stjórna kórum.
Svo talan 12 var ekki hæsta einkun í mínum huga. Allt er afstætt.

Beztu kveðjur frá Mont Monterí "Monti" Montmontssyni.

4.5.08

Huldulyrík
Sem barn gekk ég stundum í svefni. Örsaga af slíkum labbitúr:

Útidyrahurðin var alltaf læst heima á Hlíðargötu 24. Kvöld eitt, eftir að allir eru gengnir til náða, heyrir mamma að útidyrahurðin er opnuð. Hún fer fram, og finnur mig á tröppunum. Einhvernvegin tókst mér að taka úr lás, eitthvað sem ég gat ekki gert í vöku, og labbaði mér út á pall.

Nú hefur svefngönum mínum farið fækkandi. Eiginlega hefur þetta ekki gerst síðan ég var krakki. En aftur á móti þá á ég það til að blaðra uppúr svefni. Og ekki nóg með að ég tali upp úr svefni, heldur flyt ég meðsvæfu minni frumsamda lyrík.
Fyrrverandi kærasta mín, hún Þyri, sagði mér einu sinni að hún hefði vaknað við að ég blótaði einhverjum í sand og ösku, og úthúðaði rækilega viðkomandi. Henni brá afar mikið, þar sem hún hafði aldrei heyrt mig tala svona við nokkurn mann. Ég var afar reiður, sagði hún. Svo spyr hún hvað í ósköpunum ég sé að gera. Ég svara: "Ég er að æfa mig. Æfa mig fyrir framtíðina."
Ekkert lítil speki þar á ferð.

Í nótt vaknaði mín núverandi kærasta, Stina, við að ég var farin að babla eitthvað á þessa leið: "Hvornår kommer Freja? Kommer Freja? Freja kommer med stjernerne. Irma Freja."
Svona má þetta útleggjast á því ylhýra: "Hvenær kemur Freyja? Kemur Freyja? Freyja kemur með stjörnurnar. Irma Freyja."
Fyrir ykkur sem ekki vita, þá er Irma verzlunarkeðja hér í landi. Þau selja gæðavörur, oft lífrænt ræktaðar, og á dýru verði. Gaman að verzla í þessari verslun. Vörumerki Irma er einmitt Irma stelpan. En hún heitir samt ekki Freyja.

Mér finnst þessi orð mín afar merkileg fyrir tvennar sakir. Í fyrsta lagi sagði ég þetta á dönsku. Það ber þess vott um að ég er farin að dreyma á dönsku. Ég verð að fara að lesa meira á íslensku.
Í annan stað, þá finnst mér þetta ótrúlega fallegar línur, þó ég segi sjálfur frá.

Ætli mitt "alter ego" sé ljóðskáld á nóttunni? Skárra að breytast í ljóðskáld á nóttunni, en varúlf eða fjöldamorðingja.

Ég læt vita þegar ég verð komin með nægjanlegt efni í bók.