13.4.08Vor
Vorsýnir í Danmörku: fiðrildi, hunangsflugur, ljósgrænu laufblöðin að springa út á trjánum, kirsuberjatrén í blóma og G-strengir á hjólastígnum.

Mikið er það nú gaman að finna fyrir vorinu, ekki bara í gegnum augun, heldur með öllum líkamanum. Jakkinn er þynnri, húfan er fokin, vettlingarnir eru bara á þegar maður hjólar o.s.fr.v.
Og tölum nú ekki um þessa frábæru tilfinningu að finnast maður vakna til lífsins á ný.

Á Íslandi elska ég haustið, í Danmörku elska ég vorið.

7.4.08


Morgundagurinn
Á morgun ætla ég í skólann.
Sennilega munu skrifstofustúlkurnar reka upp húrrahróp og bjóða öllum nemendum Kirkjutónlistarskólans á Sjálandi upp á ískaldan bjór, sökum þess að ég mætti á svæðið. Ég hef nefnilega ekki verið þar síðan rétt eftir áramót...
Annan hvern þriðjudag á ég að vera í bóklegum fögum í þessum skóla. Þau fög eru kórstjórn og sálmaforspil. Og það vill svo skemmtilega til að alla þriðjudaga eru morgunandagt í kirkjunni minni. Svo ég þarf að vera í vinnunni þegar ég á að vera í fyrsta tímanum, sem er kórstjórn.
Hinn tíminn er svo kl.15 og síðan í haust hafði kennarinn ekkert sérstakt útá forspilin að setja. Svo ég sá engan tilgang í að mæta.
En á morgun! Ú la la la! Þetta verður brjálað stuð!