8.3.08


Ár og dagar
"Langt er síðan sá ég hann" mælti Rósa kerlingin og ég er sammála henni þegar kemur að þessari netlsíðu.

Síðastliðinn mánudag lagði ég af stað ásamt 50 fermingarbörnum í ferð. Ferðinni var heitið í Hvítkeldubúðir (Hvidekildelejr). Stórar búðir með fullt af herbergjum og sölum til að kenna í. Krakkarnir eiga að fermast í Hundigekirkju í vor, og ég hef verið tónlistarkennarinn þeirra.
Við vorum í þessum búðum frá mánudegi til föstudags. Ansi lærdómsrík ferð og ótrúlega gaman að sjá hvernig krakkarnir venjast hörðum umgengnisreglum. Þau máttu bara hafa farsíma inn á herbergjum, áttu að vera sofnuð kl.23.00, sungið fyrir og eftir borðhald, þau áttu að taka virkan þátt í kennslunni og syngja sálma. Þessu vöndust þau, og voru orðin ansi góð barasta undir lokin. En það kostaði líka 9 gul kort! 2 gul kort þýðir rautt kort, og viðkomandi sendur útaf, heim til mömmu og pabba. Engin fékk þó rauða kortið.
Ég kenndi krökkunum 2 íslensk lög, Maísól og Á Sprengisandi. Bæði þessi lög eru til með dönskum texta svo þau fengu sungið á báðum tungumálunum. Gaman að kenna fólki eitthvað nýtt, og sjá hvernig sjóndeildarhringurinn víkkar aðeins, hjá þessum hormónafullu unglingum.

Framundan er meiri vinna. Stórhátíð kirkjunnar, páskarnir, eru jú framundan svo af nægu er að taka. Og það er ekki nóg með að kirkjan mín hefur messu á öllum helgidögunum, heldur finnst þeim líka tilhlýðilegt að hafa messur á mánudegi, þriðjudegi og miðvikudegi í páskavikunni. Eins og gömlukellingarnar sem koma í messu hafi þörf á því. Þeirra syndir eru sennilega ekki stærri en að gleyma að segja afsakið eftir að hafa ropað. En svona er það að vera starfsmaður kirkjunnar, þú ert í vinnu þegar aðrir halda frí.

Undanfarin mánuð höfum við Stina verið í mjög undarlegu sambandi. Svona "hittumst í draumalandinu" sambandi. Einu stundirnar okkar saman hafa verið á nóttunni, og bæði sofandi. Hún er í skólanum allan daginn, og ég flesta daga í kirkjunni, á kvöldin með kóræfingar og undanfarnar helgar í kórabúðum eða að halda tónleika.
En þetta róast allt saman eftir í sumarfríinu og næsta vetur. Þá ætla ég bara að vera í 100% vinnu og með 2 kóra. Engin fermingarfræðsla né skóli. Kannski fæ ég tíma fyrir kærustu og jafnvel eitt áhugamál. Vonandi, því annar kórinn minn gaf mér meðlimskort í vetrarböðunarklúbb. Reyndar er það bara meðlimskort á biðlistann í klúbbinn, en þau munu samt taka inn fleiri bráðum, þar sem þau hafa fengið nýja aðstöðu. Og það frábæra er að klúbburinn er rétt hjá íbúðinni ég bý í. Svo næsta vetur hef ég jafnvel möguleika á að hoppa í 2 gráðu heitan sjóinn, og svo í sauna á eftir. Næs!

Annað áhugamál sem ég hef verið að gæla við er myndataka. Ég hef aldrei átt myndavél, en tel mig samt ágætis myndasmið. Og nú langar mig í digitalmyndavél með "spejlreflex" . Soldið dýrt hobbí, en er sennilega mjög skemmtilegt. Og hva! Eru ekki alvöru karlmenn tækjaóðir? Ég á ekki einu sinni borvél!

Jæja, best að hypja sig upp í kirkju og undirbúa Boðunardag Maríu, sem er einmitt á morgun. Gleðisdagur í þessari stuttu Föstu.

"Troddu þér nú inn í tjaldið hjá mér, María, María."

P.s. vetrargosar (vintergækker) komu upp fyrir næstum mánuði síðan, og krókus fyrir c.a. 2 vikum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mana þig til að taka þennan gæðaslagara á Boðunardegi Maríu :)

kveðja
Þóra Marteins