25.12.08

Kæru lesendur (ef einhverjir eru)

Ég óska ykkur gleðilegra jóla og gæfu á nýju ári!

Stefán

8.12.08

Fónninn
Því miður á ég ekki grammafón, enda væri hann algjörlega gagnslaus á þessu heimili, því engar eru plöturnar.
En á geislafóninum og í iPodinum eru eftirtaldir tónar:
Jólaóratoría J.S. Bach's
Jól og Blíða með Baggalút
Rachmaninoffs "Vesper"
Bing Crosby: Christmas Classics
Mariah Carey: Merry Christmas
Vetrarljóð Ragnheiðar Gröndal (eina íslenska jólaplatan sem Stina getur hlustað á)
2 jóladiskar með The King Singers
Jóladiskur The Real Group

Eftirtaldar skífur voru farnar að hljóma undir lok síðasta mánaðar.

og bráðum bætist við jólatónlist með Hamrahlíðarkórnum og Mpiri.

Jólin = tónlist

Gleðileg jól!

5.10.08

Ópera
Í þessari viku er ég búinn að fara 3svar í óperuna.
2svar á La Traviata, að sjá og heyra kærustuna mína og kennarann hennar m.a., og svo einu sinni á Partenope, að hlusta á kvefaðann Andreas Scholl og CoCo & co.
Afar góð vika.

30.8.08


Sósa
Elskulegur bróðir minn var í heimsókn fyrir c.a. viku síðan. Við höfðum í nægu að snúast, en gáfum okkur þó tíma til að borða góðan mat, að sjálfsögðu. Eitt kvöldið gerði bróðir minn, sem er ágætis kokkur, bearnaise sósu með grillmatnum. Tókst bara ágætlega, allavega í bragðlega hlutanum.
Í kvöld var svo röðin komin að mér að prófa þessa list, og má með sanni segja að ég hafi afsannað máltækið "æfingin skapar meistarann". Sósan var fullkomin, allavega að okkar mati.

Eins og þið sjáið þá er ég ekki alveg dauður með þetta blogg, látum okkur sjá hvað setur.

17.6.08

Sautjándi Júní, 2. bloggfærslu
Í umtöluðum kór, Vox Absona, eru nokkrir meðlimir sem eiga börn. Einn sópraninn á son, sem hefur haft mikið dálæti á mér. Við höfum hist nokkrum sinnum og leikum við yfirleitt fallega saman. T.d. hef ég kennt honum sleifa-borð-fótbolta. Drengur þessi er ansi skondinn og kemur með margar skemmtilegar hugmyndir.
Dag einn var hann á labbi með mömmu sinni, og hún þurfti eitthvað að tala við mig í síma. Strákurinn hlustar á, og síðan þegar samtalinu líkur þá segir hann "já en mamma, þú talar dönsku við Stefán, en hann talar bara íslensku!". Mamma hans skilur ekkert hvað drengurinn er að fara og spyr hann hvort hann sjálfur hafi ekki talað dönsku við mig. Hann neitar því, og segist alveg skilja og tala íslensku. Hann segir að við höfum oft talað saman á íslensku. Rennur þá upp fyrir mömmunni að strákurinn heldur að ég tali íslensku útaf íslenska hreimnum á dönskunni minni.

Hann sagði einnig við mömmu sína að við tveir höfum verið uppi á Íslandi og séð ísbirni saman. Mamman segir að það séu aungvir ísbirnir á Íslandi. Þeir séu bara á Grænlandi. Nokkrum dögum eftir þetta samtal, hitti ég svo stráksa og mömmuna á stjórnarfundi hjá kórnum. Mamman segir mér frá þessari sögu stráksa. Ég neyðist náttúrulega til að leiðrétta þennan misskilning að segja að það geti alveg verið ísbirnir á Íslandi, en það gerist óskaplega sjaldan. Kannski 1 björn á 30 ára fresti, og þá komi hann með hafís frá Grænlandi.
Daginn eftir les ég í fréttunum að hafi fundist ísbjörn á Íslandi, og var búið að skjóta hann.
Í dag les ég að enn einn ísbjörninn sé á vappi uppi á Fróni.
Ætli stráksi sé skyggn?

Hæ hó jibbí jeij!
Með munninn fullan af dönsku rúgbrauði, með kæfu og spægipylsu, vil ég óska ykkur, landsmenn góðir, gleðilegrar þjóðhátíðar.
Á eftir ætla ég upp í Jónshús og syngja og spila með góðu fólki þar, og fagna deginum. Að sjálfsögðu er bara þjóðleg músík á dagskránni.

Síðan ég skrifaði síðast hefur margt á daga mína drifið. Efni í heilmikið blogg, svo ég kasta mér bara út í strauminn og sjáum til hvar við endum.
Fyrir einni og hálfri viku tók ég lokapróf frá Kirkjutónlistarskóla Sjálands. Ég spilaði "Fantasíu í G dúr" eftir meistara J.S. Bach. Einnig spilaði ég 2 sálma, og tvö minni verk sem hægt er að nota í guðsþjónustunni ("Meditation" e. Erik Norby og "O Welt ich muss dich lassen" e. J. Brahms). Gekk barasta vel að mínu mati, og sem kom fram seinna sama dag, þótti prófdómurum einnig þetta hafa gengið ágætlega. Ég fékk næsthæstu einkun fyrir sálmaspil og "kúnstspil".
Í dag barst mér svo einkunar og prófburðarskjalið. Ég er þar með orðinn PO-organisti. PO= Præliminær organisti= organisti með undirbúningspróf fyrir inntökupróf í konservatoríið. Þetta bætir ekki laun mín í því starfi sem ég hef núna, því ég móttek nú þegar PO laun.
Loksins hef ég pappír upp á eitthvað starf! Að hafa pappír upp á að hafa tekið tónsmíðamenntun veitir ekki starf. Föst innkoma er gott mál, sérstaklega þegar um er að ræða eins "næs" starf og að vera organisti í kirkjunni sem ég er í. Því miður rennur starfssamningurinn út í febrúar.

Síðan síðast hafa báðir kórarnir mínir lokið sínu starfi á þessari önn.
Staka hélt sína síðustu tónleika 1. júní. Við sungum stökur, að sjálfsögðu, og aðra músík skrifuð við stutt ljóð. Við sungum prógrammið einu sinni í Frihavnskirken og svo í Kettinge á Lolland Falster. Skemmtilegt prógram, að mér finnst, og við sungum það bara nokkuð ágætlega.
Vox Absona hélt sína vortónleika þann 14. júní, síðastliðinn laugardag, og voru þetta einnig 10 ára afmælistónleikar kórsins. Við sungum þjóðlög frá öllum norðurlöndunum (Ísland, Færeyjar, Svíþjóð, Noregur, Finnland og Danmörk) á öllum tungumálunum. Velheppnað prógram í léttari kantinum. Ég reyndi eins og ég gat að brjóta upp tónleikaprógrammið, þar sem þau hafa alltaf haft frekar stífa framkomu. Standa alltaf eins, konur fyrir framan, menn fyrir aftan, og stjórnandinn hefur svo blaðrað. Eftir að ég tók við þeim þá neitaði ég að taka þátt í þessari vitleysu, og lét þau standa í einni röð, blandað, og kórmeðlimir kynntu sjálfir lögin. Svo lét ég þau og tónleikagesti syngja norskan keðjusöng, og allir voða glaðir. Kórinn stóð sig bara vel, og eftir tónleikana, sem voru í Frihavnskirke, var heilmikil veizla, með mat, drykk, skemmtiatriðum og dansi. Ágætis 10 ára afmæli.
Í tilefni þess þá sagði ég upp.
Eiginlega þá sagði ég upp vegna þess að ég hafði enga löngun í að hafa 2 kóra áfram. Það hefur verið anski mikið að gera í vetur, og ég missti alla löngun í að hafa svo mikið kórstarf. Það er nefnilega meira en að mæta á æfingar þegar maður er kórstjóri. Allskyns fundarhöld og læti sem maður þarf að taka þátt í. Ég fann líka að danskur áhugamannakór, sem er ekki betri en þau eru, á ALLS EKKI við mig. Kórinn mætir illa, mikill tími fer í allskyns kjaftagang og planleggingar, og stundum var eins og fólk hafði meiri áhuga á hver kæmi næst með köku í pásuna, frekar en hvort þau kunnu nóturnar sínar. Gott að finna að maður er ennþá íslendingur.
Svo ég sagði upp hjá Vox Absona, þó svo ég hafi bara verið fastur stjórnandi þeirra í hálfan vetur. Ég fann nýjan kandidat í starfið og þau réðu hann.
Á barnum, eftir kóræfinguna sem ég sagði þeim að ég myndi ekki halda áfram með þau, var ég rekinn. Að sjálfsögðu.

Jæja, bezt að fara út og kaupa sér ís í tilefni dagsins. Hafið þið ekki fengið ykkur ís í dag, systkini góð?

11.5.08

Próf
Á föstudaginn fór ég í kórstjórnarpróf. Ég fékk hæstu einkun. Slíka einkun hef ég aldrei áður fengið í heiðarlegu fagi, bara í fögum sem gáfu einkun eftir mætingarskyldu oþh. Tja...kannski fékk ég eina "tíu" í mínum einasta eðlisfræði áfanga.
En allaveganna.
Að fá hæstu einkun í þessu fagi, í þessum skóla (Kirkjutónlistarskóli Sjálands), er eins og að fá bara ágætis einkun í venjulegum skóla, því flestir sem þreyttu þetta próf höfðu aldrei sungið í kór, né horft á kóræfingu. Ég hef nánast ekki gert annað undanfarin 2 árin en að stjórna kórum.
Svo talan 12 var ekki hæsta einkun í mínum huga. Allt er afstætt.

Beztu kveðjur frá Mont Monterí "Monti" Montmontssyni.

4.5.08

Huldulyrík
Sem barn gekk ég stundum í svefni. Örsaga af slíkum labbitúr:

Útidyrahurðin var alltaf læst heima á Hlíðargötu 24. Kvöld eitt, eftir að allir eru gengnir til náða, heyrir mamma að útidyrahurðin er opnuð. Hún fer fram, og finnur mig á tröppunum. Einhvernvegin tókst mér að taka úr lás, eitthvað sem ég gat ekki gert í vöku, og labbaði mér út á pall.

Nú hefur svefngönum mínum farið fækkandi. Eiginlega hefur þetta ekki gerst síðan ég var krakki. En aftur á móti þá á ég það til að blaðra uppúr svefni. Og ekki nóg með að ég tali upp úr svefni, heldur flyt ég meðsvæfu minni frumsamda lyrík.
Fyrrverandi kærasta mín, hún Þyri, sagði mér einu sinni að hún hefði vaknað við að ég blótaði einhverjum í sand og ösku, og úthúðaði rækilega viðkomandi. Henni brá afar mikið, þar sem hún hafði aldrei heyrt mig tala svona við nokkurn mann. Ég var afar reiður, sagði hún. Svo spyr hún hvað í ósköpunum ég sé að gera. Ég svara: "Ég er að æfa mig. Æfa mig fyrir framtíðina."
Ekkert lítil speki þar á ferð.

Í nótt vaknaði mín núverandi kærasta, Stina, við að ég var farin að babla eitthvað á þessa leið: "Hvornår kommer Freja? Kommer Freja? Freja kommer med stjernerne. Irma Freja."
Svona má þetta útleggjast á því ylhýra: "Hvenær kemur Freyja? Kemur Freyja? Freyja kemur með stjörnurnar. Irma Freyja."
Fyrir ykkur sem ekki vita, þá er Irma verzlunarkeðja hér í landi. Þau selja gæðavörur, oft lífrænt ræktaðar, og á dýru verði. Gaman að verzla í þessari verslun. Vörumerki Irma er einmitt Irma stelpan. En hún heitir samt ekki Freyja.

Mér finnst þessi orð mín afar merkileg fyrir tvennar sakir. Í fyrsta lagi sagði ég þetta á dönsku. Það ber þess vott um að ég er farin að dreyma á dönsku. Ég verð að fara að lesa meira á íslensku.
Í annan stað, þá finnst mér þetta ótrúlega fallegar línur, þó ég segi sjálfur frá.

Ætli mitt "alter ego" sé ljóðskáld á nóttunni? Skárra að breytast í ljóðskáld á nóttunni, en varúlf eða fjöldamorðingja.

Ég læt vita þegar ég verð komin með nægjanlegt efni í bók.

13.4.08Vor
Vorsýnir í Danmörku: fiðrildi, hunangsflugur, ljósgrænu laufblöðin að springa út á trjánum, kirsuberjatrén í blóma og G-strengir á hjólastígnum.

Mikið er það nú gaman að finna fyrir vorinu, ekki bara í gegnum augun, heldur með öllum líkamanum. Jakkinn er þynnri, húfan er fokin, vettlingarnir eru bara á þegar maður hjólar o.s.fr.v.
Og tölum nú ekki um þessa frábæru tilfinningu að finnast maður vakna til lífsins á ný.

Á Íslandi elska ég haustið, í Danmörku elska ég vorið.

7.4.08


Morgundagurinn
Á morgun ætla ég í skólann.
Sennilega munu skrifstofustúlkurnar reka upp húrrahróp og bjóða öllum nemendum Kirkjutónlistarskólans á Sjálandi upp á ískaldan bjór, sökum þess að ég mætti á svæðið. Ég hef nefnilega ekki verið þar síðan rétt eftir áramót...
Annan hvern þriðjudag á ég að vera í bóklegum fögum í þessum skóla. Þau fög eru kórstjórn og sálmaforspil. Og það vill svo skemmtilega til að alla þriðjudaga eru morgunandagt í kirkjunni minni. Svo ég þarf að vera í vinnunni þegar ég á að vera í fyrsta tímanum, sem er kórstjórn.
Hinn tíminn er svo kl.15 og síðan í haust hafði kennarinn ekkert sérstakt útá forspilin að setja. Svo ég sá engan tilgang í að mæta.
En á morgun! Ú la la la! Þetta verður brjálað stuð!

31.3.08


Plúsinn skammgóði
Í dag gerðist nokkuð sem hefur ekki gerst í 2 ár! Þetta merki " - " stendur ekki lengur fyrir framan innistæðuna!
Því miður er 1. apríl á morgun... :-)

28.3.08


"Hey cows! You can't get on this train! This is a people train. You cows have no buisness on a people train, right, because you'r cows!"
South Park

8.3.08


Ár og dagar
"Langt er síðan sá ég hann" mælti Rósa kerlingin og ég er sammála henni þegar kemur að þessari netlsíðu.

Síðastliðinn mánudag lagði ég af stað ásamt 50 fermingarbörnum í ferð. Ferðinni var heitið í Hvítkeldubúðir (Hvidekildelejr). Stórar búðir með fullt af herbergjum og sölum til að kenna í. Krakkarnir eiga að fermast í Hundigekirkju í vor, og ég hef verið tónlistarkennarinn þeirra.
Við vorum í þessum búðum frá mánudegi til föstudags. Ansi lærdómsrík ferð og ótrúlega gaman að sjá hvernig krakkarnir venjast hörðum umgengnisreglum. Þau máttu bara hafa farsíma inn á herbergjum, áttu að vera sofnuð kl.23.00, sungið fyrir og eftir borðhald, þau áttu að taka virkan þátt í kennslunni og syngja sálma. Þessu vöndust þau, og voru orðin ansi góð barasta undir lokin. En það kostaði líka 9 gul kort! 2 gul kort þýðir rautt kort, og viðkomandi sendur útaf, heim til mömmu og pabba. Engin fékk þó rauða kortið.
Ég kenndi krökkunum 2 íslensk lög, Maísól og Á Sprengisandi. Bæði þessi lög eru til með dönskum texta svo þau fengu sungið á báðum tungumálunum. Gaman að kenna fólki eitthvað nýtt, og sjá hvernig sjóndeildarhringurinn víkkar aðeins, hjá þessum hormónafullu unglingum.

Framundan er meiri vinna. Stórhátíð kirkjunnar, páskarnir, eru jú framundan svo af nægu er að taka. Og það er ekki nóg með að kirkjan mín hefur messu á öllum helgidögunum, heldur finnst þeim líka tilhlýðilegt að hafa messur á mánudegi, þriðjudegi og miðvikudegi í páskavikunni. Eins og gömlukellingarnar sem koma í messu hafi þörf á því. Þeirra syndir eru sennilega ekki stærri en að gleyma að segja afsakið eftir að hafa ropað. En svona er það að vera starfsmaður kirkjunnar, þú ert í vinnu þegar aðrir halda frí.

Undanfarin mánuð höfum við Stina verið í mjög undarlegu sambandi. Svona "hittumst í draumalandinu" sambandi. Einu stundirnar okkar saman hafa verið á nóttunni, og bæði sofandi. Hún er í skólanum allan daginn, og ég flesta daga í kirkjunni, á kvöldin með kóræfingar og undanfarnar helgar í kórabúðum eða að halda tónleika.
En þetta róast allt saman eftir í sumarfríinu og næsta vetur. Þá ætla ég bara að vera í 100% vinnu og með 2 kóra. Engin fermingarfræðsla né skóli. Kannski fæ ég tíma fyrir kærustu og jafnvel eitt áhugamál. Vonandi, því annar kórinn minn gaf mér meðlimskort í vetrarböðunarklúbb. Reyndar er það bara meðlimskort á biðlistann í klúbbinn, en þau munu samt taka inn fleiri bráðum, þar sem þau hafa fengið nýja aðstöðu. Og það frábæra er að klúbburinn er rétt hjá íbúðinni ég bý í. Svo næsta vetur hef ég jafnvel möguleika á að hoppa í 2 gráðu heitan sjóinn, og svo í sauna á eftir. Næs!

Annað áhugamál sem ég hef verið að gæla við er myndataka. Ég hef aldrei átt myndavél, en tel mig samt ágætis myndasmið. Og nú langar mig í digitalmyndavél með "spejlreflex" . Soldið dýrt hobbí, en er sennilega mjög skemmtilegt. Og hva! Eru ekki alvöru karlmenn tækjaóðir? Ég á ekki einu sinni borvél!

Jæja, best að hypja sig upp í kirkju og undirbúa Boðunardag Maríu, sem er einmitt á morgun. Gleðisdagur í þessari stuttu Föstu.

"Troddu þér nú inn í tjaldið hjá mér, María, María."

P.s. vetrargosar (vintergækker) komu upp fyrir næstum mánuði síðan, og krókus fyrir c.a. 2 vikum.

30.1.08


Dánarfregnir
Geisladiskaverzlunin 12 tónar hefur haft útibú hér í borg um 1 árs skeið. Síðastliðinn laugardag var þessari ágætu verzlun lokað. Sökum þessa var haldin ótrúleg rýmingarútsala dagana á undan. Diskarnir voru fyrir frekar ódýrir, miðað við íslenskt verð. En nú var allt í búðinni á hálfvirði.
Ég frétti af þessu á fimmtudegi og daginn eftir tölti ég í búðina. Planið var að kaupa nokkra íslenska diska, sem ég hef ekki látið verða af að kaupa.
Ég kom út með 29 diska í fanginu. Margir tvöfaldir.
Það kom nefnilega upp úr dúrnum að verzlunin hafði klassíska deild, sem hafði verið geymd inn á lager. Og nú var hún komin fram. Ég keypti c.a. 15 diska frá útgáfufyrirtækinu Harmoni Mundi, en það útgáfufyrirtæki státar yfirleitt af mjög góðum flytjendum. Ég keypti náttúrulega allt sem á stóð nafnið Philip Herreweghe eða Rene Jacob.
Ég hef aldrei áður gert svona stór diskakaup.