10.10.07


Afi minn
Ég kann að spila á harmoníku. Afi minn kenndi mér það þegar ég var 7-8 ára gamall.
Afi var magnaður kall. Hann var sjómaður, síðar meir netagerðarkall og bóndi. Sem ungur réri hann á miðin. Í frístundum, sem voru sennilega ekkert alltof margar, þá spilaði hann á nikkuna.

Minning:
Amma sagði mér einu sinni að þau, hún og afi, hefðu gengið frá Neskaupstað yfir í einhvern annan fjörð rétt hjá (kannski yfir í Viðfjörð, eða jafnvel Sandvík). Þau voru að fara á ball. Afi átti að spila. Hann bar nikkuna á bakinu, og hún bar nestið. Þau gengu allan daginn, voru á ballinu, gengu svo heim daginn eftir.

Afi var svona kall sem spilaði á böllum í sveitinni og nágrannasveitum. Þá var nóg að hafa einn nikkara til að slá upp balli. Afi sat svo allt kvöldið og langt fram á nótt og hélt uppi dansleiknum. Kannski fékk hann eina stutta pisspásu, aðrar voru ekki pásurnar.

Minning:
Afi kenndi mér að búa til net. Svo sat ég í eldhúsinu hjá þeim og gerði net. Ég er búinn að gleyma þessari handavinnu.

Það var fyrst þegar afi var kominn yfir sextugt að honum datt í hug að læra nótur. Ég veit ekki hvernig hann fór að því, en hann kenndi sér sjálfur að lesa og skrifa nótur. Svo skrifaði hann niður lög sem hann hafði samið.
Daníel bróðir minn fékk svo oft þessar nótur sem sá gamli hafði skrifað. Hann hreinskrifaði þær síðan, og setti inn bókstafshljóma.
Rétt áður en afi gamli dó, þá gerðum við bók, sem innihélt lögin hans afa. Ég sá um að setja nóturnar hans Daníels upp í tölvunni og mamma skrifaði smá inngang. Svo var bókin prentuð í einhverjum eintökum. Sá gamli var mjög stoltur yfir þessu.

Núna hefur svo elskulegur bróðir minn útsett lögin hans afa og tekið þau upp. Nánast allt hefur hann gert sjálfur í fínu tölvunni sinni. Svo í næsta mánuði ætti að vera til diskur með herlegheitunum.
Hefði afi verið á lífi í dag, þá hefði hann sennilega verið búinn að kaupa sér góða tölvu og græjur, og hefði gert þetta sjálfur.

Þið getið lesið meira um diskinn hér á netli bróður mínshér á netli bróður míns og heyrt nokkur lög á þessari myspace síðu.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég er bara svo mikið stolt af ykkur bræðrum núna - reyndar alltaf. Þið eruð alveg ágætir og eigið hrós skilið fyrir þetta framtak ykkar.
Þetta er fallegt blogg hjá þér minn kæri !

Nafnlaus sagði...

ætíð gaman að lesa skrif þín hér
kv úr Paradís
Guðjón Helgi