26.10.07

Daft Punk
Ég sá þetta myndband hjá Hildigunni og varð bara að leifa ykkur líka að sjá. Lengi hefur þetta lag heillað mig, þá sérstaklega sólóið. Vel gert, bæði músík og hendur.

24.10.07

Góður dagur
08.00
Borðaði morgunmat með kærustunni og Silviu. Ristað rúgbrauð og gráðostur, eins og vanalega.
09.00-11.40
Rembist við að finna skátakofa (hytte) fyrir kórinn minn, Stöku, til að halda æfingarhelgi í. Við erum íslendingar. Við gerum allt á siðustu stundu. Æfingarhelgin er þarnæstu helgi. Lítið gengur.
11.40
Hjóla á hraða vindsins niður í bæ. Er orðinn alltof seinn í orgeltíma.
12.00-13.00
Orgeltími. Spilaði 4 sálma, 1 lítinn orgelkóral eftir JSB og svo lokin á fúgunni í d-moll, einnig eftir JSB. Búinn að eyða miklum tíma í að æfa þetta verk, tokkata og fúga í d-moll. Hellingur eftir enn.
13.10
Fæ símhringingu með sálmanúmerunum fyrir sunnudaginn. Á að spila í Herstedvester Kirke. Falleg kirkja i fallegu umhverfi.
13.30-15.00
Borða madpakke í Jónshúsi. Spjalla við Jón. Hann hefur alltaf eitthvað skemmtilegt að segja. Í dag fékk ég að heyra um hin ýmsu skemmtilegu tilsvör Karls Sighvatssonar, heitins og organista (Hammond Íslandus).
15.00-16.00
Hlusta á fyrirlestur um nýútkomna bók eftir vinkonu mína Merete Sanderhoff. Fyrirlesturinn er á Statens museum for kunst, þar sem hún vinnur. Hitti einnig manninn hennar, Jens, og mömmu hans. Ég hef skrifað músík við ljóðin hans Jens. Merete kynntist ég í Århus Universitetskor. Hún er listsagnfræðingur.
16.00-17.00
Sit í S-tog til Ordrup
17.00-18.00
Syng í messu í Ordrup Kirke. Asnalega fáir í messu. Væri sniðugra að nota peninginn í eitthvað annað en að borga okkur laun.
Eftir messuna ræddum við m.a. um að "klassískir" tónlistarmenn dansa of lítið.
18.30
Tala við kærustuna í síma. Hún ætlar að sjá/heyra Rígólettó í Óperunni. Hún hefur jú frían aðgang í allt sem gerist í þessu húsi.
19.30
Ég er kominn heim og mér lukkast að finna 2 skátakofa sem eru ekki leigðir út þarnæstu helgi.
20.00
Panta pizzu nr.19 hjá Leifs Pizzeria. Besta pizzeria á Nørrebro.
20.30
Les i bók og borða matinn minn. Hugsa um að það er langt síðan ég hef bloggað. Hef ekki nennt því.
21.08
Skrifa þetta blogg. Ætla að halda áfram að lesa...eða horfa á eitthvað innihaldslaust sjónvarpsefni.

10.10.07


Afi minn
Ég kann að spila á harmoníku. Afi minn kenndi mér það þegar ég var 7-8 ára gamall.
Afi var magnaður kall. Hann var sjómaður, síðar meir netagerðarkall og bóndi. Sem ungur réri hann á miðin. Í frístundum, sem voru sennilega ekkert alltof margar, þá spilaði hann á nikkuna.

Minning:
Amma sagði mér einu sinni að þau, hún og afi, hefðu gengið frá Neskaupstað yfir í einhvern annan fjörð rétt hjá (kannski yfir í Viðfjörð, eða jafnvel Sandvík). Þau voru að fara á ball. Afi átti að spila. Hann bar nikkuna á bakinu, og hún bar nestið. Þau gengu allan daginn, voru á ballinu, gengu svo heim daginn eftir.

Afi var svona kall sem spilaði á böllum í sveitinni og nágrannasveitum. Þá var nóg að hafa einn nikkara til að slá upp balli. Afi sat svo allt kvöldið og langt fram á nótt og hélt uppi dansleiknum. Kannski fékk hann eina stutta pisspásu, aðrar voru ekki pásurnar.

Minning:
Afi kenndi mér að búa til net. Svo sat ég í eldhúsinu hjá þeim og gerði net. Ég er búinn að gleyma þessari handavinnu.

Það var fyrst þegar afi var kominn yfir sextugt að honum datt í hug að læra nótur. Ég veit ekki hvernig hann fór að því, en hann kenndi sér sjálfur að lesa og skrifa nótur. Svo skrifaði hann niður lög sem hann hafði samið.
Daníel bróðir minn fékk svo oft þessar nótur sem sá gamli hafði skrifað. Hann hreinskrifaði þær síðan, og setti inn bókstafshljóma.
Rétt áður en afi gamli dó, þá gerðum við bók, sem innihélt lögin hans afa. Ég sá um að setja nóturnar hans Daníels upp í tölvunni og mamma skrifaði smá inngang. Svo var bókin prentuð í einhverjum eintökum. Sá gamli var mjög stoltur yfir þessu.

Núna hefur svo elskulegur bróðir minn útsett lögin hans afa og tekið þau upp. Nánast allt hefur hann gert sjálfur í fínu tölvunni sinni. Svo í næsta mánuði ætti að vera til diskur með herlegheitunum.
Hefði afi verið á lífi í dag, þá hefði hann sennilega verið búinn að kaupa sér góða tölvu og græjur, og hefði gert þetta sjálfur.

Þið getið lesið meira um diskinn hér á netli bróður mínshér á netli bróður míns og heyrt nokkur lög á þessari myspace síðu.

8.10.07

Eldræða
Áðan var æfing hjá kórnum Vox Absona. Ég sat við stjórnvölina, þar sem kórstjóri kórsins er veik. Hún er stressuð. Ekki ég.
Þessi sami kórstjóri hefur sagt stöðu sinni lausri frá byrjun næsta árs.
Þau spurðu mig hvort ég vildi vera næsti kórstjóri þeirra. Þau þekkja mig, þar sem ég hef verið afleysingarstjóri hjá þeim.
Í kvöld átti ég s.s. að halda söluræðuna. Ég átti að selja mig.
Það tókst svo vel að í byrjun næsta árs er ég kórstjóri kórsins Vox Absona.

5.10.07


Rjúkandi heitur haustsmellur!
Okkur á útvarpsstöðinni Sjöfn hefur borist nýr smellur frá dúóinu "For two to Play", sem mætti útleggjast sem "Tvímenningsleikur". Smellurinn kallast "Rygvendt" og er eftir tónskáldið sívinsæla Stefán Arason aka. Stebbi Nobb/Nebbi Stopp. Við hérna á stöðinni teljum að þetta lag muni klífa hæstu tinda vinsældalistanna vestanhafs, sem og hér heima.
"Rygvendt", gjörið þið svo vel.

Píanótónleikar
Þessi sæta stelpa á myndinni ætlar að halda tónleika á morgun, 6. október. Stúlkan heitir Eva Þyri Hilmarsdóttir og hún ætlar að refsa slaghörpunni í Fella- og Hólakirkju rækilega. Leikar hefjast kl. 17.
Ég heyrði hana spila þetta prógram um daginn, og mæli ég eindregið með að þið farið og hlustið.

Efnisskráin lítur svona út:

L.v. Beethoven: Sonate i Es-dur op. 31 nr. 3 (1802)
(1770-1827)
- Allegro
- Scherzo: Allegretto vivace
- Menuetto: Moderato e grazioso
- Presto con fuoco

F. Chopin
(1810-1849):
Nocturne i c-mol, op. 48 nr. 1
Ballade nr. 4 i f-mol, op. 52

E. Granados
(1876-1916):
Fra Goyescas: Quejas ó la maja y el ruiseñor

S. Prokofjev: Sonate nr. 2 i d-mol, op. 14 (1912)
(1891-1953) - Allegro, ma non troppo
- Scherzo: Allegro marcato
- Andante
- Vivace