13.9.07

Blogg í fríu falli
U.N.M hátíðin er nú yfirstaðin og ég komin heim úr sælunni á Íslandi. Það er reyndar ósköp ljúft hérna í Kaupmannahöfn. Haustið er fallegt, með háum himni og kaldri golu. Og Staka er komin á fullt. Síðustu raddirnar að koma í hús, vantar þó ennþá nokkra bassa. Þetta reddast samt örugglega.

Í fluginu á leiðinni heim upplifði ég nokkuð óþægilegt, svona sérstaklega þar sem flugið átti sér stað 10.sept, dagurinn á eftir hefur ákveðna merkingu í sögunni, og einnig vegna þess að nokkrum dögum áður hafði flugvél hjá SAS bilað í lendingu, en engin mannskaði þó.
Við vorum í aðflugi. Flugið hafði verið einstaklega þægilegt, ég sat einn í minni sætaröð, og engin ókyrrð. Reyndar er ég frekar flughraustur, svona miðað við systkini mín og föður, svo ókyrrð hefur aldrei hrætt mig.
Aftur að aðfluginu.
Við vorum komin niðrúr skýjunum. Það var lágskýjað.
Kaupmannahöfn var falleg í myrkrinu og það var gaman að horfa yfir borgina og átta sig á hvernig hverfin liggja.
Dekkin voru komin niður og við lækkum flugið enn meira. Við fljúgum framhjá vindmyllunum sem standa úti í Øresund.
Allt virkar sem eðlileg lending. Nema hvað allt í einu gefur fljugstjórinn í og hækkar flugið snögglega. Dekkin eru tekin upp og við klífum aftur upp.
Mér bregður. Ég hífi hettuna á peysunni minni yfir hausinn og fer að rugga fram og aftur. Mér leist ekki á þetta. Nú væri sennilega búið að ræna vélinni og stefnan er tekin á Rundetårn, hugsaði ég.
Ekkert heyrðist í flugstjóranum.
Þegar vélin er hætt að klífa og búin að beygja smá, tilkynnir flugstjórinn að sökum umferðar hefði ekki verið hægt að lenda.
Hjúkket!
Við tókum einn aukahring í kringum Kastrup og lentum svo bara í næstu tilraun.
Það var ósköp gott að stíga á fast land.

Næsta blogg verður um Ítalíu.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Við lentum einmitt í samskonar flugreynslu nú í sumar á Keflavíkurflugvelli, þegar við vorum á heimleið. Frekar óþægileg andartök, en þá minnist maður orða búlgarska samgöngumálaráðherrans, þegar hann var inntur eftir því hvort hann ætlaði ekki að spenna á sig beltið í flugtaki: "If you go, you go"
Svo mörg voru þau orð. Gaman að sjá þig á klakanum hafðu það gott í vetur.
T.

Nafnlaus sagði...

Hef einmitt lent í því sama... nema skyggni var ekkert, staðurinn var Egilsstaðir, tími Þorláksmessukvöld og haldið til baka til Reykjavíkur. Óvænt klifur flugvéla er mér ekki að skapi.

Stefán Arason sagði...

Já, sá búlgarski vissi hvað hann söng :-) Takk sömuleiðis Tryggvi, gaman að sjá sömuleiðis!

En Jóhanna, hvað fékkstu þá í jólamatinn??? :-/

En gott að heyra að ég er ekki einn um þennan "aumingjaskap".

Nafnlaus sagði...

Nú ég fékk auðvitað fínasta hangikjötslæri og með því eftir að hafa vaknað fyrir allar aldir á aðfangadagsmorgun og við rétt náðum fluginu því það tók ofurlangan tíma að skafa frostrigninguna af bílnum (sem er ekki mjög algengt fyirbæri).

Stefán Arason sagði...

Ég sá fyrir mér kátínur (Cheerios) með grænum baunum, og malt og appelsín útá.