24.9.07


Frumflutningur og plötur
Í gær var verkið "Rygvendt", eftir sjálfastan mig, frumflutt í Sívalaturninum í Kaupmannahöfn. Það voru þau Camilla Toldi Bugge (sópran) og Martin Stæhr Haugaard (gítar) sem frumfluttu.
Flutningurinn var mjög góður, og er ég afar sáttur. Ég hef í rauninni aldrei liðið eins vel á tónleikum þar sem tónlist eftir mig hefur verið flutt. Hljómburðurinn í þessum sal er svo ótrúlega góður að ég hafði ekki tíma til annars en að hlusta. Oft er ég smá stressaður þegar verið er að flytja músík eftir mig. "Komast þau klakklaust í gegn? Finnst þeim þetta leiðinlegt? Eru áheyrendur að deyja úr leiðindum?" eru hugsanir sem geta plagað á meðan tónlist eftir mig er flutt. En ekki í gær...tja...bara smá.
Næstu helgi verður verkið svo flutt í Árósum, á útskriftartónleikum Martins. Ég er spenntur. Salurinn ekki nærri eins góður, og hann krefst meira af flytjendunum. Læt vita hvernig gengur.

En yfir í annað.

Ég stoltur eigandi að iPod og ég nota hann töluvert. T.a.m. fer ég ekki í ræktina án hans. Þar er svo hryllileg músík í gangi, að ég get ekki annað en reynt að yfirgnæfa hávaðann með betri hávaða.
Inni á þessum kostagrip geymi ég stóran hluta af tónlistarsafni mínu. Og undanfarið hef ég keypt nokkuð af íslenskri músík. Það er orðið ansi auðvelt að fá spennandi íslenska tónlist hér í borg, síðan 12 tónar opnuðu útibú í Fiolstræde. T.d. hef ég keypt diskana "Wine for my weakness" (Pétur Ben), "Seria" (Skúli Sverrisson og félagar) og "Við og Við" (Ólöf Arnalds).
Þetta eru afar góð kaup að mínu mati. Sérstök eru þau öll sömul og afar spennandi á ólíkan hátt.
En einhvernveginn finnst mér að diskar Péturs og Ólafar eru ekki gegnheilir. Mér finnst einhvernveginn sem fyrrihluti diskanna eru afar góðir, en svo finnst mér þynnast aðeins í innihaldinu. Sennilega er þetta bara vegna hlustunarröðunar. Ef maður hefði byrjað aftanfrá, frá byrjun, þá gæti vel verið að mér þætti hið sama. Maður nær ekki alltaf að heyra heilan disk í einu, svo byrjunin verður eitthvað sem maður þekkir betur og allir vita að okkur finnst tónlist sem við þekkjum mun betri en tónlist sem við þekkjum ekki eins vel. Tónskáldsins dilemma.
En aftur á móti þá er diskurinn hans Skúla alveg gegnum góður.
Því er pælingin; ætli tónlistarfólk sem er að gefa út sína fyrstu plötu raði sínum bestu lögum fyrst á plötuna? Taka ekki sénsinn á að setja besta smellinn aftast og hlaða þeim frekar öllum fremst? Eða er þetta bara nostalgían sem er að hrekkja mig?
Læt ykkur vita þegar ég er farinn að finnast síðustu lögin á umtöluðum plötum, jafngóð og þau fyrstu.

15.9.07

"Segðu úúúúú..."
Eftir matinn eyddum við, ég og Stina, c.a. 30 mínútum í að segja "ú". Þetta var reyndar ekkert venjulegt "ú", onei, þetta var mjög sérstakt "ú". Ég á nefnilega mjög erfitt með að syngja í falsettu. Í rauninni get ég það ekki. Eins og ég hafi týnt þeim hæfileika. Ég veit í rauninni ekki hvort þetta heitir falsetta, eða höfuðtónn, eða hvað þetta nú er. Ég get allaveganna ekki gefið frá mér háa kvenlega tóna, eins og svo margir geta. Þetta pirrar mig. Því þessi eiginleiki er talinn afar góður í söng, því ef þessi tækni er tekin með niður í dýpra tónsvið, þá fær röddin mun fallegri hljóm. Hann verður yfirtónaríkari.
Einnig kemur þessi kunnátta sér vel að notum, ef stjórna á dönskum barnakór. Mikilvægt að þetta sé danskur barnakór. Dönsk börn eiga nefnilega við það að stríða, að þau syngja alltof djúpt. Þeas. í skólum og dagheimilum eru þau látin syngja á tónsviði sem er oft alltof djúpt fyrir þau. Þetta veldur því að þau fá ekki notað röddina eins og best væri á kosið. Ástæðan fyrir því að þau syngja svona djúpt, er að þeir sem stjórna söng í þessum stofnunum hafa ekki áttað sig á að börn hafa mun hærri rödd en við fullorðna fólkið. Einnig liggur danskan afar aftarlega í munninum, sem veldur því að talröddin er dýpri. Norðmenn eiga aftur á móti mjög auðvelt með að syngja, þar sem þeirra tungumál er meira tengt góðri söngrödd. Eins er með íslenskuna, að nokkru leyti.
En s.s. við sögðum "ú" í c.a. hálftíma. Fyrst stakk ég litlaputtanum upp í mig og saug. Svo kippti ég honum út, og dró loft ofaní lungum. Svo átti ég að halda þeirri "hálsstöðu" og blása aðeins út og setja svo tón á loftstrauminn.
Þetta gekk afar illa.
Kannski er ég búinn að búa í Danmörku of lengi?

með tárvotar kinnar

SOLO
- Det Jyske Musikkonservatoriums Solistfestival 2007
FREDAG D. 28. SEPTEMBER KL. 20.30
NIELS TROLDBORG, KLAVER

Niels Kristian Troldborg startede sin musikalske karriere som selvlært sanger/tekstforfatter i rockbandet "The Wave", men har i løbet af sin allerede yderst imponerende karriere været
pianist i adskillige andre sammenhænge, blandt andet "Big Fies Big Band" i Odder.

Niels Kristian Troldborg giver ofte solorecitals over hele verden, især i udlandet, og hans nærmest grænseløst store repertoire spænder uendeligt vidt, dog med hovedvægten lagt på barok, wienerklassik, romantisk og nyere musik.

Niels Kristian Troldborg er lysår foran sine nærmeste kollegaer når det kommer til kreativitet, åndelig formåen og kunstnerisk format, og han er iøvrigt også en efterspurgt kammermusiker, hvor hans store musikalitet og imponerende evner for at yde både kunstnerisk med- og modspil virkeligt kommer til deres ret.

Niels Kristian Troldborgs sublime klaverteknik og på alle måder overlegne kunstneriske fortolkninger, har tryllebundet publikum over hele den civiliserede verden, fra Moskva til New York.

En af karrierens hidtil største successer hentede han imidlertid herhjemme, da karrierens største kunstneriske satsning kulminerede i 1998. Her opførte han - som den første danske pianist nogensinde - samtlige værker af Jerry Lee Lewis for et talstærkt og yderst begejstret publikum, i det store øltelt på Ørting/Falling idrætsforenings årlige kræmmermarked. Han er hvert eneste år fast modtager af en nærmest uendelig række velestimerede priser og legater.

Program
Maurice Ravel: fra "Le Tombeau de Couperin" (1914-1917)
(1875-1937) - Prelude
- Rigaudon
- Menuet
- Toccata

Frédéric Chopin: Nocturne i Des-dur opus 27 nr. 2 (1833)
(1810-1849)

Ludwig van Beethoven: Sonate C-mol opus 111 (1822)
(1770-1827) - Maestoso - Allegro con brio ed appassionato
- Arietta, Adagio molto semplice e cantabile

14.9.07


Stælur
Fyrir þá sem ekki hafa rekist á þetta hjá Hildigunni, ættu að kíkja á þessi skrif Don Pedros. Afar fyndin saga um Garðar Thor Cortes og Lykla-Pétur.
Ég hef oft pælt í því hvar maður gæti selt sál sína, og sé ég nú að þau viðskipti fara fram hjá Einari Bárðarsyni.

13.9.07

Blogg í fríu falli
U.N.M hátíðin er nú yfirstaðin og ég komin heim úr sælunni á Íslandi. Það er reyndar ósköp ljúft hérna í Kaupmannahöfn. Haustið er fallegt, með háum himni og kaldri golu. Og Staka er komin á fullt. Síðustu raddirnar að koma í hús, vantar þó ennþá nokkra bassa. Þetta reddast samt örugglega.

Í fluginu á leiðinni heim upplifði ég nokkuð óþægilegt, svona sérstaklega þar sem flugið átti sér stað 10.sept, dagurinn á eftir hefur ákveðna merkingu í sögunni, og einnig vegna þess að nokkrum dögum áður hafði flugvél hjá SAS bilað í lendingu, en engin mannskaði þó.
Við vorum í aðflugi. Flugið hafði verið einstaklega þægilegt, ég sat einn í minni sætaröð, og engin ókyrrð. Reyndar er ég frekar flughraustur, svona miðað við systkini mín og föður, svo ókyrrð hefur aldrei hrætt mig.
Aftur að aðfluginu.
Við vorum komin niðrúr skýjunum. Það var lágskýjað.
Kaupmannahöfn var falleg í myrkrinu og það var gaman að horfa yfir borgina og átta sig á hvernig hverfin liggja.
Dekkin voru komin niður og við lækkum flugið enn meira. Við fljúgum framhjá vindmyllunum sem standa úti í Øresund.
Allt virkar sem eðlileg lending. Nema hvað allt í einu gefur fljugstjórinn í og hækkar flugið snögglega. Dekkin eru tekin upp og við klífum aftur upp.
Mér bregður. Ég hífi hettuna á peysunni minni yfir hausinn og fer að rugga fram og aftur. Mér leist ekki á þetta. Nú væri sennilega búið að ræna vélinni og stefnan er tekin á Rundetårn, hugsaði ég.
Ekkert heyrðist í flugstjóranum.
Þegar vélin er hætt að klífa og búin að beygja smá, tilkynnir flugstjórinn að sökum umferðar hefði ekki verið hægt að lenda.
Hjúkket!
Við tókum einn aukahring í kringum Kastrup og lentum svo bara í næstu tilraun.
Það var ósköp gott að stíga á fast land.

Næsta blogg verður um Ítalíu.

6.9.07

U.N.M
Nú eru liðnir 5 dagar af UNM hátíðinni, og nú er ég að skrópa á tónleikum. Ég er með kvef, og nennti hreinlega ekki á tónleika með raftónlist, bara til að líða illa. Þess í stað ætla ég að skrifa netl.
Á sunnudaginn var verkið Hvil Sødt frumflutt á Íslandi, eins og er orðið svo vinsælt að segja um tónleika hérna í Rvk. Símakórinn Hvönn söng og Hildigunnur Rúnarsdóttir, tónskáld og söngkona, sáu um sönginn, og svo sáu hinir ýmsu hljóðfæraleikarar um hitt. Gunnsteinn Ólafsson stjórnaði svo hersingunni.
Þetta var hinn ágætasti flutningur, þó svo ég saknaði lengri hljómburðs, og lengri kirkju, svo hægt væri að flytja verkið með þeim hreyfingum sem voru samdar í það. Þegar verkið var frumflutt þá gekk kórinn inn, syngjandi lítið þrástef (stef sem kemur aftur og aftur) og þegar drengjakórinn var búinn að syngja, þá gekk hann aftur fyrir altarið í kirkjunni, og söng svo þaðan undir lokin.
En á tónleikunum var verkið í "einvíðum" flutningi, þeas. allir bara fyrir fram áheyrendur.
En s.s. þau gerðu þetta vel, og er það fyrir mestu.

Á mánudaginn voru svo allir þáttakendur á UNM boðnir í móttöku á Bessastöðum, þar sem Hr. Ólafur Ragnar tók á móti okkur. Sú móttaka var með eindæmum frábær. Ólafur bara spjallaði við okkur afslappað, og bauð okkur kampavín. Svo máttum við ganga um húsið og skoða myndir og muni. Alveg einstaklega huggulegt og almennilegt af forsetaembættinu. Ólafur gerði þetta svo vel að útlendingarnir urðu afar snortir af þessari gestrisni. Yfirleitt er nefnilega svona móttaka á þessari hátíð, en þá yfirleitt hjá borgarstjóra, eða þar sem einhver hefur haldið ræðu og búið bless. En þetta var mun sterkara. Ef Hr. Ólafur er að lesa þetta, þá vil ég nota tækifærið og þakka fyrir góðar móttökur.

Á meðan ég tek þátt í þessari hátíð, þá bý ég hjá öðlingnum og ljúfmenninu Huga Þórðarsyni eða Frugga Roðrarsyni eins og sumir þekkja hann. Það er óskaplega ljúft að búa hjá honum. Hérna er þráðlaust internet, sundlaug 20 m. frá útidyrum og svo er þessi drengur bara svo ljúfur að það hálfa væri nóg. Hann skutlar mér hingað og þangað, og tekur mig með í skemmtiferðir og ég veit ekki hvað. Ef ég væri samkynhneigður þá myndi ég reyna við hann.

Jæja, nú ætla ég að einbeita mér að því að láta mér batna kvefið.