17.8.07


Kaldar kartöflur
Drottningin í "danska eldhúsinu" er svokallað smørrebrød (smurbrauð)...og drottning smurbrauðsins er náttúrulega Ida Davidsen. Hún er smurbrauðsjómfrú, ekki smurbrauð.
Smurbrauð er eiginlega danska útgáfan af pítsu, þeas. þú notar þá afganga sem þú átt til að setja ofan á brauð. Annaðhvort rúgbrauð eða hvíttbrauð (fransbrauð). Danska rúgbrauðið er töluvert öðruvísi en það íslenska. Það íslenska (seytt rúgbrauð) er miklu sætara og inniheldur nánast ekki einn kjarna. Danskt rúgbrauð heldur meltingarkerfi heillar þjóðar gangandi.
Síðan ég kynntist kærustunni minni, sem er dönsk, þá borðum við yfirleitt rúgbrauð í hádegismat, þá með ýmiskonar álegg á brauðið. Það gæti t.d. verið kæfa, makríll í tómat, síld, spægipylsa, ostur, egg, kaldar frikadellur (kjötbollur) og svona mætti lengi telja. Yfirleitt má bæta smá agúrku, lauk eða tómat á sneiðina ("madden" eins og danir kalla það) til að gera þetta aðeins ferskara. Ekki má gleyma að majones er mikið lykilatriði í smurbrauðsgerð. Og majonesið þarf að vera í túpu, ekki í dollu. Annað mikilvægt atriði er að rista rúgbrauðið, nema það sé splunkunýtt að sjálfsögðu. Ristað rúgbrauð er einnig gott út í súrmjólk.

En jæja, aftur að afgöngum. Einn er sá afgangur sem mér hafði aldrei dottið í hug að gæti verið góður ofaná brauð, en það er kartöflur. Kaldar kartöflur ofaná rúgbrauð, með smá salti og pipar, að ógleymdu majonesi, er lostæti. Eiginlega svo gott að ég get alveg látið það vera að borða eitthvað annað í hádegismat.
Endilega prófið það, næst þegar þið eigið kartöflur í afgang.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

...og bæta svo við súrum gúrkum...mmm.

Nafnlaus sagði...

þetta lærði ég í Noregi þegar ég var á lýðháskóla. Mesta furða hvað þetta er gott, þó svo að það hljómi alls ekki þannig...

Stefán Arason sagði...

já, súrar gúrkur. Hmm...prófa það næst.

þetta hljómar alls ekki sem eitthvað sérstakt...frekar en köld lifrarpylsa á jólaköku með rúsínum, sem er afar gott!