17.8.07

Þjónustulund
Aftur að sögu úr Ítalíuferðinni.

Við bjuggum, eins og áður hefur verið getið, í 3 vikur í borginni Siena sem er í Toscana. Gömul borg og falleg.
Borgin er eiginlega bara túristaborg, höfðu stúlkurnar eftir Ítölskukennara sínum. Það búa ekkert svo margir Ítalir í borginni. Þeir búa rétt fyrir utan, og koma svo inn í borgina til að vinna, annaðhvort í banka eða við túrisma.

Mín reynsla er sú að þar sem margir túristar eru, eins og í Siena, þá er þjónustan í búðum og veitingahúsum ekkert sérlega góð. Það er hvort eð er allt fullt af fólki sem daginn út og daginn inn, svo afhverju þarf ég að halda í kúnnann, hugsa sennilega margir.

Ég var nú ekkert mikið að ráfa í búðir oþh. en ég gerði þeim mun meira af að elda mat, og kaupa inn í matinn. Ég hafði keypt stóran eldhúshníf, afar ódýran, því eldhúsið í íbúðinni okkar hafði bara hnífa sem bitu jafn mikið og þeir sáu. Staurblindir.
Hnífur þessi var ágætur í fyrstu, en fljótlega fór bitinu að minnka.
Dag einn gekk ég framhjá leðurbúð. Ég hélt að þetta væri svona "hælebar" eins og í danmörku, þar sem þú getur fengið gert við skóna þína, smíðað lykla oþh. hluti, og vatt mér því inn og spurði, á ensku, hvort þau gætu brýnt fyrir mig hníf. Þegar inn var komið sá ég að þetta var bara leðurbúð, þar sem allur varningur, belti, töskur oþh. voru gerðir á staðnum. Það var par sem stóð bakvið borðið, í nokkurskonar leðurverkstæði, og þau skildu ekki eitt aukatekið orð í ensku. Ég reyndi á minni afar fátæklegu ítölsku (sem aðallega inniheldur tónlistarorð og matvöru) að segja hnífur og "filere" (brýna). Fyrir rest skildu þau hvað ég vildi, og sögðu mér að koma með hnífinn.
Ég fer heim, og labba framhjá annarri leðurbúð, mun nálægari íbúðinni okkar en sú fyrri. Ég vind mér þar inn, í von um að ég gæti sparað mér sporin í hitanum, og spyr hvort hann geti brýnt fyrir mig hníf, eftir að ég hafði spurt hvort hann kynni ensku. Mér var svarað einstaklega ókurteislega, á afar góðri ensku, að hann brýndi sína hnífa og benti mér hranalega á að þetta væri leðurbúð. Ég sagði honum að fara í rassgat, þó á íslensku, og gekk út.
Hnífinn lélega sótti ég í íbúðina og fór með hann í fyrri búðina. Þar eyddi vinalegi leðurvörugerðarmaðurinn góðum tíma í að brýna fyrir mig hnífinn, og sýndi mér svo það sem hann var hvað stoltastur af, en það var miðaldaleðurfatnaður og hlutir sem hann gerði og seldi. Þetta var eins og að koma inn í miðjar tökur á Lord of the Rings eða eitthvað slíkt. Einstaklega furðulegt að einhver vilji kaupa svona.
Eftir alla þessa þjónustu, sem leðurvörugerðarmaðurinn vildi ekki taka neitt fyrir, þá kaupi ég mér belti af honum. Mig vantaði belti og hann fékk þó eitthvað fyrir snúð sinn. Allir sáttir.

Á leiðinni heim geng ég framhjá glugga hins dónalega leðurvörugerðarmanns. Hann sér mig ganga fyrir utan. Ég stoppa, bendi á pokann sem ég fékk í hinni búðinni, og sýndi honum svo útrétta löngutöng hægri handar.

Hver er boðskapurinn með þessari sögu? Enginn. Nema kannski að það borgar sig að gera sig að fífli og reyna að tala ítölsku, í túristahrjáðum borgum Ítalíu.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það eina sem maður þarf að kunna þegar maður fer til ítalíu er: Café, grazie, birra og vino. Þá er maður í góðum málum.
En þá má vel vera að maður mæti á tónleika þarna 2.sept. Ég man að ég rakst á þig þarna á ballinu, en ég man ekki mikið meira sökum ofgnóttar af hot and sweet og opal staupum í nágrenninu.

Stefán Arason sagði...

En það er bara eins og þessi orð séu ekki nóg þegar maður vill láta brýna fyrir sig hníf!

Endilega láttu sjá þig þann 2. sept. Ég læt tíma og staðsetningu fylgja með síðar.
Stórhættuleg staup þessi!