29.8.07

Áminning
Ég vil minna á tónleikana núna á sunnudaginn. Þeir verða í Neskirkju, og hefjast leikar kl.20.
Mun Hildigunnur ruglast? Spennan er í hámarki!

Sjáumst!

17.8.07

Þjónustulund
Aftur að sögu úr Ítalíuferðinni.

Við bjuggum, eins og áður hefur verið getið, í 3 vikur í borginni Siena sem er í Toscana. Gömul borg og falleg.
Borgin er eiginlega bara túristaborg, höfðu stúlkurnar eftir Ítölskukennara sínum. Það búa ekkert svo margir Ítalir í borginni. Þeir búa rétt fyrir utan, og koma svo inn í borgina til að vinna, annaðhvort í banka eða við túrisma.

Mín reynsla er sú að þar sem margir túristar eru, eins og í Siena, þá er þjónustan í búðum og veitingahúsum ekkert sérlega góð. Það er hvort eð er allt fullt af fólki sem daginn út og daginn inn, svo afhverju þarf ég að halda í kúnnann, hugsa sennilega margir.

Ég var nú ekkert mikið að ráfa í búðir oþh. en ég gerði þeim mun meira af að elda mat, og kaupa inn í matinn. Ég hafði keypt stóran eldhúshníf, afar ódýran, því eldhúsið í íbúðinni okkar hafði bara hnífa sem bitu jafn mikið og þeir sáu. Staurblindir.
Hnífur þessi var ágætur í fyrstu, en fljótlega fór bitinu að minnka.
Dag einn gekk ég framhjá leðurbúð. Ég hélt að þetta væri svona "hælebar" eins og í danmörku, þar sem þú getur fengið gert við skóna þína, smíðað lykla oþh. hluti, og vatt mér því inn og spurði, á ensku, hvort þau gætu brýnt fyrir mig hníf. Þegar inn var komið sá ég að þetta var bara leðurbúð, þar sem allur varningur, belti, töskur oþh. voru gerðir á staðnum. Það var par sem stóð bakvið borðið, í nokkurskonar leðurverkstæði, og þau skildu ekki eitt aukatekið orð í ensku. Ég reyndi á minni afar fátæklegu ítölsku (sem aðallega inniheldur tónlistarorð og matvöru) að segja hnífur og "filere" (brýna). Fyrir rest skildu þau hvað ég vildi, og sögðu mér að koma með hnífinn.
Ég fer heim, og labba framhjá annarri leðurbúð, mun nálægari íbúðinni okkar en sú fyrri. Ég vind mér þar inn, í von um að ég gæti sparað mér sporin í hitanum, og spyr hvort hann geti brýnt fyrir mig hníf, eftir að ég hafði spurt hvort hann kynni ensku. Mér var svarað einstaklega ókurteislega, á afar góðri ensku, að hann brýndi sína hnífa og benti mér hranalega á að þetta væri leðurbúð. Ég sagði honum að fara í rassgat, þó á íslensku, og gekk út.
Hnífinn lélega sótti ég í íbúðina og fór með hann í fyrri búðina. Þar eyddi vinalegi leðurvörugerðarmaðurinn góðum tíma í að brýna fyrir mig hnífinn, og sýndi mér svo það sem hann var hvað stoltastur af, en það var miðaldaleðurfatnaður og hlutir sem hann gerði og seldi. Þetta var eins og að koma inn í miðjar tökur á Lord of the Rings eða eitthvað slíkt. Einstaklega furðulegt að einhver vilji kaupa svona.
Eftir alla þessa þjónustu, sem leðurvörugerðarmaðurinn vildi ekki taka neitt fyrir, þá kaupi ég mér belti af honum. Mig vantaði belti og hann fékk þó eitthvað fyrir snúð sinn. Allir sáttir.

Á leiðinni heim geng ég framhjá glugga hins dónalega leðurvörugerðarmanns. Hann sér mig ganga fyrir utan. Ég stoppa, bendi á pokann sem ég fékk í hinni búðinni, og sýndi honum svo útrétta löngutöng hægri handar.

Hver er boðskapurinn með þessari sögu? Enginn. Nema kannski að það borgar sig að gera sig að fífli og reyna að tala ítölsku, í túristahrjáðum borgum Ítalíu.

Kaldar kartöflur
Drottningin í "danska eldhúsinu" er svokallað smørrebrød (smurbrauð)...og drottning smurbrauðsins er náttúrulega Ida Davidsen. Hún er smurbrauðsjómfrú, ekki smurbrauð.
Smurbrauð er eiginlega danska útgáfan af pítsu, þeas. þú notar þá afganga sem þú átt til að setja ofan á brauð. Annaðhvort rúgbrauð eða hvíttbrauð (fransbrauð). Danska rúgbrauðið er töluvert öðruvísi en það íslenska. Það íslenska (seytt rúgbrauð) er miklu sætara og inniheldur nánast ekki einn kjarna. Danskt rúgbrauð heldur meltingarkerfi heillar þjóðar gangandi.
Síðan ég kynntist kærustunni minni, sem er dönsk, þá borðum við yfirleitt rúgbrauð í hádegismat, þá með ýmiskonar álegg á brauðið. Það gæti t.d. verið kæfa, makríll í tómat, síld, spægipylsa, ostur, egg, kaldar frikadellur (kjötbollur) og svona mætti lengi telja. Yfirleitt má bæta smá agúrku, lauk eða tómat á sneiðina ("madden" eins og danir kalla það) til að gera þetta aðeins ferskara. Ekki má gleyma að majones er mikið lykilatriði í smurbrauðsgerð. Og majonesið þarf að vera í túpu, ekki í dollu. Annað mikilvægt atriði er að rista rúgbrauðið, nema það sé splunkunýtt að sjálfsögðu. Ristað rúgbrauð er einnig gott út í súrmjólk.

En jæja, aftur að afgöngum. Einn er sá afgangur sem mér hafði aldrei dottið í hug að gæti verið góður ofaná brauð, en það er kartöflur. Kaldar kartöflur ofaná rúgbrauð, með smá salti og pipar, að ógleymdu majonesi, er lostæti. Eiginlega svo gott að ég get alveg látið það vera að borða eitthvað annað í hádegismat.
Endilega prófið það, næst þegar þið eigið kartöflur í afgang.

12.8.07

The hills are alive...
Sunnudaginn 2. september mun verkið Hvil Sødt, eftir sjálfan mig, verða flutt á UngNordiskMusik tónlistarhátíðinni. Hátíðin er þetta árið haldin í Reykjavík. Tónleikastaður og stund er ennþá óákveðinn.

Annars var ég að koma heima úr tveggja vikna fríi á Íslandi. Frábær ferð í alla staði. Mér hefur eiginlega aldrei liðið eins vel og nú í Neskaupstað, þeas. síðan ég flutti þaðan.

Nú er ég aftur kominn á Norðurbrú og hlutirnir töluvert öðruvísi en í rólega Neskaupstað. Hérna eru nágrannar sem rífast og skella hurðum, eða eru geiðveikir fyrrv.söngvarar, eða hálfnaktir dansarar.
"I love the smell of napalm in the morning."