24.7.07


Klikkaður
Hún Guðný, ofur-orgvélisti, klukkaði mig.
Jæja þá.
10 staðreyndir Stefáns:
1. Ég drakk úr pollum þegar ég var lítill. Helst brúna vatnið, því það var eins og kaffi með mjólk útí.
2. Ég tel mig muna eftir því þegar ég kúkaði á gólfteppi foreldra minna.
3. Ég man ekki eftir að hafa farið í skurðinn, þó svo mamma mín standi í þeirri meiningu að ég hafi logið því að ég hafi ekki farið í skurðinn. Afhverju vill hún meina það? Jú, því hún stóð á skurðarbarminum og spurði hvort ég hafði ekki lofað því að fara ekki í skurðinn. Ég stóð niðrí skurðinum. En eitt er með vissu! Guðni fór í hann. Skurðinn.
4. Mér fannst aldrei gaman að æfa mig á hljóðfærin ég spilaði á sem krakki (trompet og píanó). En aftur á móti þá æfði ég mig á hverjum degi. Ég er ekki viss um að ég hafi haft eitthvað sérlega gott af því.
5. Ég reyki þegar mig langar til þess. Aðallega vindlinga og svo pípurnar mínar.
6. Pervert er eitthvað sem sumir kalla mig. Ég neita því ekki.
7. Mér finnst lifur ennþá vera vondur matur. Nema það sé lifur í kæfuformi, t.d. "foie gras".
8. Ég einfalda lífið eins mikið og ég get.
9. Mér þykir afar vænt um hjólið mitt, sem er ryðgað og fölgrænt kvenmanns reiðhjól, af Batavus gerðinni.
10. Mér líður vel þegar hlutirnir eru á sínum stað. Og allir hlutir eiga að hafa stað, og helst í eða á einhverju öðru, eins og t.d. öskju, hillu, skúffu eða poka. Geymsla, eða nytjamarkaðir, eru líka góðir staðir til að geyma hluti í. Það er samt ekki gott að geyma tilfinningar.

23.7.07


"Þetta er glæpur!"
Tilvitnun dagsins:
"Ég hef eytt fjórum árum í að læra að syngja vitlaust. Það hefur tekið mig heilt ár, þar sem ég hef ekki gert annað en að aflæra það sem mér hefur verið kennt undanfarin ár."
Stina Schmidt, fyrrv. söngnemandi í Det Jyske Musikkonservatorium, núverandi nemandi í Opera Akademiet, Kaupmannahöfn.

13.7.07


Gelato
Ís, í eintölu, heitir gelato á ítölsku. Í fleirtölu gelati.
Ítalskur ís, er ekki bara hvítur, bleikur eða blandaður (sagt afar hratt og óskýrt af súrri afgreiðsludömu). Onei! Ísinn ekki eins feitur og venjulegur ís, því hann er gerður úr mjólk, en ekki rjóma. En Ó hvað hann er góður! Svo í góðum ísbúðum geturðu eytt c.a. 15 mínútum í að velja þér bragðtegund...tja eða bara koma oft og smakka þær allar. Svo er ísinn ekki bara "hollari" en venjulegur ís, hann er mýkri og léttari í sér. Eini hönnunargalli er að ísinn bráðnar fljótt.
Við áttum okkar ísbúð á il Campo, ráðhústorgið í Siena. Torgið var eins og pizzasteinn í ofni, hitað af sólinni, og þegar við komum niður á torgið, á kvöldgöngu, var svo gott að kaupa sér einn ísbikar, og sitja á heitu torginu og horfa upp í stjörnurnar.
Intermezzo
Nú ætla ég að brydda upp á öðru efni, en hugleiðingum og sögum frá Ítalíu. Nú er það blákaldur veruleikinn, hérna í Danmörku.
Ég hef skrifað ýmis netlin um uppátæki dansksins, og þær vitleysur sem þeir flækja sig út í og venjur. Og enn eru þeir mér "yrkisefni". Þeir geta nefnilega verið svolítið tregir. T.d. eru þeir svolítið hægir á sér með dýranöfnin, en þeir setja hljóðdýrsins, eins og maður skrifar það, fyrir framan nafnið á dýrinu (sjá lista hér fyrir neðan). Sennilega er þetta eldgömul hefð, sem gæti átt uppdrög sín langt áður en tungumálin fóru þróast, og mannskepnan notaðist við frumstæð hljóð til að hafa samskipti. Furðulegt að þessi hefð hafi ekki dáið út, þar sem svo margar aðrar mun yngri hefðir í dönsku máli hafa fallið úr gildi og jafnvel heilu orðin.
En hér kemur þessi listi yfir hin ýmsu dýranöfn á dönsku:

Bu-ko/Mu-ko
Vov-hund
Pip-fugl
Mæh-lam
Pruh-hest
Øf-gris
Brumbasse (Humlebi)

Taka vil ég fram, að svínin í Danmörku segja "øf" (ísl.framb. "uf"). Síðasta orðið er ekki samansett orð eins og hin (hljóð+dýrategund) heldur er þett hljóð+útlistlýsing. Orðið "basse" er oft notað í samhenginu grissebasse (tillaga að þýðingu: gríshlunkur). Og orðið "brum" þýðir í rauninni suð, eða stöðugt hljóð. Það er líka notað yfir það fólk sem ekki geta haldið laglínu, heldur syngja bara allt á einum tóni, "en brummer".

Já, það er margt skrýtið í danskhausnum.

p.s. ég er ennþá að reyna að innleiða hið frábæra "danska" orð "ameloså" í danska tungu. Þeir eru ekkert sérlega viljugir að taka inn nýyrði hérna, en ég reyni.

10.7.07


Samið í Siena
Eins og þið hafið lesið, þá var tilgangur ferðarinnar sá að stúlkurnar fóru til að læra ítölsku. Til þess fer maður t.d. í ítölskuskóla. Það var einmitt einn slíkur í Siena, og skóli þessi bauð upp á 3. vikna námskeið sem þær tóku. Þær voru í skólanum frá kl.8.30 til kl.13.
Á meðan að stúlkurnar sátu sveittar á skólabekk við að beygja ítalskar sagnir og tala ítölsku við skólafélagana, sem voru frá öllum heimshornum á ýmsu aldri, þá sat ég í eldhúsi íbúðarinnar sem við leigðum á meðan dvöl okkar í Siena stóð, og samdi tónlist.

Bregðum okkur til Árósa, á því herrans ári 2004.

Þar var tónskáld, enn í námi, sem vill semja tónlist fyrir hljóðfæri sem hann hefur aldrei samið áður fyrir, og hann vill semja músík sem er algjörlega ólík öllu öðru sem hann hefur samið. Eitthvað splunkunýtt, eitthvað dularfullt, eitthvað sem hann gerir sér litla grein fyrir hvernig það muni hljóma.
Tónskáldið er ég sjálfur, og verkið sem fæddist heitir Morrk, skrifað fyrir 7 gítara og harmóníku.
Verkið var síðan frumflutt af nemendum skólans (Det Jyske Musikkonservatorium) og stjórnað af Martin S. Haugaard.
Martin þessi spilaði svo síðar við útskriftarpróf þessa sama tónskálds. Martin er duglegur gítaristi og góður tónlistarmaður.

Nokkrum árum síðar pantaði þessi sami gítarleikari nýtt verk af tónskáldinu, og mun verkið verða frumflutt á einleikaraprófi/tónleikum gítarleikarans.

Verkið heitir Rygvendt og er við texta Jens Sanderhoff.

Det er musik,
og dét er musik.
At se en blind pige stå med ryggen til en eng,
at se hende, mens hun folder hver eneste lyd op,
som var de alfabetets spurve. At se,
og at sønderdele billedet i en splintret flugt
over et landskab i mørke.
Det er musik,
en tanke, der danser med havet.
Inde i dette hav hænger hun, som en våd
og giftig engel, en spinkel tone,
der falder til ro, men bevæger sig
i en vægtløs og statisk koncert.
Det er musik,
og dét er musik.
At se med det blinde øje.
Et øjeblik. Et hav.

© Jens Sanderhoff

En aftur til Siena.
Ég þurfti að semja verk. Nú bara fyrir einn gítar og söngkonu. Það er nefnilega þannig að Martin þessi er einn helmingur af dúóinu For Two To Play, og hann vildi fá nýtt verk eftir mig.
Ég var kominn í tímaþröng. Verkið "Fangin augnablik" þurfti ég að klára áður en ég byrjaði á því nýja, svo þetta dróst svolítið. Svona er það þegar maður er í námi og með 3 kóra að stjórna. Öll tónskáld á Íslandi þekkja þetta vel. Maður getur ekki BARA verið tónskáld!
Þetta voru ljúfir dagar þarna í Siena. Ég samdi músík og eldaði mat. Yndislegt!
Verkið silaðist áfram, í ótakt við eldhús klukkuna. Klukkan gekk í 60 slögum á sekúndu, en músíkin í 67 slögum. Klukkan var fjarlægð.
En það sem gerði þessar tónsmíðar að enn meiri spennu, var að eftir að ég var búinn með einn hluta af verkinu, þá var hann hreinskrifaður ("under a Toscan sun"), skannaður inn hjá tölvukallinum súra, og sendur af stað til gítarleikarans. Heit músík beint í hendur hljóðfæraleikarans. Sem betur fer tók hann vel í þetta allt saman, og allt var spilanlegt.
Nú býð ég bara spenntur eftir tónleikunum, sem verða í lok september.

8.7.07


La Vita è bella
Í byrjun þessa árs hafði kærastan mín orð á því að henni langaði til þess að fara til Ítalíu og fara á ítölskunámskeið. Ég brást við eins og sannur karlmaður, og hugsaði ekki meira um þessa grillu í henni. Nokkrum mánuðum seinna var hún búin að bóka sig og vinkonu sína, Ullu, á 3 vikna ítölskunámskeið í þeirri mætu borg, Siena. Ég mátti koma með og leika Jeeves fyrir dömurnar.
Við lögðum 3 af stað í byrjun júní og komum heim í byrjun júlí. 3 vikur í Siena og 1 vika í Levanto, sem er lítið sjávarþorp á vesturströnd Ítalíu.
Þetta var frábær og viðburðarríkur mánuður sem við áttum á Ítalíu og næstu daga mun ég skrifa eitt og annað um það sem við upplifðum í lo Stivale.