15.5.07

Með gleðiraust
Margir samlanda minna, sem hafa verið í dönskum lýðháskóla (sem er ansi vinsælt fyrirbæri meðal táninga, sem vita ekki hvað þeir eiga að gera og vilja prófa sig áfram, og meðal eldri borgara, sem hafa ekkert að gera og vilja hafa eitthvað fyrir stafni) hafa komist að því að danir eru afar söngglaðir. Þeir syngja við ýmis tækifæri; skólasetnginu, skólaslit, útskriftir, afmæli, að morgni dags í skóla (morgunsöngur, tíðkaðist einnig víða á Íslandi), á fótboltaleikjum, við jólatréð og við brúðkaup, svo eitthvað sé nefnt.

En svo gæti ég skrifað ennþá meira um gæði þessa söngs og hvernig tónlistarval, tungumál og raddfyrirmyndir hafa eyðilagt ansi margar raddir í dönsku sönglífi. Sá pistill kemur jafnvel síðar.

Það er ekki nóg með að danir hafa sterka hefð fyrir því að syngja þeir hafa líka einhverja ótrúlega þörf fyrir að skrifa texta við ýmis lög, við hin ýmsu tækifæri, svokallaðir tækifæristextar. T.d. er það hefð í fermingarveislum að það sé skrifaður texti um fermingarbarnið, og svo er textanum dreift út við mikla athöfn. Textablaðið sjálft þarf nefnilega að hylja, og til þess er útbúinn sérstök textahlíf (sangskjuler). Svo liggur sportið í því að textahlífin hafi einhver tengsl við aðal áhugamál fermingarbarnsins. T.d. ef þú ert fótboltaáhugamaður, þá koma textarnir inn í salinn í fótbolta. Og ef margir hafa skrifað texta handa þér þá eru margskonar textahlífar.
Í fermingunni hennar Stinu, kærustu minnar, voru flestar textahlífarnar tengdar hestum. Í fermingu bróður hennar kom einn textinn inn í ölkassa.

En s.s. þetta á ekki bara við um fermingar. Danir skrifa svona texta til afmælis"barna" (afhverju er ekki til íslenskt nafn á fullorðna sem eiga afmæli? Danir segja "fødselar" sem á við um bæði kynin, á öllum aldri) til brúðhjóna osfrv.
En það sem danir hafa ekki fattað varðandi þessa texta, er að þeir eru ótrúlega sjaldan skemmtilegir. Ég man eftir einum sem var skemmtilegur. (Kannski man ég bara eftir honum því ég var með í að skrifa hann) Jan, sem er svili mömmu hennar Stinu, varð fimmtugur. Við skrifuðum texta handa honum þar sem við notuðum allar klisjurnar. Dæmi um klisju:

Det er dejligt at være inviteret til fest
og vi er her som gæst.
Det er sjovt at drikke og spise
og bagefter så skal vi fise.


(Þessi texti var skrifaður í þessu augnabliki af undirrituðum, og textinn hefur engan lagboða.)
Þetta er dæmigert fyrsta erindi í svona tækifæristexta.
En það sem gerði þennan texta, sem við skrifuðum til Jan, var að eitt versið var bara setningin "Ja nemlig Jan, ja nemlig Jan" og svo bara endurtekið jafnoft og lagið krafðist.

Þessir tækifæristextar eru jafnvel atvinnugrein hérna í Danmörku. Oft sér maður skilti við veginn, þegar maður er úti á landi að keyra, þar sem auglýst er að hérna sé hægt að kaupa tækifæristexta.

En það er ekki nóg með að danir séu ekki búnir að fatta að þessir textar séu í flestum tilvika ófyndnir, heldur hafa þeir ekki skilið að til að geta flutt þennan texta þá sé ákjósanlegt að einhver geti sungið í samkomunni sem textinn á að flytjast við.

Þar sem ég hef verið í nokkrum svona veislum, þar sem tækifæristextum hefur verið dreift út, og þar sem einhver annar hefur séð um "dinnermúsíkina" en ég sjálfur, þá er gerð sú krafa til hljóðfæraleikarans sem spilar við borðhaldið, að hann eigi að kunna öll þessi lög við alla þessa texta. Það krefst náttúrulega þess að maður sé ansi sjóaður í þessum bransa, og helst sé alinn upp í þessu landi, því þessi lög eru aldrei spiluð nema við svona tækifæri. (Við erum að tala um "kátir voru karlar" tónlistargreinina).
Þar sem að ég hef ekki verið í svo mörgum veislum hérna, né sé uppalinn í þessu landi, þá þekki ég náttúrulega ekki þessi lög öll sömul, og lendi því í vandræðum þegar ég sit sjálfur og spila dinnermúsík í þessum veislum, og fæ alla þessa texta algjörlega óundirbúinn. Þessvegna hef ég yfirleitt 2 all voldugar söngbækur með mér í svona "gigg". Ef lagið stendur í þeim þá er ég hólpinn. Ef ekki, þá er ég í djúpum skít.

Í brúðkaupsveislunni sem ég var að spila í um daginn, lenti ég svo í því að það kemur ein vel reykt og rám frænkan, og réttir mér textablað. Þar voru 7 ófyndin erindi um brúðarparið, við SJÖ mismunandi lagboða. Ég þekkti ekki einn einasta af þeim.
Því sagði ég bara hreint út "því miður ég þekki ekki þessi lög, þið verðið að syngja þau sjálf".
Textarnir sem voru leiðinlegir, urðu að vítiskvölum þegar fólk "hóf upp raust sína". Það var enginn, ENGINN, af þessum 70 sem voru í veislunni sem gat sungið.
Það fer ennþá hrollur um mig við tilhugsunina.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

quelle horreur! :o

Nafnlaus sagði...

Það er örugglega fjöldasöngur á hverjum degi í Helvíti...

Nafnlaus sagði...

Eigum við að stofna dúett sem mætir óboðinn í stórveislur, borðar vel og syngur svo eitthvað bölvað bull, illa og lengi áður en haldið er heim í félagsskap froskanna?

Stefán Arason sagði...

Stórgóð hugmynd þetta, Sigrún! Hvað gætum við kallað okkur? Brummerne? "Vi synger så dejli' dårligt" kvartetten...

Nafnlaus sagði...

Til að kóróna eymdina þá var ég í þrítugsafmæli á laugardaginn þar sem einmitt enginn gat sungið. Það tveir að byrja, hvor í sínum endanum á salnum og það var ekkert stoppað þó tvær laglínur væru í gangi, tvær tóntegundir eða tvö vers! Toppaðu það!

Stefán Arason sagði...

Æ Æ! Skúli, þetta verður seint toppað!