13.5.07


Kvakk
Í gær var ég að spila "suppe, steg, is" (dinnertónlist) í brúðkaupsveislu. Veislan var haldin á ansi stórum búgarði, með nokkrum sölum, þar sem önnur brúðhjón voru að halda sínar brúðkaupsveislur. Búgarðurinn lá c.a. 2km fyrir utan bæinn Hvalsø, sem er í c.a. 40 mín lestarferð fyrir utan Kaupmannahöfn. Ég nota lestina, og geng svo þann spöl sem ég á eftir að búgarðinum. Veðrið er fallegt, og náttúran í blóma. Loftið er hreint og gott. Fuglarnir syngja og afar fáir á ferli. Það er nú gott að komast út úr skarkala borgarinnar, við og við.
Ég byrja að spila kl.17.15 og spila þar til klukkan er orðin hálf ellefu. Þá pakka ég saman píanóinu, geng frá því að það verði keyrt til mín næsta dag, og hirði peningana mína. Allt gengur þetta vel.
Svo liggur leið mín inn í Hvalsø aftur til þess að ná í lestina.
Danir hafa engin vatnsföll til að virkja. Þeir hafa ekkert sérlega mikið af rafmagni, og eru ekkert að lýsa upp hvern einasta spotta. Það er mikið myrkur í Danmörku, sérílagi þegar það er mígandi rigning og svartur himinn. Sem betur fer hafði ég hjólalljósin til að lýsa mér leið, og sýna þeim örfáu sem keyrðu framhjá að það væri mannvera á ferð.
En það sem vakti athygli mína á þessum spotta, voru allir froskarnir sem voru á veginum. Froskum þykir greinilega rosalega gaman að spila rússneska-rúllettu, þegar það fer að rigna, og þeir hópast inn á malbikaðan veginn. Sumir höfðu tapað, og voru óttalega flatir eitthvað, en hinir voru ennþá með í spilinu, og héldu augum mínum á veginum, því það er eflaust ekkert gaman að stíga á frosk. Eða vera ástiginn froskur.

Engin ummæli: