28.5.07


Mr. Curly and the Roll On's Grand Oslo tour
Fyrr í vor/vetur var kóramót íslenskra kór erlendis haldið hér í Kaupmannahöfn. Um þetta kóramót skrifaði ég á sínum tíma. Á þessu móti var m.a. Ískórinn frá Osló. Það er bassahallæri í kórnum og þau vantaði líka meðleikara. Ég skaffaði þeim 2 bassa úr Stöku og svo sjálfan mig sem meðleikara.
Þeim líkaði svo þessi aðstoð að þau pöntuðu sama skammt á vortónleikana sína, sem voru svo haldnir síðasta laugardag í Osló. Tónleikaprógrammið hjá kórnum samanstóð af hinum og þessum dægurlögum.
Það var ekki nóg með að þau flugu inn 3 aðila frá Kaupmannahöfn til að vera með, heldur fengu þau til sín, frá Íslandi, kontrabassaleikarann Borgar og svo söngdívúna Diddú.

Tónleikarnir heppnuðust ágætlega. Ég spilaði til skiptis á píanó eða harmóníku, bæði þegar Diddú söng einsöng, og þegar kórinn söng, annaðhvort einn eða með Diddú. Ég hafði í nógu að snúast. Sem betur fer spilaði Borgar einnig með í flestum lögunum, svo það létti aðeins á mér.

Íbúðin sem við bjuggum í var eitthvað sem ég gleymi aldrei, eða öllu heldur útsýninu úr henni. Íbúðin var á 8. hæð og með útsýni yfir Osló. Íbúðin var einnig búin prýðindis svölum. Það voru engar gardínur í íbúðinni, né myndir á veggjum, svo það var bara Osló sem maður hafði fyrir augum sér. Ótrúlega flott að sofna með þessa fallegu borg innrammaða fyrir framan sig, og svo vakna við sólbaðaða Osló. Fallegt.

Við félagarnir í bandinu "Mr. Curly and the Roll On´s" höfum hérmeð ákveðið að bjóða upp á svona þjónustu um allan heim. Þið bara hringið ef ykkur vantar söngmenn í kórinn ykkar.

22.5.07


Svinet er landet
Þessa fyrirsögn sá ég á risastóru auglýsingaskilti um daginn. Meðfylgjandi mynd var af teiknuðu svíni, sem var í fallhíf.
Þrátt fyrir myndina þótti mér fyrirsögnin virka tvímælis. Svínið er lent, eða svínið er landið. Hið síðarnefnda er nefnilega töluvert rétt.
Í gegnum aldirnar hafa danir haft mikla svínarækt, og þeir elska svínakjöt. Jólin eru ein stór svínahátíð. Og að sjálfsögðu nýta þeir allt svínið. Þeir borða besta kjötið, í einhverskonar mynd. Þeir taka heilmikið af fitunni, ásamt smá kjöti, troða því upp í hreinsaða þarma svínsin, reykja, og kalla svo spægipylsu. Þeir búa til svínasultu, sennilega úr kjötinu á hausnum á þeim. Ég hef séð svínahala liggja í kælinum í stórmörkuðum. Hef ekki hugmynd um hvað þeir gera við hann. Þeir þurrka eyrun og selja sem hundamat. Og svo til að kóróna nýtnina, þá taka þeir húðina af svíninu, ásamt tilheyrandi fitu, skera hana í strimla og sjóða aðeins. Þarnæst er vatnið síað frá og húðinni blandað við mikið magn af salti. Þá er þetta sett inn í ofn og steikt við háan hita í 25 mínútur. Eftir það er fitan aðeins látin drippa af, og værsgo! þú ert kominn með flæskesvær, sem er einskonar snakk. Bragðast ágælega, er ógeðslega feitt (jú er bara söltuð svínafita), og er vinsælt á meðal þeirra sem eru fastakúnnar á einhverri kránni. Sumir fá sér flæskesvær í staðinn fyrir salthnetur, með bjórnum.
Gaman að þessum dönum.

Í gær fór ég í söngpróf í skólanum mínum, kirkjutónlistarskóli Sjálands. Ég hef ekki fengið neina kennslu frá þeim í söng, þar sem ég sagðist hafa ágætis söngkennara hérna heima (Stina er með söngkennarapróf). Ég nýtti mér þann lúxus að sjálfsögðu bara einu sinni, en það hlýtur að hafa haft svona líka fínan árangur, því ég stóðst prófið með glans. Prófdómarinn sagði, mest í djóki, að þetta próf mitt væri skömm fyrir skólann, því það sannaði að maður þyrfti ekki að fá kennslu í fögunum, til að ná prófunum.

15.5.07

Með gleðiraust
Margir samlanda minna, sem hafa verið í dönskum lýðháskóla (sem er ansi vinsælt fyrirbæri meðal táninga, sem vita ekki hvað þeir eiga að gera og vilja prófa sig áfram, og meðal eldri borgara, sem hafa ekkert að gera og vilja hafa eitthvað fyrir stafni) hafa komist að því að danir eru afar söngglaðir. Þeir syngja við ýmis tækifæri; skólasetnginu, skólaslit, útskriftir, afmæli, að morgni dags í skóla (morgunsöngur, tíðkaðist einnig víða á Íslandi), á fótboltaleikjum, við jólatréð og við brúðkaup, svo eitthvað sé nefnt.

En svo gæti ég skrifað ennþá meira um gæði þessa söngs og hvernig tónlistarval, tungumál og raddfyrirmyndir hafa eyðilagt ansi margar raddir í dönsku sönglífi. Sá pistill kemur jafnvel síðar.

Það er ekki nóg með að danir hafa sterka hefð fyrir því að syngja þeir hafa líka einhverja ótrúlega þörf fyrir að skrifa texta við ýmis lög, við hin ýmsu tækifæri, svokallaðir tækifæristextar. T.d. er það hefð í fermingarveislum að það sé skrifaður texti um fermingarbarnið, og svo er textanum dreift út við mikla athöfn. Textablaðið sjálft þarf nefnilega að hylja, og til þess er útbúinn sérstök textahlíf (sangskjuler). Svo liggur sportið í því að textahlífin hafi einhver tengsl við aðal áhugamál fermingarbarnsins. T.d. ef þú ert fótboltaáhugamaður, þá koma textarnir inn í salinn í fótbolta. Og ef margir hafa skrifað texta handa þér þá eru margskonar textahlífar.
Í fermingunni hennar Stinu, kærustu minnar, voru flestar textahlífarnar tengdar hestum. Í fermingu bróður hennar kom einn textinn inn í ölkassa.

En s.s. þetta á ekki bara við um fermingar. Danir skrifa svona texta til afmælis"barna" (afhverju er ekki til íslenskt nafn á fullorðna sem eiga afmæli? Danir segja "fødselar" sem á við um bæði kynin, á öllum aldri) til brúðhjóna osfrv.
En það sem danir hafa ekki fattað varðandi þessa texta, er að þeir eru ótrúlega sjaldan skemmtilegir. Ég man eftir einum sem var skemmtilegur. (Kannski man ég bara eftir honum því ég var með í að skrifa hann) Jan, sem er svili mömmu hennar Stinu, varð fimmtugur. Við skrifuðum texta handa honum þar sem við notuðum allar klisjurnar. Dæmi um klisju:

Det er dejligt at være inviteret til fest
og vi er her som gæst.
Det er sjovt at drikke og spise
og bagefter så skal vi fise.


(Þessi texti var skrifaður í þessu augnabliki af undirrituðum, og textinn hefur engan lagboða.)
Þetta er dæmigert fyrsta erindi í svona tækifæristexta.
En það sem gerði þennan texta, sem við skrifuðum til Jan, var að eitt versið var bara setningin "Ja nemlig Jan, ja nemlig Jan" og svo bara endurtekið jafnoft og lagið krafðist.

Þessir tækifæristextar eru jafnvel atvinnugrein hérna í Danmörku. Oft sér maður skilti við veginn, þegar maður er úti á landi að keyra, þar sem auglýst er að hérna sé hægt að kaupa tækifæristexta.

En það er ekki nóg með að danir séu ekki búnir að fatta að þessir textar séu í flestum tilvika ófyndnir, heldur hafa þeir ekki skilið að til að geta flutt þennan texta þá sé ákjósanlegt að einhver geti sungið í samkomunni sem textinn á að flytjast við.

Þar sem ég hef verið í nokkrum svona veislum, þar sem tækifæristextum hefur verið dreift út, og þar sem einhver annar hefur séð um "dinnermúsíkina" en ég sjálfur, þá er gerð sú krafa til hljóðfæraleikarans sem spilar við borðhaldið, að hann eigi að kunna öll þessi lög við alla þessa texta. Það krefst náttúrulega þess að maður sé ansi sjóaður í þessum bransa, og helst sé alinn upp í þessu landi, því þessi lög eru aldrei spiluð nema við svona tækifæri. (Við erum að tala um "kátir voru karlar" tónlistargreinina).
Þar sem að ég hef ekki verið í svo mörgum veislum hérna, né sé uppalinn í þessu landi, þá þekki ég náttúrulega ekki þessi lög öll sömul, og lendi því í vandræðum þegar ég sit sjálfur og spila dinnermúsík í þessum veislum, og fæ alla þessa texta algjörlega óundirbúinn. Þessvegna hef ég yfirleitt 2 all voldugar söngbækur með mér í svona "gigg". Ef lagið stendur í þeim þá er ég hólpinn. Ef ekki, þá er ég í djúpum skít.

Í brúðkaupsveislunni sem ég var að spila í um daginn, lenti ég svo í því að það kemur ein vel reykt og rám frænkan, og réttir mér textablað. Þar voru 7 ófyndin erindi um brúðarparið, við SJÖ mismunandi lagboða. Ég þekkti ekki einn einasta af þeim.
Því sagði ég bara hreint út "því miður ég þekki ekki þessi lög, þið verðið að syngja þau sjálf".
Textarnir sem voru leiðinlegir, urðu að vítiskvölum þegar fólk "hóf upp raust sína". Það var enginn, ENGINN, af þessum 70 sem voru í veislunni sem gat sungið.
Það fer ennþá hrollur um mig við tilhugsunina.

13.5.07


Kvakk
Í gær var ég að spila "suppe, steg, is" (dinnertónlist) í brúðkaupsveislu. Veislan var haldin á ansi stórum búgarði, með nokkrum sölum, þar sem önnur brúðhjón voru að halda sínar brúðkaupsveislur. Búgarðurinn lá c.a. 2km fyrir utan bæinn Hvalsø, sem er í c.a. 40 mín lestarferð fyrir utan Kaupmannahöfn. Ég nota lestina, og geng svo þann spöl sem ég á eftir að búgarðinum. Veðrið er fallegt, og náttúran í blóma. Loftið er hreint og gott. Fuglarnir syngja og afar fáir á ferli. Það er nú gott að komast út úr skarkala borgarinnar, við og við.
Ég byrja að spila kl.17.15 og spila þar til klukkan er orðin hálf ellefu. Þá pakka ég saman píanóinu, geng frá því að það verði keyrt til mín næsta dag, og hirði peningana mína. Allt gengur þetta vel.
Svo liggur leið mín inn í Hvalsø aftur til þess að ná í lestina.
Danir hafa engin vatnsföll til að virkja. Þeir hafa ekkert sérlega mikið af rafmagni, og eru ekkert að lýsa upp hvern einasta spotta. Það er mikið myrkur í Danmörku, sérílagi þegar það er mígandi rigning og svartur himinn. Sem betur fer hafði ég hjólalljósin til að lýsa mér leið, og sýna þeim örfáu sem keyrðu framhjá að það væri mannvera á ferð.
En það sem vakti athygli mína á þessum spotta, voru allir froskarnir sem voru á veginum. Froskum þykir greinilega rosalega gaman að spila rússneska-rúllettu, þegar það fer að rigna, og þeir hópast inn á malbikaðan veginn. Sumir höfðu tapað, og voru óttalega flatir eitthvað, en hinir voru ennþá með í spilinu, og héldu augum mínum á veginum, því það er eflaust ekkert gaman að stíga á frosk. Eða vera ástiginn froskur.

7.5.07

Nýjir verkir
Þá er ég búinn að semja og skila af mér verkinu "FANGIN AUGNABLIK".
Þetta eru nokkrir örkaflar fyrir flautu, gítar og mezzosópran, pantað af tríóinu SAUM. Þau eru að fara á tónleikaferðalag um norðurlöndin, m.a. til Íslands, og vildu fá verk eftir mig með. Þau ætla að halda tónleika í Neskaupstað, mínum heimabæ.
Sökum þessa fannst mér upplagt að semja tónlist við ljóð eftir norðfirska ljóðskáldið Stefaníu G. Gísladóttur, oftast þó kennd við Seldal.
Spennandi að sjá hvort Norðfirðingar mæti á tónleikana. Nánari auglýsing kemur síðar.

1.5.07"Fram þjáðir menn í þúsund löndum..."
Eins og sjá má á þessari fallegu auglýsingu hér að ofan, heldur Staka tónleika í kvöld. Verið velkomin!