19.4.07


"Til Paris, til Paris, på ryggen af en gris..."
Já kæru lesendur, ég er nýkominn frá París.
Elsku kórinn minn, Staka, ákvað þegar þau sögðu bless við sinn gamla stjórnanda, hana Guðnýju Einarsdóttur, að þau skyldu nú heimsækja hana niður í París. Guðný er nefnilega organisti í dönsku kirkjunni í París þennan veturinn.
Við löggðum af stað á fimmtudaginn 12. apríl og komum fyrst heim á mánudaginn 16. apríl.
Þetta voru magnaðir dagar, við söng og leik í hitanum í París.
Það var unaðslegt að fara í "pikknikk" í Buttes Chaumont garðinum, með osta, brauð og pylsur, og sofna svo á teppinu. Veðrið var frábært. Heitt, en maður gat samt alveg verið úti í sólinni. Ég þurfti ekki að skríða áfram í skugganum eins og svo oft áður þegar ég hef verið í "heitu löndunum".
En það besta var að sjálfsögðu að halda tónleika. Mér finnst fátt eins skemmtilegt og að stjórna kórtónleikum. Að reyna að lokka allt fram úr fólkinu mínu sem það hefur að gefa, og færa það áfram til áheyrandanna er oft slungið. En það er einstök upplifun þegar það gengur upp.
Áheyrendur tóku okkur vel og var ágætlega sótt á tónleikana. Á fyrstu tónleikana okkar, sem voru á föstudagskvöldinu, komu sendiherra, Tómas Ingi Olrich, og frú á tónleikana. Komu og spjölluðu við okkur fyrir tónleikana og voru hin almennilegustu. Að öðru leiti sáum við sjálf um þessa ferð okkar, fyrir utan að sjálfsögðu hjálp frá Kristínu, Parísardömu, sem reddaði þessum fyrstu tónleikum okkar, og svo að sjálfsögðu Guðnýu sjálfri, sem reddaði tónleikum fyrir okkur á laugardeginum og svo í dönsku kirkjunni á sunnudeginum.

Mikið hlakka ég til næstu utanferðar með kórnum. Einstök stemmning að fara í svona ferð. Erfitt að útskýra það ef þið hafið ekki prófað. En ímyndið ykkur að hafa stóran hóp af fólki þar sem allir skemmta sér vel saman, og sameinast svo um að syngja á tónleikum. Orkuflæðið getur orðið ansi mikið!

Framundan er eitt stykki tónsmíð fyrir 1. maí, og svo tónleikar hérna í Kaupmannahöfn þann sama dag.

Engin ummæli: