27.4.07

Róbert bangsi
Þegar ég var krakki með hor, sat ég oft og hlustaði á plöturnar í plötusafni foreldra minna. Þau eiga merkilegt safn platna. Þetta eru plötur með karlakórum, jólamúsík, kristilegum söngvum, harmóníkutónlist og barnaplötur svo eitthvað sé nefnt.
Í þessu safni var platan Róbert bangsi í Leikfangalandi. Ég hlustaði mikið á þá plötu, og þótti sagan og lögin afar skemmtileg. Helgi Skúlason er sögumaður og Ruth Reginalds, þá barnastjarna, syngur Róbert. Einnig syngur Pálmi Gunnarsson á plötunni, og Helga Steinson, skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands, syngur í kórnum ásamt Helgu Möller ofl.
Lögin á þessari plötu er sum hver hrein snilld. Blásaraútsetningarnar eru einstaklega "grúví" og lagasmíðarnar almennt góðar.
Afhverju er ég að segja ykkur frá þessu?
Jú, þannig er mál með vexti að Böðvar Guðmundsson, rithöfundur, kíkti hérna við áðan. Hann hafði smá erindi við mig, og bauð ég honum að sjálfsögðu upp á kaffi. Umræðurnar komust eftir einhverjum krókaleiðum að plötunni Róbert bangsi í Leikfangalandi, að mínu frumkvæði. Þá spyr Böðvar hvort ég viti hver þýddi textana um Róbert. Það vissi ég nú ekki. "Hann situr hérna beint á móti þér" sagði Böðvar.
Skemmtileg tilviljun!
Sökum þessa læt ég flakka með smá brot úr þýðingum Böðvars.
Úr "Dýrakynning":
...Og ég er Geiri greifingi
og gaman þykir mér
er blómaangan blíð og góð,
hún berst að nefi mér.
Atjú, atjú, atjú "Guð hjálpi þér"...

Úr "Róber, Róbert bangsi":
...Allir spyrja alltaf hreint
af hverju ég sé sífellt kátur,
ég hef mönnum margoft sagt
að það sé miklu betra en sorg og grátur.

Úr "Annar tími á öðrum stað":
...Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt
svo dregur það vini að sér,
ég er öllum kær hvert sem liggur mín leið
þótt mér líki ekki hver sem er.

Úr "Vinur minn":
Vinur minn allan vanda kann að laga
Vinur minn góði alla sína daga
og ef við syngjum saman,
er sagt að öllum þyki gaman.
Ég vildi kenna flestum
að kynnast vini bestum,
ég vildi leiða ykkur
heim til hans.

Núna í haust kemur út ný bók eftir Böðvar, sem ég og þau sem voru á bókmenntakvöldi sumardaginn fyrsta í Jónshúsi hafa fengið að heyra úr. Það lofaði góðu sem Böðvar las upp. Einstaklega hnyttin frásögn. Því miður man ég ekki hvað bókin heitir, en fylgist bókaútgáfum í haust.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Oh! Ef ég hefði nú haft tækifæri til að hlusta á þessa plötu þá hefði æska mín verið miklu betri og ég ekki nærri því jafn bitur og andlega óstöðug og raun ber vitni.

Ég er sammála þér varðandi bókina hans Böðvars, hún lofar góðu. Heitir hún ekki ,,Sögur úr Síðunni"?

Stefán Arason sagði...

Ég held að þig minni rétt Sigrún, "Sögur úr Síðunni".