26.4.07


Nördaskapur
Ég er tónskáld. Ég skrifa nótur. Ég skrifa nótur á pappír og nota til þess blýant. Kallið mig gamaldags, en mér finnst þetta bara best enn sem komið er. Svo finnst mér líka gaman að skrifa nótur. Það má segja að áhugi minn á að skrifa nótur hafi verið kveikjan að því að byrja að semja músík. Kannski svolítið öfug hlutverkaröðun, en sama er mér.

En s.s. ég sem í "höndunum" og set svo raddskrána upp í tölvunni þegar ég er búinn að semja tónlistina. Mér finnst gaman að setja upp nóturnar og ég er afar smámunasamur í þeirri vinnu. Tryggvi Baldvins, tónskáld og öðlingur, kenndi mér ekki bara tónsmíðar, heldur einnig á nótnaskriftarforritið Finale. Ég nota það ennþá og það sem hann kenndi mér verð ég ævinlega þakklátur fyrir. Takk Tryggvi!

Ég elska að horfa á fallega raddskrá, þó sérstaklega handskrifaða raddskrá. Ef þið hafið aðgang í raddskrár eftir t.d. George Crumb, þá eru þær einar og sér listaverk. Handskrift Hafliða Hallgrímssonar er einnig afar falleg, bæði nótur og texti. Bent Sørensen hefur einnig mjög heillandi nótnaskrift. (Hann les helst ekki raddskrár af hans músík sem hafa verið tölvusettar.) Aftur á móti hefur Þorkell Sigurbjörnsson einstaklega...tja...klunnalega nótnaskrift. En maður lærir að elska hana með tímanum. Jón Nordal hefur einnig frekar erfiða handskrift, oft erfitt að átta sig á hvað hann er að meina. En maður fer að elska hana með tímanum. Svend Nielsen skrifar einstaklega töff nótur. Þær eru flottar í hráleika sínum.

En já, þessi ástríða mín á handskrifuðum nótum hefur leitt af sér ótrúlegan nördaskap varðandi skriffæri. Ég á t.d. Artline tússpenna í ýmsum breiddum, samt nota ég mjög sjaldan túss til að skrifa nótur. Einvörðungu þegar ég þarf að hreinrita í höndunum nota ég túss.
Aðalnördahátturinn er þó kringum blýantana. Ég hef komist að því að 0.7mm blýantar henta mjög vel, sér í lagi ef blýin eru B-mjúk, en ekki HB eins og maður fær með blýantnum þegar maður kaupir þá.
Ég hef einnig flakka töluvert á milli blýanta gerða, því þessir blýantar eiga það til að hverfa, eða eyðileggjast.
Þessa stundina er ég að skrifa á frekar litla nótnastrengi, svo ég varð að kaupa mér 0,5mm blýant. Hann er af gerðinni Pentel og týpan kallast GraphGear 500. Þið getið séð mynd af gripnum hér fyrir ofan. Ástæðan fyrir því að ég skrifa þetta netl er þessi blýantur. Ég er óskaplega hrifinn. Hann hefur þungan haus úr málmi svo hann liggur vel á blaðinu. Svo er hægt að taka bansetta klippuna af, sem maður notar ef blýanturinn á að vera í brjóstvasanum. Þessi klippa leggst illa í höndinga og er pirrandi, þannig að nú hefur hún verið fjarlægð. Svo er líka stórsniðugur fídus á þessum blýanti að maður getur stillt lokið, sem maður tekur af þegar setja á nýtt blý í blýantinn, þannig að hann sýnir hvaða týpa af blýi er í þetta skiptið í blýantnum.

Jæja, hverjir lásu þessa einstaklega skemmtilegu færslu á enda?

13 ummæli:

Hildigunnur sagði...

ég :-D

þó ég semji langoftast beint á tölvuna, sáröfunda ég þig af blýantinum. Og sammála með þessar klippur, kaupi ekki blýanta nema sé hægt að taka þær af.

Þorkell skrifar alveg flottar nótur, en það er hræðilega erfitt að lesa þær.

Svend Nielsen, er þetta ekki Svend Hvidtfelt Nielsen, er annað danskt tónskáld sem heitir þetta?

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir mig Stefán. Ég las vitaskuld allt til enda, því að þetta er einnig nokkurt áhugamál hjá mér, þ.e. nótnaskrift sem slík. Ég er sammála Hildigunni að nóturnar hans Þorkels eru flottar, en frágangurinn á verkum hans, einkum þeim stærri, er svo slæmur að ég tel að það standi kynningu á honum fyrir þrifum. Ég þurfti að hreinrita allt í Vín með tússi og var oft lengi að. Upp undir 3 vikur með eitt verk + partar. Ef maður gerði vitleysu var dregið upp rakvélarblað og villan skafin upp. Með þessum fornfálegu vinnubrögum lærði maður hins vegar nokkuð stabílt handbragð. Það nýttist síðan vel þegar maður skipti út í Finale.

Nafnlaus sagði...

Ég gleðst alltaf yfir því þegar fólk er heilt í sínum nördaskap og þú verður svo sannarlega ekki sakaður um annað ;o)

Nafnlaus sagði...

Getur verið að þú sért fæddur í meyjarmerkinu, Stefán?

Stefán Arason sagði...

Hildigunnur: Þeir eru tveir, Svend Nielsen og Svend Hvidfelt Nielsen. Ég þekki þó bara þann fyrrnefnda. Hann kenndi mér tónlistarsögu...einstaklega þægilegur kennari, en ótrúlega erfitt að halda sér vakandi í tímunum :-) Svend þessi á titil verkið á diskinum Livets Bro, þar sem "vísurnar" mínar, sem ég samdi handa ykkur í Hljómeyki, eru líka.

Tryggvi: mig langaði eiginlega mest að líkja nótunum hans Þorkels við Kim Larsen, sem er ljótur á afar heillandi hátt.
Já, ég man eftir að þú minntist á einhvern hreinritarann sem fór á taugum sökum álags í vinnunni...óhuggulegt að vera slappur á taugum og hafa rakvélarblað sem atvinnutæki :-)

Maður á að lifa sinn nördaskap út í ystu æsar.

Og nei Sigrún orgelstelpa, ég er fæddur í Krabbamerki...gerðu danir "bláamynd" sem bar sama nafn?

Stefán Arason sagði...

skyldi það koma mynd af mér með þessari innsetningu?

Nafnlaus sagði...

Ég er líka svona nótnaskriftarnörd. Ætli þetta sé bara ekki svona atvinnusjúkdómur?

Hins vegar er ég eiginlega hætt að handskrifa nema þegar ég er að byrja verk og þegar ég er föst einhvers staðar í tónsmíðagleðinni :( Sakna þess svolítið stundum að vera ekki handskrifandi daginn út og inn en það er bara svo ótrúlega miklu fljótlegra að gera þetta á Finaleð....

Nafnlaus sagði...

(og ég gleymdi að kvitta)
úbbs

Þóra Marteins

Nafnlaus sagði...

0.3 B - virkar vel fyrir mig, nota reyndar líka 0.5. Mér finnst 0.7 B klessast svo mikið - en það lítur voða flott út, ég notaði svoleiðis í langan tíma.
Á einmitt svona „nördablýanta“ sem kosta um 3000 krónur stykkið... þetta verður að vera rétt :)

Að skrifa nótur er góð skemmtun.

Að pikka nótur inn á tölvu er að mínu mati afskaplega leiðinlegt - en svona forréttinda leiðinlegt samt :)

Anna Þorvalds.

Nafnlaus sagði...

...og já, ég las allt... :)

Anna

Stefán Arason sagði...

0.3 myndi bara brotna á milli minna feitu pulsufingra.
Það sem mér finnst svo gott við tölvuppsetninguna, er að sú vinna er bara "vinna", sem er gott mótvægi við sköpunarvinnuna.

En til hamingju þið öll sem komust alla leið í gegnum...þið eruð stórfurðuleg öll sömul!

Nafnlaus sagði...

Mér finnst ég ekkert furðuleg! Ég las af miklum áhuga í gegnum þetta og fannst þetta ekki einu sinni langt. En ég ætla samt ekkert að hafa af þér nördaskapinn:)

Stefán Arason sagði...

Mér þótti bara svo ólíklegt að einhverjum þætti þetta gaman....