27.4.07


Það er komið sumar!
Í Danmörku er sumarið komið þegar maður getur keypt koldskål í búðinni.
Mmmm hvað hún er góð!
Róbert bangsi
Þegar ég var krakki með hor, sat ég oft og hlustaði á plöturnar í plötusafni foreldra minna. Þau eiga merkilegt safn platna. Þetta eru plötur með karlakórum, jólamúsík, kristilegum söngvum, harmóníkutónlist og barnaplötur svo eitthvað sé nefnt.
Í þessu safni var platan Róbert bangsi í Leikfangalandi. Ég hlustaði mikið á þá plötu, og þótti sagan og lögin afar skemmtileg. Helgi Skúlason er sögumaður og Ruth Reginalds, þá barnastjarna, syngur Róbert. Einnig syngur Pálmi Gunnarsson á plötunni, og Helga Steinson, skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands, syngur í kórnum ásamt Helgu Möller ofl.
Lögin á þessari plötu er sum hver hrein snilld. Blásaraútsetningarnar eru einstaklega "grúví" og lagasmíðarnar almennt góðar.
Afhverju er ég að segja ykkur frá þessu?
Jú, þannig er mál með vexti að Böðvar Guðmundsson, rithöfundur, kíkti hérna við áðan. Hann hafði smá erindi við mig, og bauð ég honum að sjálfsögðu upp á kaffi. Umræðurnar komust eftir einhverjum krókaleiðum að plötunni Róbert bangsi í Leikfangalandi, að mínu frumkvæði. Þá spyr Böðvar hvort ég viti hver þýddi textana um Róbert. Það vissi ég nú ekki. "Hann situr hérna beint á móti þér" sagði Böðvar.
Skemmtileg tilviljun!
Sökum þessa læt ég flakka með smá brot úr þýðingum Böðvars.
Úr "Dýrakynning":
...Og ég er Geiri greifingi
og gaman þykir mér
er blómaangan blíð og góð,
hún berst að nefi mér.
Atjú, atjú, atjú "Guð hjálpi þér"...

Úr "Róber, Róbert bangsi":
...Allir spyrja alltaf hreint
af hverju ég sé sífellt kátur,
ég hef mönnum margoft sagt
að það sé miklu betra en sorg og grátur.

Úr "Annar tími á öðrum stað":
...Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt
svo dregur það vini að sér,
ég er öllum kær hvert sem liggur mín leið
þótt mér líki ekki hver sem er.

Úr "Vinur minn":
Vinur minn allan vanda kann að laga
Vinur minn góði alla sína daga
og ef við syngjum saman,
er sagt að öllum þyki gaman.
Ég vildi kenna flestum
að kynnast vini bestum,
ég vildi leiða ykkur
heim til hans.

Núna í haust kemur út ný bók eftir Böðvar, sem ég og þau sem voru á bókmenntakvöldi sumardaginn fyrsta í Jónshúsi hafa fengið að heyra úr. Það lofaði góðu sem Böðvar las upp. Einstaklega hnyttin frásögn. Því miður man ég ekki hvað bókin heitir, en fylgist bókaútgáfum í haust.

26.4.07


Nördaskapur
Ég er tónskáld. Ég skrifa nótur. Ég skrifa nótur á pappír og nota til þess blýant. Kallið mig gamaldags, en mér finnst þetta bara best enn sem komið er. Svo finnst mér líka gaman að skrifa nótur. Það má segja að áhugi minn á að skrifa nótur hafi verið kveikjan að því að byrja að semja músík. Kannski svolítið öfug hlutverkaröðun, en sama er mér.

En s.s. ég sem í "höndunum" og set svo raddskrána upp í tölvunni þegar ég er búinn að semja tónlistina. Mér finnst gaman að setja upp nóturnar og ég er afar smámunasamur í þeirri vinnu. Tryggvi Baldvins, tónskáld og öðlingur, kenndi mér ekki bara tónsmíðar, heldur einnig á nótnaskriftarforritið Finale. Ég nota það ennþá og það sem hann kenndi mér verð ég ævinlega þakklátur fyrir. Takk Tryggvi!

Ég elska að horfa á fallega raddskrá, þó sérstaklega handskrifaða raddskrá. Ef þið hafið aðgang í raddskrár eftir t.d. George Crumb, þá eru þær einar og sér listaverk. Handskrift Hafliða Hallgrímssonar er einnig afar falleg, bæði nótur og texti. Bent Sørensen hefur einnig mjög heillandi nótnaskrift. (Hann les helst ekki raddskrár af hans músík sem hafa verið tölvusettar.) Aftur á móti hefur Þorkell Sigurbjörnsson einstaklega...tja...klunnalega nótnaskrift. En maður lærir að elska hana með tímanum. Jón Nordal hefur einnig frekar erfiða handskrift, oft erfitt að átta sig á hvað hann er að meina. En maður fer að elska hana með tímanum. Svend Nielsen skrifar einstaklega töff nótur. Þær eru flottar í hráleika sínum.

En já, þessi ástríða mín á handskrifuðum nótum hefur leitt af sér ótrúlegan nördaskap varðandi skriffæri. Ég á t.d. Artline tússpenna í ýmsum breiddum, samt nota ég mjög sjaldan túss til að skrifa nótur. Einvörðungu þegar ég þarf að hreinrita í höndunum nota ég túss.
Aðalnördahátturinn er þó kringum blýantana. Ég hef komist að því að 0.7mm blýantar henta mjög vel, sér í lagi ef blýin eru B-mjúk, en ekki HB eins og maður fær með blýantnum þegar maður kaupir þá.
Ég hef einnig flakka töluvert á milli blýanta gerða, því þessir blýantar eiga það til að hverfa, eða eyðileggjast.
Þessa stundina er ég að skrifa á frekar litla nótnastrengi, svo ég varð að kaupa mér 0,5mm blýant. Hann er af gerðinni Pentel og týpan kallast GraphGear 500. Þið getið séð mynd af gripnum hér fyrir ofan. Ástæðan fyrir því að ég skrifa þetta netl er þessi blýantur. Ég er óskaplega hrifinn. Hann hefur þungan haus úr málmi svo hann liggur vel á blaðinu. Svo er hægt að taka bansetta klippuna af, sem maður notar ef blýanturinn á að vera í brjóstvasanum. Þessi klippa leggst illa í höndinga og er pirrandi, þannig að nú hefur hún verið fjarlægð. Svo er líka stórsniðugur fídus á þessum blýanti að maður getur stillt lokið, sem maður tekur af þegar setja á nýtt blý í blýantinn, þannig að hann sýnir hvaða týpa af blýi er í þetta skiptið í blýantnum.

Jæja, hverjir lásu þessa einstaklega skemmtilegu færslu á enda?

21.4.07

Nútíminn er trunta
Ég fór á smá YouTube tripp áðan og skoðaði ýmis myndbönd með gömlum og góðum hljómsveitum. Þar ber að nefna Queen, Deep Purple, Focus, E.L.P, Saga ofl.
En ég bara varð að sýna ykkur þetta myndband með Gentle Giants. Ég náði aldrei að verða eitthvað hugfanginn af þeim, en bróðir minn hlustaði töluvert á risana, og ég hreifst af plötuumslögunum þeirra.
Þegar ég horfði á þetta myndband þá fór ég að velta því fyrir mér hversu langt þeir myndu eiginlega ná í Idol, Rockstar og hvað allar þessar keppnir nú heita. Þeir eru nefnilega ekkert sérstaklega hæfileikaríkir miðað við stjörnur dagsins í dag...
Ath. þið verðið að sjá allt myndbandið!

19.4.07


"Til Paris, til Paris, på ryggen af en gris..."
Já kæru lesendur, ég er nýkominn frá París.
Elsku kórinn minn, Staka, ákvað þegar þau sögðu bless við sinn gamla stjórnanda, hana Guðnýju Einarsdóttur, að þau skyldu nú heimsækja hana niður í París. Guðný er nefnilega organisti í dönsku kirkjunni í París þennan veturinn.
Við löggðum af stað á fimmtudaginn 12. apríl og komum fyrst heim á mánudaginn 16. apríl.
Þetta voru magnaðir dagar, við söng og leik í hitanum í París.
Það var unaðslegt að fara í "pikknikk" í Buttes Chaumont garðinum, með osta, brauð og pylsur, og sofna svo á teppinu. Veðrið var frábært. Heitt, en maður gat samt alveg verið úti í sólinni. Ég þurfti ekki að skríða áfram í skugganum eins og svo oft áður þegar ég hef verið í "heitu löndunum".
En það besta var að sjálfsögðu að halda tónleika. Mér finnst fátt eins skemmtilegt og að stjórna kórtónleikum. Að reyna að lokka allt fram úr fólkinu mínu sem það hefur að gefa, og færa það áfram til áheyrandanna er oft slungið. En það er einstök upplifun þegar það gengur upp.
Áheyrendur tóku okkur vel og var ágætlega sótt á tónleikana. Á fyrstu tónleikana okkar, sem voru á föstudagskvöldinu, komu sendiherra, Tómas Ingi Olrich, og frú á tónleikana. Komu og spjölluðu við okkur fyrir tónleikana og voru hin almennilegustu. Að öðru leiti sáum við sjálf um þessa ferð okkar, fyrir utan að sjálfsögðu hjálp frá Kristínu, Parísardömu, sem reddaði þessum fyrstu tónleikum okkar, og svo að sjálfsögðu Guðnýu sjálfri, sem reddaði tónleikum fyrir okkur á laugardeginum og svo í dönsku kirkjunni á sunnudeginum.

Mikið hlakka ég til næstu utanferðar með kórnum. Einstök stemmning að fara í svona ferð. Erfitt að útskýra það ef þið hafið ekki prófað. En ímyndið ykkur að hafa stóran hóp af fólki þar sem allir skemmta sér vel saman, og sameinast svo um að syngja á tónleikum. Orkuflæðið getur orðið ansi mikið!

Framundan er eitt stykki tónsmíð fyrir 1. maí, og svo tónleikar hérna í Kaupmannahöfn þann sama dag.

1.4.07


Apríl göbb
Er orðið "gubb" (það sem maður ælir) borið fram "göbb" ef maður er flámæltur?

Ég nenni ekki að gabba ykkur í dag, þannig að þið megið bara velja aprílgabb dagsins úr eftirfarandi staðreyndum. Ath. það er einvörðungu eitt gabb í eftirfarandi lista.

a) Í dag mun ég syngja Jóhannesarpassíuna, þó ekki aleinn.
b) Í dag mun ég stjórna flutningi á Jóhannesarpassíunni e. J.S. Bach.
c) Í dag var búið að koma fyrir stórum elgshaus, í predikunarstólnum, í kirkjunni sem ég syng í.

Njótið dagsins. Vonandi er vorið eins fallegt hjá ykkur og það er hjá mér.