14.3.07


Ástkæra ylhýra málið
Það er illa fyrir mér komið. Íslenskan mín er á leiðinni í hundana. Sennilega hafa þeir verið að japla á henni lengi.
Ég hef alltaf átt erfitt með að koma sæmilega heilum setningum útúr mér. Yfirleitt byrja ég á að segja eitthvað, en svo fatta ég að viðmælandinn skilur ekki baun hvað ég er að tala um, því ég var ekki búinn að kynna efnið nægjanlega. Þá fer ég að útskýra það sem ég hefði kannski bara átt að segja fyrst, og allt fer í flækju. Það eru eiginlega bara tveir menn sem "skilja" mig. Það Daníel bróðir minn og Hugi Þórðarsson.
En nú er ég mun verra staddur en áður.
Þetta byrjaði allt saman þegar ég fluttist til Danmerkur. Til að byrja með talaði ég ensku í skólanum, og í búðum oþh. Ég nennti ekki að standa lengi í því rugli, og fór að tala dönsku eftir 3 mánuði. "Fór að tala dönsku"...hmm...nei ég fór að reyna að tala dönsku. En einhverntímann verður allt fyrst, og ég steig í marga pyttina. Flestar villurnar voru náttúrulega sökum lélegs framburðar.
En svo þegar danskan fór að vera mér þjálli, þá fór enskan að hverfa hægt og bítandi. Ef ég á að tala ensku í dag, þá byrja ég að hika og stama og sletti með dönsku.
Næsta skref í átt að hundunum var að ég fór að blanda dönsku og íslensku saman ef ég var að tala íslensku. Þetta var sérstaklega slæmt ef ég var umkringdur dönum og íslendingum og þurfti að skipta mikið á milli tungumálanna.
Núna er það þannig að ég tala íslensku, með dönskum slettum, og setningaskipan er orðin dönsk. Meira að segja orðin sem ég nota eru íslenskuð dönsk orð.
Hér kemur smá dæmi:
Í dag var ég staddur í Jónshúsi. Ég þurfti að komast inn í salinn, og hringi því í Jón, forstöðumanns Jónshúss, og bið hann um "að læsa mig inn í salinn". Jón kom niður og opnaði fyrir mig inn í salinn og við fórum að spjalla um heima og geima, eins og svo oft gerist þegar við hittumst. Undir lok samtals okkar þá benti Jón mér á að það kallaðist "að opna fyrir sig salinn" en ekki "læsa sig inn í salinn".
Ég þarf að taka mér góða törn í Laxness fljótlega.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Einu sinni þótti það nú fínt að slett a dönsku og það gerðu ekki nema sigldir menn og höfðingjar. Þú skalt því ekki hafa neinar áhyggjur.

Og gaman að því að umsjónarmaður Jónshúss skuli heita Jón.

Kveðja; Daníel.

Stefán Arason sagði...

Ég hef nefnilega áhyggjur, því þetta er aðeins meira ein góðlátlegar slettur. Íslenskan er nefnilega farin að verða mér snúnari en danskan, og ég veit hversu slæmt þetta getur orðið. Hef heyrt um gamla íslendinga sem hafa búið hérna í DK lengi, og þeir eru algjörlega búnir að tapa málinu.

Já, það er skondið að Jón passar upp á hús nafna síns.

Þóra sagði...

hahahahaha..... ekki stressa þig of mikið á þessu. Ég geri þetta meira að segja stundum ennþá. Vertu bara duglegur að lesa á íslensku þá ætti hún að rifjast upp fyrir þér ;-)

Stefán Arason sagði...

Tónskáld er væntalega Hildigunnur, ekki satt? En já, það er ætlun mín að byrja að lesa meira á íslensku. Svo vinn ég líka í að tala aðeins hægar :-)

Þóra sagði...

Nei. Þóra Marteins. Næsti bær við ;-)