30.3.07

Vorið góða, grænt og...
...hlýtt?

Trén eru í óða önn við að klæða sig í ljósgræna jogginggallan og gera sig klár til að hlaupa út í sumarið.
Nema trén sem eru farin að blómstra bleikum blómum. Ég man ekki hvað þau heita, en mikið eru þau nú falleg.
Ég gæði mér á kalamata ólífum og sýp á indælu hvítvíni.
Það eru yndislegir tímar framundan.

25.3.07


Útlendingar mergsjúga danska ríkiskassann!
Já, þetta er sláandi fyrirsögn. En þessi iðja hefur lengi verið í heiðrum höfð. Danir eru bara svo gjafmild þjóð.
T.d. kom ég hingað fyrir 6 árum (shit! eru þau virkilega orðin svona mörg...) og fór beint inn í danskan ríkisrekin skóla. Ég þurfti ekki, frekar en aðrir nemendur, að borga skólagjöld. Ég er þakklátur og hef í hyggju, og er þegar byrjaður á, að borga minn skatt til danaveldis.
En vindum okkur að aðalefninu.
Hér í borg er ríkisrekinn skóli, sem menntar fólk í óperusöng. Skóli þessi heitir því frumlega nafni Opera Akademiet (óperu akademían, skammstafað héreftir OA). Skóli þessi er til húsa í nýju óperunni hans Maersk, úti á Hólma, og að hluta til í Konservatoriet.
Undanfarna daga hefur verið töluverð umfjöllun um þennan merka skóla, því það eru afar fáir danir í þessum skóla. En aftur á móti er hann fullur af norðmönnum og svíjum. Norðmenn eiga 50% nemenda fjölda í OA. Þessi tölfræði vakti áhuga norðmanna og norska sjónvarpið, NRK1, kom hingað til að kanna þetta mál, og fjallaðu um þetta í fréttum í sínu heimalandi.
Nú spyrjið þið sennilega, hversvegna það eru svona fáir danir í skólanum. Því er erfitt að svara, en eru margar kenningar á lofti. Sennilega er þetta bara sambland af mörgu. Ein kenningin er á þá leið að danir séu búnir að missa söngmenninguna niður á eitthvað lágkúrulegt popp-plan, þar sem allir eiga að vera í einhverju Singstar, Idol, Scenen er din osfrv. sem snýst um allt annað en að syngja (meira að vera "sérstakur" sem þessir keppendur náttúrulega fæstir eru). Önnur kenning er að sönguppeldi í skólum sé lélegt. Sú þriðja snýst um að danir eru svo mikið jafnréttisfólk, að allir eiga að vera jafnir svo ótrúlega jafnir að loksins þegar einhver sýnir hæfileika í einhverju, þá sé reynt að gera sem minnst úr því, og alls ekki hampa viðkomandi, og fleyta honum áfram á hærra svið. Þetta einkennir líka íþróttalífið hef ég heyrt. Allir eiga að hafa rétt á að vera með. Fjórða kenningin er á þá leið að danska tungumálið sé svo flatt, og valdi miklum tæknilegum vandræðum þegar fara á að syngja (þeas. í "klassískum" eða óperu söng). Þeas. danskir söngvarar þurfi að hafa meira fyrir söngtækninni en þeir söngvarar sem hafa hin "syngjandi" tungumál (norska, sænska, ítalska ofl.) sem móðurmál.
Þetta er sennilega allt saman gott og gilt. Hrærum öllum þessum kenningum saman, og þú ert komin með svarið.
Því færi ég ykkur stolltur þær fréttir, að eini danski nemandinn í OA á næsta ári, og þá meina ég eini danski nemandinn af öllum 3 árgöngunum, er kærastan mín. Hún mun hefja nám í OA næsta vetur, ásamt hinum 6 sem voru valin af c.a. 80 umsækjendum.
Þetta þýðir að við munum að öllum líkindum eiga heima í Kaupmannahöfn næstu 3 árin og að jafnvel munuð þið eiga það á "hættu" að rekast á nafn Stinu í hlutverkalista Konunglegu Óperunnar í Kaupmannahöfn.
Á myndinni hér að ofan er hin umrædda danska söngkona að heilla lýðinn, ásamt forsöngvara dönsku hljómsveitarinnar TV2.

20.3.07

Sjokk
Ég er nýbyrjaður í ræktinni. Það er voða gott. Gott að lyfta lóðum. Maður fyllist af orku og þægilegheitum.

Í gær var ég svo í ræktinni, og var nýbúinn með prógrammið mitt, og var að teygja á mjólkursýruþöndum vöðvunum. Tók ég þá eftir stúlku einni, í hvítum jogginggalla. Það var eitthvað skrýtið við þessa stelpu. Ég þurfti allaveganna aðeins að virða hana fyrir mér ég meðan ég teygi á. Hún var svolítið sjúskuð. Hún var úfin, en þó með tagl, og húðin var svona innilega fölgrá (ekki innilega heldur inni-í-húsi-lega).
Ég velti þessu ekki meira fyrir mér og fer í bað.
Það er gott að fara í bað í ræktinni minni. Svo er líka sauna þar. Algjör lúxus í þessu landi.
Ég þvæ mér í framan, og þegar ég er að skola sápuna úr andlitinu og opna augun þá bregður mér ekkert lítið. "Stelpan" gengur inni í baðklefann, og "hún" er allt öðrum græjum búin en ég átti von á. Aftur varð ég að virða "hana" fyrir mér, svona til að átta mig.
"Furðulegur kaupfélagsstjóri!"

19.3.07


Kóramót
Á laugardaginn var kóramót íslenskra kóra í útlöndum. Kórarnir 3 hér í Kaupmannahöfn (Kvennakórinn, Kirkjukórinn og Staka) voru gestgjafar. Alls voru kórarni 9 sem tóku þátt, hátt í 150 manns.
Dagurinn var frábær í alla staði.
Um morgunin æfðum við þau lög sem kórarnir áttu að syngja sameiginlega, og eftir hádegismat sem kom frá Noma (veitingastaður með 2 Michelin stjörnur), æfði hver kór fyrir sig í kirkjunni þar sem tónleikarnir voru síðan haldnir kl.17.
Allt gekk þetta afar smurt fyrir sig, enda var búið að skipuleggja mótið vel.
Tónleikarnir voru þannig uppbyggðir að hver kór söng sitt prógram og svo sungu allir kórarnir saman undir lokin. Tónleikarnir enduðu svo á þjóðsöngnum, þar sem ég var þess heiðurs aðnjótandi að fá að stjórna honum. Það er upplifun að stjórna 150 manna kór, skipaður íslendingum sem búa í útlöndum, að syngja Lofsönginn.
Eftir tónleikana var svo heilmikil veisla, með góðum mat og drykk, og þeirri bestu dansmúsík sem ég hef dansað við lengi. "Dagurinn" endaði svo kl.04.30.
Sunnudeginum eyddi ég svo á kóræfingu, þar sem Jóhannesar Passían var æfð.
Ég var oggulítið þreyttur í gærkvöldi.

15.3.07


Eldri systkini
Að eiga systkini er góð skemmtun.
Að eiga eldri systkini eru forréttindi. Þeirra forréttinda er ég svo gæfulegur að njóta.
Afhverju eru það forréttindi? Jú, sjáðu til, þau eru mikilvægur liður í að móta þá braut þú velur þér í lífinu, alveg eins og foreldrar og aðrir nákomnir. Þau geta hjálpað þér með skólaval, námsval, fyrstu alvöru ástina, fyrsta fylleríið, að skilja foreldrana osfrv.
Ég er svo heppin að vera yngstur í mínum systkinahópi. Bróðir minn Daníel er elstur, svo kemur Svanhvít og svo kem ég sem örverpi.
Systkini mín hafa mótað mig á marga vegu, en eitt er það þó sem þau hafa komið hvað mótað mest, en það er tónlistarþekking mín.
Nú erum við að tala um popptónlist aðallega. Og þá aðallega popptónlist frá 9.áratugnum.
Það er sökum þeirra að ég þekki allar Queen plöturnar ansi vel, og að ég geti raulað fyrstu frasana í trommusólóinu á SAGA "live transit" plötunni, að ég söng fullum hálsi með laginu "Be Good Johnny" með ástralska bandinu Men at Work. Það er einnig þeim að þakka að ég þekki skemmtileg tóntegundaskipti hjá Nick Kershaw og veit hvað forsöngvari Duran Duran heitir. Svona má lengi telja.
En það er eitt sem ég náði ekki að smitast af þeim, fyrr en nú, en það er áhugi á tónlist Kate Bush. Bróðir minn hlustaði mikið á Bush á sínum tíma, og átti diska með henni og videospólur. Ég fattaði alls ekki þessa músík, eða öllu heldur höfðaði hún ekki til mín. Var sennilega of "mjúk".
Kate Bush er merkilegt fyrirbæri í poppsögunni, og sögu hennar ætla ég ekki að rekja hér. En aftur á móti þá keypti ég nýjustu plötuna hennar um daginn, sem eru í rauninni 2 skífur, og ég er algjörlega heillaður. Frábær plata. Platan er afar frumleg og margar stórsniðugar hugmyndir á henni, bæði hljóðlegar og textalega.
Því mæli ég eindregið með því að þið fjárfestið í plötunni, sem ber nafnið Aerial og kom út 2005.

14.3.07


Ástkæra ylhýra málið
Það er illa fyrir mér komið. Íslenskan mín er á leiðinni í hundana. Sennilega hafa þeir verið að japla á henni lengi.
Ég hef alltaf átt erfitt með að koma sæmilega heilum setningum útúr mér. Yfirleitt byrja ég á að segja eitthvað, en svo fatta ég að viðmælandinn skilur ekki baun hvað ég er að tala um, því ég var ekki búinn að kynna efnið nægjanlega. Þá fer ég að útskýra það sem ég hefði kannski bara átt að segja fyrst, og allt fer í flækju. Það eru eiginlega bara tveir menn sem "skilja" mig. Það Daníel bróðir minn og Hugi Þórðarsson.
En nú er ég mun verra staddur en áður.
Þetta byrjaði allt saman þegar ég fluttist til Danmerkur. Til að byrja með talaði ég ensku í skólanum, og í búðum oþh. Ég nennti ekki að standa lengi í því rugli, og fór að tala dönsku eftir 3 mánuði. "Fór að tala dönsku"...hmm...nei ég fór að reyna að tala dönsku. En einhverntímann verður allt fyrst, og ég steig í marga pyttina. Flestar villurnar voru náttúrulega sökum lélegs framburðar.
En svo þegar danskan fór að vera mér þjálli, þá fór enskan að hverfa hægt og bítandi. Ef ég á að tala ensku í dag, þá byrja ég að hika og stama og sletti með dönsku.
Næsta skref í átt að hundunum var að ég fór að blanda dönsku og íslensku saman ef ég var að tala íslensku. Þetta var sérstaklega slæmt ef ég var umkringdur dönum og íslendingum og þurfti að skipta mikið á milli tungumálanna.
Núna er það þannig að ég tala íslensku, með dönskum slettum, og setningaskipan er orðin dönsk. Meira að segja orðin sem ég nota eru íslenskuð dönsk orð.
Hér kemur smá dæmi:
Í dag var ég staddur í Jónshúsi. Ég þurfti að komast inn í salinn, og hringi því í Jón, forstöðumanns Jónshúss, og bið hann um "að læsa mig inn í salinn". Jón kom niður og opnaði fyrir mig inn í salinn og við fórum að spjalla um heima og geima, eins og svo oft gerist þegar við hittumst. Undir lok samtals okkar þá benti Jón mér á að það kallaðist "að opna fyrir sig salinn" en ekki "læsa sig inn í salinn".
Ég þarf að taka mér góða törn í Laxness fljótlega.

13.3.07


Á skyrtunni
Í gær tók vorið sig til og hreiðraði um sig í görðum landsins. Blómin útsprungin á hraðri uppleið og brumið komið á trén. Himininn er heiður og hár. Ljúft líf.
Ég gat því sent sms heim og sagt mömmu að ég væri úti "á skyrtunni". Það er ekki hægt að segja í DK. Maður getur ekki verið úti "på skjorten". Maður getur yfirleitt ekki verið "på skjorten" nema maður sitji á skyrtunni. En íslenskan leyfir manni svona lagað. Næs.

Framundan er tónsmíð fyrir gítar og sópran. Eindagur 1. apríl. Ég er ekki byrjaður, en þó búinn að finna ljóðið. Þaráeftir er verk fyrir sópran, flautu og gítar. Heldur ekki byrjaður á því. Eindagi 1. maí.

Og svo að gömlu fréttunum. Systir mín sat á Alþingi um daginn, sem varamaður fyrir Valgerði Sverrisdóttur. Hún hélt ræðu, sem ég sá á netinu, og hún sat í nefndum og ég veit ekki hvað. Ég er afar stolltur af að eiga svona klára systur!

Ég er byrjaður í líkamsrækt. Staka, kórinn sem ég stjórna, átti pening sem þeim fannst að ég ætti að fá, þar sem ég fæ ekki föst laun frá þeim. Fallega hugsað af þeim. Ég eyddi peningnum í árskort í ræktina, sem er í 3 mínútna labbitúr héðan frá íbúðinni minni. Nú mæti ég í ræktina annan hvern dag að jafnaði og mér líður svo miklu betur en áður. Það er orka í mér allan daginn og heilsufarið almennt betra.
Ræktin mín bíður upp á ýmsa hópatíma, og fór ég í jóga í morgun. Ég var eini maðurinn í þessum tíma. Ég er viss um að stelpurnar hugsuðu annaðhvort "hann er laglega gay hann þessi" eða "hvern djöfull er þessi gæji að koma í jóga? Hann er sennilega bara hérna til að glápa á stelpur í þröngum líkamsræktarfötum". Ég valdi að ýta undir seinni hugsunina, af þeirri ástæðu einni að ég er gagnkynhneigður, og rak við þegar ég kom inn í salinn og klóraði mér í pungnum.
Þetta var stórskemmtilegur tími. Góð tilbreyting frá lóðum og eurotrash tónlistinni, sem ég þarf að yfirgnæfa með iPóðanum mínum.

Farið vel með ykkur og aðra.

Kær kveðja,
Stefán, sem er ennþá í Þjóðkirkjunni.