11.2.07

Óskipulag
Fyrir rúmri viku lá bréf til mín á nótnastatífinu í Jónshúsi. Þetta var boðskort. Hr. Stefán Arason, kórstjóri Stöku og KÍSK (kór íslenska safnaðarins í Kaupmannahöfn) var hérmeð boðinn á opnun sýningarinnar Lavaland í listasafninu á Gammel Strand. Sýnd eru verk Kjarvals og Ólafs Elíasonar. Við opnuna myndu Margrét drottning og Henrik prins vera viðstödd, ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni og Dorrit. Þar að auki ætlaði Ólafur Elíasson að vera á svæðinu.
Jahá! Þetta er ég til í að sjá. Það er ekki á hverjum degi sem manni er boðið á sýningu með svona frábærum listamönnum, og heldur ekki á hverjum degi sem maður hittir þessi fyrirmenni. Ég ætlaði sko aldeilis að snobba þennan dag.
Ég var beðinn um að mæta fyrir kl.15.45 og mátti hafa með mér einn gest.
Eins og ég hef sagt áður, þá var Stina eitthvað slöpp, þannig að ég bauð Ingva með mér.
Þegar við komum á hjólunum okkar niður að Gammel Strand, fyrir kl.15.45, þá var löng-löng röð fyrir framan innganginn. Við fórum aftast í röðina. Svo leið tíminn. Röðin mjakaðist örlítið fram á við, en ekki mikið. Kl.15.55 kom menningarráðherra dana, og fékk hann að fara beint inn, eftir eitt stutt símtal.
Kl.16.00 kom afar almennilegur maður út og sagði að opnunin væri komin í gang, og húsið var fullt. Þau myndu hleypa inn þegar meira pláss myndi gefast, en það yrði sennilega eftir 20 mín. 20 mín! Í skítakulda! Ég sagði að þetta snobblið mætti hoppa upp í óæðri endann á hvort öðru og við strunsuðum í burtu inn á næsta kaffihús, sem reyndis vera írskur reykmettaður pöbb.
Þar "biðum" við í klukkutíma í lágmenningunni og reyndum svo aftur við hámenninguna. Í þetta skiptið gekk betur, og fengum við séð frábæra sýningu. Ég hef aldrei séð Kjarval "live" áður, og þetta voru alveg mögnuð málverk. Það sem hafði mest áhrif á mig eftir Ólaf voru ljósmyndirnar hans. Gaman að sjá hvernig verk þessara listamanna pössuðu vel saman.

En við náðum ekki að heilsa upp á kóngafólkið, né knúsa Dorrit. Þvílíkt skipulag hjá framkvæmdaraðilum! En Ólafur Elíasson var á staðnum þegar við komum. Við létum það þó alveg vera að heilsa upp á hann.

Engin ummæli: