7.2.07

Örnetl
- það er hundleiðinlegt að búa í borg sem býður upp á svo margt sem mig langar til að sjá og heyra, en eiga svo aldrei peninga til þess! Svo loksins þegar maður á peninga til þess að fara á allar þær sýningar mann langar í óperunni, eiga árskort á sinfóníuna osfrv., þá er maður orðinn gamall og krumpaður og hefur ekkert við alla þá sköpunargleði að gera, sem þessar uppákomur gefa manni. Fuss!

- það er stórskemmtilegt að búa í hverfi sem er vakandi á öllum tímum sólahringsins. T.d. getur maður fengið sér kebab á Norðurbrú á öllum tímum sólahringsins, snapað sér slagsmál, jafnvel kúlu í hausinn, á "næturbörunum", fengið kaldan og frískandi morgunbjór á öldurhúsunum í hverfinu (ásamt hinu dagdrykkjufólkinu), séð nýlagðan hundaskít á gangstéttunum í morgunsólinni, borðað "baklava" með hinum útlendingunum, keypt lambakjöt af nýslátruðu hjá "slátraranum" sem ber fram orðið "krydderi" sem kruderat osfrv. osfrv.

- á eftir fer ég á tónleika með Pétri Ben. Finnst platan hans, wine for my weakness, bara ansi góð.
Merkilegt nokk, þá sungum við, ég og Pétur, saman í "rakarastofu"kvartett. Kvartettinn hét Kvartett Íslands, eða KvÍsl. Okkur tókst að troða nokkru sinnum upp, m.a. á árshátíð Tónlistarskólans í Reykjavík (Tónó). Aðrir meðlimir voru Hugi Guðmundsson og Helgi Hrafn Jónsson. Gaman að sjá hvað þessir einstaklingar allir eru að gera í dag. Við erum allir að semja og flytja músík. Eins gott að við slógum aldrei í gegn sem KvÍsl.
Reyndar man ég eftir einum ofur "kúl" tónleikum sem við sungum á. Þetta voru tónleikar tónsmíðanemenda í Tónfræðadeildinni í Tónó, í Salnum í Kópavogi. Við frumfluttum verk eftir Davíð Brynjar Franzson. Ansi fínt verk í minningunni. Fullt af tilvitnunum í sálmatexta og önnur óhljóð. Flutningurinn gekk ekkert rosalega vel, en við komumst í gegn. Áheyrendur tóku okkur afar vel.

- kórinn minn "Staka" er að fara til Parísar í apríl. Hlakka mikið til þeirrar ferðar. Kórferðalög eru skemmtileg, og enn skemmtilegri þegar maður stendur sjálfur og stjórnar. Mætti líkja því við að vera í vímu í nokkra daga, og óboj! það eru herfilegir timburmenn eftir svona ferð. Hversdagsleikinn hrynur yfir mann og ekkert er sérlega spennandi. Eins gott að ég hef aldrei prófað sterkari vímugjafa en áfengi, tóbak og tónlist.

Engin ummæli: