14.2.07

Lystisemdir í nágrenninu
Ég er svo lánsamur að eiga kærustu, sem er afar góður kokkur. Sjálfur er ég ekkert svo slæmur í þeim bransa, þó ég segi sjálfur frá, en yfirleitt þegar ég sé um eldamennskuna þá er "karlamatur" á borðum. "Karlamatur" er kjöt í einhverri mynd, eða þá mjög "down to earth" fiskréttur. Jú, reyndar finnst mér gaman að elda saltfisk á einhvern skemmtilegan hátt.
En s.s. hún Stina er ansi lipur í eldhúsinu og nýt ég náttúrulega góðs af.
Það sem gerir Stinu að svona góðum kokki er að hún hefur ferðast alveg ótrúlega mikið, og kynnt sér matarmenningu í þeim löndum hún hefur ferðast í. T.d. hefur hún dvalist lengi í Ástralíu, Ítalíu, Spáni, Taílandi og Tyrklandi, svo eitthvað sé nefnt. Hún er einnig gædd þeim hæfileika að muna nöfn á réttum og stöðum hún hefur komið til, eða bara lesið um. Ég verð gáttaður í hvert skipti sem hún segist ætla að elda "húbba-ba-lúbba" sem hún smakkaði einu sinni í "langt-í-burtistan" og inniheldur það undarlega krydd "skrjamjín". Og svo fer hún bara inn á þetta svokallaða "internet" og finnur uppskriftir að þessu öllu saman.
Undanfarna daga hefur hún verið í einhverjum Tyrkneskum/Indverskum ham, og framreitt alveg magnaða rétti, t.d. jógúrtsoðið lambakjöt með möndlum, eggaldinmauk, kartöflur í spínati, jógúrt dressingar með agúrku osfrv. osfrv. Og allt bragðast þetta eins og maður hefði stigið inn í tyrkneskt eða indverskt veitingahús.
Það er ekki hægt að segja annað en þetta er mun skemmtilegri hversdagsmatur en soðin ýsa. Hver réttur hefur bragð, og mikið af því.
Nú getur einhver hugsað, "bíddu þarf maður ekki að fara í einhverjar sérverslanir og læti til að finna öll þessi hráefni?". Onei! Þegar maður býr á Norðurbrú þá er þetta sá matur sem er eldaður af flestum. Þannig að hægt er að kaupa öll þessi undarlegu krydd hjá grænmetissalanum úti á horni. Og þar sem að það eru svo margir sem þurfa á þessu að halda, þá eru þessar vörur alls ekki dýrar.
Þetta voru nú bara málalengingar, að hætti hollenska munksins Jean-Baptiste de Malalingingher (upplýsingar fengnar frá Huga), því uppspretta þessa netls kom frá eftirréttinum sem Stina bauð uppá í gærkvöldi. Hann var reyndar keyptur tilbúinn út úr búð, en sama, í stíl við það sem á undan hafði gengið.
Tyrkir, og nágrannar, eru nefnilega sólgnir í baklava. Úti á Norðurbrú eru nokkur svona baklava bakarí, og eru þau ótrúlega freistandi. Þessir litlu bitar eru svo sætir á bragðið að maður hélt að það væri ekki hægt. En ó, ó, hvað þetta er gott á bragðið! Áferðin á þessum litlu kökum er líka algjörlega fullkomin. Örlítið stökkt, en samt seigt, og bráðnar þegar í munninn er komið. Jömm-Í.

Í öðrum fréttum þá er ég með einhverja kvefpest, og tók mér því frídag uppi í rúmi, til að láta mér nú batna fyrir helgina. Helgin er nefnilega þakin verkefnum. Æfingarhelgi (lau og sun) með Stöku þar sem raddþjálfi kemur í heimsókn, syngja fyrir einhverja nefnd frá hinu Íslenska Alþingi og svo spila í messu í Kingoskirke. Í tilefni af því að ég fæ að leika organista í þeirri ágætis kirkju núna á sunnudaginn, þá samdi ég litla mótettu í tilefni dagsins. Þessi litla mótetta verður síðan frumflutt í allaveganna 3 kirkjum núna á sunnudaginn (í Dómkirkjunni og Sct. Pauls í Árósum, Kingoskirke) þannig að "þeir trúuðu verða bombarderaðir með íslenskri músík á sunnudaginn" eins og kantorinn í Dómkirkjunni í Árósum komst að orði.
En já, þetta var líka málalenging.
Sökum heilsuleysis þá las ég gamlar netlufærslur hjá áðurnefndum Huga, æskufélaga og snillingi. Það kemur manni í gott skap, og gott skap er jú besta lyf við slappleika.
Við þann lestur fann ég þennan frábæra leirburð sem mun ljúka þessu netli.

Doddi litli datt í dí,
og meiddi sig í fótnum.
Hann hefur aldrei upp frá því,
orðið jafn góður í fótnum.

Reynir litli á Reynisstað
Hann er voða fjörkálfur
Hleypur um allt í Þorlákshöfn
Ekki má Hann pilsfald sjá
Þá er voðinn vís
Giftur maðurinn

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sniðugt hjá þér að semja mótettu við Doddatextann og Reynis. Má ég fá hana lánaða til notkunar í kórstjórn?

Stefán Arason sagði...

Já já...en hver ertu?