16.2.07

Hvil Sødt
Það herrans ár 2004 kláraði ég tónsmíðadeildina á Konservatoríinu í Árósum. Þegar maður útskrifast í Danmörku, þá er það fyrsta sem maður gerir er að skrá sig í A-kassa. A-kassi þessi er nokkurskonar trygging. Atvinnuleysistrygging. Ef þú ert í vinnu, og borgar í A-kassa jafnframt, og svo er þér kannski sagt upp, þá færðu lágmarkslaun frá A-kassanum þangað til þú finnur þér vinnu. Ef þú þiggur "laun" frá A-kassanum þá þarftu jafnframt að vera á skrá hjá atvinnumiðlun.
Ég skráði mig í A-kassa og fékk ágætis mánaðarlaun.
Atvinnumiðlun hefur rétt til að senda þig í lagervinnu, eða á barnaheimili, eða bara þangað sem þeim dettur í hug. En þeir hlífa nýútskrifuðum við því í ákveðinn tíma, svona svo þeir hafi möguleika á að finna sér starf við hæfi. Ég var náttúrulega skráður sem tónskáld hjá atvinnumiðluninni, þannig að ég fékk aldrei nein atvinnutilboð, og þeir gátu heldur ekki bent mér á neina atvinnu sem pössuðu minni menntun. Ég var atvinnulaus, en fékk laun og hafði það gott. Samviskubitið var jú alveg til staðar, en ég leit á þetta sem listamannalaun, og nýtti mér þetta frelsi til að semja.
Þetta ár, 2004, fékk ég pöntun frá Carsten Seyer, kantor í Dómkirkjunni í Árósum, að verki fyrir H.C. Andersen hátíðartónleika, sem yrðu haldnir vorið 2005. Ég mátti gera það sem mér datt í hug, með alla tóngefandi aðila í kirkjunni plús strengjakvintett sem átti að notast í öðru verki á sömu tónleikum. Það eina sem ég þurfti að hafa í verkinu var texti eftir H.C. Andersen. Texta fann ég og hóf svo smíðarnar.
Það sem varð úr þessu klambri mínu var verkið Hvil Sødt, fyrir orgel (orgelið í Dómkirkjunni í Árósum er stærsta orgel Danmerkur), kór, einsöngvara, drengjakór, slagverk og strengjakvintett. Það réttlætti aðeins launin mín frá A-kassanum.

Verkið var síðan endurflutt á tónleikum hjá Konservatoríinu núna fyrir jól.

Nú hefur svo íslensk dómnefnd (Atli Ingólfsson og Karólína Eiríksdóttir) valið verkið til að vera eitt af íslensku verkunum á UNM hátíðinni í ár. Hátíðin er þetta árið haldin í Reykjavík, dagana 2.-8. september.
Látið þessa stórmerku hátíð ekki framhjá ykkur fara!

Engin ummæli: