10.2.07

Þegar veggirnir tala
Í gær var mér boðið á opnun sýningarinnar Lavaland, niðurá Gömlu Strönd. Stina var eitthvað slöpp, þannig að ég bauð Ingva, Stökubassa og öðlingi, með mér. Seinna um kvöldið ætluðum við svo að hitta félaga úr Stöku á jazzklúbbi.
Eftir sýninguna, sem var ansi fín, röltum við okkur upp á Pile Stræde, því ég hafði heyrt af góðri ölstofu þar. Sú stofa var pakkfull af verðandi fullufólki, þannig að við gengum aðeins lengra. Við þurftum þó ekki að ganga langt því ég rak augun í Carlsberg skilti og segi við Ingva hvort við eigum ekki bara að láta okkur það nægja. Hann tók undir það. Gengum við þá í átt að skiltinu, en jafnframt framá annan stað sem kallast Elgurinn (Moose). Ég ákvað því á augabragði að þarna ættum við að setjast inn. Ingvi hafði ekkert á móti því.
Magga, kærasta Ingva, hafði beðið hann um að láta sig vita þegar við hefðum fundið einhvern stað, því hún ætlaði að heiðra okkur með samveru sinni restina af kvöldinu. Ingvi hringir í hana, og við fáum borð og bjór á Elgnum.
Við sitjum í dágóða stund, spjöllum um heima og geima, og ég virði fyrir mér staðinn. Allir veggir hans eru útkrotaðir, veggjakrot er leyfilegt á þessum stað. Ég fór eitthvað að hafa orð á þessu, og Ingvi spyr hvort ég hafi aldrei komið hingað áður. Það hafði ég ekki, því ég er jú sveitamaður frá Árósum. Ingvi sagði að þessi staður væri velsóttur af Íslendingum og skiptinemum. Þó aðallega á þriðjudags og fimmtudagskvöldum, því þá væri 2 fyrir 1 tilboð á ölinu.
Við drekkum úr glasinu, og í þann mund sem við erum að tæma kemur Magga. Við pöntum okkur aðra krús.
Fljótlega eftir að við erum öll sest við borðið rennur upp fyrir mér að ég veit ekkert um sögu þeirra tveggja sem pars. Hvar þau kynntust oþh. Því spyr ég hvar þau hefðu kynnst.
Ingvi spyr um leið afhverju ég væri að spyrja að því.
"Nei bara. Veit eiginleg ekkert hvar leiðir ykkar láu fyrst saman"
Magga verður einnig svolítið hissa.
Svo segja þau mér að þau hefðu kynnst á þessum bar, og Magga hefði setið í glugganum sem borðið okkar var uppvið.

Ég er handviss um að veggirnir hafa hvíslað þessari spurningu í eyra mér.

Engin ummæli: