23.2.07

Þjóðararfur
Á meðan ég var að brjóta saman þvottinn, þá kveikti ég sjónvarpinu og horfði aðeins á rás 2 þeirra nágranna okkar, norðmannanna.
Þar var einhver hátíð í gangi, til heiðurs konunghjónunum.
Í byrjun þessarar hátíðar komu þjóðdansarar inn í salinn, undir heillandi fiðluleik. Svona þjóðlaga fiðluleik.
En það var ekki það sem ég heillaðist hvað mest af. Onei. Þegar hópurinn var kominn upp á svið, þá stíga 3 börn fram byrja að syngja. Og við erum ekkert að tala um svona barnaraul heldur almennilegur söngur með góðum hljóm og ég veit ekki hvað.
Svona lagað myndi ALDREI gerast í Danmörku. Fyrir það fyrsta eru danir almennt séð ekkert sérlega duglegir við að dýrka þjóðararfinn, enda ertu stimplaður rasisti um leið. Eða maður getur kannski litið á þetta frá öðru sjónarhorni og sagt að sá þjóðararfur sem danirnir dýrka er á lágmenningarstiginu. Öldrykkja, svínakjötsát og jafnvel einfaldur hugsunarháttur.

22.2.07

Kaos!
Í Danmörku hefur verið algjört kaos undanfarin sólahring. Það liggur nefnilega snjór á jörðinni. Svo mikill snjór að það hafa myndast skaflar á stöku stað. Umferðin er í lamasessi og skólar gefa frí.
Það sem hefur komið mér mest á óvart er að það hafa 2 þök hrunið niður. Þetta eru þök á stórum braggahöllum, eins og mörg íþróttahúsin eru heima á Íslandi.
Ótrúlegt að það megi byggja svona drasl!

17.2.07

Sögustund

Kæru lesendur

Ég mæli eindregið með þessum pistli, og svo framhaldinu hérna.

16.2.07

Hvil Sødt
Það herrans ár 2004 kláraði ég tónsmíðadeildina á Konservatoríinu í Árósum. Þegar maður útskrifast í Danmörku, þá er það fyrsta sem maður gerir er að skrá sig í A-kassa. A-kassi þessi er nokkurskonar trygging. Atvinnuleysistrygging. Ef þú ert í vinnu, og borgar í A-kassa jafnframt, og svo er þér kannski sagt upp, þá færðu lágmarkslaun frá A-kassanum þangað til þú finnur þér vinnu. Ef þú þiggur "laun" frá A-kassanum þá þarftu jafnframt að vera á skrá hjá atvinnumiðlun.
Ég skráði mig í A-kassa og fékk ágætis mánaðarlaun.
Atvinnumiðlun hefur rétt til að senda þig í lagervinnu, eða á barnaheimili, eða bara þangað sem þeim dettur í hug. En þeir hlífa nýútskrifuðum við því í ákveðinn tíma, svona svo þeir hafi möguleika á að finna sér starf við hæfi. Ég var náttúrulega skráður sem tónskáld hjá atvinnumiðluninni, þannig að ég fékk aldrei nein atvinnutilboð, og þeir gátu heldur ekki bent mér á neina atvinnu sem pössuðu minni menntun. Ég var atvinnulaus, en fékk laun og hafði það gott. Samviskubitið var jú alveg til staðar, en ég leit á þetta sem listamannalaun, og nýtti mér þetta frelsi til að semja.
Þetta ár, 2004, fékk ég pöntun frá Carsten Seyer, kantor í Dómkirkjunni í Árósum, að verki fyrir H.C. Andersen hátíðartónleika, sem yrðu haldnir vorið 2005. Ég mátti gera það sem mér datt í hug, með alla tóngefandi aðila í kirkjunni plús strengjakvintett sem átti að notast í öðru verki á sömu tónleikum. Það eina sem ég þurfti að hafa í verkinu var texti eftir H.C. Andersen. Texta fann ég og hóf svo smíðarnar.
Það sem varð úr þessu klambri mínu var verkið Hvil Sødt, fyrir orgel (orgelið í Dómkirkjunni í Árósum er stærsta orgel Danmerkur), kór, einsöngvara, drengjakór, slagverk og strengjakvintett. Það réttlætti aðeins launin mín frá A-kassanum.

Verkið var síðan endurflutt á tónleikum hjá Konservatoríinu núna fyrir jól.

Nú hefur svo íslensk dómnefnd (Atli Ingólfsson og Karólína Eiríksdóttir) valið verkið til að vera eitt af íslensku verkunum á UNM hátíðinni í ár. Hátíðin er þetta árið haldin í Reykjavík, dagana 2.-8. september.
Látið þessa stórmerku hátíð ekki framhjá ykkur fara!

14.2.07

Ný jakkaföt, sama röddin
Kæru lesendur

Nú hef ég tekið upp nýtt útlit á þessu netli mínu. Sökum þessa hef ég fengið nýtt athugasemdakerfi, sem verður vonandi þægilegra að nota. Það er allaveganna þægilegra fyrir mig.
Ég á eftir að setja inn fleiri hlekki, þannig að ekki svekkja þig alveg strax á því að ég hafi ekki hlekkjað á þig. Þetta kemur allt með kaldavatninu.
Ég vona að þið kunnið vel við ykkur í þessu nýja umhverfi.

Ykkar einlægur,
Stefán Arason, alls ekki hversdags, en oftar suma daga en aðra.
Lystisemdir í nágrenninu
Ég er svo lánsamur að eiga kærustu, sem er afar góður kokkur. Sjálfur er ég ekkert svo slæmur í þeim bransa, þó ég segi sjálfur frá, en yfirleitt þegar ég sé um eldamennskuna þá er "karlamatur" á borðum. "Karlamatur" er kjöt í einhverri mynd, eða þá mjög "down to earth" fiskréttur. Jú, reyndar finnst mér gaman að elda saltfisk á einhvern skemmtilegan hátt.
En s.s. hún Stina er ansi lipur í eldhúsinu og nýt ég náttúrulega góðs af.
Það sem gerir Stinu að svona góðum kokki er að hún hefur ferðast alveg ótrúlega mikið, og kynnt sér matarmenningu í þeim löndum hún hefur ferðast í. T.d. hefur hún dvalist lengi í Ástralíu, Ítalíu, Spáni, Taílandi og Tyrklandi, svo eitthvað sé nefnt. Hún er einnig gædd þeim hæfileika að muna nöfn á réttum og stöðum hún hefur komið til, eða bara lesið um. Ég verð gáttaður í hvert skipti sem hún segist ætla að elda "húbba-ba-lúbba" sem hún smakkaði einu sinni í "langt-í-burtistan" og inniheldur það undarlega krydd "skrjamjín". Og svo fer hún bara inn á þetta svokallaða "internet" og finnur uppskriftir að þessu öllu saman.
Undanfarna daga hefur hún verið í einhverjum Tyrkneskum/Indverskum ham, og framreitt alveg magnaða rétti, t.d. jógúrtsoðið lambakjöt með möndlum, eggaldinmauk, kartöflur í spínati, jógúrt dressingar með agúrku osfrv. osfrv. Og allt bragðast þetta eins og maður hefði stigið inn í tyrkneskt eða indverskt veitingahús.
Það er ekki hægt að segja annað en þetta er mun skemmtilegri hversdagsmatur en soðin ýsa. Hver réttur hefur bragð, og mikið af því.
Nú getur einhver hugsað, "bíddu þarf maður ekki að fara í einhverjar sérverslanir og læti til að finna öll þessi hráefni?". Onei! Þegar maður býr á Norðurbrú þá er þetta sá matur sem er eldaður af flestum. Þannig að hægt er að kaupa öll þessi undarlegu krydd hjá grænmetissalanum úti á horni. Og þar sem að það eru svo margir sem þurfa á þessu að halda, þá eru þessar vörur alls ekki dýrar.
Þetta voru nú bara málalengingar, að hætti hollenska munksins Jean-Baptiste de Malalingingher (upplýsingar fengnar frá Huga), því uppspretta þessa netls kom frá eftirréttinum sem Stina bauð uppá í gærkvöldi. Hann var reyndar keyptur tilbúinn út úr búð, en sama, í stíl við það sem á undan hafði gengið.
Tyrkir, og nágrannar, eru nefnilega sólgnir í baklava. Úti á Norðurbrú eru nokkur svona baklava bakarí, og eru þau ótrúlega freistandi. Þessir litlu bitar eru svo sætir á bragðið að maður hélt að það væri ekki hægt. En ó, ó, hvað þetta er gott á bragðið! Áferðin á þessum litlu kökum er líka algjörlega fullkomin. Örlítið stökkt, en samt seigt, og bráðnar þegar í munninn er komið. Jömm-Í.

Í öðrum fréttum þá er ég með einhverja kvefpest, og tók mér því frídag uppi í rúmi, til að láta mér nú batna fyrir helgina. Helgin er nefnilega þakin verkefnum. Æfingarhelgi (lau og sun) með Stöku þar sem raddþjálfi kemur í heimsókn, syngja fyrir einhverja nefnd frá hinu Íslenska Alþingi og svo spila í messu í Kingoskirke. Í tilefni af því að ég fæ að leika organista í þeirri ágætis kirkju núna á sunnudaginn, þá samdi ég litla mótettu í tilefni dagsins. Þessi litla mótetta verður síðan frumflutt í allaveganna 3 kirkjum núna á sunnudaginn (í Dómkirkjunni og Sct. Pauls í Árósum, Kingoskirke) þannig að "þeir trúuðu verða bombarderaðir með íslenskri músík á sunnudaginn" eins og kantorinn í Dómkirkjunni í Árósum komst að orði.
En já, þetta var líka málalenging.
Sökum heilsuleysis þá las ég gamlar netlufærslur hjá áðurnefndum Huga, æskufélaga og snillingi. Það kemur manni í gott skap, og gott skap er jú besta lyf við slappleika.
Við þann lestur fann ég þennan frábæra leirburð sem mun ljúka þessu netli.

Doddi litli datt í dí,
og meiddi sig í fótnum.
Hann hefur aldrei upp frá því,
orðið jafn góður í fótnum.

Reynir litli á Reynisstað
Hann er voða fjörkálfur
Hleypur um allt í Þorlákshöfn
Ekki má Hann pilsfald sjá
Þá er voðinn vís
Giftur maðurinn

11.2.07

Óskipulag
Fyrir rúmri viku lá bréf til mín á nótnastatífinu í Jónshúsi. Þetta var boðskort. Hr. Stefán Arason, kórstjóri Stöku og KÍSK (kór íslenska safnaðarins í Kaupmannahöfn) var hérmeð boðinn á opnun sýningarinnar Lavaland í listasafninu á Gammel Strand. Sýnd eru verk Kjarvals og Ólafs Elíasonar. Við opnuna myndu Margrét drottning og Henrik prins vera viðstödd, ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni og Dorrit. Þar að auki ætlaði Ólafur Elíasson að vera á svæðinu.
Jahá! Þetta er ég til í að sjá. Það er ekki á hverjum degi sem manni er boðið á sýningu með svona frábærum listamönnum, og heldur ekki á hverjum degi sem maður hittir þessi fyrirmenni. Ég ætlaði sko aldeilis að snobba þennan dag.
Ég var beðinn um að mæta fyrir kl.15.45 og mátti hafa með mér einn gest.
Eins og ég hef sagt áður, þá var Stina eitthvað slöpp, þannig að ég bauð Ingva með mér.
Þegar við komum á hjólunum okkar niður að Gammel Strand, fyrir kl.15.45, þá var löng-löng röð fyrir framan innganginn. Við fórum aftast í röðina. Svo leið tíminn. Röðin mjakaðist örlítið fram á við, en ekki mikið. Kl.15.55 kom menningarráðherra dana, og fékk hann að fara beint inn, eftir eitt stutt símtal.
Kl.16.00 kom afar almennilegur maður út og sagði að opnunin væri komin í gang, og húsið var fullt. Þau myndu hleypa inn þegar meira pláss myndi gefast, en það yrði sennilega eftir 20 mín. 20 mín! Í skítakulda! Ég sagði að þetta snobblið mætti hoppa upp í óæðri endann á hvort öðru og við strunsuðum í burtu inn á næsta kaffihús, sem reyndis vera írskur reykmettaður pöbb.
Þar "biðum" við í klukkutíma í lágmenningunni og reyndum svo aftur við hámenninguna. Í þetta skiptið gekk betur, og fengum við séð frábæra sýningu. Ég hef aldrei séð Kjarval "live" áður, og þetta voru alveg mögnuð málverk. Það sem hafði mest áhrif á mig eftir Ólaf voru ljósmyndirnar hans. Gaman að sjá hvernig verk þessara listamanna pössuðu vel saman.

En við náðum ekki að heilsa upp á kóngafólkið, né knúsa Dorrit. Þvílíkt skipulag hjá framkvæmdaraðilum! En Ólafur Elíasson var á staðnum þegar við komum. Við létum það þó alveg vera að heilsa upp á hann.

10.2.07

Þegar veggirnir tala
Í gær var mér boðið á opnun sýningarinnar Lavaland, niðurá Gömlu Strönd. Stina var eitthvað slöpp, þannig að ég bauð Ingva, Stökubassa og öðlingi, með mér. Seinna um kvöldið ætluðum við svo að hitta félaga úr Stöku á jazzklúbbi.
Eftir sýninguna, sem var ansi fín, röltum við okkur upp á Pile Stræde, því ég hafði heyrt af góðri ölstofu þar. Sú stofa var pakkfull af verðandi fullufólki, þannig að við gengum aðeins lengra. Við þurftum þó ekki að ganga langt því ég rak augun í Carlsberg skilti og segi við Ingva hvort við eigum ekki bara að láta okkur það nægja. Hann tók undir það. Gengum við þá í átt að skiltinu, en jafnframt framá annan stað sem kallast Elgurinn (Moose). Ég ákvað því á augabragði að þarna ættum við að setjast inn. Ingvi hafði ekkert á móti því.
Magga, kærasta Ingva, hafði beðið hann um að láta sig vita þegar við hefðum fundið einhvern stað, því hún ætlaði að heiðra okkur með samveru sinni restina af kvöldinu. Ingvi hringir í hana, og við fáum borð og bjór á Elgnum.
Við sitjum í dágóða stund, spjöllum um heima og geima, og ég virði fyrir mér staðinn. Allir veggir hans eru útkrotaðir, veggjakrot er leyfilegt á þessum stað. Ég fór eitthvað að hafa orð á þessu, og Ingvi spyr hvort ég hafi aldrei komið hingað áður. Það hafði ég ekki, því ég er jú sveitamaður frá Árósum. Ingvi sagði að þessi staður væri velsóttur af Íslendingum og skiptinemum. Þó aðallega á þriðjudags og fimmtudagskvöldum, því þá væri 2 fyrir 1 tilboð á ölinu.
Við drekkum úr glasinu, og í þann mund sem við erum að tæma kemur Magga. Við pöntum okkur aðra krús.
Fljótlega eftir að við erum öll sest við borðið rennur upp fyrir mér að ég veit ekkert um sögu þeirra tveggja sem pars. Hvar þau kynntust oþh. Því spyr ég hvar þau hefðu kynnst.
Ingvi spyr um leið afhverju ég væri að spyrja að því.
"Nei bara. Veit eiginleg ekkert hvar leiðir ykkar láu fyrst saman"
Magga verður einnig svolítið hissa.
Svo segja þau mér að þau hefðu kynnst á þessum bar, og Magga hefði setið í glugganum sem borðið okkar var uppvið.

Ég er handviss um að veggirnir hafa hvíslað þessari spurningu í eyra mér.
Innflytjendur
Sem innflytjandi í Danmörku tekur fólk eftir því, þegar ég byrja að tala, að ég kem frá öðru landi. Þetta getur oft leitt af sér skemmtilega vandræðileg augnablik fyrir viðmælanda minn, þegar hann spyr hvaðan ég er, því það er voða mikið tabú að tala niður til fólks, og maður verður að passa sig að nota réttu orðin og bla bla bla. Svona eins og að segja negri eða sígauni. Innflytjandi, nýbúi, útlendingapakka...
S.s. fólk tekur einvörðungu eftir þessu þegar ég opna munninn, að öðru leyti get ég vel verið danagrey.
En þeir sem eiga foreldra sem voru innflytjendur, og eru með dökkan húðlit, eru of augljóslega stimpluð sem innflytjendur um leið. Þetta er náttúrulega pirrandi.
Hérna kemur gott dæmi:
.::dæmi::.

8.2.07

JazzballettSkóliBáru
Meistari J.S. Bach á sér fjölmarga aðdáendur. Því miður hefur hann verið dauður í 257, þannig að þessarar hylli getur hann ekki notið þann dag í dag. En þessir aðdáendur hans, eða öllu heldur aðdáendur verka hans, finna upp á ýmsu. Tónlist JSB hefur verið flutt í rokkútgáfum, í djazzútgáfum, af lélegum amatörflytjendum, og meira að segja hef ég heyrt innganginn að Jólaóratoríunni í umskrifaðri útgáfu. T.d. var hið þekkti mótíf sem Bach skrifaði fyrir páku, og fyrir mörgum er þetta litla mótíf jólin fyrir sumum, spilað á klukkuspil, í afar háu tónsviði. Einstaklega skemmtilegt.
En s.s. margir hafa flutt tónlist JSB á marga aðra vegu en meistarinn hafði hugsað sér sjálfur.
Þessum flytjanda hérna hef ég heillast hvað mest af, þeas. af þeim sem hafa farið aðrar slóðir í flutningi á tónlist þessa aldna meistara.


Svo má náttúrulega ekki gleyma þessum.
Danska
Fyrir nokkrum árum síðan sýndi norskur skólabróðir minn mér myndbrot úr norskum grínþætti. Þetta var úr þáttaröð ekki ólíkri okkar íslensku Fóstbræðrum (ekki kórnum, heldur grínistunum). Þeir voru að gera grín að döpru gengi danskrar tungu. Mér þótti þetta afar fyndið.
Svo rakst ég á þetta brot hjá Garganistanum Guðnýju (sem er farin að netla aftur) og varð að setja það inn hérna.


Þeir gerðu líka einu sinni símaat til Danmerkur, því þeir höfðu lesið í dönsku blaði að það hefði verið "kuk i computeren". Á dönsku þýðir það "að tölvan var í ólagi". Á norsku þýðir það "að það hefði verið typpi í tölvunni". Eigandi tölvunnar, eða tölvukerfisins, var TDC eða eitthvað álíka stórfyrirtæki. Svo hringdu þessir kappar í fyrirtækið, í beinni útsendingu, og fóru að spyrjast fyrir um hvernig eiginlega typpið hefði komist í tölvuna, og hversu lengi það hefði verið inni osfrv.
Þetta þótti mér líka fyndið.

7.2.07

Örnetl
- það er hundleiðinlegt að búa í borg sem býður upp á svo margt sem mig langar til að sjá og heyra, en eiga svo aldrei peninga til þess! Svo loksins þegar maður á peninga til þess að fara á allar þær sýningar mann langar í óperunni, eiga árskort á sinfóníuna osfrv., þá er maður orðinn gamall og krumpaður og hefur ekkert við alla þá sköpunargleði að gera, sem þessar uppákomur gefa manni. Fuss!

- það er stórskemmtilegt að búa í hverfi sem er vakandi á öllum tímum sólahringsins. T.d. getur maður fengið sér kebab á Norðurbrú á öllum tímum sólahringsins, snapað sér slagsmál, jafnvel kúlu í hausinn, á "næturbörunum", fengið kaldan og frískandi morgunbjór á öldurhúsunum í hverfinu (ásamt hinu dagdrykkjufólkinu), séð nýlagðan hundaskít á gangstéttunum í morgunsólinni, borðað "baklava" með hinum útlendingunum, keypt lambakjöt af nýslátruðu hjá "slátraranum" sem ber fram orðið "krydderi" sem kruderat osfrv. osfrv.

- á eftir fer ég á tónleika með Pétri Ben. Finnst platan hans, wine for my weakness, bara ansi góð.
Merkilegt nokk, þá sungum við, ég og Pétur, saman í "rakarastofu"kvartett. Kvartettinn hét Kvartett Íslands, eða KvÍsl. Okkur tókst að troða nokkru sinnum upp, m.a. á árshátíð Tónlistarskólans í Reykjavík (Tónó). Aðrir meðlimir voru Hugi Guðmundsson og Helgi Hrafn Jónsson. Gaman að sjá hvað þessir einstaklingar allir eru að gera í dag. Við erum allir að semja og flytja músík. Eins gott að við slógum aldrei í gegn sem KvÍsl.
Reyndar man ég eftir einum ofur "kúl" tónleikum sem við sungum á. Þetta voru tónleikar tónsmíðanemenda í Tónfræðadeildinni í Tónó, í Salnum í Kópavogi. Við frumfluttum verk eftir Davíð Brynjar Franzson. Ansi fínt verk í minningunni. Fullt af tilvitnunum í sálmatexta og önnur óhljóð. Flutningurinn gekk ekkert rosalega vel, en við komumst í gegn. Áheyrendur tóku okkur afar vel.

- kórinn minn "Staka" er að fara til Parísar í apríl. Hlakka mikið til þeirrar ferðar. Kórferðalög eru skemmtileg, og enn skemmtilegri þegar maður stendur sjálfur og stjórnar. Mætti líkja því við að vera í vímu í nokkra daga, og óboj! það eru herfilegir timburmenn eftir svona ferð. Hversdagsleikinn hrynur yfir mann og ekkert er sérlega spennandi. Eins gott að ég hef aldrei prófað sterkari vímugjafa en áfengi, tóbak og tónlist.