25.1.07

Í tilefni veturkomu

Ó, þú kæra úlpan mín!
Mikið er það nú gott að vera í þér.
Þú heldur að mér hitanum og skýlir mér við frostinu,
á meðan ég geisist um á græna Hollendingnum.


Já, vetur konungur er genginn í garð Dana, og er farinn að frysta burtu kvefpestar og hárlús. Kominn tími til. Gráminn og bleytan hingað til hefur verið einstaklega niðurdrepandi. Frostið og birtan eru einstaklega hressandi. Sundurfrostbitnar kinnar og frosið hor í nefi kæta Íslendinginn.

Síðustu helgi var amma hennar Stinu jörðuð. Aðgerðin, sem ég skrifaði um í síðasta netli, tók svo á hana, og líkaminn orðinn þreyttur og úr sér genginn, að hún dó nokkrum dögum eftir. En fram á síðustu stundu var hún eiturhress. Hún var búinn að skipuleggja heilmikla veislu, gera gestalista og ákveða hvaða dúkar ættu á borðin. Í staðinn fyrir þessa veislu var haldin vegleg erfisdrykkja.
Það síðasta sem hún sagði við hjúkrunarfólkið sem gaf henni síðustu morfín sprautuna "Ég vona að ég drepist nú ekki af þessu sem þið eruð að gefa mér!". Lífsviljinn var til staðar, en þrótturinn ekki.
Njótum nú lífsins lystisemda á meðan við getum og höfum heilsu til.

6.1.07

Viljastyrkur
Á jóladag kom móðuramma hennar Stinu til okkar í Grenå. Hress kerling að mörgu leiti, en líkaminn farinn að gefa sig, enda komin á níræðisaldurinn.
Henni leið ekkert alltof vel um jólin, var veik og kastaði upp oþh. Ég veit ekki afhverju, en ég fékk það á tilfinninguna að þetta væri í síðasta skipti sem við myndum hitta á kerlinguna lifandi.
Í gær var sú gamla svo lögð inn á sjúkrahús, eftir að hafa dottið. Það kom í ljós að hún var með myndarlegt magasár og þar að auki garnaflækju. Hún hefur sennilega fengið "2 fyrir 1" tilboð.
Börn kerlu höfðu því tvo valkosti í gærdag, að láta gefa kerlu verkjalyf og bíða þess að hún hætti að nenna þessu eða að skera hana upp. Þau völdu seinni valkostinn.
Allir bjuggu sig undir að sú gamla myndi ekki lifa þetta af, enda mikil aðgerð. Aðgerðin var framkvæmd í gærkvöldi.
Í dag var ekki hægt að stoppa kjaftaganginn í kerlu og hún heimtaði kampavín handa sér og börnunum sínum úr því hún hafði þetta af, og að sjálfsögðu fékk hún það.
Mögnuð amma!