30.12.07


Nú árið er liðið
Í tilefni af komu nýs árs, þá hef ég ákveðið að skrifa litla færslu inn á þessa síðu, sem er annars að morkna.
Lítum yfir síðasta ár:
Ég man ekkert hvað ég gerði frá áramótum fram á vor. Sennilega bara verið upptekin við að æfa mig, stjórna kórum og syngja í kirkjum.
Í maí fór ég með kórnum mínum, Stöku, til Parísar. Unnustan kom einnig með. Góð ferð.
Hluta af júní og júlí eyddum við svo á bella Italia, nánar tiltekið í Siena. Þar samdi ég verkið Rygvendt og Stina lærði ítölsku.
Fljótlega eftir Ítalíuförin þá héldum við til Íslands, með fríðan flokk dana. Mamma, pabbi og systir tóku afar vel á móti 13 ferðalöngum, og er enn talað um þá ferð. Einnig var mjög gaman að vera heima yfir verslunarmannahelgina.
Um haustið hélt ég áfram í kirkjutónlistarskólanum og Stina byrjaði í Óperu Akademíunni. Akademían er einn besti óperuskóli Norðurlanda (jafnvel Evrópu) og skrigeskinken er hæstánægð.
Við fluttum núna í desember, út á "Ama'r" (Amager) og ég fékk afleysingarstöðu í Bellahøj kirkju.
Við héldum jól hérna á Ama'r með fjölskyldu Stinu. Þeas. þegar við vorum ekki í vinnunni. Ég var frá kl.14-18 á aðfangadag í Hundigekirkju, og svo í Bellahøjkirkju kl.23.30-01.00. Dagin eftir var svo messa kl.11. Annan í jólum átti ég svo frí.
Við skruppum aðeins til Jótlands, og fengum nóg af fjölskylduvelgjunni. Gott að vera komin heim á skítaeyjuna (Lorteøen/Ama´r/Amager).
Á morgun ætlum við svo að fanga áramótum með vinum frá Jótlandi og Íslandi. Foie gras í forrétt, kalkúnn í aðalrétt, og svo eitthvað gott í eftirrétt frá Jótlandi, þó ekki Molbúar.

Ég óska ykkur gleðilegra afturjóla (god bagjul) og farsældar á komandi ári!

28.11.07


Loksins, loksins
Þá er komið að því. Ég hef eitthvað að segja frá!
Í dag fór ég í atvinnuviðtal. Viðtalið snérist um afleysingarstarf í eitt ár, sem organisti í Bellahøjkirkju.
Fjórir umsækjendur voru kallaðir til viðtals og ég var síðastur í röðinni.
Viðtalið fór þannig fram að ég spilaði forspil og 2 sálma og svo var ég spurður ýmissa spurninga af sóknarnefnd og prestum.
Ég fékk djobbið.
Svo núna er ég organisti Bellahøjkirkju, í eitt ár eða svo.

Kirkjan er lítil, en ljót. Þegar búið var að byggja kirkjuna, þá föttuðu menn að það vantaði orgel í kirkjuna. Þannig að orgelinu var troðið fyrir í litlu herbergi úti í horni. En hvað um það! Ég fæ föst laun næstu 12 mánuði. Myndin hér að ofan er af kirkjunni.

18.11.07

djé err
Í dag var verkið mitt Rygvendt, fyrir sópran og gítar, flutt á tónleikum í tónleikasal Danska Ríkisútvarpsins. Fallegur salur, sem bráðum mun hýsa skólahljómsveit Konservatorísins.
Fullt af gömlu fólki á tónleikum, enda byrjuðu þeir kl.11, og engvir nemar gamalmenni sem nenna á tónleika svo snemma dags.

12.11.07

Af vinnandi fólki
Ég hef ekki átt frídag í 14 daga. Síðastliðnar tvær helgar hafa farið í kóræfingarbúðir og fermingarfræðslu.
Þessvegna leyfði ég mér þann lúxus að sofa til kl.9 í morgun. Ljúft.

Það er kosningabarátta hérna í Danmörku. Ég fylgist ekkert með því, frekar en fyrri daginn.

Við (ég og Stina) erum búin að skrifa undir leigusamning um íbúð úti á Amager. Nánar tiltekið á Lombardigade. Stina er orðin þreytt á að þurfa að hjóla í 45 mín, hvora leið, í skóla. Nýja íbúðin er minni og ekki með svalir, eins og þessi sem við erum í núna. En hún er huggulegt og liggur ekki langt frá sjónum og Óperuhúsinu.
Við flytjum 30. nóvember. Kemurðu og hjálpar?

26.10.07

Daft Punk
Ég sá þetta myndband hjá Hildigunni og varð bara að leifa ykkur líka að sjá. Lengi hefur þetta lag heillað mig, þá sérstaklega sólóið. Vel gert, bæði músík og hendur.

24.10.07

Góður dagur
08.00
Borðaði morgunmat með kærustunni og Silviu. Ristað rúgbrauð og gráðostur, eins og vanalega.
09.00-11.40
Rembist við að finna skátakofa (hytte) fyrir kórinn minn, Stöku, til að halda æfingarhelgi í. Við erum íslendingar. Við gerum allt á siðustu stundu. Æfingarhelgin er þarnæstu helgi. Lítið gengur.
11.40
Hjóla á hraða vindsins niður í bæ. Er orðinn alltof seinn í orgeltíma.
12.00-13.00
Orgeltími. Spilaði 4 sálma, 1 lítinn orgelkóral eftir JSB og svo lokin á fúgunni í d-moll, einnig eftir JSB. Búinn að eyða miklum tíma í að æfa þetta verk, tokkata og fúga í d-moll. Hellingur eftir enn.
13.10
Fæ símhringingu með sálmanúmerunum fyrir sunnudaginn. Á að spila í Herstedvester Kirke. Falleg kirkja i fallegu umhverfi.
13.30-15.00
Borða madpakke í Jónshúsi. Spjalla við Jón. Hann hefur alltaf eitthvað skemmtilegt að segja. Í dag fékk ég að heyra um hin ýmsu skemmtilegu tilsvör Karls Sighvatssonar, heitins og organista (Hammond Íslandus).
15.00-16.00
Hlusta á fyrirlestur um nýútkomna bók eftir vinkonu mína Merete Sanderhoff. Fyrirlesturinn er á Statens museum for kunst, þar sem hún vinnur. Hitti einnig manninn hennar, Jens, og mömmu hans. Ég hef skrifað músík við ljóðin hans Jens. Merete kynntist ég í Århus Universitetskor. Hún er listsagnfræðingur.
16.00-17.00
Sit í S-tog til Ordrup
17.00-18.00
Syng í messu í Ordrup Kirke. Asnalega fáir í messu. Væri sniðugra að nota peninginn í eitthvað annað en að borga okkur laun.
Eftir messuna ræddum við m.a. um að "klassískir" tónlistarmenn dansa of lítið.
18.30
Tala við kærustuna í síma. Hún ætlar að sjá/heyra Rígólettó í Óperunni. Hún hefur jú frían aðgang í allt sem gerist í þessu húsi.
19.30
Ég er kominn heim og mér lukkast að finna 2 skátakofa sem eru ekki leigðir út þarnæstu helgi.
20.00
Panta pizzu nr.19 hjá Leifs Pizzeria. Besta pizzeria á Nørrebro.
20.30
Les i bók og borða matinn minn. Hugsa um að það er langt síðan ég hef bloggað. Hef ekki nennt því.
21.08
Skrifa þetta blogg. Ætla að halda áfram að lesa...eða horfa á eitthvað innihaldslaust sjónvarpsefni.

10.10.07


Afi minn
Ég kann að spila á harmoníku. Afi minn kenndi mér það þegar ég var 7-8 ára gamall.
Afi var magnaður kall. Hann var sjómaður, síðar meir netagerðarkall og bóndi. Sem ungur réri hann á miðin. Í frístundum, sem voru sennilega ekkert alltof margar, þá spilaði hann á nikkuna.

Minning:
Amma sagði mér einu sinni að þau, hún og afi, hefðu gengið frá Neskaupstað yfir í einhvern annan fjörð rétt hjá (kannski yfir í Viðfjörð, eða jafnvel Sandvík). Þau voru að fara á ball. Afi átti að spila. Hann bar nikkuna á bakinu, og hún bar nestið. Þau gengu allan daginn, voru á ballinu, gengu svo heim daginn eftir.

Afi var svona kall sem spilaði á böllum í sveitinni og nágrannasveitum. Þá var nóg að hafa einn nikkara til að slá upp balli. Afi sat svo allt kvöldið og langt fram á nótt og hélt uppi dansleiknum. Kannski fékk hann eina stutta pisspásu, aðrar voru ekki pásurnar.

Minning:
Afi kenndi mér að búa til net. Svo sat ég í eldhúsinu hjá þeim og gerði net. Ég er búinn að gleyma þessari handavinnu.

Það var fyrst þegar afi var kominn yfir sextugt að honum datt í hug að læra nótur. Ég veit ekki hvernig hann fór að því, en hann kenndi sér sjálfur að lesa og skrifa nótur. Svo skrifaði hann niður lög sem hann hafði samið.
Daníel bróðir minn fékk svo oft þessar nótur sem sá gamli hafði skrifað. Hann hreinskrifaði þær síðan, og setti inn bókstafshljóma.
Rétt áður en afi gamli dó, þá gerðum við bók, sem innihélt lögin hans afa. Ég sá um að setja nóturnar hans Daníels upp í tölvunni og mamma skrifaði smá inngang. Svo var bókin prentuð í einhverjum eintökum. Sá gamli var mjög stoltur yfir þessu.

Núna hefur svo elskulegur bróðir minn útsett lögin hans afa og tekið þau upp. Nánast allt hefur hann gert sjálfur í fínu tölvunni sinni. Svo í næsta mánuði ætti að vera til diskur með herlegheitunum.
Hefði afi verið á lífi í dag, þá hefði hann sennilega verið búinn að kaupa sér góða tölvu og græjur, og hefði gert þetta sjálfur.

Þið getið lesið meira um diskinn hér á netli bróður mínshér á netli bróður míns og heyrt nokkur lög á þessari myspace síðu.

8.10.07

Eldræða
Áðan var æfing hjá kórnum Vox Absona. Ég sat við stjórnvölina, þar sem kórstjóri kórsins er veik. Hún er stressuð. Ekki ég.
Þessi sami kórstjóri hefur sagt stöðu sinni lausri frá byrjun næsta árs.
Þau spurðu mig hvort ég vildi vera næsti kórstjóri þeirra. Þau þekkja mig, þar sem ég hef verið afleysingarstjóri hjá þeim.
Í kvöld átti ég s.s. að halda söluræðuna. Ég átti að selja mig.
Það tókst svo vel að í byrjun næsta árs er ég kórstjóri kórsins Vox Absona.

5.10.07


Rjúkandi heitur haustsmellur!
Okkur á útvarpsstöðinni Sjöfn hefur borist nýr smellur frá dúóinu "For two to Play", sem mætti útleggjast sem "Tvímenningsleikur". Smellurinn kallast "Rygvendt" og er eftir tónskáldið sívinsæla Stefán Arason aka. Stebbi Nobb/Nebbi Stopp. Við hérna á stöðinni teljum að þetta lag muni klífa hæstu tinda vinsældalistanna vestanhafs, sem og hér heima.
"Rygvendt", gjörið þið svo vel.

Píanótónleikar
Þessi sæta stelpa á myndinni ætlar að halda tónleika á morgun, 6. október. Stúlkan heitir Eva Þyri Hilmarsdóttir og hún ætlar að refsa slaghörpunni í Fella- og Hólakirkju rækilega. Leikar hefjast kl. 17.
Ég heyrði hana spila þetta prógram um daginn, og mæli ég eindregið með að þið farið og hlustið.

Efnisskráin lítur svona út:

L.v. Beethoven: Sonate i Es-dur op. 31 nr. 3 (1802)
(1770-1827)
- Allegro
- Scherzo: Allegretto vivace
- Menuetto: Moderato e grazioso
- Presto con fuoco

F. Chopin
(1810-1849):
Nocturne i c-mol, op. 48 nr. 1
Ballade nr. 4 i f-mol, op. 52

E. Granados
(1876-1916):
Fra Goyescas: Quejas ó la maja y el ruiseñor

S. Prokofjev: Sonate nr. 2 i d-mol, op. 14 (1912)
(1891-1953) - Allegro, ma non troppo
- Scherzo: Allegro marcato
- Andante
- Vivace

24.9.07


Frumflutningur og plötur
Í gær var verkið "Rygvendt", eftir sjálfastan mig, frumflutt í Sívalaturninum í Kaupmannahöfn. Það voru þau Camilla Toldi Bugge (sópran) og Martin Stæhr Haugaard (gítar) sem frumfluttu.
Flutningurinn var mjög góður, og er ég afar sáttur. Ég hef í rauninni aldrei liðið eins vel á tónleikum þar sem tónlist eftir mig hefur verið flutt. Hljómburðurinn í þessum sal er svo ótrúlega góður að ég hafði ekki tíma til annars en að hlusta. Oft er ég smá stressaður þegar verið er að flytja músík eftir mig. "Komast þau klakklaust í gegn? Finnst þeim þetta leiðinlegt? Eru áheyrendur að deyja úr leiðindum?" eru hugsanir sem geta plagað á meðan tónlist eftir mig er flutt. En ekki í gær...tja...bara smá.
Næstu helgi verður verkið svo flutt í Árósum, á útskriftartónleikum Martins. Ég er spenntur. Salurinn ekki nærri eins góður, og hann krefst meira af flytjendunum. Læt vita hvernig gengur.

En yfir í annað.

Ég stoltur eigandi að iPod og ég nota hann töluvert. T.a.m. fer ég ekki í ræktina án hans. Þar er svo hryllileg músík í gangi, að ég get ekki annað en reynt að yfirgnæfa hávaðann með betri hávaða.
Inni á þessum kostagrip geymi ég stóran hluta af tónlistarsafni mínu. Og undanfarið hef ég keypt nokkuð af íslenskri músík. Það er orðið ansi auðvelt að fá spennandi íslenska tónlist hér í borg, síðan 12 tónar opnuðu útibú í Fiolstræde. T.d. hef ég keypt diskana "Wine for my weakness" (Pétur Ben), "Seria" (Skúli Sverrisson og félagar) og "Við og Við" (Ólöf Arnalds).
Þetta eru afar góð kaup að mínu mati. Sérstök eru þau öll sömul og afar spennandi á ólíkan hátt.
En einhvernveginn finnst mér að diskar Péturs og Ólafar eru ekki gegnheilir. Mér finnst einhvernveginn sem fyrrihluti diskanna eru afar góðir, en svo finnst mér þynnast aðeins í innihaldinu. Sennilega er þetta bara vegna hlustunarröðunar. Ef maður hefði byrjað aftanfrá, frá byrjun, þá gæti vel verið að mér þætti hið sama. Maður nær ekki alltaf að heyra heilan disk í einu, svo byrjunin verður eitthvað sem maður þekkir betur og allir vita að okkur finnst tónlist sem við þekkjum mun betri en tónlist sem við þekkjum ekki eins vel. Tónskáldsins dilemma.
En aftur á móti þá er diskurinn hans Skúla alveg gegnum góður.
Því er pælingin; ætli tónlistarfólk sem er að gefa út sína fyrstu plötu raði sínum bestu lögum fyrst á plötuna? Taka ekki sénsinn á að setja besta smellinn aftast og hlaða þeim frekar öllum fremst? Eða er þetta bara nostalgían sem er að hrekkja mig?
Læt ykkur vita þegar ég er farinn að finnast síðustu lögin á umtöluðum plötum, jafngóð og þau fyrstu.

15.9.07

"Segðu úúúúú..."
Eftir matinn eyddum við, ég og Stina, c.a. 30 mínútum í að segja "ú". Þetta var reyndar ekkert venjulegt "ú", onei, þetta var mjög sérstakt "ú". Ég á nefnilega mjög erfitt með að syngja í falsettu. Í rauninni get ég það ekki. Eins og ég hafi týnt þeim hæfileika. Ég veit í rauninni ekki hvort þetta heitir falsetta, eða höfuðtónn, eða hvað þetta nú er. Ég get allaveganna ekki gefið frá mér háa kvenlega tóna, eins og svo margir geta. Þetta pirrar mig. Því þessi eiginleiki er talinn afar góður í söng, því ef þessi tækni er tekin með niður í dýpra tónsvið, þá fær röddin mun fallegri hljóm. Hann verður yfirtónaríkari.
Einnig kemur þessi kunnátta sér vel að notum, ef stjórna á dönskum barnakór. Mikilvægt að þetta sé danskur barnakór. Dönsk börn eiga nefnilega við það að stríða, að þau syngja alltof djúpt. Þeas. í skólum og dagheimilum eru þau látin syngja á tónsviði sem er oft alltof djúpt fyrir þau. Þetta veldur því að þau fá ekki notað röddina eins og best væri á kosið. Ástæðan fyrir því að þau syngja svona djúpt, er að þeir sem stjórna söng í þessum stofnunum hafa ekki áttað sig á að börn hafa mun hærri rödd en við fullorðna fólkið. Einnig liggur danskan afar aftarlega í munninum, sem veldur því að talröddin er dýpri. Norðmenn eiga aftur á móti mjög auðvelt með að syngja, þar sem þeirra tungumál er meira tengt góðri söngrödd. Eins er með íslenskuna, að nokkru leyti.
En s.s. við sögðum "ú" í c.a. hálftíma. Fyrst stakk ég litlaputtanum upp í mig og saug. Svo kippti ég honum út, og dró loft ofaní lungum. Svo átti ég að halda þeirri "hálsstöðu" og blása aðeins út og setja svo tón á loftstrauminn.
Þetta gekk afar illa.
Kannski er ég búinn að búa í Danmörku of lengi?

með tárvotar kinnar

SOLO
- Det Jyske Musikkonservatoriums Solistfestival 2007
FREDAG D. 28. SEPTEMBER KL. 20.30
NIELS TROLDBORG, KLAVER

Niels Kristian Troldborg startede sin musikalske karriere som selvlært sanger/tekstforfatter i rockbandet "The Wave", men har i løbet af sin allerede yderst imponerende karriere været
pianist i adskillige andre sammenhænge, blandt andet "Big Fies Big Band" i Odder.

Niels Kristian Troldborg giver ofte solorecitals over hele verden, især i udlandet, og hans nærmest grænseløst store repertoire spænder uendeligt vidt, dog med hovedvægten lagt på barok, wienerklassik, romantisk og nyere musik.

Niels Kristian Troldborg er lysår foran sine nærmeste kollegaer når det kommer til kreativitet, åndelig formåen og kunstnerisk format, og han er iøvrigt også en efterspurgt kammermusiker, hvor hans store musikalitet og imponerende evner for at yde både kunstnerisk med- og modspil virkeligt kommer til deres ret.

Niels Kristian Troldborgs sublime klaverteknik og på alle måder overlegne kunstneriske fortolkninger, har tryllebundet publikum over hele den civiliserede verden, fra Moskva til New York.

En af karrierens hidtil største successer hentede han imidlertid herhjemme, da karrierens største kunstneriske satsning kulminerede i 1998. Her opførte han - som den første danske pianist nogensinde - samtlige værker af Jerry Lee Lewis for et talstærkt og yderst begejstret publikum, i det store øltelt på Ørting/Falling idrætsforenings årlige kræmmermarked. Han er hvert eneste år fast modtager af en nærmest uendelig række velestimerede priser og legater.

Program
Maurice Ravel: fra "Le Tombeau de Couperin" (1914-1917)
(1875-1937) - Prelude
- Rigaudon
- Menuet
- Toccata

Frédéric Chopin: Nocturne i Des-dur opus 27 nr. 2 (1833)
(1810-1849)

Ludwig van Beethoven: Sonate C-mol opus 111 (1822)
(1770-1827) - Maestoso - Allegro con brio ed appassionato
- Arietta, Adagio molto semplice e cantabile

14.9.07


Stælur
Fyrir þá sem ekki hafa rekist á þetta hjá Hildigunni, ættu að kíkja á þessi skrif Don Pedros. Afar fyndin saga um Garðar Thor Cortes og Lykla-Pétur.
Ég hef oft pælt í því hvar maður gæti selt sál sína, og sé ég nú að þau viðskipti fara fram hjá Einari Bárðarsyni.

13.9.07

Blogg í fríu falli
U.N.M hátíðin er nú yfirstaðin og ég komin heim úr sælunni á Íslandi. Það er reyndar ósköp ljúft hérna í Kaupmannahöfn. Haustið er fallegt, með háum himni og kaldri golu. Og Staka er komin á fullt. Síðustu raddirnar að koma í hús, vantar þó ennþá nokkra bassa. Þetta reddast samt örugglega.

Í fluginu á leiðinni heim upplifði ég nokkuð óþægilegt, svona sérstaklega þar sem flugið átti sér stað 10.sept, dagurinn á eftir hefur ákveðna merkingu í sögunni, og einnig vegna þess að nokkrum dögum áður hafði flugvél hjá SAS bilað í lendingu, en engin mannskaði þó.
Við vorum í aðflugi. Flugið hafði verið einstaklega þægilegt, ég sat einn í minni sætaröð, og engin ókyrrð. Reyndar er ég frekar flughraustur, svona miðað við systkini mín og föður, svo ókyrrð hefur aldrei hrætt mig.
Aftur að aðfluginu.
Við vorum komin niðrúr skýjunum. Það var lágskýjað.
Kaupmannahöfn var falleg í myrkrinu og það var gaman að horfa yfir borgina og átta sig á hvernig hverfin liggja.
Dekkin voru komin niður og við lækkum flugið enn meira. Við fljúgum framhjá vindmyllunum sem standa úti í Øresund.
Allt virkar sem eðlileg lending. Nema hvað allt í einu gefur fljugstjórinn í og hækkar flugið snögglega. Dekkin eru tekin upp og við klífum aftur upp.
Mér bregður. Ég hífi hettuna á peysunni minni yfir hausinn og fer að rugga fram og aftur. Mér leist ekki á þetta. Nú væri sennilega búið að ræna vélinni og stefnan er tekin á Rundetårn, hugsaði ég.
Ekkert heyrðist í flugstjóranum.
Þegar vélin er hætt að klífa og búin að beygja smá, tilkynnir flugstjórinn að sökum umferðar hefði ekki verið hægt að lenda.
Hjúkket!
Við tókum einn aukahring í kringum Kastrup og lentum svo bara í næstu tilraun.
Það var ósköp gott að stíga á fast land.

Næsta blogg verður um Ítalíu.

6.9.07

U.N.M
Nú eru liðnir 5 dagar af UNM hátíðinni, og nú er ég að skrópa á tónleikum. Ég er með kvef, og nennti hreinlega ekki á tónleika með raftónlist, bara til að líða illa. Þess í stað ætla ég að skrifa netl.
Á sunnudaginn var verkið Hvil Sødt frumflutt á Íslandi, eins og er orðið svo vinsælt að segja um tónleika hérna í Rvk. Símakórinn Hvönn söng og Hildigunnur Rúnarsdóttir, tónskáld og söngkona, sáu um sönginn, og svo sáu hinir ýmsu hljóðfæraleikarar um hitt. Gunnsteinn Ólafsson stjórnaði svo hersingunni.
Þetta var hinn ágætasti flutningur, þó svo ég saknaði lengri hljómburðs, og lengri kirkju, svo hægt væri að flytja verkið með þeim hreyfingum sem voru samdar í það. Þegar verkið var frumflutt þá gekk kórinn inn, syngjandi lítið þrástef (stef sem kemur aftur og aftur) og þegar drengjakórinn var búinn að syngja, þá gekk hann aftur fyrir altarið í kirkjunni, og söng svo þaðan undir lokin.
En á tónleikunum var verkið í "einvíðum" flutningi, þeas. allir bara fyrir fram áheyrendur.
En s.s. þau gerðu þetta vel, og er það fyrir mestu.

Á mánudaginn voru svo allir þáttakendur á UNM boðnir í móttöku á Bessastöðum, þar sem Hr. Ólafur Ragnar tók á móti okkur. Sú móttaka var með eindæmum frábær. Ólafur bara spjallaði við okkur afslappað, og bauð okkur kampavín. Svo máttum við ganga um húsið og skoða myndir og muni. Alveg einstaklega huggulegt og almennilegt af forsetaembættinu. Ólafur gerði þetta svo vel að útlendingarnir urðu afar snortir af þessari gestrisni. Yfirleitt er nefnilega svona móttaka á þessari hátíð, en þá yfirleitt hjá borgarstjóra, eða þar sem einhver hefur haldið ræðu og búið bless. En þetta var mun sterkara. Ef Hr. Ólafur er að lesa þetta, þá vil ég nota tækifærið og þakka fyrir góðar móttökur.

Á meðan ég tek þátt í þessari hátíð, þá bý ég hjá öðlingnum og ljúfmenninu Huga Þórðarsyni eða Frugga Roðrarsyni eins og sumir þekkja hann. Það er óskaplega ljúft að búa hjá honum. Hérna er þráðlaust internet, sundlaug 20 m. frá útidyrum og svo er þessi drengur bara svo ljúfur að það hálfa væri nóg. Hann skutlar mér hingað og þangað, og tekur mig með í skemmtiferðir og ég veit ekki hvað. Ef ég væri samkynhneigður þá myndi ég reyna við hann.

Jæja, nú ætla ég að einbeita mér að því að láta mér batna kvefið.

29.8.07

Áminning
Ég vil minna á tónleikana núna á sunnudaginn. Þeir verða í Neskirkju, og hefjast leikar kl.20.
Mun Hildigunnur ruglast? Spennan er í hámarki!

Sjáumst!

17.8.07

Þjónustulund
Aftur að sögu úr Ítalíuferðinni.

Við bjuggum, eins og áður hefur verið getið, í 3 vikur í borginni Siena sem er í Toscana. Gömul borg og falleg.
Borgin er eiginlega bara túristaborg, höfðu stúlkurnar eftir Ítölskukennara sínum. Það búa ekkert svo margir Ítalir í borginni. Þeir búa rétt fyrir utan, og koma svo inn í borgina til að vinna, annaðhvort í banka eða við túrisma.

Mín reynsla er sú að þar sem margir túristar eru, eins og í Siena, þá er þjónustan í búðum og veitingahúsum ekkert sérlega góð. Það er hvort eð er allt fullt af fólki sem daginn út og daginn inn, svo afhverju þarf ég að halda í kúnnann, hugsa sennilega margir.

Ég var nú ekkert mikið að ráfa í búðir oþh. en ég gerði þeim mun meira af að elda mat, og kaupa inn í matinn. Ég hafði keypt stóran eldhúshníf, afar ódýran, því eldhúsið í íbúðinni okkar hafði bara hnífa sem bitu jafn mikið og þeir sáu. Staurblindir.
Hnífur þessi var ágætur í fyrstu, en fljótlega fór bitinu að minnka.
Dag einn gekk ég framhjá leðurbúð. Ég hélt að þetta væri svona "hælebar" eins og í danmörku, þar sem þú getur fengið gert við skóna þína, smíðað lykla oþh. hluti, og vatt mér því inn og spurði, á ensku, hvort þau gætu brýnt fyrir mig hníf. Þegar inn var komið sá ég að þetta var bara leðurbúð, þar sem allur varningur, belti, töskur oþh. voru gerðir á staðnum. Það var par sem stóð bakvið borðið, í nokkurskonar leðurverkstæði, og þau skildu ekki eitt aukatekið orð í ensku. Ég reyndi á minni afar fátæklegu ítölsku (sem aðallega inniheldur tónlistarorð og matvöru) að segja hnífur og "filere" (brýna). Fyrir rest skildu þau hvað ég vildi, og sögðu mér að koma með hnífinn.
Ég fer heim, og labba framhjá annarri leðurbúð, mun nálægari íbúðinni okkar en sú fyrri. Ég vind mér þar inn, í von um að ég gæti sparað mér sporin í hitanum, og spyr hvort hann geti brýnt fyrir mig hníf, eftir að ég hafði spurt hvort hann kynni ensku. Mér var svarað einstaklega ókurteislega, á afar góðri ensku, að hann brýndi sína hnífa og benti mér hranalega á að þetta væri leðurbúð. Ég sagði honum að fara í rassgat, þó á íslensku, og gekk út.
Hnífinn lélega sótti ég í íbúðina og fór með hann í fyrri búðina. Þar eyddi vinalegi leðurvörugerðarmaðurinn góðum tíma í að brýna fyrir mig hnífinn, og sýndi mér svo það sem hann var hvað stoltastur af, en það var miðaldaleðurfatnaður og hlutir sem hann gerði og seldi. Þetta var eins og að koma inn í miðjar tökur á Lord of the Rings eða eitthvað slíkt. Einstaklega furðulegt að einhver vilji kaupa svona.
Eftir alla þessa þjónustu, sem leðurvörugerðarmaðurinn vildi ekki taka neitt fyrir, þá kaupi ég mér belti af honum. Mig vantaði belti og hann fékk þó eitthvað fyrir snúð sinn. Allir sáttir.

Á leiðinni heim geng ég framhjá glugga hins dónalega leðurvörugerðarmanns. Hann sér mig ganga fyrir utan. Ég stoppa, bendi á pokann sem ég fékk í hinni búðinni, og sýndi honum svo útrétta löngutöng hægri handar.

Hver er boðskapurinn með þessari sögu? Enginn. Nema kannski að það borgar sig að gera sig að fífli og reyna að tala ítölsku, í túristahrjáðum borgum Ítalíu.

Kaldar kartöflur
Drottningin í "danska eldhúsinu" er svokallað smørrebrød (smurbrauð)...og drottning smurbrauðsins er náttúrulega Ida Davidsen. Hún er smurbrauðsjómfrú, ekki smurbrauð.
Smurbrauð er eiginlega danska útgáfan af pítsu, þeas. þú notar þá afganga sem þú átt til að setja ofan á brauð. Annaðhvort rúgbrauð eða hvíttbrauð (fransbrauð). Danska rúgbrauðið er töluvert öðruvísi en það íslenska. Það íslenska (seytt rúgbrauð) er miklu sætara og inniheldur nánast ekki einn kjarna. Danskt rúgbrauð heldur meltingarkerfi heillar þjóðar gangandi.
Síðan ég kynntist kærustunni minni, sem er dönsk, þá borðum við yfirleitt rúgbrauð í hádegismat, þá með ýmiskonar álegg á brauðið. Það gæti t.d. verið kæfa, makríll í tómat, síld, spægipylsa, ostur, egg, kaldar frikadellur (kjötbollur) og svona mætti lengi telja. Yfirleitt má bæta smá agúrku, lauk eða tómat á sneiðina ("madden" eins og danir kalla það) til að gera þetta aðeins ferskara. Ekki má gleyma að majones er mikið lykilatriði í smurbrauðsgerð. Og majonesið þarf að vera í túpu, ekki í dollu. Annað mikilvægt atriði er að rista rúgbrauðið, nema það sé splunkunýtt að sjálfsögðu. Ristað rúgbrauð er einnig gott út í súrmjólk.

En jæja, aftur að afgöngum. Einn er sá afgangur sem mér hafði aldrei dottið í hug að gæti verið góður ofaná brauð, en það er kartöflur. Kaldar kartöflur ofaná rúgbrauð, með smá salti og pipar, að ógleymdu majonesi, er lostæti. Eiginlega svo gott að ég get alveg látið það vera að borða eitthvað annað í hádegismat.
Endilega prófið það, næst þegar þið eigið kartöflur í afgang.

12.8.07

The hills are alive...
Sunnudaginn 2. september mun verkið Hvil Sødt, eftir sjálfan mig, verða flutt á UngNordiskMusik tónlistarhátíðinni. Hátíðin er þetta árið haldin í Reykjavík. Tónleikastaður og stund er ennþá óákveðinn.

Annars var ég að koma heima úr tveggja vikna fríi á Íslandi. Frábær ferð í alla staði. Mér hefur eiginlega aldrei liðið eins vel og nú í Neskaupstað, þeas. síðan ég flutti þaðan.

Nú er ég aftur kominn á Norðurbrú og hlutirnir töluvert öðruvísi en í rólega Neskaupstað. Hérna eru nágrannar sem rífast og skella hurðum, eða eru geiðveikir fyrrv.söngvarar, eða hálfnaktir dansarar.
"I love the smell of napalm in the morning."

24.7.07


Klikkaður
Hún Guðný, ofur-orgvélisti, klukkaði mig.
Jæja þá.
10 staðreyndir Stefáns:
1. Ég drakk úr pollum þegar ég var lítill. Helst brúna vatnið, því það var eins og kaffi með mjólk útí.
2. Ég tel mig muna eftir því þegar ég kúkaði á gólfteppi foreldra minna.
3. Ég man ekki eftir að hafa farið í skurðinn, þó svo mamma mín standi í þeirri meiningu að ég hafi logið því að ég hafi ekki farið í skurðinn. Afhverju vill hún meina það? Jú, því hún stóð á skurðarbarminum og spurði hvort ég hafði ekki lofað því að fara ekki í skurðinn. Ég stóð niðrí skurðinum. En eitt er með vissu! Guðni fór í hann. Skurðinn.
4. Mér fannst aldrei gaman að æfa mig á hljóðfærin ég spilaði á sem krakki (trompet og píanó). En aftur á móti þá æfði ég mig á hverjum degi. Ég er ekki viss um að ég hafi haft eitthvað sérlega gott af því.
5. Ég reyki þegar mig langar til þess. Aðallega vindlinga og svo pípurnar mínar.
6. Pervert er eitthvað sem sumir kalla mig. Ég neita því ekki.
7. Mér finnst lifur ennþá vera vondur matur. Nema það sé lifur í kæfuformi, t.d. "foie gras".
8. Ég einfalda lífið eins mikið og ég get.
9. Mér þykir afar vænt um hjólið mitt, sem er ryðgað og fölgrænt kvenmanns reiðhjól, af Batavus gerðinni.
10. Mér líður vel þegar hlutirnir eru á sínum stað. Og allir hlutir eiga að hafa stað, og helst í eða á einhverju öðru, eins og t.d. öskju, hillu, skúffu eða poka. Geymsla, eða nytjamarkaðir, eru líka góðir staðir til að geyma hluti í. Það er samt ekki gott að geyma tilfinningar.

23.7.07


"Þetta er glæpur!"
Tilvitnun dagsins:
"Ég hef eytt fjórum árum í að læra að syngja vitlaust. Það hefur tekið mig heilt ár, þar sem ég hef ekki gert annað en að aflæra það sem mér hefur verið kennt undanfarin ár."
Stina Schmidt, fyrrv. söngnemandi í Det Jyske Musikkonservatorium, núverandi nemandi í Opera Akademiet, Kaupmannahöfn.

13.7.07


Gelato
Ís, í eintölu, heitir gelato á ítölsku. Í fleirtölu gelati.
Ítalskur ís, er ekki bara hvítur, bleikur eða blandaður (sagt afar hratt og óskýrt af súrri afgreiðsludömu). Onei! Ísinn ekki eins feitur og venjulegur ís, því hann er gerður úr mjólk, en ekki rjóma. En Ó hvað hann er góður! Svo í góðum ísbúðum geturðu eytt c.a. 15 mínútum í að velja þér bragðtegund...tja eða bara koma oft og smakka þær allar. Svo er ísinn ekki bara "hollari" en venjulegur ís, hann er mýkri og léttari í sér. Eini hönnunargalli er að ísinn bráðnar fljótt.
Við áttum okkar ísbúð á il Campo, ráðhústorgið í Siena. Torgið var eins og pizzasteinn í ofni, hitað af sólinni, og þegar við komum niður á torgið, á kvöldgöngu, var svo gott að kaupa sér einn ísbikar, og sitja á heitu torginu og horfa upp í stjörnurnar.
Intermezzo
Nú ætla ég að brydda upp á öðru efni, en hugleiðingum og sögum frá Ítalíu. Nú er það blákaldur veruleikinn, hérna í Danmörku.
Ég hef skrifað ýmis netlin um uppátæki dansksins, og þær vitleysur sem þeir flækja sig út í og venjur. Og enn eru þeir mér "yrkisefni". Þeir geta nefnilega verið svolítið tregir. T.d. eru þeir svolítið hægir á sér með dýranöfnin, en þeir setja hljóðdýrsins, eins og maður skrifar það, fyrir framan nafnið á dýrinu (sjá lista hér fyrir neðan). Sennilega er þetta eldgömul hefð, sem gæti átt uppdrög sín langt áður en tungumálin fóru þróast, og mannskepnan notaðist við frumstæð hljóð til að hafa samskipti. Furðulegt að þessi hefð hafi ekki dáið út, þar sem svo margar aðrar mun yngri hefðir í dönsku máli hafa fallið úr gildi og jafnvel heilu orðin.
En hér kemur þessi listi yfir hin ýmsu dýranöfn á dönsku:

Bu-ko/Mu-ko
Vov-hund
Pip-fugl
Mæh-lam
Pruh-hest
Øf-gris
Brumbasse (Humlebi)

Taka vil ég fram, að svínin í Danmörku segja "øf" (ísl.framb. "uf"). Síðasta orðið er ekki samansett orð eins og hin (hljóð+dýrategund) heldur er þett hljóð+útlistlýsing. Orðið "basse" er oft notað í samhenginu grissebasse (tillaga að þýðingu: gríshlunkur). Og orðið "brum" þýðir í rauninni suð, eða stöðugt hljóð. Það er líka notað yfir það fólk sem ekki geta haldið laglínu, heldur syngja bara allt á einum tóni, "en brummer".

Já, það er margt skrýtið í danskhausnum.

p.s. ég er ennþá að reyna að innleiða hið frábæra "danska" orð "ameloså" í danska tungu. Þeir eru ekkert sérlega viljugir að taka inn nýyrði hérna, en ég reyni.

10.7.07


Samið í Siena
Eins og þið hafið lesið, þá var tilgangur ferðarinnar sá að stúlkurnar fóru til að læra ítölsku. Til þess fer maður t.d. í ítölskuskóla. Það var einmitt einn slíkur í Siena, og skóli þessi bauð upp á 3. vikna námskeið sem þær tóku. Þær voru í skólanum frá kl.8.30 til kl.13.
Á meðan að stúlkurnar sátu sveittar á skólabekk við að beygja ítalskar sagnir og tala ítölsku við skólafélagana, sem voru frá öllum heimshornum á ýmsu aldri, þá sat ég í eldhúsi íbúðarinnar sem við leigðum á meðan dvöl okkar í Siena stóð, og samdi tónlist.

Bregðum okkur til Árósa, á því herrans ári 2004.

Þar var tónskáld, enn í námi, sem vill semja tónlist fyrir hljóðfæri sem hann hefur aldrei samið áður fyrir, og hann vill semja músík sem er algjörlega ólík öllu öðru sem hann hefur samið. Eitthvað splunkunýtt, eitthvað dularfullt, eitthvað sem hann gerir sér litla grein fyrir hvernig það muni hljóma.
Tónskáldið er ég sjálfur, og verkið sem fæddist heitir Morrk, skrifað fyrir 7 gítara og harmóníku.
Verkið var síðan frumflutt af nemendum skólans (Det Jyske Musikkonservatorium) og stjórnað af Martin S. Haugaard.
Martin þessi spilaði svo síðar við útskriftarpróf þessa sama tónskálds. Martin er duglegur gítaristi og góður tónlistarmaður.

Nokkrum árum síðar pantaði þessi sami gítarleikari nýtt verk af tónskáldinu, og mun verkið verða frumflutt á einleikaraprófi/tónleikum gítarleikarans.

Verkið heitir Rygvendt og er við texta Jens Sanderhoff.

Det er musik,
og dét er musik.
At se en blind pige stå med ryggen til en eng,
at se hende, mens hun folder hver eneste lyd op,
som var de alfabetets spurve. At se,
og at sønderdele billedet i en splintret flugt
over et landskab i mørke.
Det er musik,
en tanke, der danser med havet.
Inde i dette hav hænger hun, som en våd
og giftig engel, en spinkel tone,
der falder til ro, men bevæger sig
i en vægtløs og statisk koncert.
Det er musik,
og dét er musik.
At se med det blinde øje.
Et øjeblik. Et hav.

© Jens Sanderhoff

En aftur til Siena.
Ég þurfti að semja verk. Nú bara fyrir einn gítar og söngkonu. Það er nefnilega þannig að Martin þessi er einn helmingur af dúóinu For Two To Play, og hann vildi fá nýtt verk eftir mig.
Ég var kominn í tímaþröng. Verkið "Fangin augnablik" þurfti ég að klára áður en ég byrjaði á því nýja, svo þetta dróst svolítið. Svona er það þegar maður er í námi og með 3 kóra að stjórna. Öll tónskáld á Íslandi þekkja þetta vel. Maður getur ekki BARA verið tónskáld!
Þetta voru ljúfir dagar þarna í Siena. Ég samdi músík og eldaði mat. Yndislegt!
Verkið silaðist áfram, í ótakt við eldhús klukkuna. Klukkan gekk í 60 slögum á sekúndu, en músíkin í 67 slögum. Klukkan var fjarlægð.
En það sem gerði þessar tónsmíðar að enn meiri spennu, var að eftir að ég var búinn með einn hluta af verkinu, þá var hann hreinskrifaður ("under a Toscan sun"), skannaður inn hjá tölvukallinum súra, og sendur af stað til gítarleikarans. Heit músík beint í hendur hljóðfæraleikarans. Sem betur fer tók hann vel í þetta allt saman, og allt var spilanlegt.
Nú býð ég bara spenntur eftir tónleikunum, sem verða í lok september.

8.7.07


La Vita è bella
Í byrjun þessa árs hafði kærastan mín orð á því að henni langaði til þess að fara til Ítalíu og fara á ítölskunámskeið. Ég brást við eins og sannur karlmaður, og hugsaði ekki meira um þessa grillu í henni. Nokkrum mánuðum seinna var hún búin að bóka sig og vinkonu sína, Ullu, á 3 vikna ítölskunámskeið í þeirri mætu borg, Siena. Ég mátti koma með og leika Jeeves fyrir dömurnar.
Við lögðum 3 af stað í byrjun júní og komum heim í byrjun júlí. 3 vikur í Siena og 1 vika í Levanto, sem er lítið sjávarþorp á vesturströnd Ítalíu.
Þetta var frábær og viðburðarríkur mánuður sem við áttum á Ítalíu og næstu daga mun ég skrifa eitt og annað um það sem við upplifðum í lo Stivale.

27.6.07

Hann a ammaeli i dag!
Eg ryf thessa netlthogn til thess ad lata ykkur vita af thvi ad eg, Anna Gudlaug og Oli Magg fyrrv. bekkjasystkini min, Hafdis og Kristin Gyda fraenkur minar og Oskar smaladrengur eigum oll afmaeli i dag.

Eg oska okkur ollum til hamingju med daginn!

Annars nenni eg ekki ad skrifa a italsk lyklabord meira, svo eg afthakka blom og kransa hedan fra Siena.

Stefano, afmaelisbarn.

6.6.07


Arrivaderci!
Þá er síðasta prófið búið, og ég komin í formlegt sumarfrí (fyrir utan að ég þarf að skila af mér einu gítar/sópran-stykki eins fljótt og auðið er).
Þannig að nú er það bara Siena og restin af Toscana sem býður. Og svo náttúrulega jómfrúarferð nýs Trangia-"eldhúss" (takk mamma og pabbi!).

Lýsi yfir blogghléi fram í júlí.

Ciao!

5.6.07

Tónleikatilkynning
Á fimmtudaginn næstkomandi, 7. júní, kl.19.30 verða haldnir tónleikar í Safnaðarheimilinu í Neskaupstað.
Fram kemur dansk/norska Tríóið SAUM.
Á efnisskránni eru ýmis verk frá ýmsum tímabilum tónlistarsögunnar. Eitthvað fyrir alla.
Einnig frumflytja þau verkið "Fangin augnablik" eftir norðfirðingana Stefán Arason (tónskáld) og Stefaníu G. Gísladóttur (ljóðskáld).

Ekki láta þennan frábæra listviðburð framhjá þér fara!

3.6.07

Á 11. stundu
Á þeirri ríkisreknu sjónvarpsstöð DR2, er frábær þáttur sem kallast Den 11.time. Þáttur þessi fer í loftið kl.23 á mánu-, þriðju-, og miðvikudags kvöldum. Stjórnandi þáttarins er Mikael Bertelsen. Þættinum er varpað beint úr sjónvarpssal.
Bertelsen þessi hefur stjórnað ýmsum svona kvöldfréttatímum í gegnum tíðina, og er hreint út sagt snillingur í sínu fagi.
Ef ég ætti að finna hliðstæðan sjónvarpsþátt á Íslandi, þá má blanda saman fréttum Baggalúts og Ekki fréttum saman við huggulegheitin hjá Jóni Ólafs, svo í bland við menningarþætti á borð við Litróf (sem er sennilega ekki lengur til í íslensku sjónvarpi).
En s.s. maðurinn er snillingur í að taka viðtöl, með öðruvísi hætti. Þættirnir hans eru mjög svo spunakenndir, og það mega alveg koma langar pásur inn á milli. Þættirnir eru yfirleitt sprenghlægilegir. Svona húmor sem ekki er "prump, kaka í andlitið" húmor, heldur afar hæglátur, en hnitmiðinn húmor.
En hérna fyrir neðan getið þið séð það besta viðtal við stjórnmálamann sem ég hef séð.
Viðmælandi Bertelsens er Morten Messerschmidt, sem er ofarlega á lista í Dansk Folkeparti. Flokkur þessi vinnur aðallega í því að koma innflytjendum úr landi, og vill halda Danmörku sem dönsku landi. Meðlimir þessa flokkst eru s.s. hvítir danir, sem borða svínakjöt og búa flestir úti á landi, í litlum bæjum...þar sem þeir sitja og naga sitt flæskesvær.
Nýlega var Morten þessi í Tívolí, að borða á einum veitingastaðnum þar, og við það tækifæri fannst honum tilhlýðilegt að lofa Hitler, og fór að syngja Nazista söngva o.fl. í þeim dúr. Þetta var náttúrulega mikill skandall í dönskum fjölmiðlum, og var honum sagt úr flokknum um tíma, en var tekinn inn aftur fyrir ekki svo löngu. Í þessu viðtali tekst Bertelsen að vaða yfir Mortn, með þeim frumlegasta hætti sem ég hef nokkurn tíma séð í sjónvarpi. Að hugsa sér að geta sagt við viðmælanda sinn "Og hvernig lýsir svo þessi flokkur sér, þú hægrisinnaða svín?" án þess að blikka auga!
En þess ber að geta að þetta viðtal er ekki úr þáttunum á 11. stundu, heldur úr annari þáttaröð sem hann gerði.
Ef þið hafið áhuga á að sjá þættina, Den 11.time, þá er það mögulegt á heimasíðu þáttarins.


Framundan
Á miðvikudaginn fer ég í orgelpróf. Að öðru leyti er ég búinn í prófum, og sumarið er framundan.

Hvað ætla ég svo að gera í sumarfríinu, spyrjið þið kannski lesendur góðir. Á fimmtudaginn held ég af stað til þess mæta lands Ítalía. Ég, Stina og vinkona okkar Ulla, ætlum að búa í 3 vikur í Siena. Þær ætla að læra ítölsku á námskeiði og ég ætla að læra ítölsku af ítalskri uppskriftabók, sem ég ætla að fá mér þarna niðurfrá.
Við erum búin að fá íbúð til leigu á meðan við erum þarna, og svo erum við búin að leigja út okkar íbúð hérna í Kaupmannahöfn.
Þetta gerist ekki betra. Eða jú annars! Flugmiðinn fram og til baka kostaði undir 10.000 ísl. kr.
Þegar við erum búin að búa í 3 vikur í Siena, þá ætlum við að færa okkur niður á einhverja strönd, og búa eina viku í tjaldi.

Ég hlakka til.

28.5.07


Mr. Curly and the Roll On's Grand Oslo tour
Fyrr í vor/vetur var kóramót íslenskra kór erlendis haldið hér í Kaupmannahöfn. Um þetta kóramót skrifaði ég á sínum tíma. Á þessu móti var m.a. Ískórinn frá Osló. Það er bassahallæri í kórnum og þau vantaði líka meðleikara. Ég skaffaði þeim 2 bassa úr Stöku og svo sjálfan mig sem meðleikara.
Þeim líkaði svo þessi aðstoð að þau pöntuðu sama skammt á vortónleikana sína, sem voru svo haldnir síðasta laugardag í Osló. Tónleikaprógrammið hjá kórnum samanstóð af hinum og þessum dægurlögum.
Það var ekki nóg með að þau flugu inn 3 aðila frá Kaupmannahöfn til að vera með, heldur fengu þau til sín, frá Íslandi, kontrabassaleikarann Borgar og svo söngdívúna Diddú.

Tónleikarnir heppnuðust ágætlega. Ég spilaði til skiptis á píanó eða harmóníku, bæði þegar Diddú söng einsöng, og þegar kórinn söng, annaðhvort einn eða með Diddú. Ég hafði í nógu að snúast. Sem betur fer spilaði Borgar einnig með í flestum lögunum, svo það létti aðeins á mér.

Íbúðin sem við bjuggum í var eitthvað sem ég gleymi aldrei, eða öllu heldur útsýninu úr henni. Íbúðin var á 8. hæð og með útsýni yfir Osló. Íbúðin var einnig búin prýðindis svölum. Það voru engar gardínur í íbúðinni, né myndir á veggjum, svo það var bara Osló sem maður hafði fyrir augum sér. Ótrúlega flott að sofna með þessa fallegu borg innrammaða fyrir framan sig, og svo vakna við sólbaðaða Osló. Fallegt.

Við félagarnir í bandinu "Mr. Curly and the Roll On´s" höfum hérmeð ákveðið að bjóða upp á svona þjónustu um allan heim. Þið bara hringið ef ykkur vantar söngmenn í kórinn ykkar.

22.5.07


Svinet er landet
Þessa fyrirsögn sá ég á risastóru auglýsingaskilti um daginn. Meðfylgjandi mynd var af teiknuðu svíni, sem var í fallhíf.
Þrátt fyrir myndina þótti mér fyrirsögnin virka tvímælis. Svínið er lent, eða svínið er landið. Hið síðarnefnda er nefnilega töluvert rétt.
Í gegnum aldirnar hafa danir haft mikla svínarækt, og þeir elska svínakjöt. Jólin eru ein stór svínahátíð. Og að sjálfsögðu nýta þeir allt svínið. Þeir borða besta kjötið, í einhverskonar mynd. Þeir taka heilmikið af fitunni, ásamt smá kjöti, troða því upp í hreinsaða þarma svínsin, reykja, og kalla svo spægipylsu. Þeir búa til svínasultu, sennilega úr kjötinu á hausnum á þeim. Ég hef séð svínahala liggja í kælinum í stórmörkuðum. Hef ekki hugmynd um hvað þeir gera við hann. Þeir þurrka eyrun og selja sem hundamat. Og svo til að kóróna nýtnina, þá taka þeir húðina af svíninu, ásamt tilheyrandi fitu, skera hana í strimla og sjóða aðeins. Þarnæst er vatnið síað frá og húðinni blandað við mikið magn af salti. Þá er þetta sett inn í ofn og steikt við háan hita í 25 mínútur. Eftir það er fitan aðeins látin drippa af, og værsgo! þú ert kominn með flæskesvær, sem er einskonar snakk. Bragðast ágælega, er ógeðslega feitt (jú er bara söltuð svínafita), og er vinsælt á meðal þeirra sem eru fastakúnnar á einhverri kránni. Sumir fá sér flæskesvær í staðinn fyrir salthnetur, með bjórnum.
Gaman að þessum dönum.

Í gær fór ég í söngpróf í skólanum mínum, kirkjutónlistarskóli Sjálands. Ég hef ekki fengið neina kennslu frá þeim í söng, þar sem ég sagðist hafa ágætis söngkennara hérna heima (Stina er með söngkennarapróf). Ég nýtti mér þann lúxus að sjálfsögðu bara einu sinni, en það hlýtur að hafa haft svona líka fínan árangur, því ég stóðst prófið með glans. Prófdómarinn sagði, mest í djóki, að þetta próf mitt væri skömm fyrir skólann, því það sannaði að maður þyrfti ekki að fá kennslu í fögunum, til að ná prófunum.

15.5.07

Með gleðiraust
Margir samlanda minna, sem hafa verið í dönskum lýðháskóla (sem er ansi vinsælt fyrirbæri meðal táninga, sem vita ekki hvað þeir eiga að gera og vilja prófa sig áfram, og meðal eldri borgara, sem hafa ekkert að gera og vilja hafa eitthvað fyrir stafni) hafa komist að því að danir eru afar söngglaðir. Þeir syngja við ýmis tækifæri; skólasetnginu, skólaslit, útskriftir, afmæli, að morgni dags í skóla (morgunsöngur, tíðkaðist einnig víða á Íslandi), á fótboltaleikjum, við jólatréð og við brúðkaup, svo eitthvað sé nefnt.

En svo gæti ég skrifað ennþá meira um gæði þessa söngs og hvernig tónlistarval, tungumál og raddfyrirmyndir hafa eyðilagt ansi margar raddir í dönsku sönglífi. Sá pistill kemur jafnvel síðar.

Það er ekki nóg með að danir hafa sterka hefð fyrir því að syngja þeir hafa líka einhverja ótrúlega þörf fyrir að skrifa texta við ýmis lög, við hin ýmsu tækifæri, svokallaðir tækifæristextar. T.d. er það hefð í fermingarveislum að það sé skrifaður texti um fermingarbarnið, og svo er textanum dreift út við mikla athöfn. Textablaðið sjálft þarf nefnilega að hylja, og til þess er útbúinn sérstök textahlíf (sangskjuler). Svo liggur sportið í því að textahlífin hafi einhver tengsl við aðal áhugamál fermingarbarnsins. T.d. ef þú ert fótboltaáhugamaður, þá koma textarnir inn í salinn í fótbolta. Og ef margir hafa skrifað texta handa þér þá eru margskonar textahlífar.
Í fermingunni hennar Stinu, kærustu minnar, voru flestar textahlífarnar tengdar hestum. Í fermingu bróður hennar kom einn textinn inn í ölkassa.

En s.s. þetta á ekki bara við um fermingar. Danir skrifa svona texta til afmælis"barna" (afhverju er ekki til íslenskt nafn á fullorðna sem eiga afmæli? Danir segja "fødselar" sem á við um bæði kynin, á öllum aldri) til brúðhjóna osfrv.
En það sem danir hafa ekki fattað varðandi þessa texta, er að þeir eru ótrúlega sjaldan skemmtilegir. Ég man eftir einum sem var skemmtilegur. (Kannski man ég bara eftir honum því ég var með í að skrifa hann) Jan, sem er svili mömmu hennar Stinu, varð fimmtugur. Við skrifuðum texta handa honum þar sem við notuðum allar klisjurnar. Dæmi um klisju:

Det er dejligt at være inviteret til fest
og vi er her som gæst.
Det er sjovt at drikke og spise
og bagefter så skal vi fise.


(Þessi texti var skrifaður í þessu augnabliki af undirrituðum, og textinn hefur engan lagboða.)
Þetta er dæmigert fyrsta erindi í svona tækifæristexta.
En það sem gerði þennan texta, sem við skrifuðum til Jan, var að eitt versið var bara setningin "Ja nemlig Jan, ja nemlig Jan" og svo bara endurtekið jafnoft og lagið krafðist.

Þessir tækifæristextar eru jafnvel atvinnugrein hérna í Danmörku. Oft sér maður skilti við veginn, þegar maður er úti á landi að keyra, þar sem auglýst er að hérna sé hægt að kaupa tækifæristexta.

En það er ekki nóg með að danir séu ekki búnir að fatta að þessir textar séu í flestum tilvika ófyndnir, heldur hafa þeir ekki skilið að til að geta flutt þennan texta þá sé ákjósanlegt að einhver geti sungið í samkomunni sem textinn á að flytjast við.

Þar sem ég hef verið í nokkrum svona veislum, þar sem tækifæristextum hefur verið dreift út, og þar sem einhver annar hefur séð um "dinnermúsíkina" en ég sjálfur, þá er gerð sú krafa til hljóðfæraleikarans sem spilar við borðhaldið, að hann eigi að kunna öll þessi lög við alla þessa texta. Það krefst náttúrulega þess að maður sé ansi sjóaður í þessum bransa, og helst sé alinn upp í þessu landi, því þessi lög eru aldrei spiluð nema við svona tækifæri. (Við erum að tala um "kátir voru karlar" tónlistargreinina).
Þar sem að ég hef ekki verið í svo mörgum veislum hérna, né sé uppalinn í þessu landi, þá þekki ég náttúrulega ekki þessi lög öll sömul, og lendi því í vandræðum þegar ég sit sjálfur og spila dinnermúsík í þessum veislum, og fæ alla þessa texta algjörlega óundirbúinn. Þessvegna hef ég yfirleitt 2 all voldugar söngbækur með mér í svona "gigg". Ef lagið stendur í þeim þá er ég hólpinn. Ef ekki, þá er ég í djúpum skít.

Í brúðkaupsveislunni sem ég var að spila í um daginn, lenti ég svo í því að það kemur ein vel reykt og rám frænkan, og réttir mér textablað. Þar voru 7 ófyndin erindi um brúðarparið, við SJÖ mismunandi lagboða. Ég þekkti ekki einn einasta af þeim.
Því sagði ég bara hreint út "því miður ég þekki ekki þessi lög, þið verðið að syngja þau sjálf".
Textarnir sem voru leiðinlegir, urðu að vítiskvölum þegar fólk "hóf upp raust sína". Það var enginn, ENGINN, af þessum 70 sem voru í veislunni sem gat sungið.
Það fer ennþá hrollur um mig við tilhugsunina.

13.5.07


Kvakk
Í gær var ég að spila "suppe, steg, is" (dinnertónlist) í brúðkaupsveislu. Veislan var haldin á ansi stórum búgarði, með nokkrum sölum, þar sem önnur brúðhjón voru að halda sínar brúðkaupsveislur. Búgarðurinn lá c.a. 2km fyrir utan bæinn Hvalsø, sem er í c.a. 40 mín lestarferð fyrir utan Kaupmannahöfn. Ég nota lestina, og geng svo þann spöl sem ég á eftir að búgarðinum. Veðrið er fallegt, og náttúran í blóma. Loftið er hreint og gott. Fuglarnir syngja og afar fáir á ferli. Það er nú gott að komast út úr skarkala borgarinnar, við og við.
Ég byrja að spila kl.17.15 og spila þar til klukkan er orðin hálf ellefu. Þá pakka ég saman píanóinu, geng frá því að það verði keyrt til mín næsta dag, og hirði peningana mína. Allt gengur þetta vel.
Svo liggur leið mín inn í Hvalsø aftur til þess að ná í lestina.
Danir hafa engin vatnsföll til að virkja. Þeir hafa ekkert sérlega mikið af rafmagni, og eru ekkert að lýsa upp hvern einasta spotta. Það er mikið myrkur í Danmörku, sérílagi þegar það er mígandi rigning og svartur himinn. Sem betur fer hafði ég hjólalljósin til að lýsa mér leið, og sýna þeim örfáu sem keyrðu framhjá að það væri mannvera á ferð.
En það sem vakti athygli mína á þessum spotta, voru allir froskarnir sem voru á veginum. Froskum þykir greinilega rosalega gaman að spila rússneska-rúllettu, þegar það fer að rigna, og þeir hópast inn á malbikaðan veginn. Sumir höfðu tapað, og voru óttalega flatir eitthvað, en hinir voru ennþá með í spilinu, og héldu augum mínum á veginum, því það er eflaust ekkert gaman að stíga á frosk. Eða vera ástiginn froskur.

7.5.07

Nýjir verkir
Þá er ég búinn að semja og skila af mér verkinu "FANGIN AUGNABLIK".
Þetta eru nokkrir örkaflar fyrir flautu, gítar og mezzosópran, pantað af tríóinu SAUM. Þau eru að fara á tónleikaferðalag um norðurlöndin, m.a. til Íslands, og vildu fá verk eftir mig með. Þau ætla að halda tónleika í Neskaupstað, mínum heimabæ.
Sökum þessa fannst mér upplagt að semja tónlist við ljóð eftir norðfirska ljóðskáldið Stefaníu G. Gísladóttur, oftast þó kennd við Seldal.
Spennandi að sjá hvort Norðfirðingar mæti á tónleikana. Nánari auglýsing kemur síðar.

1.5.07"Fram þjáðir menn í þúsund löndum..."
Eins og sjá má á þessari fallegu auglýsingu hér að ofan, heldur Staka tónleika í kvöld. Verið velkomin!

27.4.07


Það er komið sumar!
Í Danmörku er sumarið komið þegar maður getur keypt koldskål í búðinni.
Mmmm hvað hún er góð!
Róbert bangsi
Þegar ég var krakki með hor, sat ég oft og hlustaði á plöturnar í plötusafni foreldra minna. Þau eiga merkilegt safn platna. Þetta eru plötur með karlakórum, jólamúsík, kristilegum söngvum, harmóníkutónlist og barnaplötur svo eitthvað sé nefnt.
Í þessu safni var platan Róbert bangsi í Leikfangalandi. Ég hlustaði mikið á þá plötu, og þótti sagan og lögin afar skemmtileg. Helgi Skúlason er sögumaður og Ruth Reginalds, þá barnastjarna, syngur Róbert. Einnig syngur Pálmi Gunnarsson á plötunni, og Helga Steinson, skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands, syngur í kórnum ásamt Helgu Möller ofl.
Lögin á þessari plötu er sum hver hrein snilld. Blásaraútsetningarnar eru einstaklega "grúví" og lagasmíðarnar almennt góðar.
Afhverju er ég að segja ykkur frá þessu?
Jú, þannig er mál með vexti að Böðvar Guðmundsson, rithöfundur, kíkti hérna við áðan. Hann hafði smá erindi við mig, og bauð ég honum að sjálfsögðu upp á kaffi. Umræðurnar komust eftir einhverjum krókaleiðum að plötunni Róbert bangsi í Leikfangalandi, að mínu frumkvæði. Þá spyr Böðvar hvort ég viti hver þýddi textana um Róbert. Það vissi ég nú ekki. "Hann situr hérna beint á móti þér" sagði Böðvar.
Skemmtileg tilviljun!
Sökum þessa læt ég flakka með smá brot úr þýðingum Böðvars.
Úr "Dýrakynning":
...Og ég er Geiri greifingi
og gaman þykir mér
er blómaangan blíð og góð,
hún berst að nefi mér.
Atjú, atjú, atjú "Guð hjálpi þér"...

Úr "Róber, Róbert bangsi":
...Allir spyrja alltaf hreint
af hverju ég sé sífellt kátur,
ég hef mönnum margoft sagt
að það sé miklu betra en sorg og grátur.

Úr "Annar tími á öðrum stað":
...Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt
svo dregur það vini að sér,
ég er öllum kær hvert sem liggur mín leið
þótt mér líki ekki hver sem er.

Úr "Vinur minn":
Vinur minn allan vanda kann að laga
Vinur minn góði alla sína daga
og ef við syngjum saman,
er sagt að öllum þyki gaman.
Ég vildi kenna flestum
að kynnast vini bestum,
ég vildi leiða ykkur
heim til hans.

Núna í haust kemur út ný bók eftir Böðvar, sem ég og þau sem voru á bókmenntakvöldi sumardaginn fyrsta í Jónshúsi hafa fengið að heyra úr. Það lofaði góðu sem Böðvar las upp. Einstaklega hnyttin frásögn. Því miður man ég ekki hvað bókin heitir, en fylgist bókaútgáfum í haust.

26.4.07


Nördaskapur
Ég er tónskáld. Ég skrifa nótur. Ég skrifa nótur á pappír og nota til þess blýant. Kallið mig gamaldags, en mér finnst þetta bara best enn sem komið er. Svo finnst mér líka gaman að skrifa nótur. Það má segja að áhugi minn á að skrifa nótur hafi verið kveikjan að því að byrja að semja músík. Kannski svolítið öfug hlutverkaröðun, en sama er mér.

En s.s. ég sem í "höndunum" og set svo raddskrána upp í tölvunni þegar ég er búinn að semja tónlistina. Mér finnst gaman að setja upp nóturnar og ég er afar smámunasamur í þeirri vinnu. Tryggvi Baldvins, tónskáld og öðlingur, kenndi mér ekki bara tónsmíðar, heldur einnig á nótnaskriftarforritið Finale. Ég nota það ennþá og það sem hann kenndi mér verð ég ævinlega þakklátur fyrir. Takk Tryggvi!

Ég elska að horfa á fallega raddskrá, þó sérstaklega handskrifaða raddskrá. Ef þið hafið aðgang í raddskrár eftir t.d. George Crumb, þá eru þær einar og sér listaverk. Handskrift Hafliða Hallgrímssonar er einnig afar falleg, bæði nótur og texti. Bent Sørensen hefur einnig mjög heillandi nótnaskrift. (Hann les helst ekki raddskrár af hans músík sem hafa verið tölvusettar.) Aftur á móti hefur Þorkell Sigurbjörnsson einstaklega...tja...klunnalega nótnaskrift. En maður lærir að elska hana með tímanum. Jón Nordal hefur einnig frekar erfiða handskrift, oft erfitt að átta sig á hvað hann er að meina. En maður fer að elska hana með tímanum. Svend Nielsen skrifar einstaklega töff nótur. Þær eru flottar í hráleika sínum.

En já, þessi ástríða mín á handskrifuðum nótum hefur leitt af sér ótrúlegan nördaskap varðandi skriffæri. Ég á t.d. Artline tússpenna í ýmsum breiddum, samt nota ég mjög sjaldan túss til að skrifa nótur. Einvörðungu þegar ég þarf að hreinrita í höndunum nota ég túss.
Aðalnördahátturinn er þó kringum blýantana. Ég hef komist að því að 0.7mm blýantar henta mjög vel, sér í lagi ef blýin eru B-mjúk, en ekki HB eins og maður fær með blýantnum þegar maður kaupir þá.
Ég hef einnig flakka töluvert á milli blýanta gerða, því þessir blýantar eiga það til að hverfa, eða eyðileggjast.
Þessa stundina er ég að skrifa á frekar litla nótnastrengi, svo ég varð að kaupa mér 0,5mm blýant. Hann er af gerðinni Pentel og týpan kallast GraphGear 500. Þið getið séð mynd af gripnum hér fyrir ofan. Ástæðan fyrir því að ég skrifa þetta netl er þessi blýantur. Ég er óskaplega hrifinn. Hann hefur þungan haus úr málmi svo hann liggur vel á blaðinu. Svo er hægt að taka bansetta klippuna af, sem maður notar ef blýanturinn á að vera í brjóstvasanum. Þessi klippa leggst illa í höndinga og er pirrandi, þannig að nú hefur hún verið fjarlægð. Svo er líka stórsniðugur fídus á þessum blýanti að maður getur stillt lokið, sem maður tekur af þegar setja á nýtt blý í blýantinn, þannig að hann sýnir hvaða týpa af blýi er í þetta skiptið í blýantnum.

Jæja, hverjir lásu þessa einstaklega skemmtilegu færslu á enda?

21.4.07

Nútíminn er trunta
Ég fór á smá YouTube tripp áðan og skoðaði ýmis myndbönd með gömlum og góðum hljómsveitum. Þar ber að nefna Queen, Deep Purple, Focus, E.L.P, Saga ofl.
En ég bara varð að sýna ykkur þetta myndband með Gentle Giants. Ég náði aldrei að verða eitthvað hugfanginn af þeim, en bróðir minn hlustaði töluvert á risana, og ég hreifst af plötuumslögunum þeirra.
Þegar ég horfði á þetta myndband þá fór ég að velta því fyrir mér hversu langt þeir myndu eiginlega ná í Idol, Rockstar og hvað allar þessar keppnir nú heita. Þeir eru nefnilega ekkert sérstaklega hæfileikaríkir miðað við stjörnur dagsins í dag...
Ath. þið verðið að sjá allt myndbandið!

19.4.07


"Til Paris, til Paris, på ryggen af en gris..."
Já kæru lesendur, ég er nýkominn frá París.
Elsku kórinn minn, Staka, ákvað þegar þau sögðu bless við sinn gamla stjórnanda, hana Guðnýju Einarsdóttur, að þau skyldu nú heimsækja hana niður í París. Guðný er nefnilega organisti í dönsku kirkjunni í París þennan veturinn.
Við löggðum af stað á fimmtudaginn 12. apríl og komum fyrst heim á mánudaginn 16. apríl.
Þetta voru magnaðir dagar, við söng og leik í hitanum í París.
Það var unaðslegt að fara í "pikknikk" í Buttes Chaumont garðinum, með osta, brauð og pylsur, og sofna svo á teppinu. Veðrið var frábært. Heitt, en maður gat samt alveg verið úti í sólinni. Ég þurfti ekki að skríða áfram í skugganum eins og svo oft áður þegar ég hef verið í "heitu löndunum".
En það besta var að sjálfsögðu að halda tónleika. Mér finnst fátt eins skemmtilegt og að stjórna kórtónleikum. Að reyna að lokka allt fram úr fólkinu mínu sem það hefur að gefa, og færa það áfram til áheyrandanna er oft slungið. En það er einstök upplifun þegar það gengur upp.
Áheyrendur tóku okkur vel og var ágætlega sótt á tónleikana. Á fyrstu tónleikana okkar, sem voru á föstudagskvöldinu, komu sendiherra, Tómas Ingi Olrich, og frú á tónleikana. Komu og spjölluðu við okkur fyrir tónleikana og voru hin almennilegustu. Að öðru leiti sáum við sjálf um þessa ferð okkar, fyrir utan að sjálfsögðu hjálp frá Kristínu, Parísardömu, sem reddaði þessum fyrstu tónleikum okkar, og svo að sjálfsögðu Guðnýu sjálfri, sem reddaði tónleikum fyrir okkur á laugardeginum og svo í dönsku kirkjunni á sunnudeginum.

Mikið hlakka ég til næstu utanferðar með kórnum. Einstök stemmning að fara í svona ferð. Erfitt að útskýra það ef þið hafið ekki prófað. En ímyndið ykkur að hafa stóran hóp af fólki þar sem allir skemmta sér vel saman, og sameinast svo um að syngja á tónleikum. Orkuflæðið getur orðið ansi mikið!

Framundan er eitt stykki tónsmíð fyrir 1. maí, og svo tónleikar hérna í Kaupmannahöfn þann sama dag.

1.4.07


Apríl göbb
Er orðið "gubb" (það sem maður ælir) borið fram "göbb" ef maður er flámæltur?

Ég nenni ekki að gabba ykkur í dag, þannig að þið megið bara velja aprílgabb dagsins úr eftirfarandi staðreyndum. Ath. það er einvörðungu eitt gabb í eftirfarandi lista.

a) Í dag mun ég syngja Jóhannesarpassíuna, þó ekki aleinn.
b) Í dag mun ég stjórna flutningi á Jóhannesarpassíunni e. J.S. Bach.
c) Í dag var búið að koma fyrir stórum elgshaus, í predikunarstólnum, í kirkjunni sem ég syng í.

Njótið dagsins. Vonandi er vorið eins fallegt hjá ykkur og það er hjá mér.

30.3.07

Vorið góða, grænt og...
...hlýtt?

Trén eru í óða önn við að klæða sig í ljósgræna jogginggallan og gera sig klár til að hlaupa út í sumarið.
Nema trén sem eru farin að blómstra bleikum blómum. Ég man ekki hvað þau heita, en mikið eru þau nú falleg.
Ég gæði mér á kalamata ólífum og sýp á indælu hvítvíni.
Það eru yndislegir tímar framundan.

25.3.07


Útlendingar mergsjúga danska ríkiskassann!
Já, þetta er sláandi fyrirsögn. En þessi iðja hefur lengi verið í heiðrum höfð. Danir eru bara svo gjafmild þjóð.
T.d. kom ég hingað fyrir 6 árum (shit! eru þau virkilega orðin svona mörg...) og fór beint inn í danskan ríkisrekin skóla. Ég þurfti ekki, frekar en aðrir nemendur, að borga skólagjöld. Ég er þakklátur og hef í hyggju, og er þegar byrjaður á, að borga minn skatt til danaveldis.
En vindum okkur að aðalefninu.
Hér í borg er ríkisrekinn skóli, sem menntar fólk í óperusöng. Skóli þessi heitir því frumlega nafni Opera Akademiet (óperu akademían, skammstafað héreftir OA). Skóli þessi er til húsa í nýju óperunni hans Maersk, úti á Hólma, og að hluta til í Konservatoriet.
Undanfarna daga hefur verið töluverð umfjöllun um þennan merka skóla, því það eru afar fáir danir í þessum skóla. En aftur á móti er hann fullur af norðmönnum og svíjum. Norðmenn eiga 50% nemenda fjölda í OA. Þessi tölfræði vakti áhuga norðmanna og norska sjónvarpið, NRK1, kom hingað til að kanna þetta mál, og fjallaðu um þetta í fréttum í sínu heimalandi.
Nú spyrjið þið sennilega, hversvegna það eru svona fáir danir í skólanum. Því er erfitt að svara, en eru margar kenningar á lofti. Sennilega er þetta bara sambland af mörgu. Ein kenningin er á þá leið að danir séu búnir að missa söngmenninguna niður á eitthvað lágkúrulegt popp-plan, þar sem allir eiga að vera í einhverju Singstar, Idol, Scenen er din osfrv. sem snýst um allt annað en að syngja (meira að vera "sérstakur" sem þessir keppendur náttúrulega fæstir eru). Önnur kenning er að sönguppeldi í skólum sé lélegt. Sú þriðja snýst um að danir eru svo mikið jafnréttisfólk, að allir eiga að vera jafnir svo ótrúlega jafnir að loksins þegar einhver sýnir hæfileika í einhverju, þá sé reynt að gera sem minnst úr því, og alls ekki hampa viðkomandi, og fleyta honum áfram á hærra svið. Þetta einkennir líka íþróttalífið hef ég heyrt. Allir eiga að hafa rétt á að vera með. Fjórða kenningin er á þá leið að danska tungumálið sé svo flatt, og valdi miklum tæknilegum vandræðum þegar fara á að syngja (þeas. í "klassískum" eða óperu söng). Þeas. danskir söngvarar þurfi að hafa meira fyrir söngtækninni en þeir söngvarar sem hafa hin "syngjandi" tungumál (norska, sænska, ítalska ofl.) sem móðurmál.
Þetta er sennilega allt saman gott og gilt. Hrærum öllum þessum kenningum saman, og þú ert komin með svarið.
Því færi ég ykkur stolltur þær fréttir, að eini danski nemandinn í OA á næsta ári, og þá meina ég eini danski nemandinn af öllum 3 árgöngunum, er kærastan mín. Hún mun hefja nám í OA næsta vetur, ásamt hinum 6 sem voru valin af c.a. 80 umsækjendum.
Þetta þýðir að við munum að öllum líkindum eiga heima í Kaupmannahöfn næstu 3 árin og að jafnvel munuð þið eiga það á "hættu" að rekast á nafn Stinu í hlutverkalista Konunglegu Óperunnar í Kaupmannahöfn.
Á myndinni hér að ofan er hin umrædda danska söngkona að heilla lýðinn, ásamt forsöngvara dönsku hljómsveitarinnar TV2.

20.3.07

Sjokk
Ég er nýbyrjaður í ræktinni. Það er voða gott. Gott að lyfta lóðum. Maður fyllist af orku og þægilegheitum.

Í gær var ég svo í ræktinni, og var nýbúinn með prógrammið mitt, og var að teygja á mjólkursýruþöndum vöðvunum. Tók ég þá eftir stúlku einni, í hvítum jogginggalla. Það var eitthvað skrýtið við þessa stelpu. Ég þurfti allaveganna aðeins að virða hana fyrir mér ég meðan ég teygi á. Hún var svolítið sjúskuð. Hún var úfin, en þó með tagl, og húðin var svona innilega fölgrá (ekki innilega heldur inni-í-húsi-lega).
Ég velti þessu ekki meira fyrir mér og fer í bað.
Það er gott að fara í bað í ræktinni minni. Svo er líka sauna þar. Algjör lúxus í þessu landi.
Ég þvæ mér í framan, og þegar ég er að skola sápuna úr andlitinu og opna augun þá bregður mér ekkert lítið. "Stelpan" gengur inni í baðklefann, og "hún" er allt öðrum græjum búin en ég átti von á. Aftur varð ég að virða "hana" fyrir mér, svona til að átta mig.
"Furðulegur kaupfélagsstjóri!"

19.3.07


Kóramót
Á laugardaginn var kóramót íslenskra kóra í útlöndum. Kórarnir 3 hér í Kaupmannahöfn (Kvennakórinn, Kirkjukórinn og Staka) voru gestgjafar. Alls voru kórarni 9 sem tóku þátt, hátt í 150 manns.
Dagurinn var frábær í alla staði.
Um morgunin æfðum við þau lög sem kórarnir áttu að syngja sameiginlega, og eftir hádegismat sem kom frá Noma (veitingastaður með 2 Michelin stjörnur), æfði hver kór fyrir sig í kirkjunni þar sem tónleikarnir voru síðan haldnir kl.17.
Allt gekk þetta afar smurt fyrir sig, enda var búið að skipuleggja mótið vel.
Tónleikarnir voru þannig uppbyggðir að hver kór söng sitt prógram og svo sungu allir kórarnir saman undir lokin. Tónleikarnir enduðu svo á þjóðsöngnum, þar sem ég var þess heiðurs aðnjótandi að fá að stjórna honum. Það er upplifun að stjórna 150 manna kór, skipaður íslendingum sem búa í útlöndum, að syngja Lofsönginn.
Eftir tónleikana var svo heilmikil veisla, með góðum mat og drykk, og þeirri bestu dansmúsík sem ég hef dansað við lengi. "Dagurinn" endaði svo kl.04.30.
Sunnudeginum eyddi ég svo á kóræfingu, þar sem Jóhannesar Passían var æfð.
Ég var oggulítið þreyttur í gærkvöldi.

15.3.07


Eldri systkini
Að eiga systkini er góð skemmtun.
Að eiga eldri systkini eru forréttindi. Þeirra forréttinda er ég svo gæfulegur að njóta.
Afhverju eru það forréttindi? Jú, sjáðu til, þau eru mikilvægur liður í að móta þá braut þú velur þér í lífinu, alveg eins og foreldrar og aðrir nákomnir. Þau geta hjálpað þér með skólaval, námsval, fyrstu alvöru ástina, fyrsta fylleríið, að skilja foreldrana osfrv.
Ég er svo heppin að vera yngstur í mínum systkinahópi. Bróðir minn Daníel er elstur, svo kemur Svanhvít og svo kem ég sem örverpi.
Systkini mín hafa mótað mig á marga vegu, en eitt er það þó sem þau hafa komið hvað mótað mest, en það er tónlistarþekking mín.
Nú erum við að tala um popptónlist aðallega. Og þá aðallega popptónlist frá 9.áratugnum.
Það er sökum þeirra að ég þekki allar Queen plöturnar ansi vel, og að ég geti raulað fyrstu frasana í trommusólóinu á SAGA "live transit" plötunni, að ég söng fullum hálsi með laginu "Be Good Johnny" með ástralska bandinu Men at Work. Það er einnig þeim að þakka að ég þekki skemmtileg tóntegundaskipti hjá Nick Kershaw og veit hvað forsöngvari Duran Duran heitir. Svona má lengi telja.
En það er eitt sem ég náði ekki að smitast af þeim, fyrr en nú, en það er áhugi á tónlist Kate Bush. Bróðir minn hlustaði mikið á Bush á sínum tíma, og átti diska með henni og videospólur. Ég fattaði alls ekki þessa músík, eða öllu heldur höfðaði hún ekki til mín. Var sennilega of "mjúk".
Kate Bush er merkilegt fyrirbæri í poppsögunni, og sögu hennar ætla ég ekki að rekja hér. En aftur á móti þá keypti ég nýjustu plötuna hennar um daginn, sem eru í rauninni 2 skífur, og ég er algjörlega heillaður. Frábær plata. Platan er afar frumleg og margar stórsniðugar hugmyndir á henni, bæði hljóðlegar og textalega.
Því mæli ég eindregið með því að þið fjárfestið í plötunni, sem ber nafnið Aerial og kom út 2005.

14.3.07


Ástkæra ylhýra málið
Það er illa fyrir mér komið. Íslenskan mín er á leiðinni í hundana. Sennilega hafa þeir verið að japla á henni lengi.
Ég hef alltaf átt erfitt með að koma sæmilega heilum setningum útúr mér. Yfirleitt byrja ég á að segja eitthvað, en svo fatta ég að viðmælandinn skilur ekki baun hvað ég er að tala um, því ég var ekki búinn að kynna efnið nægjanlega. Þá fer ég að útskýra það sem ég hefði kannski bara átt að segja fyrst, og allt fer í flækju. Það eru eiginlega bara tveir menn sem "skilja" mig. Það Daníel bróðir minn og Hugi Þórðarsson.
En nú er ég mun verra staddur en áður.
Þetta byrjaði allt saman þegar ég fluttist til Danmerkur. Til að byrja með talaði ég ensku í skólanum, og í búðum oþh. Ég nennti ekki að standa lengi í því rugli, og fór að tala dönsku eftir 3 mánuði. "Fór að tala dönsku"...hmm...nei ég fór að reyna að tala dönsku. En einhverntímann verður allt fyrst, og ég steig í marga pyttina. Flestar villurnar voru náttúrulega sökum lélegs framburðar.
En svo þegar danskan fór að vera mér þjálli, þá fór enskan að hverfa hægt og bítandi. Ef ég á að tala ensku í dag, þá byrja ég að hika og stama og sletti með dönsku.
Næsta skref í átt að hundunum var að ég fór að blanda dönsku og íslensku saman ef ég var að tala íslensku. Þetta var sérstaklega slæmt ef ég var umkringdur dönum og íslendingum og þurfti að skipta mikið á milli tungumálanna.
Núna er það þannig að ég tala íslensku, með dönskum slettum, og setningaskipan er orðin dönsk. Meira að segja orðin sem ég nota eru íslenskuð dönsk orð.
Hér kemur smá dæmi:
Í dag var ég staddur í Jónshúsi. Ég þurfti að komast inn í salinn, og hringi því í Jón, forstöðumanns Jónshúss, og bið hann um "að læsa mig inn í salinn". Jón kom niður og opnaði fyrir mig inn í salinn og við fórum að spjalla um heima og geima, eins og svo oft gerist þegar við hittumst. Undir lok samtals okkar þá benti Jón mér á að það kallaðist "að opna fyrir sig salinn" en ekki "læsa sig inn í salinn".
Ég þarf að taka mér góða törn í Laxness fljótlega.

13.3.07


Á skyrtunni
Í gær tók vorið sig til og hreiðraði um sig í görðum landsins. Blómin útsprungin á hraðri uppleið og brumið komið á trén. Himininn er heiður og hár. Ljúft líf.
Ég gat því sent sms heim og sagt mömmu að ég væri úti "á skyrtunni". Það er ekki hægt að segja í DK. Maður getur ekki verið úti "på skjorten". Maður getur yfirleitt ekki verið "på skjorten" nema maður sitji á skyrtunni. En íslenskan leyfir manni svona lagað. Næs.

Framundan er tónsmíð fyrir gítar og sópran. Eindagur 1. apríl. Ég er ekki byrjaður, en þó búinn að finna ljóðið. Þaráeftir er verk fyrir sópran, flautu og gítar. Heldur ekki byrjaður á því. Eindagi 1. maí.

Og svo að gömlu fréttunum. Systir mín sat á Alþingi um daginn, sem varamaður fyrir Valgerði Sverrisdóttur. Hún hélt ræðu, sem ég sá á netinu, og hún sat í nefndum og ég veit ekki hvað. Ég er afar stolltur af að eiga svona klára systur!

Ég er byrjaður í líkamsrækt. Staka, kórinn sem ég stjórna, átti pening sem þeim fannst að ég ætti að fá, þar sem ég fæ ekki föst laun frá þeim. Fallega hugsað af þeim. Ég eyddi peningnum í árskort í ræktina, sem er í 3 mínútna labbitúr héðan frá íbúðinni minni. Nú mæti ég í ræktina annan hvern dag að jafnaði og mér líður svo miklu betur en áður. Það er orka í mér allan daginn og heilsufarið almennt betra.
Ræktin mín bíður upp á ýmsa hópatíma, og fór ég í jóga í morgun. Ég var eini maðurinn í þessum tíma. Ég er viss um að stelpurnar hugsuðu annaðhvort "hann er laglega gay hann þessi" eða "hvern djöfull er þessi gæji að koma í jóga? Hann er sennilega bara hérna til að glápa á stelpur í þröngum líkamsræktarfötum". Ég valdi að ýta undir seinni hugsunina, af þeirri ástæðu einni að ég er gagnkynhneigður, og rak við þegar ég kom inn í salinn og klóraði mér í pungnum.
Þetta var stórskemmtilegur tími. Góð tilbreyting frá lóðum og eurotrash tónlistinni, sem ég þarf að yfirgnæfa með iPóðanum mínum.

Farið vel með ykkur og aðra.

Kær kveðja,
Stefán, sem er ennþá í Þjóðkirkjunni.

23.2.07

Þjóðararfur
Á meðan ég var að brjóta saman þvottinn, þá kveikti ég sjónvarpinu og horfði aðeins á rás 2 þeirra nágranna okkar, norðmannanna.
Þar var einhver hátíð í gangi, til heiðurs konunghjónunum.
Í byrjun þessarar hátíðar komu þjóðdansarar inn í salinn, undir heillandi fiðluleik. Svona þjóðlaga fiðluleik.
En það var ekki það sem ég heillaðist hvað mest af. Onei. Þegar hópurinn var kominn upp á svið, þá stíga 3 börn fram byrja að syngja. Og við erum ekkert að tala um svona barnaraul heldur almennilegur söngur með góðum hljóm og ég veit ekki hvað.
Svona lagað myndi ALDREI gerast í Danmörku. Fyrir það fyrsta eru danir almennt séð ekkert sérlega duglegir við að dýrka þjóðararfinn, enda ertu stimplaður rasisti um leið. Eða maður getur kannski litið á þetta frá öðru sjónarhorni og sagt að sá þjóðararfur sem danirnir dýrka er á lágmenningarstiginu. Öldrykkja, svínakjötsát og jafnvel einfaldur hugsunarháttur.

22.2.07

Kaos!
Í Danmörku hefur verið algjört kaos undanfarin sólahring. Það liggur nefnilega snjór á jörðinni. Svo mikill snjór að það hafa myndast skaflar á stöku stað. Umferðin er í lamasessi og skólar gefa frí.
Það sem hefur komið mér mest á óvart er að það hafa 2 þök hrunið niður. Þetta eru þök á stórum braggahöllum, eins og mörg íþróttahúsin eru heima á Íslandi.
Ótrúlegt að það megi byggja svona drasl!

17.2.07

Sögustund

Kæru lesendur

Ég mæli eindregið með þessum pistli, og svo framhaldinu hérna.

16.2.07

Hvil Sødt
Það herrans ár 2004 kláraði ég tónsmíðadeildina á Konservatoríinu í Árósum. Þegar maður útskrifast í Danmörku, þá er það fyrsta sem maður gerir er að skrá sig í A-kassa. A-kassi þessi er nokkurskonar trygging. Atvinnuleysistrygging. Ef þú ert í vinnu, og borgar í A-kassa jafnframt, og svo er þér kannski sagt upp, þá færðu lágmarkslaun frá A-kassanum þangað til þú finnur þér vinnu. Ef þú þiggur "laun" frá A-kassanum þá þarftu jafnframt að vera á skrá hjá atvinnumiðlun.
Ég skráði mig í A-kassa og fékk ágætis mánaðarlaun.
Atvinnumiðlun hefur rétt til að senda þig í lagervinnu, eða á barnaheimili, eða bara þangað sem þeim dettur í hug. En þeir hlífa nýútskrifuðum við því í ákveðinn tíma, svona svo þeir hafi möguleika á að finna sér starf við hæfi. Ég var náttúrulega skráður sem tónskáld hjá atvinnumiðluninni, þannig að ég fékk aldrei nein atvinnutilboð, og þeir gátu heldur ekki bent mér á neina atvinnu sem pössuðu minni menntun. Ég var atvinnulaus, en fékk laun og hafði það gott. Samviskubitið var jú alveg til staðar, en ég leit á þetta sem listamannalaun, og nýtti mér þetta frelsi til að semja.
Þetta ár, 2004, fékk ég pöntun frá Carsten Seyer, kantor í Dómkirkjunni í Árósum, að verki fyrir H.C. Andersen hátíðartónleika, sem yrðu haldnir vorið 2005. Ég mátti gera það sem mér datt í hug, með alla tóngefandi aðila í kirkjunni plús strengjakvintett sem átti að notast í öðru verki á sömu tónleikum. Það eina sem ég þurfti að hafa í verkinu var texti eftir H.C. Andersen. Texta fann ég og hóf svo smíðarnar.
Það sem varð úr þessu klambri mínu var verkið Hvil Sødt, fyrir orgel (orgelið í Dómkirkjunni í Árósum er stærsta orgel Danmerkur), kór, einsöngvara, drengjakór, slagverk og strengjakvintett. Það réttlætti aðeins launin mín frá A-kassanum.

Verkið var síðan endurflutt á tónleikum hjá Konservatoríinu núna fyrir jól.

Nú hefur svo íslensk dómnefnd (Atli Ingólfsson og Karólína Eiríksdóttir) valið verkið til að vera eitt af íslensku verkunum á UNM hátíðinni í ár. Hátíðin er þetta árið haldin í Reykjavík, dagana 2.-8. september.
Látið þessa stórmerku hátíð ekki framhjá ykkur fara!

14.2.07

Ný jakkaföt, sama röddin
Kæru lesendur

Nú hef ég tekið upp nýtt útlit á þessu netli mínu. Sökum þessa hef ég fengið nýtt athugasemdakerfi, sem verður vonandi þægilegra að nota. Það er allaveganna þægilegra fyrir mig.
Ég á eftir að setja inn fleiri hlekki, þannig að ekki svekkja þig alveg strax á því að ég hafi ekki hlekkjað á þig. Þetta kemur allt með kaldavatninu.
Ég vona að þið kunnið vel við ykkur í þessu nýja umhverfi.

Ykkar einlægur,
Stefán Arason, alls ekki hversdags, en oftar suma daga en aðra.
Lystisemdir í nágrenninu
Ég er svo lánsamur að eiga kærustu, sem er afar góður kokkur. Sjálfur er ég ekkert svo slæmur í þeim bransa, þó ég segi sjálfur frá, en yfirleitt þegar ég sé um eldamennskuna þá er "karlamatur" á borðum. "Karlamatur" er kjöt í einhverri mynd, eða þá mjög "down to earth" fiskréttur. Jú, reyndar finnst mér gaman að elda saltfisk á einhvern skemmtilegan hátt.
En s.s. hún Stina er ansi lipur í eldhúsinu og nýt ég náttúrulega góðs af.
Það sem gerir Stinu að svona góðum kokki er að hún hefur ferðast alveg ótrúlega mikið, og kynnt sér matarmenningu í þeim löndum hún hefur ferðast í. T.d. hefur hún dvalist lengi í Ástralíu, Ítalíu, Spáni, Taílandi og Tyrklandi, svo eitthvað sé nefnt. Hún er einnig gædd þeim hæfileika að muna nöfn á réttum og stöðum hún hefur komið til, eða bara lesið um. Ég verð gáttaður í hvert skipti sem hún segist ætla að elda "húbba-ba-lúbba" sem hún smakkaði einu sinni í "langt-í-burtistan" og inniheldur það undarlega krydd "skrjamjín". Og svo fer hún bara inn á þetta svokallaða "internet" og finnur uppskriftir að þessu öllu saman.
Undanfarna daga hefur hún verið í einhverjum Tyrkneskum/Indverskum ham, og framreitt alveg magnaða rétti, t.d. jógúrtsoðið lambakjöt með möndlum, eggaldinmauk, kartöflur í spínati, jógúrt dressingar með agúrku osfrv. osfrv. Og allt bragðast þetta eins og maður hefði stigið inn í tyrkneskt eða indverskt veitingahús.
Það er ekki hægt að segja annað en þetta er mun skemmtilegri hversdagsmatur en soðin ýsa. Hver réttur hefur bragð, og mikið af því.
Nú getur einhver hugsað, "bíddu þarf maður ekki að fara í einhverjar sérverslanir og læti til að finna öll þessi hráefni?". Onei! Þegar maður býr á Norðurbrú þá er þetta sá matur sem er eldaður af flestum. Þannig að hægt er að kaupa öll þessi undarlegu krydd hjá grænmetissalanum úti á horni. Og þar sem að það eru svo margir sem þurfa á þessu að halda, þá eru þessar vörur alls ekki dýrar.
Þetta voru nú bara málalengingar, að hætti hollenska munksins Jean-Baptiste de Malalingingher (upplýsingar fengnar frá Huga), því uppspretta þessa netls kom frá eftirréttinum sem Stina bauð uppá í gærkvöldi. Hann var reyndar keyptur tilbúinn út úr búð, en sama, í stíl við það sem á undan hafði gengið.
Tyrkir, og nágrannar, eru nefnilega sólgnir í baklava. Úti á Norðurbrú eru nokkur svona baklava bakarí, og eru þau ótrúlega freistandi. Þessir litlu bitar eru svo sætir á bragðið að maður hélt að það væri ekki hægt. En ó, ó, hvað þetta er gott á bragðið! Áferðin á þessum litlu kökum er líka algjörlega fullkomin. Örlítið stökkt, en samt seigt, og bráðnar þegar í munninn er komið. Jömm-Í.

Í öðrum fréttum þá er ég með einhverja kvefpest, og tók mér því frídag uppi í rúmi, til að láta mér nú batna fyrir helgina. Helgin er nefnilega þakin verkefnum. Æfingarhelgi (lau og sun) með Stöku þar sem raddþjálfi kemur í heimsókn, syngja fyrir einhverja nefnd frá hinu Íslenska Alþingi og svo spila í messu í Kingoskirke. Í tilefni af því að ég fæ að leika organista í þeirri ágætis kirkju núna á sunnudaginn, þá samdi ég litla mótettu í tilefni dagsins. Þessi litla mótetta verður síðan frumflutt í allaveganna 3 kirkjum núna á sunnudaginn (í Dómkirkjunni og Sct. Pauls í Árósum, Kingoskirke) þannig að "þeir trúuðu verða bombarderaðir með íslenskri músík á sunnudaginn" eins og kantorinn í Dómkirkjunni í Árósum komst að orði.
En já, þetta var líka málalenging.
Sökum heilsuleysis þá las ég gamlar netlufærslur hjá áðurnefndum Huga, æskufélaga og snillingi. Það kemur manni í gott skap, og gott skap er jú besta lyf við slappleika.
Við þann lestur fann ég þennan frábæra leirburð sem mun ljúka þessu netli.

Doddi litli datt í dí,
og meiddi sig í fótnum.
Hann hefur aldrei upp frá því,
orðið jafn góður í fótnum.

Reynir litli á Reynisstað
Hann er voða fjörkálfur
Hleypur um allt í Þorlákshöfn
Ekki má Hann pilsfald sjá
Þá er voðinn vís
Giftur maðurinn

11.2.07

Óskipulag
Fyrir rúmri viku lá bréf til mín á nótnastatífinu í Jónshúsi. Þetta var boðskort. Hr. Stefán Arason, kórstjóri Stöku og KÍSK (kór íslenska safnaðarins í Kaupmannahöfn) var hérmeð boðinn á opnun sýningarinnar Lavaland í listasafninu á Gammel Strand. Sýnd eru verk Kjarvals og Ólafs Elíasonar. Við opnuna myndu Margrét drottning og Henrik prins vera viðstödd, ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni og Dorrit. Þar að auki ætlaði Ólafur Elíasson að vera á svæðinu.
Jahá! Þetta er ég til í að sjá. Það er ekki á hverjum degi sem manni er boðið á sýningu með svona frábærum listamönnum, og heldur ekki á hverjum degi sem maður hittir þessi fyrirmenni. Ég ætlaði sko aldeilis að snobba þennan dag.
Ég var beðinn um að mæta fyrir kl.15.45 og mátti hafa með mér einn gest.
Eins og ég hef sagt áður, þá var Stina eitthvað slöpp, þannig að ég bauð Ingva með mér.
Þegar við komum á hjólunum okkar niður að Gammel Strand, fyrir kl.15.45, þá var löng-löng röð fyrir framan innganginn. Við fórum aftast í röðina. Svo leið tíminn. Röðin mjakaðist örlítið fram á við, en ekki mikið. Kl.15.55 kom menningarráðherra dana, og fékk hann að fara beint inn, eftir eitt stutt símtal.
Kl.16.00 kom afar almennilegur maður út og sagði að opnunin væri komin í gang, og húsið var fullt. Þau myndu hleypa inn þegar meira pláss myndi gefast, en það yrði sennilega eftir 20 mín. 20 mín! Í skítakulda! Ég sagði að þetta snobblið mætti hoppa upp í óæðri endann á hvort öðru og við strunsuðum í burtu inn á næsta kaffihús, sem reyndis vera írskur reykmettaður pöbb.
Þar "biðum" við í klukkutíma í lágmenningunni og reyndum svo aftur við hámenninguna. Í þetta skiptið gekk betur, og fengum við séð frábæra sýningu. Ég hef aldrei séð Kjarval "live" áður, og þetta voru alveg mögnuð málverk. Það sem hafði mest áhrif á mig eftir Ólaf voru ljósmyndirnar hans. Gaman að sjá hvernig verk þessara listamanna pössuðu vel saman.

En við náðum ekki að heilsa upp á kóngafólkið, né knúsa Dorrit. Þvílíkt skipulag hjá framkvæmdaraðilum! En Ólafur Elíasson var á staðnum þegar við komum. Við létum það þó alveg vera að heilsa upp á hann.

10.2.07

Þegar veggirnir tala
Í gær var mér boðið á opnun sýningarinnar Lavaland, niðurá Gömlu Strönd. Stina var eitthvað slöpp, þannig að ég bauð Ingva, Stökubassa og öðlingi, með mér. Seinna um kvöldið ætluðum við svo að hitta félaga úr Stöku á jazzklúbbi.
Eftir sýninguna, sem var ansi fín, röltum við okkur upp á Pile Stræde, því ég hafði heyrt af góðri ölstofu þar. Sú stofa var pakkfull af verðandi fullufólki, þannig að við gengum aðeins lengra. Við þurftum þó ekki að ganga langt því ég rak augun í Carlsberg skilti og segi við Ingva hvort við eigum ekki bara að láta okkur það nægja. Hann tók undir það. Gengum við þá í átt að skiltinu, en jafnframt framá annan stað sem kallast Elgurinn (Moose). Ég ákvað því á augabragði að þarna ættum við að setjast inn. Ingvi hafði ekkert á móti því.
Magga, kærasta Ingva, hafði beðið hann um að láta sig vita þegar við hefðum fundið einhvern stað, því hún ætlaði að heiðra okkur með samveru sinni restina af kvöldinu. Ingvi hringir í hana, og við fáum borð og bjór á Elgnum.
Við sitjum í dágóða stund, spjöllum um heima og geima, og ég virði fyrir mér staðinn. Allir veggir hans eru útkrotaðir, veggjakrot er leyfilegt á þessum stað. Ég fór eitthvað að hafa orð á þessu, og Ingvi spyr hvort ég hafi aldrei komið hingað áður. Það hafði ég ekki, því ég er jú sveitamaður frá Árósum. Ingvi sagði að þessi staður væri velsóttur af Íslendingum og skiptinemum. Þó aðallega á þriðjudags og fimmtudagskvöldum, því þá væri 2 fyrir 1 tilboð á ölinu.
Við drekkum úr glasinu, og í þann mund sem við erum að tæma kemur Magga. Við pöntum okkur aðra krús.
Fljótlega eftir að við erum öll sest við borðið rennur upp fyrir mér að ég veit ekkert um sögu þeirra tveggja sem pars. Hvar þau kynntust oþh. Því spyr ég hvar þau hefðu kynnst.
Ingvi spyr um leið afhverju ég væri að spyrja að því.
"Nei bara. Veit eiginleg ekkert hvar leiðir ykkar láu fyrst saman"
Magga verður einnig svolítið hissa.
Svo segja þau mér að þau hefðu kynnst á þessum bar, og Magga hefði setið í glugganum sem borðið okkar var uppvið.

Ég er handviss um að veggirnir hafa hvíslað þessari spurningu í eyra mér.
Innflytjendur
Sem innflytjandi í Danmörku tekur fólk eftir því, þegar ég byrja að tala, að ég kem frá öðru landi. Þetta getur oft leitt af sér skemmtilega vandræðileg augnablik fyrir viðmælanda minn, þegar hann spyr hvaðan ég er, því það er voða mikið tabú að tala niður til fólks, og maður verður að passa sig að nota réttu orðin og bla bla bla. Svona eins og að segja negri eða sígauni. Innflytjandi, nýbúi, útlendingapakka...
S.s. fólk tekur einvörðungu eftir þessu þegar ég opna munninn, að öðru leyti get ég vel verið danagrey.
En þeir sem eiga foreldra sem voru innflytjendur, og eru með dökkan húðlit, eru of augljóslega stimpluð sem innflytjendur um leið. Þetta er náttúrulega pirrandi.
Hérna kemur gott dæmi:
.::dæmi::.

8.2.07

JazzballettSkóliBáru
Meistari J.S. Bach á sér fjölmarga aðdáendur. Því miður hefur hann verið dauður í 257, þannig að þessarar hylli getur hann ekki notið þann dag í dag. En þessir aðdáendur hans, eða öllu heldur aðdáendur verka hans, finna upp á ýmsu. Tónlist JSB hefur verið flutt í rokkútgáfum, í djazzútgáfum, af lélegum amatörflytjendum, og meira að segja hef ég heyrt innganginn að Jólaóratoríunni í umskrifaðri útgáfu. T.d. var hið þekkti mótíf sem Bach skrifaði fyrir páku, og fyrir mörgum er þetta litla mótíf jólin fyrir sumum, spilað á klukkuspil, í afar háu tónsviði. Einstaklega skemmtilegt.
En s.s. margir hafa flutt tónlist JSB á marga aðra vegu en meistarinn hafði hugsað sér sjálfur.
Þessum flytjanda hérna hef ég heillast hvað mest af, þeas. af þeim sem hafa farið aðrar slóðir í flutningi á tónlist þessa aldna meistara.


Svo má náttúrulega ekki gleyma þessum.
Danska
Fyrir nokkrum árum síðan sýndi norskur skólabróðir minn mér myndbrot úr norskum grínþætti. Þetta var úr þáttaröð ekki ólíkri okkar íslensku Fóstbræðrum (ekki kórnum, heldur grínistunum). Þeir voru að gera grín að döpru gengi danskrar tungu. Mér þótti þetta afar fyndið.
Svo rakst ég á þetta brot hjá Garganistanum Guðnýju (sem er farin að netla aftur) og varð að setja það inn hérna.


Þeir gerðu líka einu sinni símaat til Danmerkur, því þeir höfðu lesið í dönsku blaði að það hefði verið "kuk i computeren". Á dönsku þýðir það "að tölvan var í ólagi". Á norsku þýðir það "að það hefði verið typpi í tölvunni". Eigandi tölvunnar, eða tölvukerfisins, var TDC eða eitthvað álíka stórfyrirtæki. Svo hringdu þessir kappar í fyrirtækið, í beinni útsendingu, og fóru að spyrjast fyrir um hvernig eiginlega typpið hefði komist í tölvuna, og hversu lengi það hefði verið inni osfrv.
Þetta þótti mér líka fyndið.

7.2.07

Örnetl
- það er hundleiðinlegt að búa í borg sem býður upp á svo margt sem mig langar til að sjá og heyra, en eiga svo aldrei peninga til þess! Svo loksins þegar maður á peninga til þess að fara á allar þær sýningar mann langar í óperunni, eiga árskort á sinfóníuna osfrv., þá er maður orðinn gamall og krumpaður og hefur ekkert við alla þá sköpunargleði að gera, sem þessar uppákomur gefa manni. Fuss!

- það er stórskemmtilegt að búa í hverfi sem er vakandi á öllum tímum sólahringsins. T.d. getur maður fengið sér kebab á Norðurbrú á öllum tímum sólahringsins, snapað sér slagsmál, jafnvel kúlu í hausinn, á "næturbörunum", fengið kaldan og frískandi morgunbjór á öldurhúsunum í hverfinu (ásamt hinu dagdrykkjufólkinu), séð nýlagðan hundaskít á gangstéttunum í morgunsólinni, borðað "baklava" með hinum útlendingunum, keypt lambakjöt af nýslátruðu hjá "slátraranum" sem ber fram orðið "krydderi" sem kruderat osfrv. osfrv.

- á eftir fer ég á tónleika með Pétri Ben. Finnst platan hans, wine for my weakness, bara ansi góð.
Merkilegt nokk, þá sungum við, ég og Pétur, saman í "rakarastofu"kvartett. Kvartettinn hét Kvartett Íslands, eða KvÍsl. Okkur tókst að troða nokkru sinnum upp, m.a. á árshátíð Tónlistarskólans í Reykjavík (Tónó). Aðrir meðlimir voru Hugi Guðmundsson og Helgi Hrafn Jónsson. Gaman að sjá hvað þessir einstaklingar allir eru að gera í dag. Við erum allir að semja og flytja músík. Eins gott að við slógum aldrei í gegn sem KvÍsl.
Reyndar man ég eftir einum ofur "kúl" tónleikum sem við sungum á. Þetta voru tónleikar tónsmíðanemenda í Tónfræðadeildinni í Tónó, í Salnum í Kópavogi. Við frumfluttum verk eftir Davíð Brynjar Franzson. Ansi fínt verk í minningunni. Fullt af tilvitnunum í sálmatexta og önnur óhljóð. Flutningurinn gekk ekkert rosalega vel, en við komumst í gegn. Áheyrendur tóku okkur afar vel.

- kórinn minn "Staka" er að fara til Parísar í apríl. Hlakka mikið til þeirrar ferðar. Kórferðalög eru skemmtileg, og enn skemmtilegri þegar maður stendur sjálfur og stjórnar. Mætti líkja því við að vera í vímu í nokkra daga, og óboj! það eru herfilegir timburmenn eftir svona ferð. Hversdagsleikinn hrynur yfir mann og ekkert er sérlega spennandi. Eins gott að ég hef aldrei prófað sterkari vímugjafa en áfengi, tóbak og tónlist.