4.12.06

Úr stressi í tilhlökkun
Undanfarið hef ég verið örlítið stressaður. Það er margt framundan sem er sökudólgurinn.
Vikan sem við erum að stíga inn í, í skrifuðum orðum, er vinningshafi að "flestir tónleikar á einni viku" verðlaunanna.
Þetta byrjaði reyndar fyrir síðustu helgi. Þá var hringt í mig og ég beðinn um að koma með músík á árshátíð íslensks fyrirtækis, sem ákvað að halda gleðina í Kaupmannahöfn. Ég hristi allar mínar ermar og tæmdi vasana, sem tilboð handa þeim, og svo fengu þau bara að velja. Og völdu vel. Kórinn Staka söng fyrir gestina, og þegar þau voru búin að því, þá settist ég við flygilinn og lék undir borðhaldinu. Þurti reyndar lítið að spila þar sem þau voru svo góð í að segja klámvísur og syngja fjöldasöng.
Svo kom jú orgelfræðiprófið.
Í gær var ég á kóræfingu í kirkjunni sem ég syng í frá kl.10-16.
Á morgun er æfing með Vox Absona, þar sem ég er afleysingarstjórnandi. Ég á svo að stjórna þeim á jólatónleikum þann 16. des.
Á þriðjudaginn eru styrktartónleikar í kirkjunni minni, þar sem ég syng í kórnum. Beint á eftir tónleikunum er sameiginleg æfing Mpiri, sem er færeyskur kór, og Stöku, sem er íslenskur kór (sem ég er að gaufast við að stjórna).
Á miðvikudaginn eru svo tónleikar með þessum 2 kórum. Allir að mæta í Samúelskirkjuna og hlusta m.a. á Poulenc, Rachmaninov og Huga Guðmundsson.
Á fimmtudaginn er svo kóræfing hjá kirkjukór íslenska safnaðarins í Kaupmannahöfn (sem ég svo einnig er að gaufast við að stjórna).
Á föstudaginn fer ég svo með presti íslenska safnaðarins til Jótlands að spila og syngja í jarðarför. Þá um kvöldið er svo Aðventukvöl hjá íslenska söfnuðinum í Kaupmannahöfn, og þar mun kirkjukórinn meðal annarra koma fram.
Á laugardaginn er svo aukakóræfing hjá Vox Absona frá kl.10-13. Um seinnipartinn er svo NAK (Nord Atlantisk Korfestival) þar sem allir þeir kórar sem eru starfandi í Kaupmannahöfn, og eru skipuð fólki úr N-Atlantshafinu, hittast og syngja fyrir hvorn annan. Svo er borðaður góður matur á eftir og drukkið mikið áfengi (kommon, þetta eru Grænlendingar, Færeyingar og Íslendingar!).
Daginn eftir flýg ég svo með "tengdó" til Íslands til að selja húsgögn. Ég vona að sú ferð snúist meira um að fara í sund og skoða landið, en að þeytast á milli búða. Held reyndar að hann hafi bara einn kúnna þarna uppfrá, þannig að kannski rætist úr þessari ósk minni.

En s.s. það eru bissí dagar framundan, með heilum helling af kórsöng.
Ástæðan fyrir titlinum á þessu bloggi er sá að í dag var generalprufa hjá okkur í Stöku, í Samúelskirkjunni.
Sú æfing breytti mínu stressi í tilhlökkun. Þetta eru mjög duglegir "krakkar" og ég hlakka afar mikið til að flytja músík saman með þeim.
"Að syngja í Stöku er góð skemmtun."

Engin ummæli: