16.12.06

Hor og slím
Aðlaðandi titill ekki satt?
Allaveganna hef ég hausinn og hálsinn fullan af þessum góðkunningjum mínum. Þessir félagar taka sér oft bólfestu í umræddum svæðum líkama míns þegar ég hef verið undir álagi og fer að slappa af, eða þegar ég er að fara í ferðalag. Og fyrir nokkrum dögum síðan (á sunnudaginn nánar tiltekið) var ég einmitt á báðum þessum aðstæðum, álagið að minnka og ég að fara í ferðalag.
Tónleikarnir með Stöku á þarsíðasta miðvikudag gengu barasta alveg hrein ágætlega. Ég skemmti mér allaveganna vel. Smá "kikk" í að stjórna sameiginlega kórnum (Staka plús Mpiri). Ég og Gorm, stjórnandi Mpiri, erum báðir spenntir fyrir að gera eitthvað meira sameiginlegt, sem einn kór þá.
Jarðarfararferðin til Jótlands gekk vel og var í rauninni afar hugguleg. Skemmtilegir ferðafélagar tveir og margt spjallað.
Daginn eftir var svo kórdagurinn mikli þar sem ég stóð frá kl.10 um morgunin til kl.18.30 og stjórnaði kórum. Fyrst Vox Absona á kóræfingu, og svo Stöku og Kirkjukórnum á Nord Atlantisk Korfestival (NAK). Á NAK var Vor Frue kirkja á strikinu aljgörlega pökkuð. Gaman að því.
Daginn eftir fórum við tengdó svo til Íslands. Minnismiði til ykkar: ekki ferðast með yfirvigt, hún er dýr. Við borguðum, eða öllu heldur fyrirtækið sem tengdó vinnur fyrir, 850 dkr í yfirvigt. Það voru mest möppur og efnissýnishorn til kúnnanna sem voru svona þung.
Það var ansi gaman að koma heim. Reykjavík er náttúrulega algjörlega ógeðsleg borg, með hryllilegum gatnaspellvirkjum og samanklesstum lúxusvillum. En mikið ægilega var nú gott að komast í sund og horfa á jólaljósin í öllu myrkrinu.
Við flugum einnig austur, og þar var nú annað upp á teningnum en í henni Reykjavík. Fallegt landið naut sín og huggulegir bæjirnir stóðu í ljósum jólalogaljósum og allt eins huggulegt og hægt var. Heim í heiðardalinn var gott að koma og Hlíðargata 24 með ábúendum er alltaf afar gott að hitta.
En það sniðugasta sem við gerðum var svo að leigja bíl til að keyra á suður aftur. Við fengum nefnilega drullugan Land Rover, sem þurfti að skila til Rvk, þannig að við borguðum bara bensínið. Stórsniðugt. Keyrðum norðurfyrir land og fórum í jarðböðin í Mývatni. Ævintýri fyrir blessaðan danann.
Á þessum tímapunkti var ég orðinn ansi kvefaður og aumingjalegur.
Svo þegar ég kom hingað heim var ég algjörlega orðin raddlaus, með hita og kvef. Bölvaður aumingi. En að sjálfsögðu beið mín einn kórinn og generalprufa hans. Það gekk nú og í dag héldum við svo tónleika sem einkenndust af látum í krökkum og kór sem átti erfitt með að einbeita sér. En okkur tókst þó að gera smá músík.
Nú ætla ég að fá mér viský og njóta þess að jólafríið nálgast óðfluga.

Engin ummæli: