24.12.06

Jolahald
Thessa stundina sit eg vid danskt lyklabord, i dønsku heimili theirra mætu hjona Helgu og Ove (sem eru foreldrar kærustu minnar), og eg byd thess ad vid megum fara ad opna pakkana. Ægileg spenna i gangi...eda...tja...
I nott kom jolasveinninn (eda "Nissen" upp a dønskuna) og allir fengu eitthvad, nema Ove, thvi hann fekk sinn Nisse pakka i gærkvøldi. I hans pakka var nefnilega National Lampoon Christmas Vacation, med Chevy Chase. Bradnaudsynleg mynd ad sja a thorlaksmessu, allaveganna fannst sveinka thad.
Jæja, best ad koma ser ut i solskinid og 8 gradurnar.

Eg vona ad thid, lesendur kærir, munid eiga gledileg jol, og farsælt komandi nytt år.

16.12.06

Hor og slím
Aðlaðandi titill ekki satt?
Allaveganna hef ég hausinn og hálsinn fullan af þessum góðkunningjum mínum. Þessir félagar taka sér oft bólfestu í umræddum svæðum líkama míns þegar ég hef verið undir álagi og fer að slappa af, eða þegar ég er að fara í ferðalag. Og fyrir nokkrum dögum síðan (á sunnudaginn nánar tiltekið) var ég einmitt á báðum þessum aðstæðum, álagið að minnka og ég að fara í ferðalag.
Tónleikarnir með Stöku á þarsíðasta miðvikudag gengu barasta alveg hrein ágætlega. Ég skemmti mér allaveganna vel. Smá "kikk" í að stjórna sameiginlega kórnum (Staka plús Mpiri). Ég og Gorm, stjórnandi Mpiri, erum báðir spenntir fyrir að gera eitthvað meira sameiginlegt, sem einn kór þá.
Jarðarfararferðin til Jótlands gekk vel og var í rauninni afar hugguleg. Skemmtilegir ferðafélagar tveir og margt spjallað.
Daginn eftir var svo kórdagurinn mikli þar sem ég stóð frá kl.10 um morgunin til kl.18.30 og stjórnaði kórum. Fyrst Vox Absona á kóræfingu, og svo Stöku og Kirkjukórnum á Nord Atlantisk Korfestival (NAK). Á NAK var Vor Frue kirkja á strikinu aljgörlega pökkuð. Gaman að því.
Daginn eftir fórum við tengdó svo til Íslands. Minnismiði til ykkar: ekki ferðast með yfirvigt, hún er dýr. Við borguðum, eða öllu heldur fyrirtækið sem tengdó vinnur fyrir, 850 dkr í yfirvigt. Það voru mest möppur og efnissýnishorn til kúnnanna sem voru svona þung.
Það var ansi gaman að koma heim. Reykjavík er náttúrulega algjörlega ógeðsleg borg, með hryllilegum gatnaspellvirkjum og samanklesstum lúxusvillum. En mikið ægilega var nú gott að komast í sund og horfa á jólaljósin í öllu myrkrinu.
Við flugum einnig austur, og þar var nú annað upp á teningnum en í henni Reykjavík. Fallegt landið naut sín og huggulegir bæjirnir stóðu í ljósum jólalogaljósum og allt eins huggulegt og hægt var. Heim í heiðardalinn var gott að koma og Hlíðargata 24 með ábúendum er alltaf afar gott að hitta.
En það sniðugasta sem við gerðum var svo að leigja bíl til að keyra á suður aftur. Við fengum nefnilega drullugan Land Rover, sem þurfti að skila til Rvk, þannig að við borguðum bara bensínið. Stórsniðugt. Keyrðum norðurfyrir land og fórum í jarðböðin í Mývatni. Ævintýri fyrir blessaðan danann.
Á þessum tímapunkti var ég orðinn ansi kvefaður og aumingjalegur.
Svo þegar ég kom hingað heim var ég algjörlega orðin raddlaus, með hita og kvef. Bölvaður aumingi. En að sjálfsögðu beið mín einn kórinn og generalprufa hans. Það gekk nú og í dag héldum við svo tónleika sem einkenndust af látum í krökkum og kór sem átti erfitt með að einbeita sér. En okkur tókst þó að gera smá músík.
Nú ætla ég að fá mér viský og njóta þess að jólafríið nálgast óðfluga.

4.12.06

Úr stressi í tilhlökkun
Undanfarið hef ég verið örlítið stressaður. Það er margt framundan sem er sökudólgurinn.
Vikan sem við erum að stíga inn í, í skrifuðum orðum, er vinningshafi að "flestir tónleikar á einni viku" verðlaunanna.
Þetta byrjaði reyndar fyrir síðustu helgi. Þá var hringt í mig og ég beðinn um að koma með músík á árshátíð íslensks fyrirtækis, sem ákvað að halda gleðina í Kaupmannahöfn. Ég hristi allar mínar ermar og tæmdi vasana, sem tilboð handa þeim, og svo fengu þau bara að velja. Og völdu vel. Kórinn Staka söng fyrir gestina, og þegar þau voru búin að því, þá settist ég við flygilinn og lék undir borðhaldinu. Þurti reyndar lítið að spila þar sem þau voru svo góð í að segja klámvísur og syngja fjöldasöng.
Svo kom jú orgelfræðiprófið.
Í gær var ég á kóræfingu í kirkjunni sem ég syng í frá kl.10-16.
Á morgun er æfing með Vox Absona, þar sem ég er afleysingarstjórnandi. Ég á svo að stjórna þeim á jólatónleikum þann 16. des.
Á þriðjudaginn eru styrktartónleikar í kirkjunni minni, þar sem ég syng í kórnum. Beint á eftir tónleikunum er sameiginleg æfing Mpiri, sem er færeyskur kór, og Stöku, sem er íslenskur kór (sem ég er að gaufast við að stjórna).
Á miðvikudaginn eru svo tónleikar með þessum 2 kórum. Allir að mæta í Samúelskirkjuna og hlusta m.a. á Poulenc, Rachmaninov og Huga Guðmundsson.
Á fimmtudaginn er svo kóræfing hjá kirkjukór íslenska safnaðarins í Kaupmannahöfn (sem ég svo einnig er að gaufast við að stjórna).
Á föstudaginn fer ég svo með presti íslenska safnaðarins til Jótlands að spila og syngja í jarðarför. Þá um kvöldið er svo Aðventukvöl hjá íslenska söfnuðinum í Kaupmannahöfn, og þar mun kirkjukórinn meðal annarra koma fram.
Á laugardaginn er svo aukakóræfing hjá Vox Absona frá kl.10-13. Um seinnipartinn er svo NAK (Nord Atlantisk Korfestival) þar sem allir þeir kórar sem eru starfandi í Kaupmannahöfn, og eru skipuð fólki úr N-Atlantshafinu, hittast og syngja fyrir hvorn annan. Svo er borðaður góður matur á eftir og drukkið mikið áfengi (kommon, þetta eru Grænlendingar, Færeyingar og Íslendingar!).
Daginn eftir flýg ég svo með "tengdó" til Íslands til að selja húsgögn. Ég vona að sú ferð snúist meira um að fara í sund og skoða landið, en að þeytast á milli búða. Held reyndar að hann hafi bara einn kúnna þarna uppfrá, þannig að kannski rætist úr þessari ósk minni.

En s.s. það eru bissí dagar framundan, með heilum helling af kórsöng.
Ástæðan fyrir titlinum á þessu bloggi er sá að í dag var generalprufa hjá okkur í Stöku, í Samúelskirkjunni.
Sú æfing breytti mínu stressi í tilhlökkun. Þetta eru mjög duglegir "krakkar" og ég hlakka afar mikið til að flytja músík saman með þeim.
"Að syngja í Stöku er góð skemmtun."

1.12.06

Praktískt Par
Í haust var UNM hér í Kaupmannahöfn. Ég og Stina buðum að sjálfsögðu íslenska genginu í mat, en við áttum ekkert nægilega stórt ílát til að elda í. Allir pottarnir okkar voru of litlir fyrir svona marga í mat. Því sagaði ég af mér lappirnar og fór á stúfana að leita að potti sem hægt væri að elda mat í handa mörgum. Slíkan pott fann ég svo. Maturinn lukkaðist ágætlega. Taílenski kókoskjúklingurinn var allaveganna etinn með ágætri list.
Síðan þá hefur þessi pottur verið mikið notaður. Það er stórsniðugt að elda "simremad" (mallmat) í svona tæki. Nóg pláss fyrir allt, og ekkert slettist út á eldavélina eða gólf, eins og raunin var þegar við notuðum bara pönnu.
En þetta fullkomnaðist allt saman þegar það fór að kólna í veðri.
Við erum nefnilega með svalir. Þannig að nú þegar við eldum í stóra pottinum, þá gerum við bara stóran skammt, og svo stendur potturinn úti á svölum í kuldanum, með restunum.
Ég er nýbúinn að sækja mér t.d. chili con carne sem við elduðum í fyrradag í pottinn góða úti á svölum. Sniðugt fyrir fátæka námsmenn að hafa svona pott.

Þetta var leiðinlegt blogg.
Afsakið.
Held samt aðeins áfram.

Í gær fór ég í orgelfræðipróf, í kirkjutónlistarskólanum í Hróarskeldu. Stóð mig ágætlega, og fékk hrós fyrir góða stillingu á Regal röddinni. Regal röddin, er eins og alþjóð veit, "uafstemt" rödd. Þeas. að lengd hornsins hefur ekkert með tónhæð að segja, eins og er t.d. með Trompet röddina. Þannig að tónn Regal raddarinnar getur verið svolítið trikkí. Er ekki jafn skýr og t.d. í Trompet röddinni (er þetta ekki rétt hjá mér orgelnördar?). En þeir kapparnir voru svona líka ánægðir með stillingu mína á tóninu sem ég fékk.
Síðar um daginn fór ég í JólaTívolí. Það var ekkert nema prangur, múgur og margmenni. Jújú, jólaljósin voru falleg, en þegar maður hefur alist upp í smábæ á Íslandi, þar sem flestir húseigendur "går amok" í jólaseríuskreytingum, þá var ég ekkert að pissa í mig yfir þessu.