11.10.06

Nýjustu kaffifréttirnar frá Hamletsgötu
Þið eruð kannski orðin hundleið á þessu, en fyrir mér er þetta bara svo stórkostlegir tímar að því er varla hægt að lýsa.
Eftir langan dag, fór að heiman kl.09 og kom heim kl.21, þá var ég ekki upp á marga fiska, þrátt fyrir að Stina eldaði fisk, við kvöldmatarborðið. Ég var eins og undin gólftuska.
Fyrst fór ég upp í Tagensbo kirkju, sem er ljótasta kirkja sem ég hef komið í, til að æfa mig. Þar æfði ég mig í klukkutíma eða svo, áður en ég hjólaði niður í bæ í orgeltíma. Það tekur ca. 20 mín að hjóla oneftir.
Orgeltíminn var fínn.
Svo fór ég á flakk. Kannaði aðeins umhverfi Istedgade og endaði svo á besta frokost stað Kaupmannahafnar, Encke & Duers, og snæddi "lunch box". Mæli eindregið með þessum stað. Reyndar er bara eitt borð til að sitja við, og tveir stólar, enda er þetta ekki staður sem stílar upp á að fólk komi og sitji, heldur taki matinn með. Góð hugmynd ef maður er td. á leið í dýragarðinn.
Saddur og glaður hjólaði ég mér niður í Risteriet, uppáhalds kaffihúsið, og fékk mér cortado. Ég gat að sjálfsögðu ekki látið mér það nægja, og keypti mér einn poka af espresso blöndunni þeirra, óristaðri! Eitt kg. fyrir 110 kr. Ef ég kaupi það ristað þá kosta 250 gr. 55 kr, þannig að sparnaðurinn er mikill. En ég vissi ekki hvort mér skildi lukkast að gera drykkjarhæft kaffi úr þessu.
Þarnæst lá leiðin í Jónshús, sem er mitt uppáhalds Jónshús í Kaupmannahöfn. Þar gat ég spilað aðeins á flygilinn og undirbúið mig fyrir kirkjukórsæfingu, sem hófst síðan kl. 18. Í þetta skiptið mættu heilir 5! Ef það heldur svona áfram þá er jafnvel kominn kór rétt eftir jól...
"Kór" æfingin gekk fínt.
Og ss. ég kom þreyttur heim í faðm minnar ástkæru, sem var búin að elda handa mér. Fallegt.
Eftir matinn, gat ég ekki á mér setið, svona úr því að ofninn var heitur, og skellti baunum á ofnplötu. Svo beið ég eftir fyrsta hoppi, og öðru hoppi, "og om lidt er kaffen klar". Ég átti ekki til eitt aukatekið orð. Þetta tókst bara svona líka glimrandi. Kröftugt og gott kaffi.
Nú fer ég þreyttur, en glaður kaffiristari að sofa.
Ps. Ef þið hafið áhuga á að vita meira um kaffiristun í ofni, þá eru góðar leiðbeiningar hérna, með myndum og öllu.

Engin ummæli: