30.10.06

Óléttir kórstjórar
Um helgina tók ég við kór númer 2 sem vantar stjórnanda vegna barnsburðarleyfis síns fasta stjórnanda. Fyrsti kórinn er kirkjukór Íslenska safnaðarins hér í Kaupmannahöfn. Þið vissuð allt um það.
Kórinn sem bættist við um helgina heitir Vox Absona. Ekkert sérlega traustvekjandi nafn, þar sem að nafnið útleggs eitthvað á þessa leið: "skökku raddirnar". Vona að þetta sé kaldhæðni.
Þannig að nú er kórstjóri á mánudags-, þriðjudags- og miðvikudagskvöldum!
En tilurð þess að ég fékk þennan kór ýtir undir þá kenningu að það eru ákveðnir kraftar í heiminum sem tengja okkur öll saman, og vilju maður eitthvað nægilega mikið í hjarta sínu þá mun það gerast.
Þannig er nefnilega mál með vexti að ég hef kirkju til afnota. Kirkja sú heitir Tagensbokirke (ein sú ljótasta sem ég hef séð...þið hafið einnig heyrt um það held ég). Það er annar orgelnemandi sem fær líka afnot af kirkjunni, þannig að við erum komin með smá tímaplan hvenær við erum í kirkjunni. Þessi organisti syngur í kór og sagði mér á fimmtudaginn, þegar hún tók við af mér við orgelið, að það væri íslensk stelpa að fara að stjórna kórnum sem hún syngur í. Ég vissi alveg hver þessi stúlka er þegar hún hafði sagt mér hvað hún heitir. Ég samgladdist landa mínum, en varð einnig svolítið öfundsjúkur, þegar ég heyrði hvað þau ætluðu að syngja á jólatónleikunum.
Daginn eftir hringdi þessi landi minn í mig. Hún var í stökustu vandræðum. Hún var hálfbúin að taka að sér einhvern kór, sem hún hafði eiginlega ekki tíma fyrir. Hún spurði hvort ég vildi ekki taka hann að mér.
Tilviljun?

Engin ummæli: