8.10.06


Kynþroski
Eins og þið vitið, lesendur góðir, þá er ég kaffiáhugamaður. Mér finnst afar gaman að búa til kaffi, að skoða espressovélar, að lesa um kaffi og kaffibruggun, er farin að kynna mér hvernig ég eigi að rista kaffi osfrv. Síðast og alls ekki síst, þá finnst mér kaffi gott. Ég drekk lítið kaffi yfir daginn, en það skal "satanædeme" vera gott. "Vinnustaðakaffi" er eitur í mínum maga og ég skil ekki hvernig sumir geta þambað alla þessa lítra af kaffi yfir daginn.

...
Intermezzo:
Sjúklingurinn hefur þráláta magaverki.
Læknarnir geta ekkert fundið út úr þessum verkjum sjúklingsins. Sjúklingurinn hefur verið rannsakaður í krók og kima, og allt kemur fyrir ekki, aldrei tekst læknunum að finna rót vandans.
Eftir nokkra vikna rannsóknir dettur einum lækninum í hug að spyrja hversu mikið af kaffi sjúklingurinn drekki yfir daginn.
"Tja...svona 10-15."
"10-15 bolla?"
"Nei, lítra."
...

En eins og ég sagði í síðasta innleggi, þá eignaðist Silvia litla bróður, hann Rocky. Silvia og við foreldrarni höfum beðið lengi eftir komu Rocky. Við eignuðumst Silviu í febrúar/mars á þessu ári. (Fyrir ykkur sem haldið að Silvia og Rocky séu gæludýr, eða jafnvel eitthvað ennþá verra, eins og t.d. börn, þá er Silvia espressovél og Rocky er kaffikvörn).

Hingað til höfum við fengið kaffið malað í kaffibúðinni. Við keyptum kaffi í Emmerys þegar við bjuggum í Árósum. Þó svo að kaffihúsið Altura hafi verið með besta kaffið í bænum, þá keyptum við af Emmerys því það lá við hliðiná íbúðinni okkar. Hérna í Kaupmannahöfn kaupum við kaffi í Risteriet, og innan skamms mun ég byrja á því að rista sjálfur. Þá kaupir maður bara grænar baunir og ristar þær svo í ofninum. Það er náttúrulega hægt að kaupa svona kaffibaunaristara, en ég á bara ekki 15.000 akkúrat núna til að fjárfesta í slíkum grip.

En jæja, aftur að systkinunum litlu.
Eftir að Rocky kom í húsið þá er eins og að Silvia hafi þroskast úr að vera dugleg lítil stúlka, yfir í að vera gjafvaxta ung mey. Hún er farin að gera frábært kaffi! Ef þið hafið drukkið Guinness, þá líkist kaffið sem hún er farin að gera, froðunni á slíkum drykk, þegar það lullar niður úr bruggunarhandfanginu. Kíkið á þetta myndband, þá skiljið þið hvað ég er að meina.
Ástæðan fyrir þessum snögga kynþroska er náttúrulega Rocky.
Ég er því farinn að halda að Rocky og Silvia séu alls ekkert systkin. Þau eru kærustupar. Nema það eigi sér stað ægilegt sifjaspell í eldhúsinu.

Engin ummæli: