30.10.06

Tagensbokirkja
Úbbs.
Ég hélt ég hefði skrifað eitthvað um ljótleika Tagensbokirkju, en svo hef ég ekki gert.
Tagensbo er afar ljót kirkja.
Hún stendur í hverfi þar sem bara eru ljósar/gulleitar músteinablokkir, ferkantaðar. Múrsteinn getur alveg verið fallegur, sem betur fer því þá ættu danir einvörðungu ljót hús, en þessi ljósi/guli múrsteinn er alveg einstaklega leiðinlegur að horfa á. Húsin líta út sem þau eru með gubbupest og 43stiga hita.
En svo er það þannig að Tagensbokirkja er byggð sem hluti í eina svona blokkina í hverfinu sem hún stendur í. Og það eina sem gefur til kynna að þarna sé kirkja er örlítill ferkantaður klukkuturn sem stendur upp úr þakinu. Það er meira að segja svona stigagangur í kirkjunni, með svona týpískri danskri lyftu sem lyktar illa.
Ljótt ljótt ljótt!
Óléttir kórstjórar
Um helgina tók ég við kór númer 2 sem vantar stjórnanda vegna barnsburðarleyfis síns fasta stjórnanda. Fyrsti kórinn er kirkjukór Íslenska safnaðarins hér í Kaupmannahöfn. Þið vissuð allt um það.
Kórinn sem bættist við um helgina heitir Vox Absona. Ekkert sérlega traustvekjandi nafn, þar sem að nafnið útleggs eitthvað á þessa leið: "skökku raddirnar". Vona að þetta sé kaldhæðni.
Þannig að nú er kórstjóri á mánudags-, þriðjudags- og miðvikudagskvöldum!
En tilurð þess að ég fékk þennan kór ýtir undir þá kenningu að það eru ákveðnir kraftar í heiminum sem tengja okkur öll saman, og vilju maður eitthvað nægilega mikið í hjarta sínu þá mun það gerast.
Þannig er nefnilega mál með vexti að ég hef kirkju til afnota. Kirkja sú heitir Tagensbokirke (ein sú ljótasta sem ég hef séð...þið hafið einnig heyrt um það held ég). Það er annar orgelnemandi sem fær líka afnot af kirkjunni, þannig að við erum komin með smá tímaplan hvenær við erum í kirkjunni. Þessi organisti syngur í kór og sagði mér á fimmtudaginn, þegar hún tók við af mér við orgelið, að það væri íslensk stelpa að fara að stjórna kórnum sem hún syngur í. Ég vissi alveg hver þessi stúlka er þegar hún hafði sagt mér hvað hún heitir. Ég samgladdist landa mínum, en varð einnig svolítið öfundsjúkur, þegar ég heyrði hvað þau ætluðu að syngja á jólatónleikunum.
Daginn eftir hringdi þessi landi minn í mig. Hún var í stökustu vandræðum. Hún var hálfbúin að taka að sér einhvern kór, sem hún hafði eiginlega ekki tíma fyrir. Hún spurði hvort ég vildi ekki taka hann að mér.
Tilviljun?

26.10.06


Óskar Þór Þráinsson
er drengur góður. Ég kynntist honum í Hamrahlíðakórnum á sínum tíma, og síðar meir í Smaladrengjunum síkátu. Hann er víst ennþá gildur limur (he he) í þeim klúbbi...hættir maður einhverntímann að vera smaladrengur? Ekki ég!

Intermezzo:
Þó svo það komi ekki fram á vikipedia, í umfjöllun um Smaladrengina, þá var ég einn af þeim sem tróð upp við frumraun þeirra, í Gettu Betur. Ég spilaði á kongatrommur. Og ef ég man rétt þá var það ég sem hannaði búningana þeirra við þær sjónvarpsupptökur (húfur, lopapeysur, gallabuxur og stígél). Svo söng ég einnig með þeim í fyrstu upptöku þeirra, og spilaði á píanó. Og ekki man ég betur en ég hafi átt stórleik á einu plötu þeirra, Strákapör, þar sem ég fór á ostum í harmóníkuleik. Þetta vissi wikipedia ekki, en nú veit alþjóð þetta...

En aftur að Óskari.
Við deilum saman afmælisdegi, þó á sitthvoru árinu.
Óskar hefur samið eitt minst jólalega jólalag sem ég hef heyrt, og telst það nokkuð afrek. Mig minnir að það hafi meira að segja verið svona "jólalagahrista" í því, en allt kom fyrir ekki. Það hljómaði meira sem lag úr einhverjum vestra.
Jæja, ég ætlaði ekki að blaðra út í eitt um jólalagatónsmíðar Óskars.
Óskar er viðskiptamaður góður. Hann seldi mér einu sinni 19tommu skjá, á meðan hann vann í BT. Sá skjár er ennþá við hestaheilsu.
Nú er drengurinn búinn að starta svona skipti síðu, þar sem smátt verður stærra, þangað til að alheimurinn springur á meðan að hann sötrar kokteil, fljótandi á vindsæng í sundlauginni við villuna sem hann hefur byggt á einkaeyjunni sinni, á einhverjum sólríkum stað í heiminum.
Tja...þetta er kannski soldið ýkt.
En þetta gengur út á að hann byrjar að skipta einni lyklakippu. Einhverjum fannst hún flott og bauð eitthvað, dýrara, til skiptanna, og svo koll af kolli.
Mér skilst að hann vilji skipta forláta vekjaraklukku, sem söngkonan Hallveig Rúnarsdóttir átti. Svo segir sagan að þessi vekjaraklukka hafi þann stórfenglega eiginleika að hún geti vekið þig á öllum tímum sólahringsins, þeas. ef þú ert sofandi og mundir að stilla klukkuna.
Kíkið á síðuna hjá Óskari, hérna, og bjóðið í klukkuna. Ef búið er að skipta út klukkunni þá er örugglega eitthvað annað spennandi að finna.

20.10.06


Drykkjarföng
Það er þrír drykkir sem ég geri meira úr en öllum hinum drykkjunum.
Þessir þrír drykkir eru eftirfarandi:
- vatn
- kaffi
- bjór

Mér finnst vín er einnig afar gott, sé það gott þeas., en vínáhugi minn gengur í bylgjum, en hin heilaga þrenning er mér ávalt kær.
Þið hafið nú fengið nóg af kaffisögum, svo mikið að sumir eru farnir að kalla netluskrif mín um kaffi, þráhyggju.
Vatn er jú nauðsynlegt til að gera kaffi, og gott vatn er undirstaða góðs kaffis. Þessvegna hreinsa ég vatnið, í svotilgerðri könnu. Við þá hreinsun síjast t.d. kalk úr vatninu, en hérna í DK er ótrúlega mikið af kalki í vatni. Kalkið er eitur í æðum hennar Silviu litlu. Svo bragðast vatnið bara mun betur en ella.

En ástæðan fyrir þessu bloggi er eiginlega bjór.
"Mmmm...beer!" eins og Homer sagði.

Undanfarna daga hafa "tengdaforeldrar" mínir verið í heimsókn hjá okkur.
Þau fóru í bæjarferð í gærdag og slógumst, ég og Stina, í för með þeim þegar líða tók á daginn.
Á leiðinni heim þá var komið við á Nørrebro Bryghus. Við kolféllum öll sömul fyrir staðnum. Fínn bar, veitingahús á efrihæðinni (tjekkuðum þó ekki á matseðlinum), hugguleg stemmning og síðast en ekki síst, afar góður bjór. Að sjálfsögðu féll ég fyrir þeirra útgáfu af belgískum klausturbjór, og varð ég ánægður með það fall.
Við smökkuðum svona hjá hvort öðru, og allir bjórarnir voru barasta til fyrirmyndar.
Ég reikna með að við munum koma oftar við á þessum stað, og mæli eindregið með að þú, lesandi góður, geri slíkt hið sama, eigir þú leið um Kaupmannahöfn.
Burt af Strikinu, götu dauðans, og upp á Norðurbrú!

16.10.06

Enn og aftur af skóm
Í gær var sunnudagur.
Ég og Stina erum með bíl í láni. Bróðir hennar er í viðskiptaferð í útlöndum og geymdi bílinn hjá okkur á meðan. Afar gott.
Sökum þess að þetta tvennt, bíllinn og sunnudagurinn, bar upp á sama dag, þá skelltum við okkur í óvissuferð í gær, eftir kirkjusönginn.
Við bara keyrðum af stað, norður á bóginn, í glimrandi góðu veðrir, en köldu, og létum bara vind ráða seglum...eða hvað það nú heitir.
Allar villurnar upp með austurströnd Sjálands eru stórar, og bera vott um ótrúlegt fjármagn þeirra sem í þeim búa. Gaman að virða þetta fyrir sér og láta sig dreyma. Sjórinn var líka fallegur, og sum laufblöðin komin í haustbúning, og farin að falla. Tilvalinn dagur í þessa ferð okkar.
Fljótlega komum við að Helsingjaeyri. Þar stendur höll nokkur tilkomumikil við sjóinn. Við löggðum bílnum og tókum okkur smá labb í kringum höllina.
Þegar við vorum að ganga í átt að höllinni þá átta ég mig á því að þangað hafði ég komið áður, ekki í fyrra lífi þó. Fyrir ca. 9 árum, í minni fyrstu utanlandsreysu (já ég var...látum okkur nú sjá...tvítugur þegar ég kom fyrst til útlands). Þá var ég í för með þáverandi kærustu minni, Þyri, kvenskörungur og píanóleikari í háum gæðaflokki, og vorum við í heimsókn hjá systur og mági hennar, í Kaupmannahöfn.
Fyrir þá ferð var okkur ráðlagt að kaupa okkur sandala, því það væri varla verandi í dönsku sumri í lokuðum skóm. Við fengum okkur bæði sandala, Teva sandala.
Í gær, þegar það rann upp fyrir mér, er ég stóð fyrir framan höllina á Helsingjaeyri, að ég hefði komið þangað áður, þá varð mér litið á skóbúnað minn. Voru þá ekki Teva sandalarnir góðu einnig að koma í annað skipti til Helsingjaeyrar, bara ca. 9 árum seinna. Á sömu fótum.
Merkilegt!

Annars þá héldum við för okkar áfram, eftir göngutúr í kringum höllina. Við keyrðum lengra upp Sjáland, og skyndilega segir Stina "Hey! Söngkennarinn minn á sumarbústað hérna rétt hjá, eigum við að tjekka hvort hún sé heima?" Það var hún og maðurinn hennar líka, og buðu þau okkur í kvöldmat og áttum við frábært kvöld með þeim.
Svona getur það nú verið gaman að keyra "ud i det blå".

11.10.06

Nýjustu kaffifréttirnar frá Hamletsgötu
Þið eruð kannski orðin hundleið á þessu, en fyrir mér er þetta bara svo stórkostlegir tímar að því er varla hægt að lýsa.
Eftir langan dag, fór að heiman kl.09 og kom heim kl.21, þá var ég ekki upp á marga fiska, þrátt fyrir að Stina eldaði fisk, við kvöldmatarborðið. Ég var eins og undin gólftuska.
Fyrst fór ég upp í Tagensbo kirkju, sem er ljótasta kirkja sem ég hef komið í, til að æfa mig. Þar æfði ég mig í klukkutíma eða svo, áður en ég hjólaði niður í bæ í orgeltíma. Það tekur ca. 20 mín að hjóla oneftir.
Orgeltíminn var fínn.
Svo fór ég á flakk. Kannaði aðeins umhverfi Istedgade og endaði svo á besta frokost stað Kaupmannahafnar, Encke & Duers, og snæddi "lunch box". Mæli eindregið með þessum stað. Reyndar er bara eitt borð til að sitja við, og tveir stólar, enda er þetta ekki staður sem stílar upp á að fólk komi og sitji, heldur taki matinn með. Góð hugmynd ef maður er td. á leið í dýragarðinn.
Saddur og glaður hjólaði ég mér niður í Risteriet, uppáhalds kaffihúsið, og fékk mér cortado. Ég gat að sjálfsögðu ekki látið mér það nægja, og keypti mér einn poka af espresso blöndunni þeirra, óristaðri! Eitt kg. fyrir 110 kr. Ef ég kaupi það ristað þá kosta 250 gr. 55 kr, þannig að sparnaðurinn er mikill. En ég vissi ekki hvort mér skildi lukkast að gera drykkjarhæft kaffi úr þessu.
Þarnæst lá leiðin í Jónshús, sem er mitt uppáhalds Jónshús í Kaupmannahöfn. Þar gat ég spilað aðeins á flygilinn og undirbúið mig fyrir kirkjukórsæfingu, sem hófst síðan kl. 18. Í þetta skiptið mættu heilir 5! Ef það heldur svona áfram þá er jafnvel kominn kór rétt eftir jól...
"Kór" æfingin gekk fínt.
Og ss. ég kom þreyttur heim í faðm minnar ástkæru, sem var búin að elda handa mér. Fallegt.
Eftir matinn, gat ég ekki á mér setið, svona úr því að ofninn var heitur, og skellti baunum á ofnplötu. Svo beið ég eftir fyrsta hoppi, og öðru hoppi, "og om lidt er kaffen klar". Ég átti ekki til eitt aukatekið orð. Þetta tókst bara svona líka glimrandi. Kröftugt og gott kaffi.
Nú fer ég þreyttur, en glaður kaffiristari að sofa.
Ps. Ef þið hafið áhuga á að vita meira um kaffiristun í ofni, þá eru góðar leiðbeiningar hérna, með myndum og öllu.

8.10.06


Kynþroski
Eins og þið vitið, lesendur góðir, þá er ég kaffiáhugamaður. Mér finnst afar gaman að búa til kaffi, að skoða espressovélar, að lesa um kaffi og kaffibruggun, er farin að kynna mér hvernig ég eigi að rista kaffi osfrv. Síðast og alls ekki síst, þá finnst mér kaffi gott. Ég drekk lítið kaffi yfir daginn, en það skal "satanædeme" vera gott. "Vinnustaðakaffi" er eitur í mínum maga og ég skil ekki hvernig sumir geta þambað alla þessa lítra af kaffi yfir daginn.

...
Intermezzo:
Sjúklingurinn hefur þráláta magaverki.
Læknarnir geta ekkert fundið út úr þessum verkjum sjúklingsins. Sjúklingurinn hefur verið rannsakaður í krók og kima, og allt kemur fyrir ekki, aldrei tekst læknunum að finna rót vandans.
Eftir nokkra vikna rannsóknir dettur einum lækninum í hug að spyrja hversu mikið af kaffi sjúklingurinn drekki yfir daginn.
"Tja...svona 10-15."
"10-15 bolla?"
"Nei, lítra."
...

En eins og ég sagði í síðasta innleggi, þá eignaðist Silvia litla bróður, hann Rocky. Silvia og við foreldrarni höfum beðið lengi eftir komu Rocky. Við eignuðumst Silviu í febrúar/mars á þessu ári. (Fyrir ykkur sem haldið að Silvia og Rocky séu gæludýr, eða jafnvel eitthvað ennþá verra, eins og t.d. börn, þá er Silvia espressovél og Rocky er kaffikvörn).

Hingað til höfum við fengið kaffið malað í kaffibúðinni. Við keyptum kaffi í Emmerys þegar við bjuggum í Árósum. Þó svo að kaffihúsið Altura hafi verið með besta kaffið í bænum, þá keyptum við af Emmerys því það lá við hliðiná íbúðinni okkar. Hérna í Kaupmannahöfn kaupum við kaffi í Risteriet, og innan skamms mun ég byrja á því að rista sjálfur. Þá kaupir maður bara grænar baunir og ristar þær svo í ofninum. Það er náttúrulega hægt að kaupa svona kaffibaunaristara, en ég á bara ekki 15.000 akkúrat núna til að fjárfesta í slíkum grip.

En jæja, aftur að systkinunum litlu.
Eftir að Rocky kom í húsið þá er eins og að Silvia hafi þroskast úr að vera dugleg lítil stúlka, yfir í að vera gjafvaxta ung mey. Hún er farin að gera frábært kaffi! Ef þið hafið drukkið Guinness, þá líkist kaffið sem hún er farin að gera, froðunni á slíkum drykk, þegar það lullar niður úr bruggunarhandfanginu. Kíkið á þetta myndband, þá skiljið þið hvað ég er að meina.
Ástæðan fyrir þessum snögga kynþroska er náttúrulega Rocky.
Ég er því farinn að halda að Rocky og Silvia séu alls ekkert systkin. Þau eru kærustupar. Nema það eigi sér stað ægilegt sifjaspell í eldhúsinu.

6.10.06

Fjölgun í fjölskyldunni...og smá um skótau
Nú hefur heldur betur bæst í fjölskylduna á Hamletsgade. Silvia litla eignaðist nefnilega bróður í dag. Hann heitir Rocky. Föðurnafnið er hið sama, Rancilio. Systkinin eru ennþá að kynnast hvort öðru, en þau eru samt farin að leika sér afar fallega saman, á meðan að foreldrarnir eru upptendruð af koffíni.
Hin svokallaða "mjókurlist" er nú æfð af kappi og nú þegar hefur lukkast að gera eitthvað í átt að yfirkeyrðum hundaskít, en það er langt í að það verði teiknuð hjörtu og laufblöð.

Í morgun var rigning. Ég keypti mér stígvél í tilefni þess. Það er óþarfi á velferðartímum að vera blautur í fæturna. Því miður voru ekki til Nokia stígvél, eins og maður fékk í gamladaga. Ætli Nokia framleiði ennþá stígvél?

4.10.06

Og örlítið meira um skótau
Og skórnir reyndus svona líka ótrúlega vel. Það var eins og maður væri í góðu fótabaði, þegar ég hljóp um pedalana á orgelinu í Kingos kirkjunni.
Og nú hef ég sagt mitt síðasta um Organmaster orgelskóna mína.

3.10.06

Skótau
Og þá eru orgelskórnir komnir til mín, og þeir passa.
Það var dinglað hérna í morgun, og pósturinn kom með pakka til mín. Ég þurfti bara að borga 219 kr í toll. Hélt að það yrði jafnvel meira.
Þannig að nú klæjar mig í tærnar að komast í orgel að æfa mig...nema það sé bara fótsveppur að pirra mig.

2.10.06

Af slögurum
Síðan ég byrjaði að spila á píanó, 7 ára gamall, þá hef ég aldrei spilað slagara, svona týpískan píanó slagara. Slagari gæti t.d. verið "Für Elise" e. Beethoven, eða píanósónata nr.14 (Tunglskinssnónatan) eftir sama kappa. Reyndar man ég eftir að hafa spilað stefið úr öðrum kafla píanókonserts nr. 21 eftir afmælisbarnið Mozart, en það var náttúruleg ekki í upprunulegri útgáfu, því þetta var ekki allur kaflinn, og það vantaði eins og eina litla sinfóníuhljómsveit.
Þannig að ég hef aldrei spilað alvöru slagara, í hans fullorðins útgáfu.
Fyrr en nú!
Á miðvikudaginn á ég að koma með nóturnar að Tokkötu og Fúgu í d-moll eftir meistara J.S. Bach (jazzballettskóli Báru, eins og Tryggvi Baldvins kynnti hann) í orgeltíma. Kennaranum mínum fannst það tilvalið að ég kæmi með þetta verk, því það er ágætis framhald frá Prelúdíunni og Fúgunni í c-moll, sem ég hef verið að æfa.

En ég hef verið að velta þessari slagarafælni minni fyrir mér í dag, og hef einnig spáð í hvort þetta sé fælni sem margir aðrir upplifa.
Hvað finnst þér?