27.9.06

Og...
...athugasemdakerfið er komið í lag.

24.9.06

Búinn!
Þá er ég loksins búinn að láta verða af því að panta mér orgelskóna frá henni Ameríku. Spennandi að sjá hvað skatturinn hérna í DK leggur ofaní verðið.
Ég læt ykkur vita þegar ég hef fengið pakkann og prufukeyrt skóna.

23.9.06

Afsprengi
Shit!
Á morgun, sunnudaginn 24.09.06, er þáttur á Rás 1, sem heitir "Afsprengi". Ég þekki ekki þessa þætti, sökum þess að ég hlusta ekkert á íslenskt útvarp. Hlusta almennt ekki á útvarp. En hvað um það. Gestur þáttarinns er ég sjálfur.
Þannig var mál með vöxtum að hún Berglind María Tómasdóttir, flautuleikari, framkvæmda-og útvarpskona, tók viðtal við mig þegar hún var hérna í Kaupmannahöfn á UNM-hátíðinni í haust. Þar átti ég eitt verk (eins og getið hefur verið áður hér nokkrum innsetningum neðar), og þar sem hún var útsendari frá Rás 1, þá tók hún viðtal við mig, og fékk upptöku af verkinu mínu, sem DR gerði, spilaða í "Hlaupanótunni".
Að viðtalinu.
Við settumst niður í eitt hornið á Den Sorte Diamant og hún spurði mig nokkurra spurninga.
Ég man ekki eftir að hafa sagt eitt orð af viti.
Þetta var reyndar mjög erfitt, því ég hef ekkert talað um músík, á íslensku, í mjög langan tíma, þannig að allur íslenskur orðaforði er rokinn í veður og vind. Ég sit meira að segja oft fyrir framan þessa tölvu og veit hreinlega ekki hvernig ég eigi að koma orðum að því sem ég vil segja. Þetta er afleyðing þess að hlutföllin á milli þeirra tungumála sem ég tala dags daglega er c.a. svona:
Íslenska 20%
Danska 80%
Svo var ég að skoða dagskrána fyrir morgundaginn á Rás 1, og sé að þátturinn er 50 mínútna langur!!! Vona að það verði spilaður hellingur af tónlist.

18.9.06

...á hlaupum
Undanfarið hefur Fælledparken verið mér uppspretta að orðum, eða stemningu, sem ég síðan set saman í ljóð, eins og þið hafið lesið hér á síðustu tveimur færslum. En í dag komu engin orð. Ég bara datt. Datt á hausinn eins og gömul kerling. Ípóðinn hentist úr lúkum mér, en sem betur fer var hann í skinnhulsunni sem fylgir þegar maður kaupir hann, þannig að ekki kom skráma á gripinn, né sló hann feilnótu.
En orðin komu ekki í dag. Samt var alveg nóg af fólki og lífi í garðinum. Svona er listin.

15.9.06

hauststelpur
pappírsþurrka stelpunnar með ísinn
fýkur í burtu af bekknum
sem þær sátu á
og slæst í för með laufblöðum trjánna
sem loksins fá að fækka fötum
eins og hinar stelpurnar í garðinum

8.9.06

í garðinum
undir ostgulum pakksöddum mána
hleypur hvítleggjaði íslendingurinn
...í rökkrinu
það er blóðbragð af haustlyktinni
umhverfis steingrá híbýli þeirra geðsjúku
í almennings garðinum

Húbla!
Í dag er ég í húbla.
Í dag fékk ég nefnilega greitt fyrir hittarann sívinsæla, Torden, sem ég skrifaði fyrir grúví bandið Århus Universitetskor. Það var Statens Kunstfond sem lagði út 10.000 Dkr. í svartholið stóra á bankareikningnum mínum. Já já, að sjálfsögðu á maður að muna að taka skattinn frá núna strax etc. etc. en ég vona að ég fái einhver fleiri gigg, greitt með negrapeningum, og þá mun ég leggja til hliðar.
En já, HÚBLA!
En sökum minkunar á svartholi, þá fór ég og spreðaði. Ég keypti mér hlaupabuxur. Svona tights. Bíðið aðeins, Eyþór Gunnars er að spila sóló...............
sóló
sóló
sóló
sóló
Úúúúúooohhhh! (sem er annars hið últimatíva þýska klámmyndahljóð, fyrir ykkur sem ekki kveiktu á perunni) Þetta var nú bara ansi hressandi hjá honum. Er að rifja upp síðustu plötu MF-manna á meðan ég skrifa þetta.
Hvert var ég komin? Já! Tights!
Ég fjárfesti (ekki verslaði, því það er að selja, en ekki kaupa) í svona svörtum Nike (Nækí) buxum, sem ná niður á mið læri og eru afar þröngar yfir minn stælta og harða rass. Ég ætla að fara út að hlaupa á eftir, og er afar spenntur yfir að sýna mig í þessum klæðnaði. Kannski barasta að ég klæðist einvörðungu þessum buxum. Sé alveg fyrir mér aðdáunar augnaráðin sem ég mun fá, frá móthlaupandi einstaklingum, þá aðallega kvenkyns.

Í gær var reyndar líka afar mikill húbla dagur. Ég fekk tvo pakka!
Einn kom með póstsendlinum. Hann var frá mömmu minni. Í honum var lopapeysa, sem hún hafði einu sinni prjónað og enginn gat notað. Í sumar komst ég svo að því að ég gat það vel, hún þurfti bara aðeins að lengja ermarnar, og náði þvi ekki áður en ég fór aftur út til DK. Í pakkanum var líka svona pönnukökuspaði. Afar gagnlegt þegar maður bakar pönnukökur. Ég hafði nefnilega fengið pönnukökupönnu frá foreldrum mínum í afmælisgjöf.
Pönnukökupönnur, eins og þær eru á Íslandi, eru útdauðar hér í DK. Hér eru bara svona teflonhúðaðar úrkynjaðar pönnur. Þær vil ég ekki sjá í mínum húsum.
Aftur að pakka nr.1. Af einhverjum ástæðum hafði sá pakki farið til Osló ("hey, strákar, við erum ekki í Köben!"). Skemmtilegt að vita hvað póstflokkunarmaðurinn hefur verið að hugsa þegar hann setti pakkann, sem var kirfilega merktur með réttu heimilisfangi mínu, í póstinn til Osló.
En úr því að ég þurfti út, og var nýbúinn að fá þessa líka fínu peysu, þá skellti ég mér í hana og hjólaði niður í bæ.
Á rauðu ljósi heyrði ég sagt fyrir aftan mig:
"Ertu frá Íslandi?" (á Íslensku)
Ég leit við og sá að þar sat kona, sem farþegi, í bifreið, og hafði skrúfað niður rúðuna til að komast að þessu.
Ég játaði upp á mig sökina.
"Datt það bara svona í hug þegar ég sá peysun."
"Já, finnst þér hún ekki annars flott?"
Það þótti henni. Ég hjólaði yfir á grænu ljósi, enn stolltari yfir hvítu lopapeysunni minni.

Og þá að pakka nr.2.
Af einhverjum merkilegum ástæðum þótti póstmanninum, sem kom með pakka nr.1 ekki við hæfi að koma með pakka nr.2 til mín, en aftur á móti gaf hann mér seðil sem myndi leiða mig á hinn pakkann, ef ég afhenti hann réttum aðila í réttu pósthúsi. Mér lukkaðist það, á leiðinni heim úr bænum.
Pakki nr.2 var þónokkuð stór, gulur kassi.
Hann var frá systur minni kærri.
Þegar ég hafði dröslað kassanum heim, opnaði ég hann.
Hann var fullur að sælgæti! Íslensku sælgæti. Mikið varð ég glaður!
En ekki nóg með það, heldur leyndist þarna líka bókin Salka Valka, eftir Laxnes, og diskurinn Jón Ólafsson, eftir Jón Ólafsson. Einnig var þarna bókin Hr. Sæll, en ég er mikill aðdáandi Herramannanna.
Mikið á ég nú góða systur!

Og þá yfir í kveikjuna að þessari blogggleði (3 g í röð!) minni.
Sökum fjárgnægðar minnar hef ég ákveðið að festa kaup á nýjum orgelskóm, þar sem að ég geri mikið af því að spila á orgel þessa dagana, og hef í hyggju að fá mér vinnu við þá iðju, þegar ég er búinn með þetta organistanám (eftir 2 ár).
Fyrir ykkur sem vita ekkert í ykkar haus, og kváið eins og kjánar þegar þið heyrið talað um orgelskó, þá er það þannig að þegar maður spilar á orgel, já svona hljóðfæri eins og er í kirkjum, þá er það kostur að geta spilað á pedalana á orgelinu. Pedalarnir eru tengdri þeim pípum sem hafa dýpri hljóm en hinar, og gefur það meiri fyllingu í t.d. meðleik sálma. Einnig gera pedalarnir það mögulegt að spila fleiri nótur (raddir) en hendurnar einar ráða við.
Þegar maður spilar á þessa pedala er æskilegt að hafa mjúka og góða skó, sem eru ekki of breiðir, og hafa mjúkan botn. Sumir kjósa að spila bara í sokkum, en það er t.d. ekki ákjósanlegt, þar sem að maður spennir tærnar meira við það, og getur það verið óþægilegt til lengdar. Svo getur maður líka fengið flísar í fæturnar ef maður ekki er í skóm.
Gömlu skórnir mínir, sem ég keypti dýrum dómum fyrir c.a. 14 árum þegar ég var aðeins farinn að fitla við orgelspil, þykja víst ekki nógu góðir, að mati orgelkennarans míns. Honum þótti þeir of breiðir, og botninn er of harður. Ég get alveg samþykkt þetta, þannig að nýja orgelskó þarf ég.
Kennarinn benti mér á einhverja dansbúð niðrí bæ. Þar kostuðu svona dans/orgelskór 650 kr. Þær hafði ég barasta ekki á þeim tíma ég fór þangað inn. Þannig að ég beið með það kaupa orgvélaskóna.
En þegar ég fór að kanna málið, aðallega hjá Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur, garganista og netlara m.m., þá er hægt að kaupa svona skó á netinu. Á þessari síðu er hægt að kaupa svona líka fína orgelskó, sem eru víst mun betri en dansi/orgel bastarðurinn, og fyrir mun minni pening, meira að segja þó svo þeir séu sendir alla leiðina frá henni Amríku!
Hlakka til að vera orðinn stoltur eigandi nýs orgelskótaus.

Lík ég þá þessu netluflæði og bið ykkur vel að lifa, húblandi eður ei.