25.8.06

Huggulegheit
Í bakgarðinum, við hliðiná mínum bakgarði, er í skrifuðum orðum jazztónleikar. Það er kirkjan, þar sem ég var nýlega ráðinn tenór í, sem stendur fyrir þessum tónleikum. Ég er að malla mér þann rétt sem hefur í gegnum tíðina verið minn uppáhalds réttur, svona þegar maður talar um hversdagsmat, spagetti bolognese. Ég veit ekki afhverju mér finnst hann svona góður, en þetta er eitthvað sem hefur hangið við mig síðan ég var lítill. Ég fann það stundum á mér, þegar ég var á leiðinni heim eftir t.d. lúðrasveitaræfingu, að mamma myndi hafa hakk og spaghetti í matinn. Mín gerð af þessum rétti er ekki alveg eins og mamma gerði, heldur er meiri tómatsósa í kjötinu, sem inniheldur beikon, sveppi, hvítlauk, gulrætur!, papriku og ýmis krydd.
Nágranninn er kominn út á svalir, með hitarann á, því það er farið að vera aðeins svalara (NB. við erum að tala um að það er ennþá mjög þægilegt að vera í skyrtu og stuttbuxum), og með rauðvínsglas sér við hönd.
Ég gleymdi að minnast á að ég er einn heima, sem getur verið afar huggulegt.
Huggulegheitin gætu ekki verið meiri!

12.8.06


Dúfur
Þegar ég var lítill (og vitlaus eins og bróðir minn hefði sagt) þá fannst mér dúfur vera fallegir fuglar. Kommon! Það eru ekki margir fuglar bláir í íslenskri náttúru. Dúfur geta jú alveg haft annan lit, en þessi venjulega dúfa er blá.
Þessi dúfu hrifning mín gekk svo langt að ég prófaði að veiða þær lifandi. Systkini mín lugu að mér að dúfur þætti laukur góður. Svo ég hakkaði ein lauk eða sjö og setti í gildruna mína. Ég fékk ekki eina einustu dúfu.
Þegar ég flutti svo til Reyjavíkur þá fékk ég að heyra að dúfur væru "fljúgandi rottur" (var það ekki Hemmingway sem kom með þessa myndlíkingu?). Þær væru allsstaðar og bæru með sér allskonar óþverra.
Ást mín á dúfum fór minnkandi og í dag er þessi áhugi minn á dúfum alveg slokknaður.
Í gönguferðinni sem ég fór í áðan, sökum þess að ég læsti mig úti og þurfti að bíða eftir að Stina væri búin í söngtíma, sem fór fram í nýja óperuhúsinu í Holmen, sem er langt í burtu frá grænum völlum Nørrebro, sá ég tvær dúfur gæða sér á niðurtröðkuðum hundaskít.
Ég hefði betur prófað slíka beitu í gildruna mína.

Í umræddum göngutúr fann ég afar huggulega krá. Það sem gerir þessa krá huggulega er að hún er nánast við hliðiná blokkinni minni, hún hefur ágætis úrval af flöskubjór (kráar eigandi vill meina að hann bjóði upp á 60 mismunandi bjór á flöskum) og staðurinn lítur afar danskur út. Ekkert verið að hugsa um nýjar fansí innréttingar eða slíkt. Bara þykk eikarborð og langir bekkir meðfram veggjum. Staðurinn heitir Café Viking. Hlakka til að gæða mér meira á þeirra gleðitárum.
Í dag smakkaði ég bara A-Z Ale no. 16. Hef smakkað hann áður og er afbragðs mjöður.

11.8.06


J.R
Það er ekki mín áætlun að netla um Dallas, heldur um nágranna minn, J.R. Granninn hefur sama eftirnafn og kærasta mín, Schmidt.
Það hefur ekki hent mig oft, að ég sjái inn í framtíð annarra við það eitt að búa í stigagangi með allt annarri persónu, en það er óhugnanlega mikill samhljómur með granna mínum J.R. og einum afar kærum vini mínum.
J.R. spilar nefnilega á píanó, sem er ólíkt píanó míns kæra vinar, falskt. J.R. er sennilega milli sextugs og sjötugs. J.R. spilar einvörðungu klassískar píanóbókmenntir. Félagi minn kær spilar mest jazz, en á þó til að detta í sama spor og J.R. J.R spilar aðallega á kvöldin. Það heyrist afar vel í öllum stigaganginum það sem hann spilar. Ég er ekki pirraður á því, finnst það eiginlega bara mjög huggulegt. Hann á það líka til að blasta einhverjum píanó konsertinum eftir Mozart og félaga út yfir sitt næsta nágrenni, sem fær mann til að líða eins og ég búi í einhverju fjölbýlishúsi í smáþorpi á Ítalíu. Afar huggulegt.
Í gær var svo kominn auglýsing á sameiginlega korktöflu stigagangsins. Auglýsingin var prentuð á ritvél. Þetta er A4 blað, og á því stendur tónleikaprógramm. J.R. ætlar að halda tónleika 24. ágúst. Hann ætlar að spila þekktar perlur úr heimi píanóbókmentanna.
Ég sé fyrir mér líf míns kæra vinar, eftir svona c.a. 35-40 ár, í lífi J.R.

10.8.06

Stórborgari
Og nú er þriðja borgin að bætast í safn þeirra borga sem ég hef búið í. Þessi borg er einnig sú stærsta sem ég hef búið í.
Kaupmannahöfn/Nørrebro eru nýjustu heimkynni mín. Við erum búiin að koma okkur vel fyrir í íbúðinni, og við erum afar glöð með lóðrétta veggina og allt rýmið. Við fórum úr 34 fm í 56 fm. Á milli stofunnar og svefnherbergisins er glerhurð (hurð með litlum gluggum í) sem gerir íbúðina afar lúxuslega og birtan flæðir um hallarsali Hamletsgötu 15.

Undanfarnir dagar hafa farið í að flytja og koma sér fyrir. Ove kom með flutningabílinn, eins og við reiknuðum með, og hann pakkaði svo vel að annað eins hefur aldrei sést. Menn sem hafa unnið alla sína ævi við sölu húsgagna veit hvernig á að stafla í svona bíla. Einnig fengum við góða hjálp góðra manna bæði við að flytja út og inn. Takk strákar! (svona ef þið lesið þetta)
En nú snýst mitt líf um að finna mér:
1. kirkju til að æfa mig í
2. vinnu
Skólinn minn, Kirkjutónlistarskólinn á Sjálandi, fyllir ekki marga tíma í dagatalinu mínu. Ég fer í bókleg fög á þriðjudögum, aðra hverja viku, og svo er orgeltími alla miðvikudaga frá kl.12-13. Annað var það nú ekki, þannig að ég ætti að geta fengið mér einhverja vinnu án þess að það komi niður á náminu. Þá er bara að finna eina slíka.
Það sem er þó mest merkilegast við þennan skóla, er að ég þarf að borga 2.700 kr fyrir árið. Öll þau 5 ár sem ég hef lært við konservatoríið, hef ég ekki borgað krónu í skólagjöld, þó svo það nám hafi verið mun viðameira. Merkilegt fyrirkomulag.

Og þá fór að rigna.

3.8.06

Borgarkveðja
Mig minnir að titillinn á þessari netlu sé einnig titill á verki eftir Guðmund Hafsteinsson. Passar það, þið tónfróðu lesendur?
En tilurð titilsins er tilkomin sökum brottflutnings míns frá þeirri ágætu borg Árósar. Stefnan er tekin á þá einnig ágætu borg Kaupmannahöfn. Það mun gerast næstkomandi laugardag.
Íbúðin er sett í stand, m.ö.o. máluð og þrifin. Það fóru c.a. 2 sólahringar í það, og má segja að ef hjálp Helgu, "tengdó", hefði ekki notið við þá hefðum við sennilega ennþá verið að. Hún er sú atorkumesta manneskja sem ég hef hitt. Svo ætlar Ove, "tengdó", að koma á flutningabílnum frá Grenå og flytja alla okkar búslóð á laugardaginn. Ég hef kærastað mig inn í afar góða fjölskyldu!

Seinna í þessum mánuði mun ég svo hefja nám í Kirkjutónlistarskólanum á Sjálandi. Praktískt!

...ég hringi síðar...