6.7.06

Upplitaður en veðurbarinn
Síðan ég kom hingað uppeftir (til Íslands) þá hef ég farið daglega í sund. Íslenskar sundlaugar er eitthvað sem ég sakna hvað mest þarna niðurfrá (í Danmörku), enda gætu sundlaugar varla orðið Íslenskar í Danmörku...en hvað um það...
Að synda svona c.a 500-1000 metra og fara svo í 42-44 gráða heitan pott er góð skemmtun. Líkaminn heldur hitanum í sér restina af deginum og allir vöðvar verða mjúkir.
Þessu fylgir þó einn ókostur. Húðin fer að mótmæla öllum þessum klórböðum. Ætli ekki eitthvað apótekið hafi ráð handa mér.

En þessir dagar hérna í Reykjavík hafa vægast sagt verið frábærir. Þeir hafa liðið við lestur góðra bóka, sundferðir, kaffihúsaferðir á Kaffitár á Laugavegi, og almenn huggulegheit hérna í íbúðinni hans Huga á Magahel. Minntist ég á að við erum líka búin að borða góðan mat? Það höfum við allaveganna gert nóg af.

Á laugardaginn fórum við reyndar í göngu um Hengilssvæðið, í roki og ekkert of miklum hita. Mikið var það nú frískandi. Það lá við að ég og Stina fengum sjokk sökum mikils magns af góðu lofti. Hugi dró þá bara upp cafe creme vindlingana sína og sá okkur fyrir örlítilli mengun. Annars er hann soddan fjallageit að til hans sást nánast ekkert í þessari göngu, hann var alltaf kominn upp á næsta hól á meðan við vorum á miðri leið.
Við enduðum svo daginn með að fara í sunda í Verahvergi.

Daginn eftir (sunnudagur) brugðum við okkur aftur út fyrir bæinn, en þó nokkuð lengra en síðast. Í þetta skiptið fórum við á Stykkishólm. Við höfðum pantað heimagistingu hjá "Heimagistingu Ölmu" og borð á "Fimm fiskum". Báðir þessir staðir reyndust vera til fyrirmyndar.
Reyndar er ekki hægt að hrósa báðum þessum stöðum fyrir smekklegan stíl, herbergið sem við fengum að sofa í var innilega bleikt og með gluggatjöldum í stíl, og veitingahúsið framreiddi matinn á ódýrum diskum frá Rekstrarvörum, en þrátt fyrir það sváfum við vel í góðum rúmum og maturinn var afar góður. Við fengum reyktan svartfuglt í forrétt, með sinnepssultutauji og balsamikedik. Jömmí. Í aðalrétt fékk ég mér kola og meðlætið var fátæklegt salat og bygg í hvítlaukssósu. Mjög gott. Fiskurinn var fullkomlega eldaður. Hugi fékk þorsk með gráðostasósu og Stina fékk fiskiþrennu einhverja. Við vorum öll ánægð. Hugi valdi eitthvað hvítvín sem fullkomnaði matinn. Í eftirrétt fengu þau sér rabbabaraböku með ís en ég fékk skyrköku. Góður endir á góðri máltíð var svo kaffið og koníakið, og hafði koníakið að sjálfsögðu yfirhöndina, þar sem að flestir veitingastaðir hafa ennþá ekki fattað að það er hægt að gera gott kaffi.
Eftir góðan nætursvefn fórum við svo í siglingu um Breiðarfjörðinn, þar sem skipstjórinn og leiðsögumaðurinn var kvenkyns. Hún heillaði okkur þrjú alveg upp úr skónum með ótrúlega fallegri rödd. Maður tók nánast ekkert eftir hvað hún sagði sökum raddfegurðar. Mér finnst að RÚV ætti að hafa upp á þessari stúlku, bara til að lesa eitthvað upp. Hún gæti t.d. róað umferðina í Reykjavík ansi mikið, ef hún fengi að tala í umferðaútvarp, sem er ekki ennþá til hérna uppfrá.
En já, siglingin var góð, enda Breiðafjörðurinn spegilsléttur.
Við keyrðum svo fyrir Snæfellsnesið og nutum útsýnisins úr Fólksvagninum hans Huga.
Dagurinn endaði svo með steiktum lambalundum í gráðaostasósu, að hætti Huga.

Í gær var okkur svo boðið í heimsókn og mat hjá góðu fólki sem var gaman að hitta.

Þetta frí hefur verið í alla staði frábært.
Framundan er svo ættarmót og sumarbústaðarferð út næstu viku, þannig að ferðapistill verður að bíða betri tíma.