3.6.06

Ferðalok
Síðastliðinn þriðjudag fór ég í mína síðustu ferð frá Árósum til Kaupmannahafnar til að stjórna kórnum mínum Stöku. Í næsta skipti sem ég stjórna honum mun ég búa í Kaupmannahöfn.
Það var æfing á þriðjudeginum og á miðvikudagskvöldinu voru svo aðrir og jafnframt síðustu vortónleikar Stöku á þessari vorönn. Tónleikarnir voru haldnir í Københavns Bymuseum. Hljómburðurinn var ljúffengur og tónleikarnir heppnuðust ágætlega.

En það sem gerðist fyrr á þessum miðvikudegi heppnaðist ekki eins ágætlega.
Ég var nefnilega með allt mitt hafurtask (bakpoki og íþróttataska), hjólandi, á leiðinni að hitta Ingibjörgu Huld. Ég hjóla varlega sökum tasknanna. Framúr mér hjólar ung stúlka. Hún rekst í mig, missir stjórn á hjólinu, keyrir útaf hjólastígnum, inn á hann aftur og dettur beint fyrir framan mig. Ég næ ekki að gera annað en að hjóla á hana og detta svo sjálfur...með andlitið á undan. Ég kynnti kinnina á mér fyrir malbiki hjólastígsins og öfugt. Þeim kom ekkert vel saman. Malbikið reif af kinninni smá húð og skemmdi gleraugun mín. Ekkert sérlega huggulegt samskipti þar.
Sökum þess að ég lenti á andlitinu og líka öxlinni þá var ég svolítið vankaður eftir fallið og hélt á tímabili að það myndi líða yfir mig. Það voru tvö góð vitni að þessu sem buðust til að hringja á sjúkrabíl. Ég þáði það þar sem að ég hafði ekki hugmynd um hvar næsta sjúkrahús væri og hélt jafnvel að ég væri farinn úr axlarlið. Svo reyndis þó ekki við nánari athugun, en ég gat með engu móti hreyft á mér vinstri handlegginn.
Stúlkan sem ég keyrði á og datt yfir skrámaði sig örlítið á ökklanum, önnur voru ekki meiðsli hennar.
Löggan kom og tjekkaði á okkur og svo var ég settur upp í sjúkrabíl og skutlað á sjúkrahúsið. Gaman að hafa prófað svona sjúkrabíl, og sérstaklega þar sem að ég var ekkert alvarlega laskaður.
Á sjúkrahúsinu fékk ég að bíða lengi eftir að sár mín á andlitinu voru malbiks hreinsuð, mér gefinn stífkrampasprauta til vonar og vara, og svo settur í röntgen. Ekkert brotið, bara svona djéskoti slæm tognun. Ég get ekki ennþá hreyft á mér vinstri handleginn eðlilega.
Sem betur fer var þetta bara vinstri handleggur sem bæklaðist, því annars hefði ég ekki getað stjórnað tónleikunum um kvöldið. En s.s. þá gengu þeir fínt þannig að þetta gerði ekki að sök.
Við slúttuðum svo kvöldinu á Hvids Vinstue, með nokkrum bjórum og vindlum.

Engin ummæli: