30.6.06


Dagur hinna mörgu jakka
Það er hreinlega yndislegt að vera komin til Íslands.
Ég er búinn að fá hverja Íslandsfullnæginguna á eftir annarri í dag. T.d. er ég búinn að borða flatbrauð og hangikjöt, skyr (bæði naturel og bláberja), fara í sund (vestubæjarlaugina), búinn að fá fullt af góðu lofti (með rigningu og roki), búinn að borða gráðaost á rúgbrauð (hið íslenska rúgbrauð er eins og súkkulaðiterta miðað við hið danska, það er svo sætt!) og búinn að kíkja aðeins í miðbæ Reykjavíkur. Dejligt!
En í miðbæ Reykjavíkur gerði ég þau ótrúlegustu kaup sem ég hef nokkurntímann gert. Ég keypti mér tvo jakka! Einn var frá 66 gráðum norður, og hinn var úr "second hand" búðinni Spútnik. Sá fyrsti er útivistarjakki (sjá mynd hér til hliðar), afar fínn. Annar jakkinn er hreinlega sá jakki sem ég hef leitað að í allri Árósaborg, og ekki fundið. Ég fór í hann og hann hreinlega bara hrópaði á mig "Stefán! Ég er passa þér fullkomlega. Þú ert minn næsti eigandi. Kauptu mig!!!) Ég keypti hann. Hann var ekkert sérlega dýr. Fyrri jakkinn var sérlega dýr. En "Tax Free" hjálpar aðeins upp á bókhaldið.

27.6.06

Hann á...
Í tilefni sameiginlegs afmælisdags okkar fjögurra þá vil ég óska hinum þremur, Hafdísi "móðu", Óskari smala og Kristínu Gyðu frænku, til hamingju með daginn!
Stina vakti mig með kossi (já Daníel, þú vissir þetta) og pakkaflóði. Ég fékk Mexíkósk eðal rauðvín sem ég hlakka mikið til að smakka. Einnig gaf hún mér Holmegaard karöflu, 4 kaffi/mjólkur glös og síðast en ekki síst, þá fékk ég kaffi stimpil (stamper). Það er ótrúlegur munur að hafa stimpil sem passar í handfangið á espresso vélinni. Frábær gjöf, eins og hinar, en þó aðeins meira frábærari, sem ég er nú þegar búinn að prófa 3svar.
Frá tengdafólkinu fékk á svo Weber "ferða"grill (go-anywhere).
Í dag er rigning, en það gerir ekkert til.

26.6.06

Ráðgáta
a) Afhverju komst hann ekki inn í "einleikara"-deildina í Konservatoriinu í Kaupmannahöfn?
b) Hvernig stóð á því að hann hélt að hann yrði "musiklærer" eftir 4.árs prófið í tónfræði, en það var misskilningur?
c) Afhverju náði hann 4.árs prófinu í tónfræði?
d) Hvernig náði hann að gera 2. ára ritgerða vinnu á 1 mánuði?
e) Afhverju komst hann inn í organista námið, þrátt fyrir að hafa fengið annað að heyra í inntökuprófinu?
f) Á hann að taka 5. árið í tónfræði, í Árósum, saman með organistanáminu, í Hróarskeldu?
g) Skildi hann fá SU (statens uddannelsesstøtte)?
h) Hvað ætli hann fái í afmælisgjöf?
i) Ætli einhver annar kór vilji syngja nýju mótettuna hans, sem var samin fyrir herrana og solosópran í kirkjukórnum sem hann hefur sungið í undanfarin ár, og var frumflutt í gær?
j) Skildi það rigna allan tímann á meðann hann og unnustan eru í fríi uppi á Íslandi?

18.6.06

Sextíu mannsár
Í dag hefur ástkær móðir mín lifað í 60 ár. Mér finnst það vel að verki staðið hjá kellu.

Í gær fagnaði ég þjóðhátíðardegi Íslands með dönskum vinum. Ég og Stina héldum eina af okkar sívinsælu pizza veislum. Við tökum hráefnið með okkur, hráefni í mjög svo ítalskar pizzur, og "gestgjafinn" leggur til ofninn. Og í þetta skiptið bauð gestgjafinn einnig upp á alveg hreint frábær rauðvín. Ég hef aldrei drukkið svo mikið af góðum og ólíkum rauðvínum. Og í gærkvöldi fékk ég það sannað að ef maður bara drekku góð rauðvín þá leggjast þau ekki illa í mann, og timburmenn fá frí daginn eftir. Gestgjafinn er Per, vinnuherbergisleigusali minn, og Maria, mezzo sópran. Góð "veisla" í góðum félagsskap. Ég og Per sungum svo þjóðsönginn, upp úr háskólasöngbók þeirra dana. Ég sá einnig um meðleikinn. Skemmtilegur bassa dúett.

Á þriðjudaginn fer ég svo í síðasta prófið mitt. 4.árs lokapróf í tónfræði. Ef ég stenst þá er ég orðinn "musiklærer". Hef ekki hugmynd um hvaða réttindi sá titill veitir mér. Prófið felst í því að ég fæ að heyra einhverja músík, ásamt því að ég fæ nóturnar að henni, og svo á ég að halda fyrirlestur um þessa músík í 45 mín. Ætli það sé ekki bara best að ég drekki einn bjór eða svo á undan prófinu. Það ætti allavegann að mýkja aðeins málbeinið..."og stemningen bliver meget hyggeligere".

12.6.06


slurp
Loksins er byrjað að selja skyr hérna í Árósum. Nágranni minn, sem býr í sama stigagangi og ég, vinnur í heilsubúð hérna rétt hjá. Ég kom við hjá henni í búðinni og sá að þau höfðu mjólkurvörur frá Thise, en ekkert skyr. Svo ég benti henni á þessa nýju vöru, og hún pantaði skyr "med det samme". Ég var í búðinni á föstudag, og skyrið kom í búðina núna í dag (mánudag). Að sjálfsögðu er ég búinn að kaupa og borða, og mikið er nú gott að fá smá skyr. Ég man að ég var kominn með upp í háls áður fyrr, af skyri, en núna var ég farinn að sakna þessa holla réttar.

Þannig að ef þú ert búsettur í Árósum og lest þetta, þá er skyr selt í Ren Kost í Jægergårdsgade.

Verði ykkur að góðu!

11.6.06

Skilafrestur
Mikið er nú gott að sjá fyrir endann á mikilli vinnutörn! Mér þykir svo gott að geta séð fyrir endann á þessum ritgerðasmíðum mínum að ég er búinn að panta sunnudagsmat frá uppáhalds Gríska veitingastaðnum mínum (maður fær góðan og hollan mat undir 100 krónum) sem jafnframt er elsti Gríski veitingastaðurinn í Árósum (var stofnaður sama ár og ég fæddist, 1978) og svo ætla ég að horfa á fótbolta kl.21, með góðri samvisku. LJÚFT!!!
Málið er nefnilega að ég á að skila 2 ritgerðum til að meiga klára 4. ár í tónfræði. Ekki að ég sé eitthvað að deyja úr spenningi í þessari tónfræði, en á sínum tíma hélt ég að þetta væri praktískt nám, en komst svo að því að ég hef ENGAN áhuga á að kenna tónfræði. Tónfræði er nefnilega svona kjaftafag, þeas. þegar þú ert kominn yfir það að læra hvað nóturnar heita og hvernig G-dúrs þríhljómur lítur út á nótum.
En já, ég var farinn að minnast á þessar blessaðar ritgerðir. Í rauninni á maður að gera 3 stór verkefni á þessum 4 árum í tónfræði. 2 bla bla ritgerðir og svo 1 æfingu í einhverjum stíl, ásamt greinagerð. Ég hafði gert margar stílæfingar á Íslandi í tónfræðideildinni þar, svo ég fékk þær bara metnar. En helv...ritgerðarnar mátti ég ekki sleppa við.
Þannig að undanfarna 2 mánuði hef ég verið að baksa við 1 ritgerð...já EINA FÖKKING RITGERÐ!!! Ég hef aldrei verið sérlega klár í ritgerðasmíðum. Í rauninni gerði ég örfáar ritgerðir á menntaskólaárum. Fékk mikla "hjálp" frá mér eldri systkinum...hehemm...en hvað um það. Svo hóf ég að gera ritgerð um tónlist á 20. öld sem byggir á tilvitnunum. Spennandi verkefni, en algjör pína að skrifa um í samráði við kennarann minn, því hann er fluguríðari eins og það kallast á dönsku. Hann elskar að velta sér upp úr skilgreiningum og fínum orðum og bla bla. Ekki ég.
Önnur ritgerðin mín átti svo að vera 3 vikna ritgerð, þar sem ég fæ uppgefið umfangsefni frá kennaranum mínum og svo á ég að gera ritgerð um það. Við fundum reyndar upp á efni í sameiningu, þannig að þetta er alveg spennandi. Verkefnið er samanburðargreining á hljóðfæranotkun 4. sinfóníu Brahms og 6. sinfóníu Tsjækofskíjs. Ég greini bara 1. kaflana í þessum verkum, þar sem af nógu er að taka, og ritgerðin má ekki vera meira en 20 síður.
Nema hvað að ég var ekki búinn með fyrri ritgerðina þegar ég fékk þetta verkefni. Og ég tók c.a. 1.5 viku af þessu 3 vikna verkefni í að klára þá fyrri. Þannig að ég hef nú verið að baksa saman þessari síðustur ritgerð á c.a. einni og hálfri viku. Ofaní allt annað, t.d. loka tónleika Stöku (kórinn sem ég stjórna), messusöng í kirkjunni minni, afleysingar í dag sem organisti í kirkju rétt hjá Skanderborg og ýmislegt annað.
Ég á að skila á þriðjudaginn...og á miðvikudaginn fer ég í inntökupróf í "einleikara deildina" í tónsmíðum í konsinu í Kaupmannahöfn.
Mikið hlakka ég til miðvikudagskvöldsins...kannski maður bara detti í það þá! Ertu "game"?

p.s. afsakið leiðinlega færslu! ég er farinn út að ná í matinn minn...er svangur...lofa að skrifa ekki skrifa á fastandi maga næst.

6.6.06

Hlekkir & Dagsetning
Eins og þið sjáið lesendur góðir að þá er kominn nýr flokkur í hlekkjalistann minn, ykkur á vinstri hönd. Sá heitir "Ættingjar og fjölskylda". Ef þið passið í þennan flokk endilega skiljið slóðina á ykkur hér í "ískalt mat".

Svo vildi ég líka vekja athygli á dagsetningunni í dag 06.06.06...óhuggulegt að lesa upphátt.

3.6.06

Ferðalok
Síðastliðinn þriðjudag fór ég í mína síðustu ferð frá Árósum til Kaupmannahafnar til að stjórna kórnum mínum Stöku. Í næsta skipti sem ég stjórna honum mun ég búa í Kaupmannahöfn.
Það var æfing á þriðjudeginum og á miðvikudagskvöldinu voru svo aðrir og jafnframt síðustu vortónleikar Stöku á þessari vorönn. Tónleikarnir voru haldnir í Københavns Bymuseum. Hljómburðurinn var ljúffengur og tónleikarnir heppnuðust ágætlega.

En það sem gerðist fyrr á þessum miðvikudegi heppnaðist ekki eins ágætlega.
Ég var nefnilega með allt mitt hafurtask (bakpoki og íþróttataska), hjólandi, á leiðinni að hitta Ingibjörgu Huld. Ég hjóla varlega sökum tasknanna. Framúr mér hjólar ung stúlka. Hún rekst í mig, missir stjórn á hjólinu, keyrir útaf hjólastígnum, inn á hann aftur og dettur beint fyrir framan mig. Ég næ ekki að gera annað en að hjóla á hana og detta svo sjálfur...með andlitið á undan. Ég kynnti kinnina á mér fyrir malbiki hjólastígsins og öfugt. Þeim kom ekkert vel saman. Malbikið reif af kinninni smá húð og skemmdi gleraugun mín. Ekkert sérlega huggulegt samskipti þar.
Sökum þess að ég lenti á andlitinu og líka öxlinni þá var ég svolítið vankaður eftir fallið og hélt á tímabili að það myndi líða yfir mig. Það voru tvö góð vitni að þessu sem buðust til að hringja á sjúkrabíl. Ég þáði það þar sem að ég hafði ekki hugmynd um hvar næsta sjúkrahús væri og hélt jafnvel að ég væri farinn úr axlarlið. Svo reyndis þó ekki við nánari athugun, en ég gat með engu móti hreyft á mér vinstri handlegginn.
Stúlkan sem ég keyrði á og datt yfir skrámaði sig örlítið á ökklanum, önnur voru ekki meiðsli hennar.
Löggan kom og tjekkaði á okkur og svo var ég settur upp í sjúkrabíl og skutlað á sjúkrahúsið. Gaman að hafa prófað svona sjúkrabíl, og sérstaklega þar sem að ég var ekkert alvarlega laskaður.
Á sjúkrahúsinu fékk ég að bíða lengi eftir að sár mín á andlitinu voru malbiks hreinsuð, mér gefinn stífkrampasprauta til vonar og vara, og svo settur í röntgen. Ekkert brotið, bara svona djéskoti slæm tognun. Ég get ekki ennþá hreyft á mér vinstri handleginn eðlilega.
Sem betur fer var þetta bara vinstri handleggur sem bæklaðist, því annars hefði ég ekki getað stjórnað tónleikunum um kvöldið. En s.s. þá gengu þeir fínt þannig að þetta gerði ekki að sök.
Við slúttuðum svo kvöldinu á Hvids Vinstue, með nokkrum bjórum og vindlum.