18.5.06


Um ágengni hunds
Í gær vann ég frameftir. Þarafleiðandi náði ég ekki í búð til að kaupa eitthvað í kvöldmatinn. Þannig að á leiðinni heim kom ég við hjá nærliggjandi innflytjenda búllu og keypti mér kefta. "Innflytjenda búlla" er ekki neikvætt orð yfir skyndibitastað sem er rekinn af innflytjendum. Bara nákvæmlega það sem svona staður er. Staður rekinn af innflytjendum og ekkert sérlega huggulegur, þarafleiðandi búlla. Á sumum þessara staða er hægt að fá mjög góðan mat, á öðrum er hægt að fá mjög vondan mat. Þessi staður var nær því síðast nefnda.
Kefta er nautahakk sem er blandað saman við steinselju og fleiri góðar kryddjurtir. Kjötið er síðan sett inn í svona flatbrauð, ásamt helling af grænmeti og viðeigandi sósu. Þessu er síðan rúllað upp í brauðinu. Munurinn á þessu og shawarma eða kebab er kjötið.
Eftir að ég hafði fengið mitt kefta, reiddi ég hjólið á meðan ég gekk heim og maulaði matinn. Úr því að rúllan var pökkuð inn í pappír þá þurfti ég stundum að fjarlægja smá pappír til að geta fengið mér bita. Í einni af þessari pappírsfærslu sé ég að á eftir mér gengur hundur með eigandann sinn, og bókstaflega í þessari orðaröðun. Þetta var svona breiður, ófríður bolabítur, eins og hundurinn í Tomma og Jenna (sjá mynd hér til hægri). Hundurinn teymdi eiganda sinn, sem einnig var nokkuð breiður og sterklegur ungur maður, upp að mér og settist bein fyrir framan mig. Hann einblíndi á matinn minn, sleikti út um og setti upp álíka bros og hundurinn á myndinni hér til hliðar. Stakk framtönnunum svona út, en var samt ekkert að urra eða neitt, bara að biðja eins fallega og hann gat um matinn minn. Ef hann hefði getað staðið uppréttur eins og hundurinn hér til hliðar, þá hefði hann örugglega tekið svona í mig, eins og hann gerir við Tomma á myndinni.
Þetta þótti mér fyndið, og hló mikið að hundinum, sem var afar staðráðinn í að fá matinn af mér. Eigandinn sagði að hann væri bara gráðugur og fengi nægan mat heima hjá sér. Ég sagði hundinum að þessi kvöldmatur væri reiknaður handa einni persónu, og sú persóna var ég, þannig að hann gæti bara gengið leiðar sinnar. Eigandanum tókst að koma hundinum á 4 fætur og saman gengu þeir leiðar sinnar, þó hundurinn afturábak, því hann langaði ennþá í matinn minn. Ég stóð eftir einn, skellihlæjandi á gangstéttinni.

Engin ummæli: