27.5.06


Århus by night
Núna er nótt. Klukkan er 01.35 og það er föstudagsnótt.
Ég var að koma ofan úr Viby. Þar búa Skúli, Sigrún og Guðjón Steinn. Skúli og Sigrún giftu sig fyrir 11 mánuðum og nokkrum dögum síðan, og hafa verið trúlofuð í 5 ár, 1 klukkutíma og 35 mínútur. Í tilefni af giftingu þeirra þá gaf ég þeim tvo bíómiða í brúðkaupsgjöf og barnapössun á meðan þau myndu geta nýtt sér miðana. Það var svo í kvöld þau nýttu sér þetta tilboð.
Þetta var alveg eins og ég væri táningsstúlka að koma að passa. Þau pöntuðu pizzu handa mér, reyndar handa sér líka, og svo fóru þau í bíó. Þau skildu eftir nammi handa mér og drykkjarföng. Þau svæfðu meira að segja Guðjón Stein áður en þau fóru. Það þarf reyndar ekkert að svæfa drenginn, hann er bara settur í rúmið og honum óskað góðrar nætur. Þannig að ég hafði ekkert að gera nema að "zappa" á milli allra 30 sjónvarpsstöðvanna sem buðu upp á ekki neitt.
Svo komu þau heim rétt eftir miðnætti og ég hjólaði heim, sem er ástæðan fyrir þessu netli.
Lyktin af gróðrinum er frábær hérna í DK. Sérstaklega á kaldri sumarnóttu. Og það skemmtilega er að ég á minningar um þessa lykt. Það er ekki margt sem ég á minningar um í þessu landi, þar sem ég ólst jú upp í allt öðru landi. En nú eru þetta orðin nánast 5 ár síðan ég fluttist hingað, og fjárhagurinn ekkert boðið upp á eilíft flakk heim, þannig að einhverjar minningar eru komnar á minnisbankabókina.
Þessi lykt sem ég er að tala um, þessi sæti gróðurilmur í kaldri nóttinni, tengist minningunni um morgnana þegar ég var blaðberi alheimsblaðsins Jylland Posten yfir eitt sumar. Það var sumarið 2002. Það sumar var HM í fótbolta. Það sumar samdi ég "Fimm vísur um nóttina". Það sumar bjó ég saman með Þyri á Vilhelm Bergsøesvej 43. Þetta sumar byrjaði ég líka að blogga, undir súð, í hita og svita. Ef ykkur langar að vita meira hvað ég gerði þá getið þið farið í (vonandi) huggulega ferð aftur í tímann á þessari netl síðu, sem þá hét neddusíða, og lesið ykkur til um það sem á daga mín dreif í júlí mánuði árið 2002. Hljómar spennandi, ekki satt?
En aftur að þessu með minningarnar.
Það er skrýtið að flytja til lands, þar sem maður hefur enga fortíð í. Það er ekkert í náttúrunni eða bæjunum hérna sem ég get tengt við mína fortíð. Þetta er náttúrulega engin Afríka, þar sem fólk hefur annan húðlit og kúkar í holur, en samt annað. Ég þekki ekki Eurovision lögin sem mínir dönsku vinir ólust upp við (sennilega sem betur fer), ég þekki ekki kvikmyndirnar sem þau sáu, ég veit ekki hvað þeim þykir hallærislegt af því að það var svo vinsælt hérna í kringum 1980 (t.d. kínakál hefur gengið í gegnum mikinn hallæris áróður, en er að koma inn aftur því það var orðið svo hallærislegt að það var komið hringinn) og ég veit ekki hvernig það er að halda sumarfrí á ströndinni. Ég er ekkert að kvarta, því ég hef fullt fullt af öðrum minningum, en það er bara skrýtið stundum að vera algjörlega ekki með á nótunum þegar þessi danagrey fá fjarræn blik í augun og rifja upp gamla daga.
Það er gott að eiga góða íslenska vini sem minna mann á uppruna sinn, og eiga súkkulaðirúsínur frá Nóa Síríus handa mér.

Engin ummæli: