27.5.06


Århus by night
Núna er nótt. Klukkan er 01.35 og það er föstudagsnótt.
Ég var að koma ofan úr Viby. Þar búa Skúli, Sigrún og Guðjón Steinn. Skúli og Sigrún giftu sig fyrir 11 mánuðum og nokkrum dögum síðan, og hafa verið trúlofuð í 5 ár, 1 klukkutíma og 35 mínútur. Í tilefni af giftingu þeirra þá gaf ég þeim tvo bíómiða í brúðkaupsgjöf og barnapössun á meðan þau myndu geta nýtt sér miðana. Það var svo í kvöld þau nýttu sér þetta tilboð.
Þetta var alveg eins og ég væri táningsstúlka að koma að passa. Þau pöntuðu pizzu handa mér, reyndar handa sér líka, og svo fóru þau í bíó. Þau skildu eftir nammi handa mér og drykkjarföng. Þau svæfðu meira að segja Guðjón Stein áður en þau fóru. Það þarf reyndar ekkert að svæfa drenginn, hann er bara settur í rúmið og honum óskað góðrar nætur. Þannig að ég hafði ekkert að gera nema að "zappa" á milli allra 30 sjónvarpsstöðvanna sem buðu upp á ekki neitt.
Svo komu þau heim rétt eftir miðnætti og ég hjólaði heim, sem er ástæðan fyrir þessu netli.
Lyktin af gróðrinum er frábær hérna í DK. Sérstaklega á kaldri sumarnóttu. Og það skemmtilega er að ég á minningar um þessa lykt. Það er ekki margt sem ég á minningar um í þessu landi, þar sem ég ólst jú upp í allt öðru landi. En nú eru þetta orðin nánast 5 ár síðan ég fluttist hingað, og fjárhagurinn ekkert boðið upp á eilíft flakk heim, þannig að einhverjar minningar eru komnar á minnisbankabókina.
Þessi lykt sem ég er að tala um, þessi sæti gróðurilmur í kaldri nóttinni, tengist minningunni um morgnana þegar ég var blaðberi alheimsblaðsins Jylland Posten yfir eitt sumar. Það var sumarið 2002. Það sumar var HM í fótbolta. Það sumar samdi ég "Fimm vísur um nóttina". Það sumar bjó ég saman með Þyri á Vilhelm Bergsøesvej 43. Þetta sumar byrjaði ég líka að blogga, undir súð, í hita og svita. Ef ykkur langar að vita meira hvað ég gerði þá getið þið farið í (vonandi) huggulega ferð aftur í tímann á þessari netl síðu, sem þá hét neddusíða, og lesið ykkur til um það sem á daga mín dreif í júlí mánuði árið 2002. Hljómar spennandi, ekki satt?
En aftur að þessu með minningarnar.
Það er skrýtið að flytja til lands, þar sem maður hefur enga fortíð í. Það er ekkert í náttúrunni eða bæjunum hérna sem ég get tengt við mína fortíð. Þetta er náttúrulega engin Afríka, þar sem fólk hefur annan húðlit og kúkar í holur, en samt annað. Ég þekki ekki Eurovision lögin sem mínir dönsku vinir ólust upp við (sennilega sem betur fer), ég þekki ekki kvikmyndirnar sem þau sáu, ég veit ekki hvað þeim þykir hallærislegt af því að það var svo vinsælt hérna í kringum 1980 (t.d. kínakál hefur gengið í gegnum mikinn hallæris áróður, en er að koma inn aftur því það var orðið svo hallærislegt að það var komið hringinn) og ég veit ekki hvernig það er að halda sumarfrí á ströndinni. Ég er ekkert að kvarta, því ég hef fullt fullt af öðrum minningum, en það er bara skrýtið stundum að vera algjörlega ekki með á nótunum þegar þessi danagrey fá fjarræn blik í augun og rifja upp gamla daga.
Það er gott að eiga góða íslenska vini sem minna mann á uppruna sinn, og eiga súkkulaðirúsínur frá Nóa Síríus handa mér.

21.5.06

Kirkjan og fólkið
Áðan var ég að spila í 2 messum sem afleysingarmaður fyrir kunningja minn. Kirkjurnar voru einni tvær og hafa báðar ágætis orgel að glamra á. Mér finnst gaman að spila í messu.
En ástæða fyrir þessu netli er fjöldi kirkjugesta. Í fyrri messunni sem var kl.09.00 voru 3 kirkjugestir, og svo 4 starfsmenn. Það voru s.s. presturinn, kirkjusöngvarinn, kirkjuvörðurinn og svo ég. Í allt vorum við 7, sjáanleg, í kirkjunni.
Í seinni messunni mætti 1 kirkjugestur. EINN! Starfsmenn voru aftur samtals 4.
Er ekki kominn tími til að annaðhvort loka ríkiskirkjusjoppunni eða að hrista verulega upp í þessu? Þá á ég ekkert endilega við að öll músík þurfi að vera hallærsilegt gospel sungið af hvítbleikum svínétandi dönum (tja eða hvítbleikum íslendingum) eða einhver poppismi á ferð. Það má bara færa hið talaða mál og músík nær okkar samfélagi á einhvern hátt. Sumir prestar geta þetta, en ég held að það séu alltof margir prestar sem eiga ekki möguleika.
Ég er allaveganna hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. Húsin eru góð, en innihaldið er oft jafn spennandi og að horfa á brauð bakast.
Áfram kristmenn krossmenn!
Evróvisjón
Á bloggsíðum þessa dagana hefur ekki verið um annað skrifað en gengi Silvíu Nætur og Evróvisjón. Þannig að ég verð að taka mig á og fylgja straumnum.
Sem barn þótti mér gaman að Evróvisjón. Öll fjölskyldan var saman komin og við borðuðum laugardagsmat, yfirleitt pítsa eða pylsur. Svo sáum við showið. Spáðum í hver myndi vinna og þetta sem maður gerir þegar maður sér Evróvisjón. Eftir að ég fluttist að heiman hef ég verið í einu Evróvisjón partýi, og það var bara gaman. Missti reyndar af Mezzoforte tónleikum, en úr þeim missi bætti ég úr um daginn.
En undanfarnar keppnir hefur mér verið nokkuð sama um hvort ég hef séð þetta eður ei. Mér finnst asnalegt að keppa í tónlist.
Núna í kvöld sá ég síðustu lögin. Ég náði í endinn á Finnska laginu og kaus því það. Lögin sem komu á undan heyrði ég ekki, og lögin sem voru á eftir voru ekki nema til að hlæja ennþá meira að. Mér finnst þessi finnska framkoma vera frumleg á Evróvisjónskum mælikvarða og mér finnst þetta aðeins hrista upp í þessari keppni, og ekki veitir af. Því að mínum mati ætti að slökkva ljósin í loka Evróvisjón bankanum. Þetta er eitt af því furðulegasta tónlistarfyrirbæri sem finnst...fyrir utan heimsmeistaramótið í harmóníkuleik.
Hver er tilgangurinn með þessari keppni? Afhverju er verið að eyða aurum skattborgara í þetta? Hvert er menningarlegt gildi þessarar keppni?
Ég stend á gati, og nenni ekki að skrifa meira um þessa "lágkúrulegustu tónlistarhátíð heims" eins og Knúturinn orðaði svo vel.

19.5.06


Loksins, loksins!
Nú hefur Thise mjólkurbúið hafið framreiðslu á skyri, íslensku eðal skyri. Og varan heitir líka skyr, ekker rugl á dönum.
Foreldrar mínir borða skyr í hverju einasta hádegi. Það gerði ég líka þegar ég bjó heima. En eins og svo margt annað, þá verður maður leiður á því til lengdar. En síðan ég flutti til DK þá hefur áhugi minn á að fá skyr, aukist til muna. Ég hlakka mikið til að opna fyrstu skyrdósina og hræra mér gott, þónokkuð súrt, skyr, og hafa rjómabland með...mmm.

18.5.06


Um ágengni hunds
Í gær vann ég frameftir. Þarafleiðandi náði ég ekki í búð til að kaupa eitthvað í kvöldmatinn. Þannig að á leiðinni heim kom ég við hjá nærliggjandi innflytjenda búllu og keypti mér kefta. "Innflytjenda búlla" er ekki neikvætt orð yfir skyndibitastað sem er rekinn af innflytjendum. Bara nákvæmlega það sem svona staður er. Staður rekinn af innflytjendum og ekkert sérlega huggulegur, þarafleiðandi búlla. Á sumum þessara staða er hægt að fá mjög góðan mat, á öðrum er hægt að fá mjög vondan mat. Þessi staður var nær því síðast nefnda.
Kefta er nautahakk sem er blandað saman við steinselju og fleiri góðar kryddjurtir. Kjötið er síðan sett inn í svona flatbrauð, ásamt helling af grænmeti og viðeigandi sósu. Þessu er síðan rúllað upp í brauðinu. Munurinn á þessu og shawarma eða kebab er kjötið.
Eftir að ég hafði fengið mitt kefta, reiddi ég hjólið á meðan ég gekk heim og maulaði matinn. Úr því að rúllan var pökkuð inn í pappír þá þurfti ég stundum að fjarlægja smá pappír til að geta fengið mér bita. Í einni af þessari pappírsfærslu sé ég að á eftir mér gengur hundur með eigandann sinn, og bókstaflega í þessari orðaröðun. Þetta var svona breiður, ófríður bolabítur, eins og hundurinn í Tomma og Jenna (sjá mynd hér til hægri). Hundurinn teymdi eiganda sinn, sem einnig var nokkuð breiður og sterklegur ungur maður, upp að mér og settist bein fyrir framan mig. Hann einblíndi á matinn minn, sleikti út um og setti upp álíka bros og hundurinn á myndinni hér til hliðar. Stakk framtönnunum svona út, en var samt ekkert að urra eða neitt, bara að biðja eins fallega og hann gat um matinn minn. Ef hann hefði getað staðið uppréttur eins og hundurinn hér til hliðar, þá hefði hann örugglega tekið svona í mig, eins og hann gerir við Tomma á myndinni.
Þetta þótti mér fyndið, og hló mikið að hundinum, sem var afar staðráðinn í að fá matinn af mér. Eigandinn sagði að hann væri bara gráðugur og fengi nægan mat heima hjá sér. Ég sagði hundinum að þessi kvöldmatur væri reiknaður handa einni persónu, og sú persóna var ég, þannig að hann gæti bara gengið leiðar sinnar. Eigandanum tókst að koma hundinum á 4 fætur og saman gengu þeir leiðar sinnar, þó hundurinn afturábak, því hann langaði ennþá í matinn minn. Ég stóð eftir einn, skellihlæjandi á gangstéttinni.

16.5.06

Morten Harket
Þetta finnst mér fyndið.

15.5.06


Kaffihús
Síðan ég var krakki hef ég drukkið kaffi.
Þetta byrjaði allt saman með því að ég fékk stundum að dýfa sykurmola ofan í kaffið hjá Gyðu Marvins, þegar hún kom í spjall og kaffi til mömmu. Mér fannst þetta voðalega gott, og þykir reyndar ennþá.
Heima hjá mér er kaffið bara lagað í venjulegri kaffivél, nema þegar ein kaffivélin gaf upp öndina, því þá var lagað kaffi upp á gamla mátann. Það er þegar maður sýður vatn í katli og hellir því yfir kaffið (sem er í filter og í svona kaffitrekt, og það lekur beint ofan í brúsann).
Ég var iðinn við að laga kaffi heima hjá mér, og reyndar var það oft þannig að ég fór fyrstur á fætur og lagaði kaffi og tók til morgunmatinn.
Mér fannst lyktin af kaffinu best, og þykir enn. Að opna bláan Braga og hella kaffinu niður í kaffidósina var algjör nautn.
Þegar ég fluttist til Reykjavíkur og bjó á Háaleitisbrautinni þá var kaffivél þar líka, en hana nennti ég sjaldan að nota. Mér fannst einhvernveginn svo asnalegt að laga mér einn bolla í svona stórri vél, þannig að ég fékk mér pressukönnu.
Með þeim kaupum opnuðust augu mín því pressukannan þurfti jú grófmalaðra kaffi.
Sérvöruverslanir hafa mér alltaf þótt skemmtilegar, þannig að ég keypti þá mitt kaffi í kaffibúð (sennilega Te og Kaffi í Austurveri, á leiðinni heim frá Hamrahlíðinni).
En það sem að pressukönnukaffið hefur fram yfir kaffi lagað í venjulegri kaffivél er að vatnið er nægilega heitt þegar maður bruggar kaffið í pressukönnu. það á að vera á milli ca. 94-98 gráður þegar það blandast saman við kaffið, en má ekki vera sjóðandi. Þetta fær allt það bragð úr kaffinu sem gerir kaffi að góðum drykk.
En fljótlega fór ég að finna fyrir því að mér þótti ekkert sérlega gott að drekka svona mikið kaffi. Ég vildi frekar fá mér einn lítinn sterkan bolla, þannig að ég keypti mér svona litla könnu til að laga espressó í. Lærði samt með tímanum að þetta heitir mokka kaffi kanna. Espresso kemur bara úr vél sem hefur nægilega mikinn þrýsting til að laga alvöru espresso. Kem að því síðar.
Það tók mig langan tíma að búa til viðunandi kaffi í þessari könnu. Maður þarf að pressa kaffið örlítið ofan í hana og setja rétt magn af vatni og svo það mikilvægasta að hafa réttan hita á hellunni þegar maður lagar kaffið. Mikil stúdía sem mér þótti afar skemmtileg.
Mokkakaffið krefst þess að maður noti fínmalað kaffi. Ég sá að það var praktískara að kaupa bara heilar baunir og svo litla rafmagnskvörn, svo ég gæti bara malað þann gróf/fínleika sem ég ég vildi fá. Það leiddi af sér að ég notaði alltaf nýmalað kaffi, sem þýðir að kaffið varð mun betra en áður.
Í dag á ég 3 mokkakönnur í mismunandi stærðum. Svo er náttúrulega nauðsynlegt að eiga mjólkurkönnu sem maður getur hitað og strokkað mjólkina í.
Í dag á ég litla maskínu sem heitir Rancillio Silvia, og hún er endalaus uppspretta góðs kaffis.

En, afhverju er ég að þreyta ykkur með þessu?
Jú, mig langar að stofna lítið kaffihús. Þann draum hef ég haft lengi í maganum, en ég held jafnvel að ég láti til skara skríða innan fárra ára.
Þetta verður kaffihús með eðalkaffi, þar sem ég mun jafnvel sjálfur brenna baunirnar. Ef húsakynnin eru rétt staðsett þá er hef ég einnig áhuga á að geta boðið upp á mat, en afar einfaldan kaffihúsamatseðil. Ef um mat er að ræða þarf ég líka að geta boðið upp á vín og að sjálfsögðu góðan bjór. Helst innfluttann (belgískan og tékkneskan bjór).
Líst ykkur ekki vel á þetta?
Ef þið hafið gott nafn á huggulega kaffihúsið mitt (sem er NB ennþá draumur og verður ekki alveg að veruleika í bráð) þá skuluð þið endilega koma með það hérna í "ískalt mat".

14.5.06

Síðan síðast...
...hefur ýmislegt gerst í mínu lífi. Hér kemur smá listi yfir það:
- ég er búinn að syngja í söngkvartett á tónlistarhátíð
- ég er búinn að stjórna mínum fyrstu alvöru tónleikum
- ég er búinn að stjórna verki eftir sjálfan mig á tónleikum
- ég er ekki búinn með ritgerðina sem ég á að skila þann 23.maí
- ég fór á tónleika með Mezzoforte
- ég er búinn að fá nýtt vinnuherbergi og flytja í það
- við erum búin að fá íbúð í Kaupmannahöfn að Hamletsgade 15

iPoddinn minn er veikur og hefur verið laggður inn til skoðunar. Ég vona að hann deyji svo ég fái nú splunkunýjan.

Vorið í Danmörku skartar sýnu fegursta þessa dagana. Ég er kominn í stuttbuxurnar og stuttermabol og tek á móti vorinu fagnandi.

2.5.06

Lesið í skýin
Fyrir rúmlega 2 árum síðan var ég staddur á bar ásamt nokkrum sem ég hafði verið að syngja með á tónleikum fyrr um daginn. Eftir alltof fá bjóra gegnum við út, og ég var fyrstur út. Þegar ég kem út fyrir er mér litið upp til himins. Á himninum voru skýin búin að móta þetta líka risatyppi sem var á leiðinni inn í kvennmannssköp. Þessari sýn deildi ég einvörðungu með einni manneskju úr hópnum, því þegar hinir komu út var þessi sýn búin að breytast í kynfæri á holdsveikum einstakling, eða tómat sem var á leiðinni yfir götu. Við fórum bæði að skellihlæja við þessa sýn. Svo sögðum við bless og gengum hver til sinnar íbúðar.
Fyrir c.a. 1 mánuði erum við tvö búin að vera saman (í þeirri merkingu "að vera kærustupar") í 2 ár.

Horfðu til himins.

1.5.06


I remember...
Á fimmtudaginn byrjar tónlistarhátíð hér í borg. Hátíðin kallast Spor og á henni er eingöngu spiluð nýlega samin tónlist. "Nýlega" þá meina ég á síðustu 50 árum.
Á fimmtudagskveldið mun söngkvartettinn Sinus, þar sem ég er bassinn, syngja tvö verk. Það eru verkin "Six Geometries" eftir Alvin Lucier og "You" eftir Andrew Hamilton. Á þessum tónleikum verður svo verkið "I remember" eftir áðurnefndan Alvin Lucier flutt. Það er ástæðan fyrir þessu netli.
Þetta verk er örugglega ansi skemmtilegt áheyrnar. Það er líka gaman að "syngja" í því.
Verkið er fyrir raddir. Hver einstaklingur er með hlut sem "resónerar" og er lokaður í annan endann, t.d. blómavasi, stór skál osfrv. Verkið hefst á því að "kórinn" heldur þessum hlutum fyrir framan munninn á sér (best ef hlutirnir hylja allt andlitið) og byrja að syngja, frekar veikt, ofan í þá, á sérhljóðanum "Ú". Svo á hver og einn söngvari að finna þá tónhæð þar sem hluturinn "resónerar" mest. Þetta fer fram með löngum líðandi tónum. Svo þegar maður hefur fundið þennan "resónans" tón þá á maður að renna hægt og rólega af og á þann tón. Það myndast margir spennandi hljómar, og svo þegar einn hittir á "resónans" tón þá hljómar sá tónn aðeins hærri en hinir. Þetta myndar afar athygliverðan hljóðheim.
En þetta er ekki nóg. Hver og einn söngvari á að lesa upp nokkrar setningar sem eru minningarbrot úr lífi þeirra. Setningarnar eiga að vera á ensku, en við höfum þetta bæði á ensku og dönsku. Dæmi um setningu gæti verið "I remember when my best friend hit me in the face". Eftir að maður hefur sagt eins setningu þá bara heldur maður áfram að syngja og leita að sínum "resónans"tóni. Voða gaman.
Verkið getur verið eins langt og við viljum, og það getur verið flutt af eins mörgum og þú vilt. Þó er lágmarskstærð c.a.15 manns.
Tónleikarnari verða haldnir í Sct.Pauls kirkju (kirkjunni minni) og hefjast þeir kl.22.
Spennandi tónleikar.

Aðrir spennandi tónleikar eru tónleikar kórsins sem ég stjórna, Staka. Við munum halda tónleika á sunnudaginn, þann 7.maí kl.15, í Frederiks Bastionen í Kaupmannahöfn. Þar syngjum við aðallega íslenska, og að mestu leyti nýlega, músík. Yfirskrift tónleikanna er "Ást að vori". Sjá meira hérna.
Endilega mætið ef þið getið.