7.4.06

Tindastelpur
Frá því ég fæddist og fram til 17 ára aldurs bjó ég í einu húsi. Það hús byggði karl faðir minn á sínum æskuslóðum. Þegar hann var lítill þá kallaðist þetta svæði "Melarnir". En í dag heitir þetta bara Hlíðargata. Húsið er númer 24 í röðinni. Gatan er í kaupstað sem heitir Neskaupstaður, og liggur við fjörðinn Norðfjörð.
Áðurnefnt hús stendur upp á smá hól og er efst í bænum, þannig að útsýnið þaðan er afar gott. Úr elhúsglugganum og þeim gluggum sem snúa frá götunni sér maður upp í fjallið sem gnæfir yfir bænum. Úr gluggunum sem vísa að götunni sér maður yfir allan fjörðinn og þeim fjöllum og dölum sem honum fyljga. Eftir að hafa búið í blokkum og húsum sem ekkert útsýni hafa þykir manni meira og meira vænt um þetta útsýni sem Hlíðargata 24 hefur.
Margan rigningardaginn sat maður inni í stofu, með einhverja plötu á fóninum horfði yfir í Búland. Búland er fjallið sem er hinumegin við Norðfjörð. Það eru allavega þrjú tröll sem sofa ofaná Búlandi, og enn fleiri eru þar standandi. Ég lék mér oft að því að láta punktana í auganu (þá sem maður sér ef maður fókuserar ekki á eitthvað sem er fyrir framan þig...) hoppa ofan á þessum tröllum.
Það er allt of langt síðan ég hef komið heim.

En ástæðan fyrir þessu netli er að ég rakst inn á netlsíður hjá stúlkum tveim sem bjuggu einu sinni í næsta húsi fyrir utan Hlíðargötu 24.
Þegar ég var lítill þá bjuggu mægðurnar Halla og Erla í þessu húsi. Þetta er stórt steypuhús, með 2 íbúðum. Það er voldugt. Það var alltaf góð lykt í því. Halla og Erla bjuggu á efri hæðinni, en enginn í þeirri neðri.
Þegar maður fór með mömmu í heimsókn yfir til Höllu og Erlu, þá fékk maður stundum svona djúsfrostpinna, á meðan að þær drukku kaffi og reyktu kannski eina sígarettu. Ég man að mamma reykti Kent og Halla reykti svona brúnar langar sígarettur. Hétu þær ekki More? Bollarnir voru grófir keramikbollar og Halla hafði hvítt hvítt hár. Hún hét reyndar Hallbera. Flott nafn.
Erla og Halla höfðu viðurnefnið "á Tindum". En Tindar er hús sem stendur einnig við Hlíðargötu, bara aðeins fyrir innan nr.24. Ég er ekki alveg nægilega klár í ættfræðinni eða sögunni, en þær hljóta að hafa búið þar á sínum tíma.
En svo þegar þær fluttu í húsið fyrir utan nr.24 þá fór fólk einnig að kalla það Tinda. Einhversstaðar hef ég séð Tindar II á lista yfir húsanöfn.
Svo þegar ég var c.a. 8 ára eða svo þá fluttu Halla og Erla til Reykjavíkur.
Það kallaði í nýja íbúa. Og nú var búið í öllu húsinu. 2 fjölskyldur. Og 2 litlar stelpur. Bjarney og Jónína. Þær léku sér mikið þarna í kring, og stundum komu þær og spurðu hvort ég vildi leika, þrátt fyrir að ég var nokkuð eldri.
Í dag eru þær menntaskólapíur og blogga báðar tvær. Í mínum augum eru þær ennþá bara litlu nágrannastelpurnar.
Þær eru komnar á nobbarahlekkjalistann.

Engin ummæli: